Ferill 370. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 370 . mál.


Ed.

650. Frumvarp til laga



um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum.

Frá sjávarútvegsráðherra.



1. gr.


     Á fiskveiðitímabilinu 1. janúar til 31. ágúst 1991 er sjávarútvegsráðherra heimilt að ákveða með reglugerð að aflaheimildum samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 40 15. maí 1990, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, skuli ráðstafað að hluta eða öllu leyti til þeirra skipa, sem aflahlutdeild hafa af loðnu, til að mæta tímabundnum tekjumissi vegna aflabrests. Ráðherra skal skipta þessum heimildum milli einstakra loðnuskipa og er við þá skiptingu m.a. heimilt að miða við aflahlutdeild skipanna af loðnu og hver afli þeirra af loðnu var á haustvertíðinni 1990.

2. gr.


     Á fiskveiðitímabilinu 1. janúar til 31. ágúst 1991 er sjávarútvegsráðherra heimilt að auka leyfðan heildarafla af úthafsrækju umfram það sem ákveðið hefur verið með rg. nr. 465 27. nóvember 1990 um fiskveiðar í atvinnuskyni. Er ráðherra þrátt fyrir ákvæði laga nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, heimilt með reglugerð að ákveða að þessi viðbót skiptist eingöngu milli þeirra skipa sem aflahlutdeild hafa af loðnu. Getur hann við þá skiptingu m.a. miðað við þau atriði er um er rætt í lokamálslið 1. gr. Ráðstöfun aflaheimilda samkvæmt þessari grein breytir ekki varanlegri aflahlutdeild einstakra skipa skv. 7. gr. laga nr. 39/1990.

3. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Um miðjan janúar lauk fyrsta áfanga loðnurannsókna á þessu ári. Markmiðið var að ná nýrri mælingu á hrygningarstofni loðnunnar eftir að hún kæmi austur fyrir land. Í rannsóknunum tóku þátt tvö hafrannsóknaskip og sex veiðiskip og varð niðurstaða mælingarinnar hliðstæð niðurstöðu mælinganna í nóvember og desember. Samkvæmt því var loðnustofninn undir þeim mörkum sem við hefur verið miðað að skilin verði eftir til hrygningar árlega. Hafrannsóknastofnun hefur nú lokið öðrum þætti loðnurannsókna á þessu ári. Var loðnustofninn nú mældur um 525 þúsund lestir fyrir suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum. Á grundvelli þessara upplýsinga hefur Sjávarútvegsráðuneytið ákveðið að heimila veiðar á 175 þúsund lestum af hrygningarstofninum. Hefur ráðuneytið nú þegar gefið út veiðileyfi fyrir þessu magni.
     Þrátt fyrir þessa ákvörðun er ljóst að heildarveiðiheimildir loðnuflotans á þessari vertíð eru verulega skertar frá því sem verið hefur á undanförnum árum. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, er ráðherra heimilt að bregðast við verulegum aflabresti í sérveiðum með því að skerða tímabundið botnfiskveiðiheimildir fiskiskipaflotans og flytja þær til þeirra sérveiðiskipa sem í hlut eiga. Forsenda þess að heimilt sé að beita ákvæðum greinarinnar er að breyting á aflatekjum af sérveiði sé svo mikil að hún valdi því að heildaraflaverðmæti þeirra skipa sem viðkomandi sérveiði stunda víki að meðaltali meira en 20% frá meðalaflaverðmæti síðustu fimm ára. Sé þessum mörkum náð er það lagt í mat ráðherra að hvaða marki hann beitir heimildinni. Þótt hér sé um heimildarákvæði að ræða eru settar skyldur á ráðherra að bregðast við vandanum þegar skilyrði heimildarinnar eru fyrir hendi.
     Enda þótt til þessarar úthlutunar af loðnu komi nú er ljóst að ráðherra hefur skyldu samkvæmt ákvæðum 9. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða sem heimila honum að skerða tímabundið botnfiskveiðiheimildir fiskiskipaflotans og ráðstafa þeirri skerðingu tímabundið til loðnuflotans. Gegn beitingu þeirrar heimildar mælir hins vegar að á undanförnum árum hefur reynst nauðsynlegt að skerða verulega botnfiskveiðiheimildir fiskiskipaflotans. Má í því sambandi nefna að aflamark af þorski hefur verið skert um tæp 24% frá árinu 1987. Þykir því flestum sem hafa byggt afkomu sína á botnfiskveiðum hlutur sinn rýr. Eru víða uppi innan þess hóps kröfur um aukinn hlut einstakra skipa eða einstakra flokka skipa. Nægir í því efni að minna á óánægju margra smábátaútvegsmanna og þeirra sem hafa stundað veiðar með sóknarmarki. Með hliðsjón af rýrum aflaheimildum margra skipa er mikilvægt að leita annarra leiða en að skerða botnfiskveiðiheimildir þeirra til að bæta hlut þeirra sem byggja afkomu sýna á loðnuveiðum.
     Með frumvarpi þessu er lagt til að við því mikla tekjutapi sem loðnuflotinn verður fyrir verði brugðist með tvíþættum aðgerðum. Í fyrsta lagi er lagt til að ráðherra verði veitt tímabundin heimild til að ráðstafa aflaheimildum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins til aðstoðar loðnuflotanum. Í öðru lagi er lagt til að sjávarútvegsráðherra verði heimilt að auka tímabundið heildarafla af úthafsrækju og að þeirri aukningu verði einungis skipt á milli loðnuskipa.
     Verði loðnuaflinn 175.000 lestir á öllu þessu ári þyrfti að auka veiðiheimildir skipanna um 24.000 þorskígildislestir til að skipin haldi um 80% af meðalveiðiheimildum síðustu fimm ára. Þar sem veiðiheimildum af botnfiski og úthafsrækju er nú einungis úthlutað til átta mánaða vegna breytts fiskveiðiárs er nauðsynlegt að miða tímabundna hækkun á veiðiheimildum til loðnuskipa við sama tímabil. Til að skilyrði greinarinnar falli niður þyrfti afli á næstu haustvertíð að vera um 340 þúsund lestir en það aflamagn svarar til 24.000 þorskígildislesta. Ef litið væri á stöðu loðnuskipanna miðað við að fiskveiðiár þeirra væri frá 1. sept. 1990 til 1. sept. 1991 væri myndin mun verri.
     Það frumvarp sem hér er flutt skapar nokkurt svigrúm til að hækka veiðiheimildir skipanna eða allt að 13.000 þorskígildislestir. Sú viðbót leysir ekki vanda skipanna en ætti að gera þeim flestum kleift ásamt öðrum aðgerðum að komast í gegnum þennan vanda sem blasir við. Er með frumvarpinu annars vegar lagt til að veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs, sem verði 8.000 þorskígildislestir, verði ráðstafað tímabundið til loðnuflotans og hins vegar 5.000 lesta viðbótarafla af úthafsrækju.
     Auk þeirra ráðstafana sem lagðar eru til með lagafrumvarpi þessu er hafinn undirbúningur að margþættum aðgerðum til að bregðast við loðnubrestinum. M.a. hefur samstarfsnefnd nokkurra ráðuneyta fjallað um málið og skilað skýrslu um málið. Er hún birt sem fylgiskjal með frumvarpi þessu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 40/1990, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, er gert ráð fyrir því að sjóðnum verði, vegna fiskveiðitímabilsins frá 1. janúar 1991 til 31. ágúst 1991, úthlutað þeim aflaheimildum sem ekki nýttust vegna álags á aflamark eða aflahámark við útflutning á óunnum fiski á árinu 1990. Aflaheimildir þessar eru þó að hámarki 8.000 þorskígildistonn. Er nú ljóst að skerðing vegna útflutnings á óunnum fiski á síðasta ári er það mikil að hámarkinu verður náð. Með þessari grein er lagt til að sjávarútvegsráðherra verði heimilað að ráðstafa þessum tilgreindu aflaheimildum til loðnuflotans til þess að mæta tímabundnum tekjumissi vegna aflabrests. Er hér einungis um tímabundna ráðstöfun að ræða og er engin tillaga gerð um að hrófla til frambúðar við hlutverki Hagræðingarsjóðs eða þeim aflaheimildum sem sjóðnum lögum samkvæmt eru fengnar til að rækja það hlutverk. Ráðherra er ætlað að skipta þessum heimildum milli einstakra loðnuskipa. Úthlutun aflaheimildanna þarf að sjálfsögðu að byggjast á almennum efnislegum mælikvarða en tilvikin geta orðið svo margvísleg að ekki þykir fært að lögfesta aðeins einn mögulegan mælikvarða í þessu efni. Þess í stað er í dæmaskyni nefnt að miða megi við aflahlutdeild einstakra skipa af loðnu og hversu mikið einstök skip höfðu veitt þegar loðnuveiðar voru stöðvaðar.

Um 2. gr.


     Ástand úthafsrækjustofnsins er óvenju gott um þessar mundir. Í tillögum Hafrannsóknastofnunar var á síðasta hausti lagt til að leyfður heildarafli yrði aukinn úr 22.000 lestum á árinu 1990 í 28.000 lestir á árinu 1991, en það samsvarar 25.000 lestum á yfirstandandi átta mánaða fiskveiðitímabili. Í framhaldi af þessum tillögum ákvað sjávarútvegsráðherra að úthafsrækjuaflinn skyldi miðast við 25.000 lestir á yfirstandandi fiskveiðitímabili. Með þessari grein er lagt til að ráðherra verði veitt sérstök heimild til að auka það magn og skipta aukningunni milli skipa í loðnuflotanum. Er ráðgert að auka heimildir til veiða á úthafsrækju um 5.000 lestir á tímabilinu. Vissulega er með þeirri veiði farið allnokkuð fram úr tillögum fiskifræðinga. Í ljósi þess að ástand stofnsins hefur batnað verulega á undanförnum missirum verður þó varla talið að óhæfileg áhætta sé tekin með þessari ákvörðun. Í greininni felst það frávik frá almennum reglum laga nr. 38/1990 að viðbótin skiptist ekki milli skipa í flotanum í hlutfalli við fasta aflahlutdeild einstakra skipa í úthafsrækju. Er þess í stað lagt til að henni sé sérstaklega skipt milli loðnuskipanna og eru sambærilegar leiðbeiningarreglur settar fram um þá skiptingu og varðandi skiptingu Hagræðingarsjóðsbótanna í 1. gr. Á það skal lögð áhersla að hér er um tímabundna röskun að ræða og að hin fasta aflahlutdeild hvers skips í leyfðum heildarafla af úthafsrækju kemur aftur í fullt gildi frá og með upphafi næsta fiskveiðiárs 1. september nk.

Um 3. gr.


     Grein þessi þarfnast ekki skýringa.

    REPRÓ 6 bls.