Ferill 320. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 320 . mál.


Nd.

565. Frumvarp til laga



um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990 91.)



1. gr.


     Lög þessi gilda um hvers kyns fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi nema annað leiði af ákvæðum annarra laga eða reglum settum samkvæmt þeim.

2. gr.


     Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér segir:
     Erlendur aðili: Einstaklingur, búsettur erlendis, án tillits til ríkisfangs, félag, stofnun, sjóður eða annar lögaðili, sem á heimili erlendis, erlent ríki og ríkisfyrirtæki, svo og atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum. Einstaklingur telst búsettur erlendis ef hann á lögheimili erlendis eða á þar heimili samkvæmt skilgreiningu lögheimilislaga. Lögaðili telst eiga heimili erlendis ef hann er skráður til heimilis erlendis eða telur heimili sitt erlendis samkvæmt samþykktum sínum.
     Íslenskt atvinnufyrirtæki : Atvinnufyrirtæki sem er með atvinnurekstur hér á landi og á heimili hér á landi, án tillits til þess hvernig rekstrarformi og eignarhaldi viðkomandi atvinnufyrirtækis er háttað. Atvinnufyrirtæki telst eiga heimili hér á landi ef það er skráð hér á landi, ef það telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn þess er hér á landi.
     Atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum: Íslenskt atvinnufyrirtæki þar sem erlendur aðili eða aðilar eiga meiri hluta fyrirtækisins, svo sem meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár, eða fara með meiri hluta atkvæðisréttar eða hafa með öðrum hætti raunveruleg yfirráð yfir viðkomandi atvinnufyrirtæki.
     Fjárfesting : Fjárframlag eða annað framlag til eigin fjár atvinnufyrirtækis eða kaup á eignarhlut sem fyrir er í atvinnufyrirtæki.
     Erlend fjárfesting : Fjárfesting erlends aðila í atvinnurekstri hér á landi, án tillits til þess hvort um er að ræða nýtt framlag eða endurfjárfestingu á úthlutuðum arði eða hlut eða söluandvirði vegna fyrri fjárfestingar hér á landi.

3. gr.


     Erlendum aðilum er heimilt að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi með þeim takmörkunum sem í þessum lögum eða sérlögum greinir og að uppfylltum öðrum skilyrðum og að fengnum tilskildum leyfum lögum samkvæmt enda njóti íslenskir aðilar ekki lakari réttar til fjárfestingar í heimaríki hlutaðeigandi aðila.

4. gr.


     Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi er háð eftirfarandi takmörkunum:
     Íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eign íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis mega einir stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands samkvæmt lögum nr. 33 19. júní 1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi.
     Íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis mega einir eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi, en með vinnslu sjávarafurða er hér átt við frystingu, söltun, herslu, reykingu, súrsun, niðursuðu, niðurlagningu og hverja aðra þá verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með taldar bræðsla og mjölvinnsla. Til vinnslu í þessu sambandi telst hins vegar ekki umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu.
     Íslenska ríkið, sveitarfélög, íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu.
     Samanlagður eignarhluti erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki, sem stundar flugrekstur hér á landi, má á hverjum tíma ekki vera meiri en 49%.
     Erlendir aðilar mega eiga 25% hlutafjár í íslenskum viðskiptabanka sem rekinn er af hlutafélagi.
                   Frá 1. janúar 1992 er erlendum hlutafélagsbönkum, sem eru skráðir erlendis og eiga þar varnarþing, heimilt að starfrækja rekstur útibúa hér á landi að fengnu leyfi viðskiptaráðherra.
     Fjárfesting erlends ríkis eða fyrirtækis í eigu erlends ríkis í atvinnurekstri hér á landi er óheimil nema með sérstöku leyfi viðskiptaráðherra.
     Fari heildarfjárfesting erlends aðila eða samanlögð fjárfesting fjárhagslega tengdra erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi fram úr 250 milljónum króna á einu almanaksári skal fjárfesting umfram fyrrgreind viðmiðunarmörk háð sérstöku leyfi viðskiptaráðherra. Viðmiðunarmörkin miðast við lánskjaravísitölu í júní 1990, 2887 stig, og breytist í samræmi við breytingar sem verða á henni til hækkunar eða lækkunar. Fjárfesting erlends aðila telst eiga sér stað í skilningi þessa töluliðar þegar tilkynningarskylda stofnast, sbr. 5. gr. Heildarfjárfesting erlendra aðila í hverri atvinnugrein fyrir sig má ekki fara yfir 25% nema til komi leyfi viðskiptaráðherra. Með heildarfjárfestingu í atvinnugrein er átt við áætlaða fjárfestingu í iðnaði, öðrum en orkufrekum iðnaði, verslun og þjónustu, samgöngurekstri og fiskeldi samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar.
     Nú vill erlendur aðili reka atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni og skal þá svo með fara:
         
    
     Sé um að ræða einstakling sem búsettur er erlendis skal honum óheimilt að vinna sjálfstætt eða starfrækja eigið atvinnufyrirtæki eða taka þátt í fyrirtæki með ótakmarkaðri ábyrgð hér á landi, nema með sérstöku leyfi viðskiptaráðherra, enda sé lögheimili hér á landi ekki óundanþægt skilyrði samkvæmt lögum um viðkomandi atvinnugrein eða veiting undanþágu frá lögheimilisskilyrði falin öðrum.
         
    
     Um rétt hlutafélags, sem á heimili erlendis, til að starfa hér á landi fer samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög.
         
    
     Viðskiptaráðherra getur veitt öðrum lögaðilum sem heimili eiga erlendis leyfi til að starfa hér á landi, enda sé þá að því er varðar slíka lögaðila og starfsemi þeirra hér á landi fullnægt sömu skilyrðum og fylgt sömu meginreglum og að því er varðar erlend hlutafélög, sbr. b - lið hér að framan. Útibú slíks lögaðila skal skráð í firmaskrá á heimilisvarnarþingi útibúsins..
     Erlendum aðila er heimilt að öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni samkvæmt ákvæðum laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.
     Ef erlendur aðili sem veðhafi eignast fasteign hér á landi við útgáfu uppboðsafsals eða með samningum til lúkningar veðskuldar og veðhafinn hefur eigi eignarhaldsrétt samkvæmt lögum nr. 19/1966 skal hann selja eignina svo fljótt sem verða má og eigi síðar en tólf mánuðum eftir að eignin komst í hans eigu. Sama gildir um erlendan veðhafa sem eignast á sama hátt eignarréttindi sem honum er óheimilt að eiga skv. 4. gr.

5. gr.


     Tilkynna ber Seðlabanka Íslands, gjaldeyriseftirliti, alla erlenda fjárfestingu jafnskjótt og samningur eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir. Tilkynningarskyldan tekur bæði til fjárfestingar erlends aðila í atvinnufyrirtæki sem hann hefur ekki átt í áður og viðbótarfjárfestingar í slíku fyrirtæki. Tilkynningu skulu fylgja afrit eða ljósrit af skjölum eða gögnum sem málið varða og nauðsynleg teljast að mati Seðlabanka Íslands. Seðlabanki Íslands gerir viðskiptaráðherra jafnharðan grein fyrir þeim tilkynningum um erlenda fjárfestingu sem gjaldeyriseftirlitinu berast. Sé um að ræða erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnufyrirtæki hvílir tilkynningarskyldan á viðkomandi atvinnufyrirtæki, en sé um að ræða fyrirhugaða atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni erlends aðila hvílir tilkynningarskyldan á honum.
     Seðlabanki Íslands skal fyrri hluta hvers árs birta opinberlega upplýsingar um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis næsta ár á undan ásamt upplýsingum um heildarfjárfestingu erlendra aðila eftir atvinnugreinum.
     Gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands hefur rétt til upplýsingaöflunar og athugana vegna fjárfestingar erlendra aðila.

6. gr.


     Erlendum aðila, sem fjárfestir í atvinnurekstri hér á landi, skal frjálst að flytja í því skyni til landsins erlendan gjaldmiðil, enda sé slíkur fjármagnsflutningur tilkynntur gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands. Um skilaskyldu slíks gjaldmiðils skal fara samkvæmt almennum reglum. Sé um að ræða erlendan gjaldmiðil sem Seðlabanki Íslands annast reglubundna gengisskráningu á skal hinn erlendi aðili eiga rétt á að fá hinum erlenda gjaldmiðli skipt í íslenskar krónur.

7. gr.


     Erlendur aðili, sem fjárfestir í atvinnurekstri hér á landi, skal eiga rétt á að fá yfirfært í hvern þann erlenda gjaldmiðil, sem Seðlabanki Íslands annast reglubundna skráningu á, móttekinn arð eða annan hagnaðarhlut og söluandvirði fjárfestingar.

8. gr.


     Í íslenskum atvinnufyrirtækjum skulu framkvæmdastjórar og meiri hluti stjórnarmanna eiga lögheimili hér á landi óháð eignarhlut, atkvæðisrétti eða öðrum yfirráðum erlendra aðila. Viðskiptaráðherra getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði.

9. gr.


     Viðskiptaráðherra fer með leyfisveitingar samkvæmt lögum þessum og annast eftirlit með framkvæmd þeirra að svo miklu leyti sem tiltekið eftirlit eða leyfisveitingar eru ekki samkvæmt ákvæðum laganna faldar öðrum.
     Viðskiptaráðherra getur bannað erlendum aðila fjárfestingu í atvinnurekstri hér á landi ef hann hefur verið sviptur réttindum til atvinnurekstrar með dómi í öðru ríki.

10. gr.


     Sérstök fimm manna nefnd, nefnd um erlenda fjárfestingu, skal vera viðskiptaráðherra til ráðuneytis um leyfisveitingar samkvæmt lögum þessum og umsagnaraðili um einstök mál. Nefndin skal skipuð fimm mönnum kosnum hlutfallskosningu í sameinuðu Alþingi að afstöðnum almennum þingkosningum. Kosnir skulu jafnmargir varamenn. Viðskiptaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi hinna þingkjörnu nefndarmanna. Formaður nefndarinnar boðar hana til funda. Viðskiptaráðherra ákveður þóknun nefndarinnar.
     Nú telur nefndin að tiltekin erlend fjárfesting ógni öryggi landsins, skerði verulega samkeppni fyrirtækja í viðkomandi atvinnugrein eða sé á annan hátt til þess fallin að hafa óæskileg áhrif á atvinnulíf í landinu og getur viðskiptaráðherra þá stöðvað viðkomandi fjárfestingu enda kunngjöri hann þá slíka ákvörðun innan átta vikna frá því að Seðlabanka Íslands, gjaldeyriseftirliti, berst tilkynning um hlutaðeigandi fjárfestingu, sbr. 5. gr.


11. gr.


     Viðskiptaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

12. gr.


    Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
     Mál út af brotum á lögum þessum fara að hætti opinberra mála.

13. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Takmarkanir þær, sem lög þessi setja fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi, skulu ekki ná til fjárfestingar erlends aðila sem átt hefur sér stað fyrir gildistöku laga þessara samkvæmt heimildum í eldri lögum. Tilkynna ber slíka fjárfestingu til Seðlabanka Íslands, gjaldeyriseftirlits, sbr. 5. gr., innan þriggja mánaða frá gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1.      GERÐ FRUMVARPSINS
     Í málefnasamningi núverandi ríkisstjórnar segir m.a. að athafnafrelsi einstaklinga og félaga verði meginregla í atvinnumálum og frjálsræði í milliríkjaviðskiptum. Jafnframt segir: „Unnið verður að því að endurskoða lög og reglur til þess að búa íslenskum fyrirtækjum starfsskilyrði sem eru sambærileg við það sem samkeppnisaðilar þeirra erlendis njóta.“
     Forsætisráðherra skipaði 7. desember 1989 nefnd til þess að yfirfara og endurskoða frumvarp til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi sem lagt var fram á 110. löggjafarþingi 1987 1988. Í nefndina voru skipaðir Jón Sveinsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, formaður, Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri, Friðrik Sigurðsson framkvæmdastjóri, Heimir Hannesson lögmaður og Ragnar Arnalds alþingismaður.
     Í starfi sínu hefur nefndin byggt á fyrra frumvarpi og upplýsingum í fram komnum skýrslum á Alþingi um fjárveitingu erlendra aðila. Fjallað hefur verið ítarlega um 4. gr. frumvarpsins sem tekur til takmarkana á fjárfestingum erlendra aðila en sú grein og 3. gr. frumvarpsins eru grundvallargreinar þess.
     Við endurskoðun og samræmingu lagaákvæða á þessu sviði koma tvær aðferðir til greina. Annars vegar sú aðferð að leitast við að samræma efnisákvæði hinna einstöku laga, en láta þá skipan haldast eftir sem áður að ákvæði um erlenda fjárfestingu sé að finna á víð og dreif í einstökum lögum. Hin aðferðin felur í sér að sett verði almenn löggjöf um erlenda fjárfestingu þar sem verði að finna meginreglur á þessu sviði og breyta einstökum sérlögum í samræmi við þær meginreglur. Nefndin valdi síðari kostinn. Réð þar úrslitum að með því næst betri samræming á efnisreglum, betri yfirsýn yfir gildandi rétt á þessu sviði og betri möguleikar til að fylgjast með erlendri fjárfestingu hér á landi. Lögin gilda sjálfkrafa um núverandi og nýjar atvinnugreinar þótt sérstök lög hafi ekki verið um þær sett. Má í því sambandi nefna að nokkur óvissa og skoðanamunur hefur ríkt varðandi það hverjar séu heimildir erlendra aðila til að fjárfesta í ýmsum atvinnugreinum hér á landi sem sérstök lög hafa ekki verið sett um. Samkvæmt frumvarpinu koma sem fyrr segir ein lög að mestu í stað margra og margvíslegra lagaákvæða sem nú gilda um heimildir erlendra aðila til að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi.
     Samhliða frumvarpi þessu gerir nefndin ráð fyrir að flutt verði fylgifrumvarp sem samið hefur verið og tekur til breytinga á einstökum lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og ekki eru í samræmi við þær grundvallarreglur sem frumvarp þetta byggir á. Nefndin er þeirrar skoðunar að betur fari á því að skipta málinu á þennan hátt í tvennt. Nauðsynlegt er hins vegar að frumvörpin fylgist að í meðferð Alþingis.
     Síðastliðið sumar sendi nefndin mörgum áhuga - og hagsmunaaðilum drög að frumvörpunum tveimur til umsagnar. Þessir aðiliar eru: Samband íslenskra verðbréfafyrirtækja, Samband íslenskra viðskiptabanka, Lögmannafélag Íslands, Samband íslenskra sparisjóða, Félag fasteignasala, Samband veitinga - og gistihúsa, Ferðamálaráð, Samband íslenskra tryggingafélaga, Verslunarráð Íslands, Landssamband iðnaðarmanna, Seðlabanki Íslands, Félag íslenskra iðnrekenda, útvarpsráð, Félag íslenskra bókaútgefenda, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Samband íslenskra fiskframleiðenda, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Þjóðhagsstofnun, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusamband Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands, Landsbanki Íslands, allir þingflokkar á Alþingi, margir lögmenn og hagfræðingar. Bárust ýmsar þarfar athugasemdir sem nefndin hefur tekið tillit til.

2.      AÐDRAGANDI FRUMVARPSINS
     Alþingi samþykkti 9. maí 1985 þingsályktun þar sem skorað er á ríkisstjórnina að láta fara fram endurskoðun á gildandi lagaákvæðum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi.
     Þingsályktunin var send forsætisráðherra og viðskiptaráðherra til meðferðar. Ákveðið var að fela lögfræðingunum Birni Líndal og Hreini Loftssyni að taka saman skýrslu er hefði að geyma skilgreiningu hugtaksins og greinargerð um hvern þeirra þriggja meginþátta sem efnislega skiptu mestu máli við mörkun heildarstefnu varðandi erlenda fjárfestingu í atvinnurekstri á Íslandi. Í skýrslunni var því í fyrsta lagi fjallað um yfirlit um gildandi lagaákvæði er lúta að erlendri fjárfestingu. Í öðru lagi um stöðu þessara mála erlendis og athyglinni beint að aðildarríkjum Efnahags - og framfarastofnunarinnar í París (OECD) en á vegum þeirrar stofnunar hefur á undanförnum árum verið unnið mikið starf til að auka frelsi í alþjóðlegum fjármagnsflutningum. Í þriðja lagi um gildi erlendrar fjárfestingar einkum í samanburði við erlendar lántökur. Skýrslan var lögð fram á 109. löggjafarþingi 1986 1987. Í framhaldi af þeirri skýrslu skipaði þáverandi forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, starfshóp 19. febrúar 1986 „til þess að samræma lög og reglur sem hér á landi gilda um fjárfestingu erlendra aðila“. Á 110. löggjafarþingi 1987 1988 lagði þáverandi forsætisráðherra síðan fram frumvarp til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi sem samið var af nefnd undir formennsku Baldurs Guðlaugssonar hæstaréttarlögmanns.
     Í frumvarpinu var tvennt haft að leiðarljósi. Í fyrsta lagi nauðsyn á að samræma lagareglur um heimildir erlendra aðila til að fjárfesta í íslenskum atvinnurekstri en gildandi ákvæði þar að lútandi eru bæði sundurleit og ósamstæð. Í öðru lagi sú pólitíska stefnumörkun sem fram kom í starfsáætlun þáverandi ríkisstjórnar um markmið endurskoðunar og samræmingar á reglum um erlent fjármagn í íslensku atvinnulífi.
     Tóku tillögurnar mið af því að tryggja full yfirráð Íslendinga yfir náttúruauðlindum lands og sjávar, en auk þess komu fram í frumvarpinu nokkrar aðrar takmarkanir á erlendum fjárfestingum hér á landi, einkum vegna öryggishagsmuna og af menningarlegum ástæðum. Helstu takmarkanir voru á sviði fiskveiða og fiskvinnslu. Þá voru skorður reistar við aðild erlendra aðila að viðskiptabönkum, blaðaútgáfu og rekstri útvarpsstöðva hér á landi, auk þess sem erlend fjárfesting var í vissum tilvikum háð leyfi. Með frumvarpinu var samt sem áður almennt lögð til veruleg rýmkun varðandi rétt erlendra aðila til fjárfestinga í atvinnurekstri hér á landi. Jafnframt var lögð áhersla á eftirlit með erlendri fjárfestingu og að þeir erlendir aðilar sem hér fjárfesta lúti í einu og öllu íslenskum lögum, þar á meðal skattalögum og lögsögu íslenskra dómstóla. Fyrir frumvarpinu var hins vegar ekki mælt á Alþingi. Lítil umræða hefur því farið fram um efni þess.
     Að beiðni nokkurra þingmanna lagði Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra fyrir Alþingi skýrslu um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi á 112. löggjafarþingi sem tekin var saman af aðstoðarmanni hans, Jóni Sveinssyni. Tími vannst hins vegar ekki til að ræða efni hennar.

3.      GILDANDI REGLUR
     Gildandi lagaákvæði um heimildir erlendra aðila til fjárfestingar í atvinnurekstri hér á landi eru mjög ósamstæð að efni til. Auk þess eru þau á víð og dreif í lögum. Mjög erfitt er því að fylgjast með og hafa yfirsýn yfir fjárfestingar erlendra aðila hér á landi. Af þessum sökum hefur nokkur óvissa og skoðanamunur ríkt varðandi það hverjar séu heimildir erlendra aðila til fjárfestinga í atvinnugreinum sem sérstök lög hafa ekki verið sett um. Heppilegast virðist því að setja ein lög sem að mestu komi í stað margra og margvíslegra lagaákvæða sem nú gilda um heimildir erlendra aðila til að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi. Er með frumvarpi þessu að því stefnt.
     Íslensk lagaákvæði fjalla með mismunandi hætti um möguleika erlendra aðila til að fjárfesta í atvinnurekstri hérlendis. Til einföldunar má greina á milli fjögurra meginatriða. Í fyrsta lagi er um að ræða reglur um stofnun eða kaup erlendra aðila í fyrirtækjum á Íslandi, svo og reglur um setu erlendra ríkisborgara í stjórn fyrirtækja sem eru skráð og starfrækt hér. Ákvæði þessa efnis er fyrst og fremst að finna í hlutafélagalögum og í lögum um einstakar atvinnugreinar. Í öðru lagi skipta máli reglur um kaup eða leigu rekstraraðila, einstaklinga og fyrirtækja á fasteignum. Í þriðja lagi hafa reglur um fjármagnsgreiðslur til og frá landinu sérstaka þýðingu fyrir þessi fyrirtæki. Í fjórða lagi geta ákvæði skattalaga breytt starfskjörum þessara fyrirtækja.
     Enginn einn aðili hér á landi hefur hins vegar yfirlit yfir fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi. Upplýsingaöflun á þessu sviði er því um margt afar erfið.

3.1.      Hlutafélagalög og sérlög um atvinnugreinar.
    Í lögum nr. 32/1978, um hlutafélög, er að finna tvenns konar ákvæði sem varða erlenda fjárfestingu í hlutafélögum. Fyrra atriðið lýtur að stofnendum hlutafélags og mæla lögin svo fyrir að meiri hluti þeirra skuli hafa haft heimilisfesti á Íslandi í tvö ár hið minnsta. Þykir þetta skilyrði nauðsynlegt vegna hinnar ríku ábyrgðar er hvílir á stofnendum hlutafélags. Síðara atriðið lýtur að starfsemi erlendra hlutafélaga á Íslandi. Segir þar að vilji erlent hlutafélag taka til starfa hér á landi án þess að opna sjálfstætt fyrirtæki, hugsanlega í samvinnu við innlenda eða aðra erlenda aðila, geti það fengið slíkt starfsleyfi viðskiptaráðherra. Leyfisveitingin er hins vegar háð ákveðnum skilyrðum. Félagið verður að opna sérstakt útibú á Íslandi og ráða því útibússtjóra með íslenskt ríkisfang og heimilisfesti en viðskiptaráðherra getur veitt undanþágu frá ríkisfangsskilyrðinu. Það verður að vera löglegt í heimalandi sínu og fullnægja meginskilyrðum hlutafélagalaga fyrir því að teljast hlutafélag. Síðast en ekki síst kveða lögin á um að starfsemi útibúsins verði að fullnægja ákvæðum þeirra atvinnulaga sem hún fellur undir.
     Í hlutafélagalögum er enn fremur að finna almennt ákvæði um setu erlendra ríkisborgara í stjórn hlutafélags sem er starfrækt og skráð á Íslandi. Þar er sú krafa gerð að meiri hluti stjórnarmanna og framkvæmdastjóri hafi heimilisfesti á Íslandi. Þó er viðskiptaráðherra heimilt að veita undanþágu frá þessari kröfu. Þetta ákvæði víkur hins vegar fyrir ákvæðum einstakra atvinnulaga sem kveða á um ríkisfang og heimilisfesti stjórnarmanna og framkvæmdastjóra.
     Lög um einstakar atvinnugreinar hafa mörg hver þann megintilgang að binda rekstur fyrirtækja í þeirri atvinnugrein sem þau taka til við þá aðila er fullnægja tilteknum hæfisskilyrðum, svo sem um menntun eða starfsreynslu innan viðkomandi greinar. Mörg þessara laga reisa einnig skorður við eignaraðild útlendinga að atvinnurekstri þótt þær takmarkanir séu með mismunandi hætti eftir lögum. Til að gæta þess að skilyrði laganna séu virt kveða lögin oftast nær svo á að rekstur fyrirtækis á því sviði sem þau taka til sé háður sérstöku leyfi stjórnvalda. Veitingarvaldið getur þá verið í höndum hlutaðeigandi ráðherra en einnig hjá sýslumanni, bæjarfógeta eða lögreglustjóra í því umdæmi sem fyrirtækið hyggst hafa aðsetur í.
     Til að varpa skýrara ljósi á stöðu þessara mála er nauðsynlegt að fjalla um hverja atvinnugrein fyrir sig og þau sérlög sem um greinina gilda.

3.1.1.      Fiskveiðar og fiskvinnsla.
     Fiskveiðar
.
     Í lögum nr. 33/1922, um fiskveiðar í landhelgi, sbr. og lög nr. 81/1976, segir að einungis íslenskum ríkisborgurum sé heimilt að stunda „fiskveiðar í landhelgi við Ísland“. Virðist þessi regla ekki einungis ná til einstaklingsfyrirtækja heldur og til sameignarfélaga og annarra félaga sem rekin eru með ótakmarkaðri ábyrgð félagsmanna. Um hlutafélög gegnir nokkuð öðru máli og kveða lögin svo á að meira en helmingur hlutafjár í hlutafélögum, sem reka útgerð, skuli vera í eigu íslenskra ríkisborgara, félagið skuli eiga lögheimili á Íslandi og stjórn þess skipuð íslenskum ríkisborgurum og sé a.m.k. helmingur þeirra búsettur þar. Í lögum nr. 115/1985, um skráningu skipa, eru enn fremur settar strangar reglur um íslenskt eignarhald á skipum, þar á meðal þeim skipum sem notuð eru til fiskveiða.

     Fiskvinnsla .
     Ákvæði laga nr. 33/1922, um fiskvinnslu, eru ekki eins skýr að þessu leyti og ákvæðin sem gilda um útgerð. Samkvæmt athugasemdum er fylgdu frumvarpi að lögum þessum var megintilgangur þeirra sá að koma í veg fyrir að útlendingar gætu stundað fiskveiðar innan landhelgi og verkað aflann þar eða á landi. Ef útlendingur fjárfestir í fyrirtæki, sem einvörðungu stundar fiskvinnslu en ekki útgerð, eru ekki skýr lagaákvæði.
     Af hálfu yfirvalda hefur verið litið svo á að um fulla eignaraðild íslenskra aðila verði að vera að ræða til þess að heimild fáist til fiskvinnslu. Sökum óskýrra lagaákvæða um þetta efni hefur oftar en einu sinni risið ágreiningur um lagatúlkun á þessu sviði.

     Uppboðsmarkaður.
     Samkvæmt ákvæðum laga nr. 123/1989, um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla, er einungis heimilt að veita þeim leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar sem hafa íslenskan ríkisborgararétt og hafa haft búsetu á Íslandi sl. tvö ár. Enn fremur má veita hlutafélögum leyfi til reksturs, enda sé hlutafélagið í eigu íslenskra ríkisborgara.

     Hvalveiðar.
     Samkvæmt lögunum nr. 26/1949, um hvalveiðar, er einungis heimilt að veita íslenskum ríkisborgurum leyfi til slíkra veiða og verkunar aflans. Sé um félag að ræða skal meira en helmingur stofnfjár vera í eigu íslenskra ríkisborgara og stjórn félagsins skipuð íslenskum ríkisborgurum er eiga heimili og varnarþing á Íslandi.

3.1.2.      Landbúnaður.
     Jarðalög.
    
Á sviði landbúnaðar gilda margvíslegar lagareglur sem fela í sér að þeir einir geti haft slíkan rekstur með höndum er hafa til þess leyfi stjórnvalda. Lagaákvæðin takmarka hvorki né banna berum orðum erlenda fjárfestingu á þessu sviði en engu að síður er það fyrirkomulag, sem kveðið er á um í lögum varðandi þessa atvinnugrein og tengda starfsemi, með þeim hætti að telja verður ólíklegt að erlend fjárfesting geti þar átt sér stað nema í litlum mæli. Má í þessu sambandi benda á ákvæði jarðalaga, nr. 65/1976, en þar er gert ráð fyrir að jarðanefnd sitji í hverri sýslu landsins, skipuð heimamönnum sem áskilið er að veiti samþykki sitt til ráðstöfunar jarða og eignarréttinda á jörðum sem falla undir lögin. Í upphafsgrein laganna segir að tilgangur þeirra sé m.a. að tryggja „að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda“. Einnig kveða lögin svo á að land sem við gildistöku laganna sé nýtt til landbúnaðar megi ekki taka til annarra nota nema heimild sé til slíks í lögum. Þá er erlent eignarhald eða afnotaréttur af jörðum einnig háður þeim takmörkunum sem sett eru með lögum nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt af fasteignum.

     Framleiðsla og verðlagning .
     Í lögum nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru, er einnig að finna ákvæði sem veita hlutaðeigandi stjórnvöldum og Framleiðsluráði landbúnaðarins vald til að ákveða hvort og að hve miklu leyti erlendum aðilum skuli heimilað að fjárfesta í greinum tengdum landbúnaði. Svipuð ákvæði er og að finna í öðrum lögum, svo sem lögum nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum.

     Loðdýrarækt .
     Samkvæmt lögum nr. 53/1981, um loðdýrarækt, er slíkur atvinnurekstur óheimill nema á loðdýrabúum sem öðlast hafa leyfi landbúnaðarráðuneytisins til rekstrarins. Lögin krefjast þess ekki að rekstraraðili hafi íslenskt ríkisfang eða heimilisfesti og ræðst leyfisveiting af frjálsu mati landbúnaðarráðuneytisins. Ráðuneytinu er því heimilt lögum samkvæmt að ákveða að hve miklu leyti erlendum aðilum skuli heimilt að stofna til þessa rekstrar á Íslandi.

     Áburðarverksmiðja ríkisins.
     Samkvæmt lögum nr. 43/1971 hefur Áburðarverksmiðja ríkisins, sem er ríkisstofnun, einkarétt til sölu á tilbúnum áburði og er engum öðrum en henni heimilt að framleiða eða flytja hingað til landsins tilbúinn áburð.

3.1.3.      Virkjanir og rekstur orkuvera og vatnsvera.
     Orkuver.

     Samkvæmt orkulögum, nr. 58/1967, þarf leyfi Alþingis til að reisa og reka raforkuver stærri en 2.000 kw. Slíka heimild er m.a. að finna í lögum nr. 60/1981, um raforkuver. Til að reisa og reka raforkuver 200 2.000 kw. þarf hins vegar leyfi iðnaðarráðherra. Í orkulögum er ekki fjallað um það sérstaklega hvernig með skuli fara ef erlendir aðilar hafa hug á að starfrækja fyrirtæki á sviði raforkuframleiðslu heldur er gert ráð fyrir að Alþingi og eftir atvikum iðnaðarráðherra taki um það sérstaka ákvörðun. Í orkulögum er einnig fjallað um dreifingu raforku. Sveitarstjórnir og Rafmagnsveitur ríkisins hafa samkvæmt lögunum forgangsrétt til að sinna þessu verkefni og getur iðnaðarráðherra veitt þeim einkarétt í því skyni. Að auki gera lög nr. 42/1983, um Landsvirkjun, ráð fyrir því að það fyrirtæki geti flutt og selt í heildsölu raforku til almenningsrafveitna og iðjufyrirtækja samkvæmt sérstökum samningum. Nýti sveitarstjórnir og Rafmagnsveitur ríkisins sér ekki þann forgangsrétt, sem þessir aðilar hafa samkvæmt lögunum, getur ráðherra veitt einstaklingum og lögaðilum einkarétt til raforkudreifingar á viðkomandi orkuveitusvæði. Lögin hafa ekki að geyma skilyrði um íslenskt ríkisfang eða heimilisfesti þessara aðila. Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteignar, nr. 19/1966, takmarka hins vegar rétt erlendra aðila í þessu efni.

     Hitaveitur .
     Um hitaveitur segir í orkulögum að iðnaðarráðherra sé heimilt að veita sveitarfélögum eða samtökum þeirra einkaleyfi til þess að starfrækja hitaveitur sem annist sölu eða dreifingu heits vatns eða gufu til almenningsþarfa á tilteknu veitusvæði frá jarðhitastöðvum eða hitunarstöðvum með öðrum orkugjafa. Samkvæmt lögunum virðist ráðherra óheimilt að veita öðrum aðilum, innlendum jafnt sem erlendum, heimild til þess rekstrar.

     Vatnsveitur .
     Í III. kafla vatnalaga, nr. 15/1923, er fjallað um vatnsnotkun til heimilis - og búsþarfa, iðnaðar og iðju án orkunýtingar. Þar segir að bæjarstjórn sé heimilt að koma upp vatnsveitu til að fullnægja þörf almennings í kaupstöðum á vatni. Þegar slík vatnsveita hefur verið sett á stofn hefur hún einkasölu á vatni til hverra þarfa sem er í kaupstaðnum. Hliðstæðar reglur gilda í hreppum. Ekki verður séð að ákvæði laganna standi gegn því að sveitarfélag stofni sjálfstætt félag með einkaaðilum um rekstur vatnsveitunnar. Sé slíkt heimilt eru fáar takmarkanir sem mæla gegn þátttöku erlendra aðila í slíku félagi. Lögin um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966, takmarka þetta helst.

3.1.4.      Iðnaður.
     Iðnrekstur.

     Samkvæmt iðnaðarlögum, nr. 42/1978, má enginn reka iðnað hér á landi nema að fengnu leyfi lögreglustjóra. Sé um einstakling að ræða skal hann vera íslenskur ríkisborgari og búsettur hér á landi. Sama á við um félag með ótakmarkaðri ábyrgð. Allir félagsmenn skulu þar vera íslenskir ríkisborgarar og búsettir hér á landi. Í hlutafélagi er þess hins vegar krafist að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar uppfylli skilyrði um íslenskt ríkisfang og búsetu. Iðnaðarráðherra getur veitt undanþágu frá þeim skilyrðum sem hér hafa verið talin, en þó skal meiri hluti hlutafjár alltaf vera eign manna búsettra hér á landi.

     Stóriðja .
     Sett hafa verið lög um hvert þeirra þriggja stóriðjuvera sem byggja á erlendri eignaraðild. Lögin veita lagagildi samningum íslenskra stjórnvalda við hina erlendu eignaraðila og víkja þessir samningar til hliðar almennum lögum sem að öðrum kosti mundu gilda um starfsemina, svo sem hvað varðar fjármagnsflutninga, skattgreiðslur og eignarrétt að fasteignum.

3.1.5.      Leit og vinnsla jarðefna.
    
Í námulögum, nr. 24/1973, er fjallað um rétt einstaklinga og lögaðila til leitar og vinnslu hvers konar jarðefna hér á landi. Áskilið er að hlutaðeigandi hafi öðlast leyfi iðnaðarráðherra áður en leit og vinnsla jarðefna er hafin og er ráðherra einungis heimilt að veita íslenskum aðilum slíkt leyfi. Nákvæm grein er gerð fyrir því í 10. gr. laganna hvaða aðilar skuli teljast íslenskir í skilningi laganna. Hér er um að ræða stofnanir sem hlíta stjórn íslenska ríkisins, íslensk sveitarfélög og íslenska ríkisborgara. Jafnframt teljast til íslenskra aðila félög þar sem íslenskir ríkisborgarar, íslenska ríkið eða íslensk sveitarfélög ráða yfir a.m.k. 3 / 5 hlutum stofnfjár (hlutafjár). Einnig er áskilið að í stjórn þessara félaga eigi einungis sæti íslenskir ríkisborgarar með heimilisfesti hér á landi. Að auki getur iðnaðarráðherra samkvæmt lögunum veitt erlendum aðila sérleyfi til leitar og vinnslu jarðefna að fengnu samþykki Alþingis. Þá segir í lögunum að iðnaðarráðherra sé rétt að setja það skilyrði að leyfishafi undirgangist að hlíta varnarþingi á Íslandi og setji tryggingu sem ráðherra meti gilda fyrir fjárskuldbindingum sínum við íslenska aðila.

3.1.6.      Verslun.
     Verslunarleyfi.

     Sá sem vill öðlast leyfi til verslunar hér á landi, sbr. lög nr. 41/1868, um verslunaratvinnu, verður að fullnægja skilyrðum um íslenskt ríkisfang og búsetu. Einstaklingur verður þannig að hafa íslenskt ríkisfang og vera heimilisfastur á Íslandi. Í félagi með ótakmarkaðri ábyrgð verða allir stjórnarmenn og prókúruhafi að fullnægja þessum skilyrðum. Í hlutafélagi er áskilið að einn stjórnarmanna, endurskoðendur og framkvæmdastjórar hafi íslenskt ríkisfang og heimilisfesti hér á landi. Viðskiptaráðherra getur veitt undanþágu frá öllum þessum skilyrðum „standi sérstaklega á“ eins og það er orðað í lögunum. Auk hefðbundinnar verslunar ná lögin einnig til rekstrar myndbandaleigu.

     Fasteigna - og skipasala .
     Engum er heimilt að annast kaup, sölu eða skipti á fasteignum eða skráningarskyldum skipum fyrir aðra nema hann hafi fengið til þess löggildingu dómsmálaráðneytisins samkvæmt ákvæðum laga um fasteigna - og skipasölu, nr. 34/1986, eða leyfi samkvæmt lögum er áður giltu um fasteignasölu, þ.e. lögum nr. 47/1938. Þó þurfa hæstaréttar - og héraðsdómslögmenn ekki leyfi til slíkrar starfsemi ef hún tengist lögmannsstörfum þeirra. Í 2. gr. laganna er m.a. gert að skilyrði fyrir löggildingu að maður hafi íslenskan ríkisborgararétt og hafi heimilisfesti hér á landi. Samkvæmt 6. gr. laganna er fasteigna - og skipasala bundin við nafn og í 7. gr. kemur fram að þeir sem hafa löggildingu til slíkra starfa hafi réttindi og beri skyldur sem opinberir sýslunarmenn.

     Áfengis - og tóbaksverslun .
     Samkvæmt áfengislögum, nr. 82/1969, svo og lögum um verslun ríkisins með áfengi og tóbak, nr. 63/1969, hefur Áfengis - og tóbaksverslun ríkisins einkarétt til að flytja til landsins áfenga drykki eða áfengisvökva, hverju nafni sem nefnast. Þetta einkaleyfi nær einnig til framleiðslu og sölu áfengis, svo og til innflutnings og framleiðslu tóbaks.

3.1.7.      Fjármálaþjónusta.
     Viðskiptabankar
.
     Samkvæmt lögum nr. 86/1985, um viðskiptabanka, er einungis íslenska ríkinu og hlutafélögum heimilt að starfrækja viðskiptabanka á Íslandi. Til slíkrar starfsemi þarf ríkið sérstaka lagaheimild en þegar um hlutafélag er að ræða þarf leyfi viðskiptaráðherra til starfseminnar. Eitt þeirra skilyrða sem hlutafélag verður að fullnægja til að öðlast leyfi til viðskiptabankastarfsemi er að allt hlutaféð sé „í íslenskri eigu“. Ekki er með fullu ljóst hvernig beri að skýra hin tilvitnuðu orð laganna en nærri liggur að líta svo á að átt sé við íslenska ríkisborgara þegar einstaklingar eru hluthafar og fyrirtæki sem eru að meiri hluta til í eigu Íslendinga þegar lögaðilar eru hluthafar. Þá kveða viðskiptabankalögin svo á að erlendum hlutfélagsbönkum sé heimilt að starfrækja á Íslandi „umboðsskrifstofur“ sem hafi það meginhlutverk að annast milligöngu um viðskipti erlenda bankans við íslenska aðila. Starfræksla slíkra skrifstofa er þó háð leyfi viðskiptaráðherra og jafnframt er skrifstofunum óheimilt að hafa með höndum innláns - eða útlánsviðskipti við almenning, svo og gjaldeyrisverslun og verðbréfaviðskipti.
     Með lögum nr. 7/1987, um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands, var þrátt fyrir ákvæði laga 86/1985, um viðskiptabanka, bönkum sem eiga lögheimili og varnarþing erlendis, heimilað að eiga á hverjum tíma samtals allt að 25% hlutafjár.

     Sparisjóðir .
     Lög nr. 87/1985, um sparisjóði, geyma að mörgu leyti svipuð ákvæði og lög um viðskiptabanka. Þannig er t.d. starfræksla sparisjóðs háð leyfi viðskiptaráðherra. Aftur á móti er þátttaka erlendra aðila í sparisjóði algerlega bönnuð samkvæmt lögunum og er þar kveðið svo á að stofnendur sparisjóðs og sparisjóðsaðilar verði að vera íslenskir ríkisborgarar, búsettir á Íslandi, sýslufélög, sveitarfélög eða starfandi sparisjóðir.

     Verðbréfamiðlun .
     Í lögunum nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði er rekstur verðbréfafyrirtækis háð löggildingu og leyfi viðskiptaráðherra. Leyfi til verðbréfamiðlunar er einungis veitt einstaklingum sem eru búsettir hér á landi og hafa íslenskan ríkisborgararétt eða ríkisborgararétt annars staðar á Norðurlöndum. Stjórnarmenn í verðbréfafyrirtæki sem rekið er í hlutafélagsformi verða að uppfylla sömu skilyrði. Ráðherra getur þó veitt undanþágu frá skilyrði um búsetu og ríkisfang í einstökum tilvikum.

     Eignarleigustarfsemi .
     Lög nr. 19/1989, um eignarleigustarfsemi, gera ráð fyrir að eignarleigufyrirtæki séu rekin sem hlutafélög.
     Meiri hluti stjórnar félagsins skal vera búsettur hér á landi. Þá skal framkvæmdastjóri félagsins vera búsettur hér á landi og vera ríkisborgari Norðurlandaríkis.

     Vátryggingarstarfsemi .
     Í lögum nr. 50/1978, um vátryggingarstarfsemi, segir að einungis félög og stofnanir megi reka vátryggingarstarfsemi á Íslandi. Er heimildin bundin við þrenns konar félög. Í fyrsta lagi „innlend félög og stofnanir sem starfa samkvæmt sérlögum“. Í öðru lagi „innlend hlutafélög og gagnkvæm vátryggingafélög“ og í þriðja lagi „erlend vátryggingafélög“. Þegar um er að ræða félag eða stofnun, sem ekki starfar á grundvelli sérlaga, er nauðsynlegt að félagið eða stofnunin öðlist leyfi heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra til starfans. Erlend fjárfesting í þessari atvinnugrein er ekki takmörkuð í lögunum að öðru leyti en því að ráðherra virðist geta metið sjálfstætt hvort rétt sé að veita fyrirtæki leyfi til þessarar starfsemi.

3.1.8.      Samgöngur.
     Loftferðir
.
     Samkvæmt lögum nr. 34/1964, um loftferðir, þarf leyfi samgönguráðherra til rekstrar reglubundinna loftferða í fjáraflaskyni yfir íslensku yfirráðasvæði. Einnig þarf leyfi ráðherra til rekstrar annarra loftferða til fjáröflunar yfir nefndu yfirráðasvæði „enda mæli ráðherra eigi öðruvísi“, eins og segir í lögunum. Jafnframt getur ráðherra sett reglur um flugferðir „innlendra“ flugfélaga og, ef nauðsyn krefur, veitt einu eða fleiri félögum sérleyfi til fastra áætlunarferða á ákveðnum leiðum innan lands og utan. Sé um að ræða loftferðir milli staða á íslensku yfirráðasvæði getur ráðherra einungis veitt þeim leyfi sem teljast íslenskir aðilar í skilningi laganna. Til þeirra teljast íslenska ríkið og ríkisstofnanir, íslensk sveitarfélög, íslenskir ríkisborgarar, mannúðarstofnanir, sem hlíta fyrirsvari íslenskra ríkisborgara með búsetu á Íslandi, og samtök sem fullnægja þessu síðasttalda skilyrði, enda séu a.m.k. 2 / 3 félaga í samtökunum íslenskir ríkisborgarar. Þegar um er að ræða hlutafélög skulu allir stjórnarmenn vera íslenskir ríkisborgarar, heimilisfastir á Íslandi og a.m.k. 2 / 3 hlutar í eigu íslenskra aðila og fylgi hlutafénu a.m.k. 2 / 3 allra atkvæða í félaginu. Félag með ótakmarkaðri ábyrgð telst íslenskur aðili ef félagsmenn eru allir íslenskir ríkisborgarar eða tilheyra þeim hópi sem að framan greinir. Þrátt fyrir þau skilyrði, sem hér hafa verið greind, er samgönguráðherra rétt, „þegar mjög mikilvægar ástæður eru til“, að leyfa að loftfar, sem heimastöð hefur á Íslandi og er í stöðugri notkun, megi skrásetja hér á landi þótt eigandi þess teljist ekki íslenskur aðili.

     Flugvellir .
     Til að gera og starfrækja flugvöll þarf sérleyfi og sérstaka viðurkenningu samgönguráðherra. Lögin takmarka ekki berum orðum aðild útlendinga að slíkri atvinnustarfsemi, heldur er hún háð mati ráðherra.

     Kaupskipaútgerð .
     Um útgerð kaupskipa er að finna ákvæði í lögum nr. 115/1985, um skráningu skipa. Til þess að skip fáist skráð hér á landi og öðlist rétt til að sigla undir íslenskum fána þarf eigandi að fullnægja ströngum skilyrðum um íslenskt ríkisfang og heimilisfesti. Sé um einstakling að ræða skal hann vera íslenskur ríkisborgari og eiga hér heimilisfesti. Sé félag með ótakmarkaðri ábyrgð eigandi skips verða allir félagsmenn að fullnægja þessum skilyrðum. Í hlutafélagi skulu a.m.k. 3 / 5 hlutafjár vera í eigu íslenskra ríkisborgara og allir stjórnendur hafa íslenskt ríkisfang og heimilisfesti. Enn fremur getur íslenska ríkið, ríkisstofnanir og sveitarfélög verið eigendur skips sem er skráð hér á landi. Frá þessum skilyrðum getur samgönguráðherra veitt takmarkaða undanþágu þegar sérstakar aðstæður mæla með því.

     Fólksflutningar .
     Í lögum nr. 53/1987, um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum, segir að leyfi samgönguráðuneytisins þurfi til að hafa með höndum í atvinnuskyni fólksflutninga með bifreiðum sem taka níu farþega eða fleiri. Einnig þarf leyfi til að hafa með höndum reglubundna fólksflutninga með bifreiðum sem rúma þrjá til átta farþega. Bæjarstjórn í kaupstöðum getur fengið einkaleyfi til rekstrar strætisvagna. Að fráskildum þeim forgangsrétti sem felst í útgáfu sérleyfa hafa lögin engin ákvæði að geyma sem beinlínis takmarka erlenda fjárfestingu í fyrirtækjum á þessu sviði. Slík fjárfesting er því háð mati samgönguráðuneytisins.
     Samkvæmt lögum nr. 77/1989, um leigubifreiðar, sem tekur til fólksbifreiða, vörubifreiða og sendibifreiða getur bæjarstjórn ákveðið, að fengnum tillögum hlutaðeigandi stéttarfélags bifreiðastjóra, að allar leigubifreiðar til fólksflutninga í viðkomandi kaupstað skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöðvum sem fengið hafa viðurkenningu bæjarstjórnar. Hafi slík viðurkenning verið veitt er öðrum óheimilt að stunda leiguakstur á bifreiðum utan stöðvar eða frá stöð sem ekki hefur hlotið viðurkenningu. Samgönguráðherra gefur út sérstök atvinnuleyfi á þeim félagssvæðum sem veitt hefur verið heimild til takmörkunar. Lögin hafa hvorki ákvæði er binda leyfisveitingar við innlenda aðila né takmörkun á erlendri aðild að fyrirtækjum innan þessarar greinar.

3.1.9.      Fjarskipti og póstþjónusta.
     Fjarskipti
.
     Íslenska ríkið hefur samkvæmt ákvæðum laga um fjarskipti, nr. 73/1984, einkarétt á að stofna til og reka á Íslandi og í íslenskri landhelgi og lofthelgi hvers konar fjarskipti, svo og að gefa út nafnaskrá um fjarskiptastöðvar og notendur fjarskiptavirkja. Fjarskipti, sem fara ekki um hið opinbera fjarskiptakerfi, þegar eingöngu er um að ræða boðmiðlun eða upplýsingar innan húsakynna heimilis, fyrirtækis eða stofnunar, svo sem í sjúkrahúsum, gistihúsum, skólum eða verksmiðjum, falla sem slík ekki undir ákvæði laganna. Þá hefur íslenska ríkið einkarétt á að flytja til landsins, selja, leigja eða dreifa á annan hátt, gera við, breyta eða setja upp hvers konar fjarskiptavirki eða hluta þeirra. Þessi einkaréttur nær þó ekki til notendabúnaðar. Í 7. gr. laganna segir að Póst - og símamálastofnunin annist framkvæmd á einkarétti ríkisins samkvæmt lögunum, nema önnur lög kveði á um annað á tilteknum sviðum fjarskipta.

     Póstþjónusta .
     Samkvæmt póstlögum, nr. 33/1986, hefur Póst - og símamálastofnunin einkarétt á að safna saman, flytja og bera út allar lokaðar bréfapóstsendingar og aðrar lokaðar póstsendingar, sem uppfylla skilyrði þess að vera veitt viðtaka í póst, „að svo miklu leyti, sem innihald þeirra er ritaðar orðsendingar eða prentaðar tilkynningar, útfylltar með skrift, að undanskildum vörureikningum, fylgiseðlum, farmskrám og svipuðum fylgiskjölum með sendingum sem heimilt er að flytja án atbeina póstþjónustunnar“, eins og segir í 4. gr. laganna.
3.1.10.      Fjölmiðlun.
     Útvarp
.
     Samkvæmt útvarpslögum, nr. 68/1985, er útvarpsréttarnefnd óheimilt að veita erlendum aðila leyfi til útvarpsrekstrar, né félagi eða stofnun þar sem eignarhlutdeild erlendra aðila er meiri en 10%. Þetta bann nær hvort heldur er til rekstrar hljóðvarps - eða sjónvarpsstöðva samkvæmt orðskýringu 1. gr. laganna.

     Blaðaútgáfa .
     Í lögum nr. 57/1956, um prentrétt, skal útgefandi blaðs eða tímarits vera íslenskur ríkisborgari, lögráða og heimilisfastur hér á landi eða „íslenskur ópersónulegur aðili“, eins og segir í lögunum. Jafnframt skal ritstjóri blaðs eða tímarits vera íslenskur ríkisborgari, heimilisfastur hér á landi og lögráða. Ekki er að fullu ljóst hvað við er átt með orðalaginu „íslenskur ópersónulegur aðili“, en ætla má að átt sé við fyrirtæki sem eru að meiri hluta til í eigu íslenskra ríkisborgara, heimilisfastra hér á landi, eða önnur fyrirtæki sem fullnægja þessu skilyrði.

3.1.11.      Þjónusta við ferðamenn.
     Veitinga - og gististaðir.

     Samkvæmt lögum nr. 67/1985, um veitinga - og gististaði, er slíkur rekstur háður leyfi, sem lögreglustjóri veitir, að fenginni umsögn sveitarstjórnar, eldvarnaeftirlits, heilbrigðisnefndar og vinnueftirlits. Til þess að öðlast leyfi þarf umsækjandi, einstaklingur eða ábyrgðarmaður félags, að uppfylla tiltekin skilyrði, m.a. að hafa verið heimilisfastur á Íslandi „síðustu ár“. Leyfið er veitt til fjögurra ára í senn og er bundið við stað og nafn og er ekki framseljanlegt. Orðalagið „ábyrgðarmaður félags“ er ekki skýrt en ætla má að átt sé við formann stjórnar eða framkvæmdastjóra. Ekkert virðist því til fyrirstöðu samkvæmt þessum lögum að erlendir aðilar eigi hlut í slíku félagi.

     Ferðaskrifstofur .
     Einungis er heimilt að starfrækja ferðaskrifstofu að fengnu leyfi samgönguráðuneytisins samkvæmt lögum nr. 79/1985, um skipulag ferðamála. Til að einstaklingur geti öðlast slíkt leyfi þarf hann að hafa búsetu á Íslandi. Eigi félag hlut að máli er þess á hinn bóginn krafist að stjórn þess sé „innlend“, eins og það er orðað í lögunum, og félagið hafi „aðsetur“ á Íslandi. Jafnframt er áskilið að forstöðumaður slíkrar ferðaskrifstofu hafi búsetu á Íslandi. Erlend fjárfesting á þessu sviði er því möguleg samkvæmt lögum þessum. Nokkur vafi leikur á því hvað átt er við með orðalaginu um „innlenda“ stjórn og virðist eðlilegast að skýra það með hliðsjón af ákvæðum hlutafélagalaga um ríkisfang og heimilisfesti stjórnarmanna, en nánar verður vikið að því hér á eftir.

3.1.12.      Önnur sérlög.
     Tekið skal fram að yfirlit um sérlög atvinnugreina hér að framan er alls ekki tæmandi. Í því er ekki gerð grein fyrir löggjöf á sviði mennta - og skólamála, heilbrigðis - og almannatryggingamála og tengdrar starfsemi, svo sem lyfsölu og lyfjagerðar. Þá er heldur ekki gerð grein fyrir lögum um atvinnustarfsemi sem er bundin íslensku ríkisfangi og svo tengd persónulegum hæfisskilyrðum að tæplega má ætla að erlendur aðili fjárfesti í fyrirtæki í viðkomandi atvinnugrein. Sem dæmi í þessu sambandi má nefna lög nr. 61/1942, um málflytjendur, lög nr. 74/1938, um löggildingu niðurjöfnunarmanna sjótjóna, lög nr. 75/1977, um starfsleyfi iðjuþjálfa, lög nr. 35/1978, um starfsleyfi lyfjafræðinga, lög nr. 48/1933, um löggildingu leiðsögumanna skipa, og lög nr. 17/1984, um starfsleyfi sjóntækjafræðinga.

3.1.13.      Atvinnugreinar án sérlaga .
     Um nokkrar atvinnugreinar á Íslandi hafa ekki verið sett sérstök atvinnulög, svo sem fiskeldi. Þessi „eyða“ í atvinnulöggjöfinni vekur þá spurningu hverjar séu þær reglur sem gildi um stofnun eða kaup fyrirtækja af hálfu eða með þátttöku erlendra aðila á þessum sviðum atvinnulífsins. Við úrlausn þessa álitaefnis virðist eðlilegast að leggja til grundvallar atvinnufrelsisákvæði 69. gr. stjórnarskrárinnar sem felur í sér meginreglu íslenskra laga um atvinnuréttindi einstaklinga. Þar segir berum orðum að engin bönd megi leggja á atvinnufrelsi manna nema almenningsheill krefji, enda þurfi lagaboð til. Þetta orðalag virðist útiloka að beitt sé rýmkandi lögskýringu eða lögjöfnun frá ákvæðum einstakra atvinnulaga til að fá þá niðurstöðu að til sé almenn regla í íslenskum rétti er hindri í öllum tilvikum meirihlutaaðild erlendra aðila að fyrirtækjum nema að fengnu leyfi stjórnvalda.
     Andspænis framangreindri skýringu á atvinnufrelsissákvæðinu hefur því verið haldið fram að almenn regla hafi verið lögfest í þessu efni með lögum nr. 26/1982, um atvinnuréttindi útlendinga. Er þar áskilið að útlendingur, einstaklingur eða félag, sem hyggst starfrækja atvinnufyrirtæki hér á landi, þurfi leyfi félagsmálaráðherra til starfseminnar (atvinnuréttarleyfi) ef hún er ekki háð leyfi annarra stjórnvalda lögum samkvæmt. Þessi regla er tvímælalaust í fullu gildi þegar erlendir einstaklingar eiga í hlut. Öðru máli gegnir um lögaðila. Tilgangur laganna, eins og sést vel á einstökum ákvæðum þeirra, er að vernda vinnumarkaðinn gegn ásókn erlendra einstaklinga en ekki að takmarka með almennum hætti erlenda fjárfestingu í atvinnulífinu. Er tekið fram berum orðum í 1. gr. laganna að samkvæmt þeim teljist hver maður útlendingur sem ekki hefur íslenskt ríkisfang. Jafnframt væri mjög óeðlilegt, samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands, að félagsmálaráðherra væri falið að hafa með höndum verkefni sem varða erlenda fjárfestingu. Samkvæmt nefndri reglugerð fer félagsmálaráðherra hins vegar með vinnumarkaðsmál. Af þessu leiðir (og einnig með vísan til meginreglu atvinnufrelsisákvæðisins) að erlendir lögaðilar falla ekki undir ákvæði laganna um atvinnuréttindi einstaklinga.
     Í riti sínu Stjórnskipun Íslands (Reykjavík 1979) segir Ólafur Jóhannesson um þetta atriði að sú stefnuyfirlýsing stjórnarskrárgjafans, sem felist í atvinnufrelsisákvæðinu, leiði „til þeirrar túlkunarreglu að í vafaatriðum beri að telja líkur fyrir atvinnufrelsinu“. Samkvæmt þessari túlkun stjórnarskrárinnar má því aðeins skerða atvinnufrelsið að skerðingin eigi sér ótvíræða stoð í ákvæðum laga sem Alþingi hefur sett. Slík sérákvæði geta ekki orðið að almennri reglu nema með breytingu á stjórnarskrárákvæðinu, enda þarf venja að vera orðin afar ótvíræð og skýr eigi hún að víkja stjórnarskrárákvæði. Ekki verður talið að nein venja hafi myndast í þessu efni er sé andstæð framangreindri meginreglu, enda hefur löggjafinn ávallt talið sér skylt í framkvæmd að setja um það sérstök lagaákvæði þegar atvinnufrelsið hefur verið skert.
     Af þessu má ætla að innan þeirra atvinnugreina, sem ekki lúta sérstökum atvinnulögum, sé erlendum aðilum öðrum en erlendum einstaklingum frjálst að hefja rekstur fyrirtækja að fullnægðum skilyrðum annarra laga. Dæmi þessa er erlend þátttaka í fiskeldisfyrirtækjum hér á landi. Þó gildir sú takmörkun samkvæmt hlutafélagalögum að ef um er að ræða erlent hlutafélag, sem ætlar að hefja rekstur á Íslandi með opnun útibús, þarf viðkomandi félag leyfi viðskiptaráðherra.

3.2.      Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.
    Fjárfestingar erlendra aðila í einstökum atvinnugreinum geta komið til greina á ýmsum sviðum þótt fátítt sé að lög heimili berum orðum meirihlutaeign útlendinga í fyrirtækjum. Lög nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt af fasteignum, geta á hinn bóginn komið í veg fyrir að erlendir aðilar geti nýtt sér þær heimildir sem felast í einstökum atvinnulögum og túlkun á löggjöfinni í heild sinni. Samkvæmt lögunum frá 1966 er það meginreglan að einstaklingur, sem vill öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign á Íslandi, skuli vera íslenskur ríkisborgari. Sé um að ræða félag með ótakmarkaðri ábyrgð skulu allir félagsmenn vera íslenskir ríkisborgarar. Í hlutafélagi skulu 4 / 5 hlutar hlutafjár vera eign íslenskra ríkisborgara og íslenskir ríkisborgarar fara með meiri hluta hlutafjár á hluthafafundum. Slík félög skulu og eiga hér heimili og varnarþing og stjórnendur allir vera íslenskir ríkisborgarar. Þessi skilyrði eiga hins vegar ekki við ef leiga eða eignarhald á fasteign varir skemur en þrjú ár eða ef uppsögn leigusamnings vegna fasteignar er áskilin með eigi lengri en árs fyrirvara. Lögin heimila hins vegar dómsmálaráðherra að veita erlendum aðilum undanþágu frá skilyrðum um íslenskt ríkisfang „ef ástæða þykir til“, eins og segir í lögunum.

3.3.      Reglur um fjármagnsflutninga.
    Um fjármagnsflutninga til og frá landinu fer eftir ákvæðum laga nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris - og innflutningsmála, og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Núgildandi reglugerð um þetta efni er nr. 312/1990 og tók hún gildi 1. september 1990.
     Þar segir í 19. gr. að erlendum aðilum sé heimilt innan þeirra marka, sem lög, reglugerðir eða önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um, að stofna til beinna fjárfestinga í atvinnurekstri hér á landi. Skylt er að tilkynna gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands um alla erlenda fjárfestingu í atvinnurekstri jafnskjótt og samningar eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir. að lútandi liggja fyrir. Jafnframt skal tilkynna hlutafélagaskrá um kaup og sölu erlendra aðila á hlutafé í íslensku félagi.
     Erlendum aðilum, sem stofna til beinna fjárfestinga í atvinnurekstri hér á landi, heimilt að flytja í því skyni fé til landsins og að flytja úr landi móttekinn arð eða annan hagnaðarhlut af fjárfestingunni og skv. 20. gr. reglugerðarinnar er erlendum aðilum, sem stofnað hafa til beinna fjárfestinga í atvinnurekstri hér á landi, heimilt við sölu á eignarhlut sínum eða slit atvinnufyrirtækisins að endurfjárfesta féð í atvinnurekstri hér á landi í samræmi við gildandi ákvæði laga, reglugerða eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla eða flytja féð til útlanda enda hafi féð verið flutt til landsins og því ráðstafað í samræmi við ákvæði 19. gr. reglugerðarinnar.
     Samkvæmt 25. gr. reglugerðarinnar er erlendum aðilum heimilt á nánar tilteknum skilyrðum að kaupa hér á landi íslensk markaðsverðbréf, þar á meðal hlutabréf, enda brjóti eignarhaldið ekki í bága við takmarkanir á eignarhlut erlendra aðila í lögum, reglugerðum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. Arð af slíkum hlutabréfum og söluandvirði þeirra geta erlendir aðilar svo flutt úr landi, enda hafi kaupverðið verið flutt til landsins í samræmi við settar reglur.
     Hér hefur verið vitnað í ákvæði reglugerðar, sem sett er í samræmi við lögin um skipan gjaldeyris - og innflutningsmála, en talið er rétt að í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi sé það lykilatriði skýrt tekið fram að heimilt sé að flytja fjármagn til landsins í því skyni og að flytja arð af fjárfestingunni og höfuðstól hennar til annarra landa ef hinir erlendu aðilar síðar kjósa það.

3.4.      Skattalög.
    
Ákvæði um íslenskra laga um skattlagningu fyrirtækja er ekki ætlað að búa fyrirtækjum, sem eru að nokkru eða öllu leyti í eigu erlendra aðila, verri starfskjör en öðrum fyrirtækjum sem eru starfrækt á Íslandi. Engu að síður geta ákvæðin valdið tvísköttun og skattyfirvöldum erfiðleikum við framkvæmd skattalaga. Til að komast hjá þessu og jafna starfsskilyrði fyrirtækja hafa íslensk stjórnvöld gert tvísköttunarsamninga við sjö erlend ríki, þ.e. önnur Norðurlönd, Bandaríkin, V - Þýskaland og Sviss. Einnig eru undirritaðir samningar við Bretland og Frakkland en þeir eru enn óstaðfestir.
     Að mati nefndarinnar er óþarfi að taka fram í frumvarpi þessu að um skattskyldu erlends aðila, sem fjárfestir í atvinnurekstri hér á landi, fari samkvæmt ákvæðum almennra íslenskra skattalaga. Slíkir aðilar verða að sjálfsögðu að fara að íslenskum lögum.

4.      SÖFNUN UPPLÝSINGA
    Afar erfitt er að safna upplýsingum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi þar sem enginn einn aðili sinnir gagnasöfnun á þessu sviði. Engin lög eða reglur skylda opinbera aðila til þess að hafa heildaryfirlit yfir slíkar fjárfestingar. Útilokað er t.d. að fá glöggar upplýsingar um hvort fyrirtæki hérlendis í eigu erlendra aðila að einhverju leyti hafi greitt út arð. Hlutafélagaskrá hefur til þessa ekki sinnt gagnaöflunarhlutverki af þessu tagi. Hjá hlutafélagaskrá hefur áherslan verið lögð á nýskráningu félaga en breytingar og eignaraðild ekki verið skráðar sérstaklega. Þannig geta erlendir aðilar keypt hluti í starfandi fyrirtækjum eða aukið þann hlut sem fyrir er án þess að slíkt sé skráð í hlutafélagaskrá. Seðlabanki Íslands hefur nú nýlega hafið söfnun upplýsinga um erlenda aðila sem eiga hlut í íslenskum fyrirtækjum. Þessi skýrslugerð bankans er nú í mótun. Dómsmálaráðuneytið heldur aðeins yfirlit yfir eignaraðild erlendra aðila að fasteignum í samræmi við lög nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.
     Þjóðhagsstofnun hefur ekki talið hlutverk sitt að sinna skýrslusöfnun um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi. Eina undantekningin er sú að sumarið 1989 kom fyrirspurn frá OECD um þátttöku erlendra fyrirtækja í íslenskum iðnaði.
     Í apríl 1990 tók Seðlabanki Íslands að beiðni forsætisráðherra saman yfirlit yfir erlenda aðila sem eiga hlut í íslenskum fyrirtækjum. Þær upplýsingar ásamt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar voru kynntar í skýrslu forsætisráðherra um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi sem lögð var fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989 90.
     Í gögnum, sem fyrir liggja, má sjá að umsvif erlendra aðila í íslensku atvinnulífi eru ekki umtalsverð enn sem komið er og það jafnvel þó reiknað sé með verulegu vanmati. Hins vegar má fullvíst telja að þessi umsvif muni fara vaxandi.
     Afar brýnt er að koma upplýsingaöflun í fast form þannig að unnt verði að fá góða heildarmynd af umsvifum erlendra aðila í íslensku atvinnulífi hverju sinni og þróun þeirra mála. Í þessu skyni virðist eðlilegt að fyrirtækjum verði gert skylt að tilkynna til einhvers opinbers aðila allar breytingar á eignaraðild útlendinga í viðkomandi fyrirtæki, hvort heldur um er að ræða hlutafélag eða annað rekstrarform. Nærtækast virðist að fela Seðlabanka Íslands þessa skýrslugerð með hliðsjón af því að þetta verk er hafið þar. Í töflum 1 5 sem getið er í lok athugasemda eru dregnar saman helstu upplýsingar Seðlabanka Íslands sem fyrir liggja. Í töflu 6 er yfirlit dómsmálaráðuneytis yfir eignaraðild erlendra fyrirtækja að fasteignum 1970 1990.

5.      ALÞJÓÐLEGT SAMSTARF
5.1.      Viðhorf innan OECD .
     Áður en nánar er vikið að einstökum greinum frumvarpsins þykir rétt að gera nokkra grein fyrir þeim almennu viðhorfum innan lands sem utan er til hliðsjónar voru höfð við gerð þessa frumvarps. Sérstaklega skal þó bent á áðurnefnda skýrslu viðskiptaráðherra og forsætisráðherra um erlenda fjárfestingu og íslenskt atvinnulíf, en þar er bæði að finna yfirlit um gildandi lagaákvæði er lúta að erlendri fjárfestingu hér á landi og um stöðu þessara mála erlendis, einkum í aðildarríkjum Efnahags - og framfarastofnunarinnar (OECD) sem Ísland á aðild að, auk þess sem fjallað er um gildi erlendrar fjárfestingar, aðallega í samanburði við erlendar lántökur.
     Frá því árið 1960, eða frá stofnun OECD, hafa aðildarríki stofnunarinnar verið sammála um að stefna beri að sem mestu frelsi í viðskiptum með fjármagn, vöru og þjónustu. Stefna þessi byggir á því að með auknu frjálsræði í fjármagnsviðskiptum milli landa verði tryggð hámarksnýting þeirra framleiðslugæða sem hagsæld hvílir á. Samþykktir OECD um að stefnt skuli að frjálsum fjármagnshreyfingum taka bæði til beinnar fjárfestingar, svo sem með hlutafjárkaupum, sem og til óbeinnar fjárfestingar, svo sem með lánveitingum. Meginmarkmiðið er að svipað frelsi gildi um fjármagn og almennt þykir sjálfsagt í dag að gildi um viðskipti með vörur og þjónustu.
     Milliríkjaviðskipti með fjármagn og sú efnahagsuppbygging, sem af þessu hlýst, leiða yfirleitt til virkari og víðtækari samskipta ríkja á milli og eru þá líkleg til að leiða til bættrar hagstjórnunar aðildarríkjanna. Jafnframt er stefnt að því að atvinnufyrirtækjum í aðildarríkjum OECD, sem við slíkt frjálsræði búa, séu tryggð jöfn starfsskilyrði samkvæmt lögum og reglugerðum, svo og í stjórnarframkvæmd allri, þótt fyrirtækin séu í eigu eða undir stjórn erlendra aðila.
     Þrátt fyrir frjálslynda stefnu í þessum efnum hafa aðildarríki OECD lagt á það áherslu í samþykktum sínum að ekki séu fyrir borð bornir almennir öryggishagsmunir þeirra né réttur til að standa við gerða samninga á alþjóðavettvangi.
     Í kjölfar stefnuyfirlýsinga OECD og markvissra rannsókna á löggjöf í aðildarríkjum OECD hafa aðildarríkin á undanförnum árum breytt löggjöf sinni og dregið úr takmörkunum á erlendum fjárfestingum. Að sama skapi hefur traust í alþjóðlegum fjárfestingum farið vaxandi. Samhliða þeirri þróun hefur verðmæti erlendrar fjárfestingar OECD - ríkja vaxið verulega.

5.2.      Viðhorf innan EFTA og EB.
     Síðan á fyrri hluta ársins 1989 hafa farið fram viðræður milli fulltrúa EFTA - ríkjanna og smáríkisins Lichtenstein annars vegar og fulltrúa Evrópubandalagsins hins vegar um myndun sameiginlegs markaðssvæðis ríkjanna, sem nú hafa samtals 370 milljónir íbúa. Tengist hugmyndin fyrirhuguðum „innri markaði“ Evrópubandalagsins, þar sem allar hömlur á viðskiptum milli bandalagsríkjanna með vörur, þjónustu og fjármagn skulu úr gildi felldar frá árslokum 1992 að telja. Nú fara fram formlegar samningaviðræður í Brüssel milli aðila.
     Slíkt markaðssvæði eða Evrópska efnahagssvæðið (skammstafað EEA eftir enska heitinu „European Economic Area“) mundi byggjast á fríverslun með vörur og þjónustu og frjálsum flutningum fólks og fjármagns milli ríkjanna.
     Frjálsum flutningum fólks innan EEA mundi fylgja réttur til þess að festa kaup á fyrirtækjum og húsnæði sem þeim fylgir, ásamt íbúðarhúsnæði og frjálsum flutningi fjármagns fylgir réttur til hvers kyns fjárfestinga yfir landamæri ef fylgt verður þeim reglum sem nú gilda innan Evrópubandalagsins.
     EFTA - ríkin hafa gert ýmsa fyrirvara gagnvart fullu frelsi í fjárfestingum yfir landamæri og lúta þeir flestir að fjárfestingu í fasteignum og mikilvægum atvinnugreinum eða fyrirtækjum.
     Íslendingar hafa m.a. lagt sérstaka áherslu á bann við fjárfestingum erlendra aðila á sviði fiskveiða, orkuvinnslu og varðandi fasteignakaup erlendra aðila. Hugtakið fiskveiðisvið hefur enn ekki verið skilgreint nánar af hálfu Íslendinga, en í viðræðunum hefur því verið lýst yfir að það taki bæði til veiða og vinnslu. Þá hafa Íslendingar lýst því yfir að ef úr samningum verði þurfi þeir þriggja til fimm ára (medium term) aðlögunartíma frá árslokum 1992 til þess að aðlaga löggjöf um innlánsstofnanir og vátryggingarstarfsemi að væntanlegri EEA - löggjöf, en í henni felst m.a. að fullt frelsi skal ríkja í slíkum rekstri milli Íslands og annarra EEA - ríkja, þar á meðal gagnkvæmur rekstur til eignarhalds á bönkum.
     Varðandi fjárfestingu erlendra aðila í fasteignum hefur athyglin beinst að reglum Evrópubandalagsins á því sviði, en samkvæmt þeim er heimilt að setja ýmsar hömlur á eignar - og afnotarétt að landareignum að því tilskildu að þær mismuni ekki eftir þjóðerni. Þannig er hægt að setja ýmis almenn skilyrði um nýtingu jarða eins og gert er í íslensku jarðalögunum, sbr. kafla 3.1.2., og þannig koma í veg fyrir óæskileg áhrif sem fylgt gætu eignarhaldi aðila búsettra erlendis á íslenskum bújörðum.
     Þá er gert ráð fyrir því að allar hömlur á gjaldeyrisyfirfærslum milli ríkjanna verði felldar úr gildi, en það er hin almenna regla innan Evrópubandalagsins frá 1. júlí sl., þótt Írland, Spánn, Portúgal og Grikkland hafi undanþágur á ákveðnum sviðum til 1. júlí 1992. Öll EFTA - ríkin hafa nú ýmist afnumið slíkar hömlur eða tekið mikilvæg skref í þá átt. Eru nýjar gjaldeyrisreglur sem gildi tóku 1. september sl. hér á landi þáttur í þessari breytingu, en samkvæmt þeim munu Íslendingar standa jafnfætis öðrum EFTA - ríkjum 1. janúar 1993 að því er varðar fjármagnshreyfingar til og frá landinu að undanskildum skammtíma hreyfingum. Gjaldeyrisreglurnar breyta að sjálfsögðu ekki þeim hindrunum sem nú eru á fjárfestingu erlendra aðila hér á landi samkvæmt ýmsum sérlögum.
     Nefndin hefur ekki tekið afstöðu til þess hvaða fyrirvara Ísland verði að gera um erlenda fjárfestingu í viðræðum við Evrópubandalagið. Samningaviðræðurnar um hið Evrópska efnahagssvæði hafa ekki heldur verið til sérstakrar umfjöllunar í nefndinni sem samdi frumvarp þetta, en reikna má með því að ef úr stofnun EEA verði þurfi að taka til endurskoðunar þau ákvæði sem hér er lagt til að gildi um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, þ.e. að því er varðar borgara annarra EEA - ríkja. Nefndin telur samt sem áður brýnt að lögfesta frumvarpið nú sem fyrst enda núgildandi reglur sundurlausar og ósamstæðar.

6.      HELSTU ÁKVÆÐI FRUMVARPSINS
     Í frumvarpinu er lagt til að aukið samræmi verði tryggt í þeim reglum er um fjárfestingar erlendra aðila gilda og hefur nefndin í því skyni kannað ítarlega þær reglur sem í gildi eru í hinum margvíslegustu atvinnugreinum. Þá er í frumvarpinu gerð tilraun til að skilgreina nokkur hugtök sem þýðingu hafa á sviði erlendrar fjárfestingar. Verður þannig að finna á einum stað lagaumgjörð um réttarstöðu erlendra fjárfestingaraðila.
     Frumvarpið byggir á þeirri stefnu að full yfirráð Íslendinga verði tryggð yfir náttúruauðlindum lands og sjávar. Auk þess geymir frumvarpið nokkrar aðrar takmarkanir á erlendum fjárfestingum hér á landi. Helstu takmarkanir eru á sviði fiskveiða, fiskvinnslu og vegna virkjunarréttinda vatnsfalla og jarðhita. Þá eru skorður reistar við aðild erlendra aðila að viðskiptabönkum, flugrekstri og til kaupa á fasteignum hér á landi. Auk þess er erlend fjárfesting í vissum tilvikum háð leyfi. Með frumvarpi þessu er þó almennt lagt til að um verulega rýmkun verði að ræða varðandi rétt erlendra aðila til fjárfestingar í atvinnurekstri hér á landi. Jafnframt er lögð áhersla á eftirlit með erlendri fjárfestingu og að þeir erlendir aðilar, sem hér fjárfesta, lúti í einu og öllu íslenskum lögum, þar á meðal skattalögum og lögsögu íslenskra dómstóla.
     Nefndin telur að með því frumvarpi, sem hér liggur fyrir, sé stigið mikilvægt skref í þá átt að erlent áhættufé geti í ríkara mæli komið í staðinn fyrir erlent lánsfé við fjármögnun atvinnurekstrar hér á landi. Frumvarp þetta mun því, ef að lögum verður, hafa mikilvæg áhrif á vaxtar - og þróunarskilyrði atvinnufyrirtækja innan fjölmargra atvinnugreina. Auknir möguleikar innlendra fyrirtækja til samvinnu við erlenda aðila, einkum í framleiðslu - og útflutningsgreinum, geta skapað ný tækifæri sem leitt geta til aukinnar verðmætasköpunar innan lands og þar af leiðandi til aukinnar hagsældar þjóðarbúsins í heild, svo sem vegna aukinna skatttekna, hærri vinnulauna, aukinnar þekkingar og lækkaðs verðlags svo að eitthvað sé nefnt. Er og vert að hafa hugfast í þessu sambandi að fáar þjóðir eru svo háðar utanríkisviðskiptum sem Íslendingar. Fer og í vöxt að íslenskir aðilar reki og taki þátt í atvinnufyrirtækjum í öðrum löndum. Á hitt ber þó jafnframt að líta að þótt heimildir erlendra aðila til að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi verði rýmkaðar er ekki þar með sagt að vænta megi mikils áhuga erlendra aðila. Hér eru ekki í boði neinir sérstakir fjárfestingarhvatar eins og víða annars staðar, heimamarkaðurinn er lítill, fjarlægðir frá öðrum mörkuðum verulegar og náttúruauðæfi ekki fjölbreytt. Verði frumvarp þetta að lögum ættu þó a.m.k. ekki lagalegir óvissuþættir og hindranir að þurfa að standa í vegi fyrir fjárfestingu erlendra aðila í sama mæli og til þessa sé áhugi erlendra aðila á annað borð fyrir hendi.
    Helstu ákvæði frumvarpsins eru í stuttu máli þessi:
6.1.        Erlendum aðila er veitt almenn heimild til fjárfestingar í atvinnurekstri hér á landi, enda ríki gagnkvæmni erlendra og innlendra aðila til fjárfestinga í heimaríkjum aðila, sbr. 3..gr.
6.2.        Helstu takmarkanir á fjárfestingum erlendra aðila eru raktar ítarlega í 4. gr.
6.3.        Skylt er að tilkynna til Seðlabanka Íslands fjárfestingar erlendra aðila, sbr. 1. mgr. 5. gr.
6.4.        Seðlabanka Íslands er gert skylt að veita opinberlega upplýsingar um erlenda fjárfestingu hérlendis, sbr. 2. mgr. 5. gr.
6.5.        Erlendum aðila er veitt heimild til fjármagnsflutninga til landsins vegna fjárfestinga, sbr. 6. gr.
6.6.        Erlendum aðila er veittur yfirfærsluréttur í erlendan gjaldmiðil vegna arðs, hagnaðar og söluandvirðis fjárfestingar, sbr. 7. gr.
6.7.        Í íslensku atvinnufyrirtæki eins og það er skilgreint í frumvarpinu skulu framkvæmdastjóri og meiri hluti stjórnar eiga lögheimili hér á landi, en erlendur aðili getur átt slíkt fyrirtæki að verulegu leyti eða að öllu leyti, sbr. 8. gr.
6.8.        Viðskiptaráðherra fer með leyfisveitingar samkvæmt lögunum og getur stöðvað eða bannað fjárfestingar erlendra aðila í ákveðnum tilvikum, sbr. 9. og 10. gr.
6.9.        Fimm manna nefnd um erlenda fjárfestingu er ráðherra til ráðuneytis um leyfisveitingar, sbr. 10. gr.
6.10.    Í fylgifrumvarpi eru gerðar ýmsar breytingar á sérlögum í samræmi við meginreglur aðalfrumvarpsins. Miða margar þeirra að því að jafna lögheimili erlends aðila hér á landi í tiltekinn tíma við ríkisborgararétt þegar um atvinnustarfsemi er að ræða.
     Um helstu takmarkanir á erlendri fjárfestingu vísast til 4. gr. frumvarpsins og athugasemda við þá grein.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er gildissvið frumvarpsins afmarkað. Samkvæmt þessari grein eiga lögin að gilda um fjárfestingu erlendra aðila, sbr. nánari skilgreiningu á fjárfestingu og erlendum aðilum í 2. gr., en ekki um venjulegar lánveitingar eða aðra fjármagnsflutninga erlendra aðila til landsins sem ekki tengjast eignar - eða rekstraraðild þeirra að atvinnurekstri hér á landi. Þá tekur frumvarpið einungis til fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri, en ekki til annarrar hugsanlegrar fjárfestingar erlendra aðila hér á landi, svo sem fjárfestingar í skuldabréfum, frímerkjum, málverkum eða öðrum verðmætum. Tekið er fram að frumvarpið gildi um hvers kyns fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi, nema annað leiði af sérákvæðum annarra laga eða reglum settum samkvæmt þeim. Í því sambandi skal minnt á að í gildi eru sérstök lög um heimildir erlendra aðila til þátttöku í tilteknum stóriðjuverum, svo sem lög nr. 76/1966, um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd., um álbræðslu við Straumsvík, ásamt síðari lögum um lagagildi viðaukasamninga milli sömu aðila, lög nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, ásamt síðari breytingum og viðaukum, lög nr. 18/1977, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, ásamt síðari breytingum og lög nr. 70/1982, um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Frumvarpið gildir um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi hvort sem hinn erlendi aðili hyggst stunda hér atvinnurekstur beint í eigin nafni eða með eignaraðild að íslensku atvinnufyrirtæki. Með orðunum hér á landi er átt við í íslenskri lögsögu.

Um 2. gr.


     Hér eru helstu hugtök skilgreind. Búseta einstaklings og heimili lögaðila eru lögð til grundvallar varðandi skilgreiningu á því hver teljist vera erlendur aðili í skilningi frumvarpsins. Þannig telst t.d. íslenskur ríkisborgari sem á lögheimili erlendis vera erlendur aðili. Er þetta í samræmi við þá stefnu sem fylgt er t.d. hjá OECD þar sem áherslan liggur á búsetunni en ekki þjóðerninu. Til erlends aðila telst og íslenskt atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum, en þá er átt við að erlendur aðili eða aðilar eigi meiri hluta fyrirtækisins eða fari með meiri hluta atkvæðisréttar í því þótt minnihlutaeigandi sé eða hafi með öðrum hætti, svo sem með stjórnunarsamningi, raunveruleg yfirráð yfir viðkomandi atvinnufyrirtæki. Ástæðan fyrir því að íslenskt atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum er í frumvarpinu skilgreint sem erlendur aðili er sú að þannig á að reyna að girða fyrir að erlendur aðili geti farið bakdyramegin inn á svið þar sem fjárfestingu erlendra aðila eru skorður settar. Ella gæti erlendur aðili fyrst stofnað eða fjárfest í atvinnufyrirtæki hér á landi sem þar með teldist íslenskur aðili og það fyrirtæki síðan fjárfest á umræddu sviði. Sé hins vegar um að ræða íslenskt atvinnufyrirtæki sem íslenskir aðilar hafa yfirráð yfir þótt erlendir aðilar eigi jafnframt hlut í því eru ákvæði frumvarpsins ekki því til fyrirstöðu að slíkt fyrirtæki fjárfesti í öðru atvinnufyrirtæki hér á landi. Við mat á því hvort um fjárfestingu er að ræða getur það ráðið úrslitum hvort um er að ræða framlag til eigin fjár viðkomandi atvinnufyrirtækis. Lánveiting telst því ekki fjárfesting nema um sé að ræða lán í einhverju því formi sem skattyfirvöld viðurkenna eða úrskurða að flokka beri sem eigið fé viðkomandi fyrirtækis. Hér mundu einkum geta komið til álita svonefnd víkjandi lán. Auk þess sem nú er nefnt teljast kaup á eignarhlut sem fyrir er í atvinnufyrirtæki að sjálfsögðu vera fjárfesting þótt endurgjaldið renni þá ekki alltaf til fyrirtækisins sjálfs, heldur til þeirra sem áttu eignarhlut fyrir.

Um 3. gr.


     Í 3. gr. kemur fram sú meginstefna frumvarpsins að erlendum aðilum sé heimilt að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi með þeim takmörkunum einum sem af öðrum ákvæðum frumvarpsins og ákvæðum sérlaga leiðir og að uppfylltum öðrum skilyrðum og að fengnum tilskildum leyfum lögum samkvæmt. Fjórða grein frumvarpsins hefur að geyma ákvæði um ýmis frávik frá þessari meginreglu. Einnig leiðir af ákvæðum ýmissa annarra laga að á sumum sviðum er í reynd útilokað fyrir erlenda aðila að fjárfesta. Sem dæmi má nefna að samkvæmt áfengislögum, póstlögum og lögum um Áburðarverksmiðju ríkisins hafa tiltekin ríkisfyrirtæki einkarétt til starfrækslu á ákveðnum sviðum. Enn fremur takmarka lög um viðskiptabanka rétt erlendra banka til að stunda bankastarfsemi hér á landi. En eftir sem áður felst í 3. gr. frumvarpsins sú grundvallarstefna að erlendum aðilum sé heimilt að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi að því marki sem slíkri fjárfestingu eru ekki bein takmörk sett. Fjárfesting erlendra aðila er þó með sama hætti og fjárfesting íslenskra aðila háð því að almennum lagaskilyrðum sé fullnægt, enda verða erlendir aðilar sem reka atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni sem og íslensk atvinnufyrirtæki með erlendri eignaraðild í einu og öllu háð íslenskum lögum og reglum og lúta lögsögu íslenskra dómstóla að því er varðar starfsemina hér á landi.
     Samkvæmt gildandi lögum er ýmis atvinnustarfsemi háð sérstöku leyfi stjórnvalda, oft ráðherra. Má nefna sem dæmi um slík leyfi iðnaðarleyfi, verslunarleyfi, leyfi til reksturs ferðaskrifstofu og leyfi til vátryggingarstarfsemi. Hin ýmsu sérlög geyma ákvæði um hæfisskilyrði, svo sem um menntun og starfsreynslu, sem uppfylla þarf til að leyfi eða löggildingu megi veita til starfa á viðkomandi sviði. Fjárfesting erlendra aðila verður að sjálfsögðu því háð að hinir erlendu aðilar eða íslensk atvinnufyrirtæki, sem þeir hyggjast taka þátt í að stofna eða kaupa sig inn í, uppfylli sett skilyrði og hafi tilskilin leyfi. Það er síðan mismunandi eftir atvinnugreinum hvar leyfisveitingarvaldið liggur.
     Í niðurlagi greinarinnar er settur sá almenni fyrirvari að íslenskir aðilar njóti ekki lakari réttar til fjárfestingar í heimaríki þess aðila sem hér óskar að fjárfesta.

Um 4. gr.


     Fjórða grein frumvarpsins hefur að geyma ýmsar undantekningar frá meginreglu 3. gr. Þær takmarkanir, sem þar er kveðið á um, eru af tvennum toga. Í fyrsta lagi eru lagðar fyrirfram hömlur við fjárfestingu erlendra aðila á tilteknum sviðum, þ.e. í útgerð, fiskvinnslu, virkjun vatnsfalla og jarðhita, í viðskiptabönkum, í flugrekstri og til kaupa og afnota á fasteignum sbr. 1. 5. tölul. og 9. tölul. 4. gr. Í öðru lagi verður tiltekin fjárfesting háð leyfi ráðherra, sbr. 6. 8. tölul. 4. gr. Í þriðja lagi getur ráðherra í sérstökum tilvikum stöðvað tiltekna erlenda fjárfestingu, sbr. 2. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 10. gr.
     Verður nú vikið nánar að hverjum tölulið 4. gr. fyrir sig.

Um 1. tölul.


     Í 1. tölul. er vísað til laga nr. 33/1922, um rétt til fiskiveiða í landhelgi, að því er varðar efnisregluna um það hverjir stunda megi fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.
     Að þessu leyti er hér annar háttur á hafður en víðast er fylgt í frumvarpinu því að við gerð frumvarpsins var leitast við flytja efnisákvæði um heimildir erlendra aðila til að fjárfesta í íslenskum atvinnurekstri úr hinum ýmsu sérlögum í þau heildarlög sem hér er gerð tillaga um. Ástæða þess að þessi leið var valin hvað varðar rétt til fiskveiða er sú að ýmis önnur ákvæði laga nr. 33/1922, sem og ákvæði í öðrum lögum, byggja á ákvæðum 1. og 2. gr. laga nr. 33/1922, þar sem kveðið er á um hverjir stunda megi veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þótti því ekki fært að flytja þessi ákvæði úr lögunum. Þar sem frumvarpi þessu er ætlað að draga upp sem heillegasta mynd af þeim reglum, sem um erlenda fjárfestingu eiga að gilda, þykir rétt engu að síður að 4. gr. geymi tilvísun til laga nr. 33/1922. Jafnframt er svipuð aðferð notuð hvað 9. tölul. 4. gr. snertir, þar sem vísað er til laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.
     Samkvæmt núgildandi ákvæðum laga nr. 33/1922 mega íslenskir ríkisborgarar einir reka fiskveiðar í landhelgi við Ísland og má aðeins hafa íslenska báta eða skip til veiðanna. Tekið er fram að íslenskir kallist þeir bátar eða skip sem íslenskir ríkisborgarar eiga einir. Þrátt fyrir þessa meginreglu mega erlendir ríkisborgarar skv. 11. gr. laga nr. 33/1922 eiga í hlutafélögum sem fiskveiðar stunda í landhelgi, svo lengi sem meira en helmingur hlutafjárins er eign íslenskra ríkisborgara, félagið á heimili á Íslandi og stjórn þess er skipuð íslenskum ríkisborgurum, enda sé a.m.k. helmingur þeirra búsettur hér á landi.
     Í a - lið 1. gr. fylgifrumvarps þessa frumvarps er gerð tillaga um nokkra breytingu á lögum nr. 33/1922. Eru þessar breytingar þríþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að úr gildi verði numin heimild erlendra aðila til að eiga allt að helmingi hlutafjár í útgerðarhlutafélögum. Er og með því leitast við að laga löggjöfina að þeirri stefnumörkun að þrátt fyrir rýmkun á heimildum erlendra aðila til að fjárfesta í íslenskum atvinnurekstri skuli tryggt að ekki aðrir en íslenskir aðilar nái tökum á náttúruauðlindum lands og sjávar. Samkvæmt 1. tölul. er skýrt tekið fram að heimild til fiskveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands er bundin við íslenska ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi og lögaðila sem eiga heimili hér og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi. Í öðru lagi er með b - lið 1. gr. fylgifrumvarpsins gerð tillaga um þá breytingu á lögum nr. 33/1922 að í stað þess að miða við að þeir bátar og þau skip teljist íslensk í skilningi laganna sem íslenskir ríkisborgarar einir eiga sé við það miðað að þeir bátar og þau skip teljist íslensk sem skráð eru hér á landi. Ræðst það þá af skilyrðum laga um skráningu skipa á hverjum tíma, sbr. 24. gr. fylgifrumvarps. Í þriðja lagi er lagt til að niður falli 8. og 11. gr. úr lögum nr. 33/1922, bæði vegna þess að tillaga er gerð um að niður verði felld heimild erlendra aðila til eignaraðildar að útgerðarfélögum vegna þess að ákvæðin eru að nokkru leyti úrelt og vegna þess að þau hafa gefið tilefni til lagaóvissu um það hvort erlendir aðilar mættu reka eða eiga hlut í fiskvinnslu hér á landi. Um það er fjallað í 2. tölul. 4. gr.


Um 2. tölul.


     Hér er lagt til að öðrum en íslenskum ríkisborgurum sem eiga lögheimili hér á landi og lögaðilum sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis skuli óheimilt að eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða. Í greininni er ítarlega lýst hvað felst í orðunum vinnsla sjávarafurða.
     Fiskiðnaður Íslendinga er viðkvæm atvinnugrein í harðri erlendri samkeppni og hún byggist á fullnýttum auðlindum sjávar. Því þykir rétt að setja fjárfestingarheimildum erlendra aðila í vinnslu sjávarafurða nokkrar skorður þótt ágreiningslaust sé að rétturinn til sjálfra veiðanna skipti mestu varðandi yfirráð yfir þessari mikilvægustu náttúruauðlind þjóðarinnar.
     Samkvæmt skilgreiningu greinarinnar á „vinnslu sjávarafurða“ er erlendum aðilum hins vegar heimilt að taka þátt í atvinnurekstri á sviði útflutnings á ferskum fiski og vinnslu í neytendaumbúðir svo nokkuð sé nefnt.

Um 3. tölul.


     Hér er lagt til að virkjunarréttur vatnsfalla og jarðhita annarra en til heimilisnota verði eingöngu bundinn við íslenska ríkið, sveitarfélög, íslenska ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi og íslenska lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að fullu í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér. Tekið er skýrt fram að sama eigi við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu. Erlendir aðilar eiga þess því ekki kost að fjárfesta í atvinnufyrirtækjum á þessu sviði.

Um 4. tölul.


     Samkvæmt þessum tölulið er eignaraðild erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki sem stundar flugrekstur hér á landi bundin við 49% að hámarki. Nauðsynlegt þykir a.m.k. fyrst um sinn að tryggja full yfirráð íslenskra aðila í flugrekstri hérlendis og milli landa, enda sá þáttur þýðingarmikill í eðlilegum og nauðsynlegum flutningum bæði innan lands og til og frá landinu. Sveiflur í flugrekstri geta verið miklar og því nauðsynlegt að stjórnvöld geti ráðið því hverslu mikil þátttaka erlendra aðila verður í einstökum fyrirtækjum á þessu sviði. Sömu sjónarmið eiga hins vegar ekki að öllu leyti við hvað farmflutninga á sjó varða enda sá rekstur yfirleitt stöðugri og ekki háður eins miklum sveiflum. Takmarkanir á því sviði eru því ekki lagðar til í frumvarpi þessu.

Um 5. tölul.


     Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 86/1985 skal hlutafé í hlutafélagsbanka allt vera í íslenskri eigu. Með 15. gr. laga nr. 7/1987, um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands, var gerð undantekning að því er varðar Útvegsbanka Íslands hf. og kveðið svo á að bönkum sem eiga lögheimili og varnarþing erlendis skuli heimilt að eiga á hverjum tíma samtals allt að 25% hlutafjár í bankanum. Hér er lagt til að aflétt sé hinu algjöra banni viðskiptabankalaganna við erlendri eignaraðild, en samanlögð hlutafjáreign erlendra aðila í hlutafélagsbanka megi þó á hverjum tíma ekki vera meiri en 25% hlutafjár hlutafélagsbankans. Samkvæmt viðskiptabankalögum getur einungis verið um að ræða tvenns konar viðskiptabanka hér á landi, ríkisviðskiptabanka í eigu ríkisins og hlutafélagsbanka. Eignaraðild erlendra aðila takmarkast því eðli málsins samkvæmt við hlutafélagsbanka. Heimild erlendra aðila til takmarkaðrar eignaraðildar að hlutafélagsbönkum einskorðast samkvæmt frumvarpinu ekki við erlenda banka heldur verður að fullnægðum öðrum skilyrðum frumvarpsins hvaða erlendum aðila sem er heimilt að gerast hluthafi í hlutafélagsbanka.
     Sú takmörkun, sem í töluliðnum felst, tekur einvörðungu til hlutafélagsbanka. Hún nær hins vegar ekki til annarra fyrirtækja á íslenskum fjármagnsmarkaði, svo sem verðbréfafyrirtækja, fjárfestingarfyrirtækja, fjármögnunarleigna og greiðslukortafyrirtækja. Samkvæmt frumvarpinu gæti aðild erlendra aðila að slíkum fyrirtækjum á hinn bóginn takmarkast af ákvæðum annarra töluliða 4. gr.
     Til viðbótar framangreindu er gert ráð fyrir því að erlendum hlutafélagsbönkum verði heimilt eftir 1. janúar 1992 að setja upp útibú hér á landi. Rétt þykir að miða slíka heimild við 1. janúar 1992 svo að hæfilegur tími gefist til aðlögunar. Einnig þarf fyrir þann tíma að breyta viðskiptabankalögum í þessa átt. Í fylgifrumvarpi er ekki gert ráð fyrir slíkri breytingu.

Um 6. tölul.


     Hér er lagt til að til þurfi að koma sérstakt leyfi viðskiptaráðherra til þess að erlent ríki eða fyrirtæki í eigu erlends ríkis geti og megi fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi. Fyrir þessari skipan eru þau rök að áhugi erlends ríkis til að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi getur stafað af öðru en voninni um fjárhagslegan ávinning af slíkri fjárfestingu. Þykir því rétt að tækifæri gefist til að skoða hvert tilvik sérstaklega.

Um 7. tölul.


     Með þessum tölulið er sleginn ákveðinn varnagli að því er varðar umfang fjárfestinga einstakra erlendra aðila hér á landi.
     Samkvæmt þessum tölulið þarf sérstakt leyfi viðskiptaráðherra til að koma til þess að heildarfjárfesting erlends aðila eða samanlögð fjárfesting fjárhagslega tengdra aðila geti farið fram úr ákveðinni fjárhæð á ári hverju. Gildir þá einu hvort fyrirhuguð fjárfesting felur í sér meirihlutaeign eða minnihlutaeign í viðkomandi atvinnufyrirtæki. Ekki er ástæða til að ætla að oft muni að vænta erlendrar fjárfestingar af þeirri stærð sem í töluliðnum greinir eða að slík fjárfesting, ef af yrði, orki þá að einhverju leyti tvímælis. Ákvæði töluliðarins er eingöngu á því byggt að eðlilegt sé að gæta vissrar varfærni þegar stærri fjárfesting er annars vegar.
     Þá er jafnframt eðlilegt a.m.k. fyrst í stað að binda fjárfestingu erlendra aðila við 25% að hámarki í tilteknum atvinnugreinum, þ.e. í iðnaði, öðrum en orkufrekum iðnaði, verslun og þjónustu, samgöngurekstri og fiskeldi. Ástæðulaust er að óttast um hlut erlendra aðila í sjávarútvegi, m.a. vegna þeirra takmarkana sem fram koma í 1. og 2. tölul. 4. gr. og landbúnaði vegna þeirra takmarkana sem fram koma í lögum um landbúnaðarmál. Með heildarfjárfestingu er átt við áætlaða fjárfestingu í viðkomandi atvinnugrein samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar hverju sinni.

Um 8. tölul.


     Í þessum tölulið er kveðið á um það hvernig með skuli fara ef erlendur aðili vill reka atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni, en ekki með aðild að íslensku atvinnufyrirtæki. Greint er á milli þess hvort um er að ræða erlendan einstakling, erlent hlutafélag eða annan erlendan lögaðila. Í hlutafélagalögum eru ákvæði um heimildir erlendra hlutafélaga til að starfa hér á landi, sbr. XVII. kafla laga nr. 32/1978, um hlutafélög, og er tekið fram í b - lið að um rétt hlutafélags, sem á heimili erlendis til að starfa hér á landi, fari samkvæmt þeim ákvæðum. Viðskiptaráðherra getur veitt öðrum erlendum lögaðilum leyfi til að starfa hér á landi, enda sé þá að því er varðar slíka lögaðila og starfsemi þeirra hér á landi fullnægt sömu skilyrðum og fylgt sömu meginreglum og að því er varðar erlend hlutafélög sem starfa hér á landi. Þá segir að einstaklingi, sem búsettur er erlendis, sé óheimilt að vinna sjálfstætt, starfrækja eigið atvinnufyrirtæki eða taka þátt í fyrirtæki með ótakmarkaðri ábyrgð hér á landi, nema með sérstöku leyfi viðskiptaráðherra. Sé búseta hins vegar óundanþægt skilyrði samkvæmt lögum um viðkomandi atvinnugrein eins og oftast er eða veiting undanþágu frá búsetuskilyrðinu falin öðrum getur viðskiptaráðherra ekki veitt viðkomandi einstaklingi leyfi. Til kasta viðskiptaráðherra kemur því fyrst og fremst ef um er að ræða áhuga erlendra einstaklinga á að stunda hér atvinnustarfsemi sem ekki hafa verið sett nein sérstök lög um. Í þeim tilvikum gæti ráðherra t.d. bundið leyfi því skilyrði að viðkomandi einstaklingur hafi fyrirsvarsmann með heimilisfesti hér á landi og helgast það m.a. af réttarfarsástæðum.

Um 9. tölul.


     Í 1. mgr. er tekið fram að erlendur aðili megi öðlast eignarréttindi og afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni enda sé farið að lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966. Með beinni notkun er hér átt við notkun í þarfir atvinnurekstrar.
     Gera verður ráð fyrir því að erlendir aðilar geti eignast fasteignir og önnur eignarréttindi á uppboði eða við nauðasamninga sem veðhafi. Eignarréttindi, sem erlendum aðila er óheimilt að eiga, geta þannig komist í hans eigu. Í 2. mgr. er því tekið fram að við slíkar aðstæður skuli hinn erlendi aðili selja eignina svo fljótt sem verða má og eigi síðar en tólf mánuðum eftir að eignin komst í hans eigu. Með öðrum eignarréttindum er átt við eignir og réttindi sem upp eru talin í 4. gr. frumvarpsins og takmarkanir eru bundnar við.

Um 5. gr.


     Hér er lagt til að öll erlend fjárfesting verði tilkynningarskyld til gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands jafnskjótt og samningur eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir. Tilkynningarskyldan tekur jafnt til viðbótarfjárfestingar erlends aðila í atvinnufyrirtæki, sem hann á þegar í, sem og fjárfestingar í nýju fyrirtæki eða starfandi fyrirtæki sem hann hefur ekki átt í áður. Tímabilið, sem stöðvunarheimild skv. 2. mgr. 10. gr. stendur, hefst þegar gjaldeyriseftirlitinu berst tilkynning um hlutaðeigandi fjárfestingu.
     Í 2. mgr. 5. gr. er lögð sú skylda á Seðlabanka Íslands að birta opinberlega fyrri hluta hvers árs upplýsingar um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi næsta ár á undan, svo og upplýsingar um heildarfjárfestingu erlendra aðila hérlendis eftir atvinnugreinum.
     Í 3. mgr. er tekið fram að gjaldeyriseftirlitið hafi sams konar rétt til upplýsingaöflunar og athugana vegna fjárfestingar erlendra aðila og það hefur samkvæmt lögum um skipan gjaldeyris - og viðskiptamála.

Um 6. 7. gr.


     Í 6. gr. og 7. gr. frumvarpsins er lagt til að tekin verði af öll tvímæli í lögum um rétt erlends fjárfestingaraðila til innflutnings á erlendu fjármagni vegna fjárfestingar og yfirfærslu þess í íslenskar krónur, um tilkynningarskyldu slíks fjármagnsflutnings og um rétt aðila til að flytja arð og söluandvirði eða annað endurgreiðsluverð úr landinu að nýju. Samkvæmt lögum nr. 63 1979, um skipan gjaldeyris - og viðskiptamála, og reglum settum samkvæmt þeim, er greiðsla arðs til erlendra aðila, sem hér hafa fjárfest, svo og endurgreiðsla á verðmæti fjárfestingar, svo sem vegna sölu á eignarhlut eða slita á atvinnufyrirtæki, háð leyfi og frjálsu mati gjaldeyrisyfirvalda. Sú skipan er til þess fallin að vekja tortryggni og efasemdir hjá hugsanlegum fjárfestingaraðilum. Með 7. gr. er þeirri óvissu eytt. Um framkvæmd gjaldeyrisyfirfærslna vegna fjármagnsflutninga til og frá landinu í tengslum við erlenda fjárfestingu skal fara samkvæmt gildandi lögum og reglum um framkvæmd gjaldeyrismála á hverjum tíma. Aðrar fjármagnsgreiðslur til og frá landinu munu áfram háðar óbreyttum lögum og reglum.

Um 8. gr.


     Í 8. gr. frumvarpsins er sett fram sú meginregla að framkvæmdastjórar og meiri hluti stjórnarmanna í íslenskum atvinnufyrirtækjum skuli eiga lögheimili hér á landi óháð eignarhlut, atkvæðisrétti eða öðrum yfirráðum erlendra aðila. Viðskiptaráðherra getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði. Hér er um að ræða svipað ákvæði og gildir varðandi búsetu framkvæmdastjóra og meiri hluta stjórnarmanna í hlutafélögum, sbr. 2. mgr. 50. gr. hlutafélagalaga, en þetta verður nú almenn regla óháð félagsformi.

Um 9. gr.


     Samkvæmt 9. gr. mun viðskiptaráðherra fara með leyfisveitingar og annast eftirlit með framkvæmd laganna ef frumvarpið verður að lögum, að svo miklu leyti sem tiltekið eftirlit eða leyfisveiting er ekki samkvæmt ákvæðum frumvarpsins beinlínis falið öðrum. Öll rök hníga að því að eftirlit með hvers kyns erlendri fjárfestingu, leyfisveitingar og vald til að stöðva tiltekna erlenda fjárfestingu heyri undir einn ráðherra þegar ein fjárfestingarlög koma í stað ákvæða í mörgum og mismunandi lögum. Með því að gjaldeyris - og viðskiptamál falla undir viðskiptaráðherra er lagt til að hann fari með yfirstjórn mála sem varða erlenda fjárfestingu. Í þessu sambandi er þó rétt að endurtaka það sem áður greinir að veiting leyfa til að stunda ákveðna atvinnustarfsemi verður, þar sem slíkra leyfa er krafist, áfram í höndum sömu stjórnvalda og áður.
     Samkvæmt 2. mgr. er lagt til að viðskiptaráðherra geti gripið inn í og bannað erlendum aðila að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi ef viðkomandi aðili hefur verið sviptur réttindum til að stunda atvinnurekstur með dómi í öðru ríki. Sömu heimild hefur viðskiptaráðherra ef íslenskir aðilar njóta ekki sambærilegra réttinda til fjárfestinga í heima - eða upprunaríki hins erlenda aðila.

Um 10. gr.


     Í 1. mgr. er lagt til að sérstök nefnd, nefnd um erlenda fjárfestingu, verði viðskiptaráðherra til ráðuneytis um leyfisveitingar samkvæmt frumvarpinu og umsagnaraðili um einstök mál. Lagt er til að nefndin verði skipuð fimm mönnum kosnum hlutfallskosningu í sameinuðu þingi eftir hverjar almennar þingkosningar. Á sama hátt skulu kosnir jafnmargir varamenn. Viðskiptaráðherra skipar síðan formann og varaformann úr hópi hinna þingkjörnu nefndarmanna. Formaður nefndarinnar boðar hana til funda en viðskiptaráðherra ákveður þóknun hennar.
     Samkvæmt 2. mgr. þarf nefndin að hafa komist að þeirri niðurstöðu að nánar tilgreind skilyrði séu fyrir hendi til þess að viðskiptaráðherra geti stöðvað tiltekna erlenda fjárfestingu. Stöðva má tiltekna fjárfestingu ef hún er talin ógna öryggi landsins, skerða verulega samkeppni fyrirtækja í viðkomandi atvinnugrein eða ef hún er á annan hátt til þess fallin að hafa óæskileg áhrif á atvinnulíf í landinu. Þessu ákvæði er ætlað að vera ákveðinn öryggisventill vegna fjárfestingar erlendra aðila sem hættuleg þykir eða óæskileg, en er hvorki bönnuð né háð leyfi ráðherra samkvæmt öðrum töluliðum 4. gr. eða samkvæmt ákvæðum annarra laga. Ógnun við öryggi landsins getur bæði falið í sér ógnun við innra og ytra öryggi landsins. Með verulegri skerðingu á samkeppni fyrirtækja í viðkomandi atvinnugrein er fyrst og fremst átt við tilvik sem ætla má að gangi þvert á löggjöf um auðhringa og hringamyndanir, ef sett hefðu verið, með hliðsjón af ákvæðum slíkrar löggjafar í nágrannalöndum. Ekki er fyrir fram unnt að sjá fyrir á tæmandi hátt þau dæmi sem upp gætu komið um fjárfestingu erlendra aðila sem þættu til þess fallin að hafa óæskileg áhrif á atvinnulíf í landinu. Þar verður reynslan að skera úr. Þótt það leiði þannig af eðli máls að útilokað sé að skilgreina nákvæmlega í lögum skilyrði fyrir því að stöðvunarheimild þessari sé beitt og þar hljóti ávallt að verða að vera visst svigrúm fyrir frjálst mat er ljóst að ákvæðinu er eingöngu ætlað að vera nokkurs konar varnagli sem ekki sé gripið til nema nauðsyn beri til. Því er lagt til að viðskiptaráðherra geti því aðeins stöðvað erlenda fjárfestingu á grundvelli þessa töluliðar að fyrir liggi álit nefndar um erlenda fjárfestingu, um að skilyrði fyrir beitingu stöðvunarheimildar séu fyrir hendi. Til þess að erlendir aðilar þurfi ekki að vera lengi í óvissu um það hvort tiltekin fjárfesting nær fram að ganga, en það eitt og sér er til þess fallið að draga úr áhuga erlendra aðila á að fjárfesta í tilteknu landi ef lengi þarf að bíða niðurstöðu um það hvort fjárfesting verður heimiluð eða stöðvuð, er tekið fram að það sé skilyrði fyrir stöðvun fjárfestingar að ákvörðun þar að lútandi sé kunngerð innan átta vikna frá því að réttum stjórnvöldum berst tilkynning um hlutaðeigandi fjárfestingu.

Um 11. gr.


     Samkvæmt þessari grein er viðskiptaráðherra heimilað að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna í reglugerð.

Um 12. gr.


     Hér er lagt til að brot gegn ákvæðum laganna og reglum settum samkvæmt þeim varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
     Meðal brota gegn lögunum má nefna að ekki sé tilkynnt um erlenda fjárfestingu eða fjármagnsflutninga vegna hennar, að ekki séu virtar fjárfestingartakmarkanir 4. gr. og að leyfis viðskiptaráðherra sé ekki leitað til erlendrar fjárfestingar þegar skylt er. Refsiábyrgðin getur eftir atvikum og almennum reglum ýmist legið hjá erlendum og/eða innlendum aðilum.

Um 13. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.