Ferill 80. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 80 . mál.


Ed.

370. Nefndarálit



um frv. til l. um endurgreiðslu á gjaldi af erlendum lánum vegna skipasmíða hér á landi.

Frá minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Eins og kunnugt er hafa skipasmíðar verið styrktar með opinberu fé hvarvetna annars staðar en hér á landi.
    Lántökugjald það sem hér um ræðir hefur verið endurgreitt vegna þeirra lána sem tekin voru til viðhaldsverkefna og endurbóta sem unnin voru í íslenskum skipasmíðastöðvum. Hið sama á við um skipasmíðar hér á landi, að engin rök eru fyrir því að af þeim sé greitt sérstakt lántökugjald.
    Fylgiskjöl með nefndaráliti þessu eru þær umsagnir sem nefndinni bárust á sl. vori.

Alþingi, 19. des. 1990.



Halldór Blöndal,


frsm.

Ey. Kon. Jónsson.




Fylgiskjal I.



Félag málmiðnaðarmanna Akureyri:


Bréf til fjárhags - og viðskiptanefndar efri deildar Alþingis.


(6. desember 1989.)



    Höfum móttekið bréf deildarinnar dags. 20. nóvember 1989 vegna frumvarps til laga um endurgreiðslu á gjaldi af erlendum lánum vegna skipasmíða hér á landi.
    Hér með vil ég fyrir hönd Félags málmiðnaðarmanna Akureyri mæla með að umrætt frumvarp verði samþykkt.

Virðingarfyllst,


f.h. Félags málmiðnaðarmanna Akureyri,



Hákon Hákonarson.





Fylgiskjal II.



Landssamband iðnaðarmanna og Félag dráttarbrauta og skipasmiðja:


Bréf til fjárhags- og viðskiptanefndar efri deildar Alþingis.


(18. desember 1989.)



    Landssamband iðnaðarmanna og Félag dráttarbrauta og skipasmiðja hafa fengið ofangreint frumvarp til umsagnar og hafa ákveðið að svara því sameiginlega. Samtökin mæla eindregið með frumvarpinu og færa fyrir því eftirtaldar ástæður:
    Þegar lögin um ráðstafanir í ríkisfjármálum, nr. 10/1988, þar sem er að finna ákvæði um gjald af erlendum lántökum, voru sett höfðu þau að geyma undantekningarákvæði þar sem kveðið var á um að lántökur vegna hráefniskaupa til útflutnings og samkeppnisiðnaðar, svo og afurðalán, skyldu verða undanþegnar gjaldinu. Allan þann tíma, sem lögin voru í gildi var mjög erfitt, ef ekki ókleift, fyrir skipaiðnaðinn að nýta sér þessa heimild laganna. Þetta stafaði fyrst og fremst af því að lán til skipasmíða og viðgerða eru tekin til kaupa á hráefni og vinnu í einu lagi, þ.e. vegna verkefna en ekki til kaupa á hráefninu einu saman. Þegar svo háttaði að erlend lán væru fyrst og fremst tekin til kaupa á hráefnum, eins og tíðkast í mörgum greinum, var hins vegar tiltölulega auðvelt að nýta sér þessa undanþágureglu. Því má einnig bæta við að skilgreining auglýsingar þeirrar sem kvað á um hvaða vörur skyldu teljast hráefni í þessu sambandi var mjög þröng, þannig að mjög margar vörutegundir (vélar og tæki), sem notaðar voru í skipaiðnaðinum, lentu utan undanþágunnar.
    Af ofangreindum ástæðum kom lántökugjaldið verr niður á skipaiðnaðinum en ýmsum öðrum samkeppnisiðnaði, svo og öðrum atvinnugreinum, svo sem fiskvinnslu og landbúnaði. Eðlilegt hefði verið að meðhöndla þessi „verkefnabundnu lán“ eins og um afurðalán væri að ræða sem eru ekki eingöngu tekin út á hráefnakaup heldur fullunnar afurðir.
    Með breytingum sem gerðar voru á gjaldinu (lög nr. 101/1988) var ákveðið að undanþiggja lántökur vegna kaupa og reksturs á kaupskipum og flugvélum. Líklega hafa samkeppnisástæður valdið þar mestu um. Á þeim tíma mæltu undirrituð samtök með því að sjálfsagt og eðlilegt væri að fella þetta gjald niður af fiskiskipasmíði með ofangreindum rökum, svo og með vísan til þess að skipaiðnaðurinn á við mjög óvægna og ósanngjarna samkeppni (niðurgreiðslur erlendis) að stríða.
    Að undanförnu hafa verið að koma í ljós ýmsir erfiðleikar í skipaiðnaðinum hér á landi. Um ástæðurnar verður ekki fjölyrt hér en öllum má ljóst vera að hvert og eitt atriði, sem skekkir samkeppnisstöðu hans gagnvart erlendum keppinautum, getur valdið úrslitum um að hve miklu leyti tekst að snúa þróuninni við. Ofangreindar röksemdir ættu að sýna fram á að umrætt lántökugjald var íþyngjandi fyrir skipaiðnaðinn. Alþingi hefur nú tækifæri til að leiðrétta það óhagræði sem af þessu gjaldi stafaði fyrir hann.

Virðingarfyllst,


Landssamband iðnaðarmanna

,

Haraldur Sumarliðason, forseti.



Félag dráttarbrauta og skipasmiðja,


Jósef H. Þorgeirsson, formaður.






Fylgiskjal III.



Samband málm- og skipasmiðja:



Bréf til fjárhags- og viðskiptanefndar efri deildar Alþingis.


(6. mars 1990.)



    Samband málm - og skipasmiðja hefur móttekið bréf nefndarinnar, dags. 8. febrúar sl., þar sem óskað er upplýsinga um lántökugjald vegna erlendra lána til skipasmíða innan lands á tímabilinu 10. mars 1988 til 1. júní 1989.
    Samkvæmt upplýsingum sem SMS hefur aflað sér frá skipasmíðastöðvunum nemur umrætt lántökugjald vegna nýsmíða á téðu tímabili samtals 8.097.396 kr. og skiptist þannig:

Slippstöðin hf., Akureyri          
5.800.828 kr.

Skipasmíðastöð Marselíusar hf., Ísafirði     
1.736.651 kr.

Vélsmiðja Seyðisfjarðar hf., Seyðisfirði     
559.917 kr.


Samtals 8.097.396 kr.


    Athygli skal vakin á því að upphæð gjaldsins er skráð á verðlagi hvers tíma (sjá meðfylgjandi fylgiskjöl).

Með vinsemd og virðingu,


f.h. Sambands málm - og skipasmiðja,



Guðmundur Guðmundsson, framkvæmdastjóri.





Fylgiskjal IV.


Slippstöðin:


Yfirlit vegna skatts af erlendum lánum til nýsmíða.


(Upphæð skatts er á verðlagi hvers tíma.)





Repró.




Vélsmiðja Seyðisfjarðar hf.:



Yfirlit vegna skatts af erlendum lánum til nýsmíða.


(Upphæð skatts er á verðlagi hvers tíma.)




Repró.










Skipasmíðastöð Marselíusar hf.:



Yfirlit vegna skatts af erlendum lánum til nýsmíða.


(Upphæð skatts er á verðlagi hvers tíma.)




Repró.