Ferill 244. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 244 . mál.


Sþ.

358. Tillaga til þingsályktunar



um afnám einkasölu ríkisins á tóbaksvörum.

Flm.: Ingi Björn Albertsson, Friðrik Sophusson.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frumvarp til laga um afnám einkasölu ríkisins á tóbaksvörum og aðrar nauðsynlegar lagabreytingar í því sambandi. Frumvarpið heimili frjálsan innflutning og dreifingu á tóbaksvörum án þess að dregið sé úr þeim tekjum sem ríkissjóður hefur nú af sölu tóbaksvara.

Greinargerð.


    Með tillögu þessari er lagt til að innflutningur og heildsala á tóbaki verði gefin frjáls og jafnframt verði gjaldtaka ríkisins af tóbaksvörum einfölduð þannig að tekið verði upp eitt gjald, tóbaksgjald, er lagt sé á tóbaksvörur í stað þeirra gjalda og skatta sem leggjast núna á þessa vöru.
    Eðlilegra er fyrir ríkið og mun einfaldara miðað við núverandi aðstæður að afla þeirra tekna af tóbakssölu, sem taldar eru æskilegar á hverjum tíma, með beinni skattlagningu á innflutning þess og framleiðslu í stað þess að ná þessum tekjum inn með einkasölu. Það er óviðeigandi í ljósi þess hve skaðsemi tóbaksneyslu er talin ótvíræð að ríkið skuli stunda verslun með tóbak.