Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 367 . mál.


Sþ.

644. Tillaga til þingsályktunar



um sérstakan áhættulánasjóð og tæknigarða.

Flm.: Guttormur Einarsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á fót sérstakri sjálfseignarstofnun, Áhættulánasjóði Íslands, til þess að kosta undirbúning og koma af stað framleiðslu samkvæmt arðvænlegum hugmyndum einstaklinga. Sjóðurinn starfræki almenna tæknigarða þar sem veitt er aðstoð við smíði á frumeintökum og þróun þeirra.

Greinargerð.


     Mál þetta var flutt á 110. löggjafarþingi af sjö þingmönnum Borgaraflokksins en hlaut ekki afgreiðslu. Síðan þá hefur þörfin fyrir áhættulánasjóð og almenna tæknigarða aukist svo að í óefni er komið og því er málið endurflutt. Öll meginatriði upphaflegrar greinargerðar eru í fullu gildi og verður því stuðst við þau.
     Á síðustu árum hefur stórfelld vakning orðið í öllum nágrannalöndum okkar hvað snertir nýsköpun á framleiðsluvörum, vélum og tækjum sem bæta samkeppnisaðstöðu á öllum sviðum iðnaðar- og útflutningsframleiðslu.
     Með því að beina athyglinni að hugmyndum einstaklinga hafa komið fram fjölmargar tillögur sem fela í sér arðvænlegar nýjungar. Gott dæmi þess er árangursríkt samstarf félaga hugvitsmanna í Danmörku, DAFFO, og Svíþjóð, SUF, við hið opinbera um áhættufjármagn og tæknigarða. Hér nægir að benda á „Opfinderkontoret“ í Danmörku, en Danir telja nú að starfsemi þessa tæknigarðs hafi gefið danska ríkinu að jafnvirði 74 kr. fyrir hverja eina sem það lagði fram við stofnun hans. „Opfinderkontoret“ er bæði rannsóknastofnun sem leggur mat á nýjar hugmyndir, og alhliða tæknigarður þar sem álitlegar hugmyndir eru teknar til frumsmíði. Fyrir tilstuðlan þessarar stofnunar er útvegað áhættufjármagn og góðum hugmyndum komið í framleiðslu.
     Þar sem íslenskur fjármagnsmarkaður er með allt öðrum hætti en tíðkast erlendis er talið óhjákvæmilegt að íslensk stjórnvöld stofni sérstakan áhættulánasjóð fyrir nýsköpun í atvinnulífinu og annist rekstur hans fyrstu árin. Er gert ráð fyrir að í lögum um sjóð þennan verði kveðið sérstaklega á um matsnefnd til að fjalla um hugmyndir og ákveða framkvæmdir með hliðsjón af nýnæmisprófun og einkaleyfishæfni.
     Sjóðnum er ekki ætlað að krefjast fasteignaveðs til tryggingar fyrir veitt framkvæmdalán en tryggja þess í stað endurgreiðslu með raunsæju mati stjórnar og matsnefndar á verðmæti viðkomandi hugmyndar. Eftir að framkvæmdir hafa verið ákveðnar greiðir sjóðurinn höfundi laun geti hann fylgt verkefninu úr hlaði og starfað að framgangi þess. Þegar arður fer að berast af þeirri framleiðslu, sem hugmyndin leiðir til, skal sjóðnum greiddur til baka útlagður kostnaður að viðbættri hæfilegri þóknun. Sjóðurinn er áhættulánasjóður og leggur því engar fjárskuldbindingar á höfund hugmyndarinnar.
     Til frekara öryggis tryggir sjóðurinn einkarétt á þeim hugmyndum og framleiðsluvörum sem hann kostar til, svo sem með einkaleyfum. Skal sjóðurinn hafa eignarhald á þessum réttindum þar til búið er að greiða honum útlagðan kostnað og þóknun. Eftir það losnar framleiðsluréttur og einkaleyfi undan eignarhaldi sjóðsins og verða séreign höfundar eða þess sem hann vísar til.
     Þótt hér starfi Iðntæknistofnun og Háskóli Íslands hafi reist tæknigarð eru þau vandkvæði á að Iðntæknistofnun, sem og aðrar rannsóknastofnanir, innheimtir nær fullt gjald fyrir veitta aðstoð og hefur þetta ágerst frá því að tillaga þessi var fyrst flutt. Tæknigarður Háskólans gegnir mjög sérhæfðum verkefnum þannig að hér skortir eftir sem áður tæknigarða til þjónustu við almennt atvinnulíf og einstaklinga.
     Augljóst er að einstaklingar geta í fæstum tilfellum staðið undir greiðslum fyrir útselda aðstoð og rannsóknastörf hjá opinberum stofnunum. Margar hugmyndir, sem hefðu gefið þjóðarbúinu drjúgar tekjur, fara því forgörðum og komast aldrei í framkvæmd.
     Iðnfyrirtæki hafa tiltölulega greiðan aðgang að fjármagni til vöruþróunar, bæði vegna eigin aukagetu eða fullnægjandi veða fyrir hefðbundnum lánum, langt umfram einstaklinga. Því er þessum fyrirtækjum ekkert að vanbúnaði að kaupa þjónustu hjá Iðntæknistofnun og tæknigarði Háskólans. Hins vegar er markviss aðstoð við smáfyrirtæki og einstaklinga í molum og fjáhagsleg fyrirgreiðsla ófullnægjandi. Þess vegna er nú áréttað að ríkisstjórnin komi á fót sérstökum áhættulánasjóði og tæknigörðum til að virkja almennt hugvit landsmanna.