Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 376 . mál.


Sþ.

663. Tillaga til þingsályktunar



um ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1990.

Flm.: Árni Gunnarsson, Alexander Stefánsson, Margrét Frímannsdóttir,


Málmfríður Sigurðardóttir, Hreggviður Jónsson.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hrinda í framkvæmd eftirfarandi ályktunum Vestnorræna þingmannaráðsins sem samþykktar voru á fundi ráðsins í Þórshöfn í Færeyjum 4. september 1990:
     að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands kanni hvort grundvöllur er fyrir sameiginlegum samningaviðræðum um útflutning á fiskafurðum til landa Evrópubandalagsins,
     að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands vinni að því að komið verði á árlegum, skipulegum kennara- og nemendaskiptum á milli grunn- og framhaldsskóla í öllum aðildarlöndunum,
     að ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands hafi frumkvæði að samningu námsefnis um samfélagsaðstæður, menningu og lífsskilyrði í Færeyjum og á Grænlandi og Íslandi; námsefnið verði samið til notkunar í skólum landanna í því skyni að auka upplýsingar og gagnkvæma kynningu þeirra þjóða sem byggja þessi lönd,
     að vestnorrænu löndin meti möguleika á samningum sín á milli um gjaldalausar landanir svo að fiskiskip geti óheft selt afla sinn í löndunum þremur,
     að vestnorrænu löndin hefji þegar viðræður um hvernig unnt sé með sameiginlegum aðgerðum að takmarka selastofninn svo að aftur náist vistfræðilegt jafnvægi í sjónum,
     að ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Grænlands og Færeyja hugleiði möguleika á samræmingu á reglum um æskulýðsferðir á Vestur-Norðurlöndum, hugsanlega með „Nordrejsekortet“ að fyrirmynd, og kanni einnig möguleika á að samræma þessar reglur reglunum um „Nordrejsekortet“; vísað er til ályktana nr. 2/86 og 3/87,
     að ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Grænlands og Færeyja hefji viðræður um að fjarskiptahljóðvarp og sjónvarpsnet landanna verði bætt svo að allir búi við sömu aðstæður í fjarskiptum.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er flutt til að koma á framfæri við Alþingi þeim tillögum sem samþykktar voru á fundi Vestnorræna þingmannaráðsins í Þórshöfn 4. september 1990. Jafnframt fylgja með tillögunni sem fylgiskjöl þrjár yfirlýsingar ráðsins frá sama fundi.



Fylgiskjal I.


Yfirlýsing.


(1/1990.)


    Umhverfisnefndin leggur áherslu á á fundi sínum að haf, land og loft séu mjög lítið menguð miðað við aðstæður á mörgum öðrum stöðum í heiminum. Nefndin leggur áherslu á að við, sem byggjum þessi þrjú lönd, verðum að standa vörð um þetta umhverfi, en í löndum okkar er náttúra mjög viðkvæm og henni má ekki spilla.
    Við erum fulltrúar þriggja smáþjóða sem eru stöðugt ásakaðar og veist að fyrir lífsnauðsynlegar aðferðir við nýtingu á auðlindum hafsvæðanna. Við styðjum við og vinnum ötullega að ræktun og verndun náttúru á landsvæðum okkar, hvort sem það er verndun hafs, landa eða andrúmslofts.
    Þessi þrjú svæði eru nú í hættu af völdum úrgangs iðnríkja.
    Að mati nefndarinnar er og verður umhverfisvernd mikilvægt pólitískt mál. Ekki er þó að mati nefndarinnar ástæða til að álykta að nýju um málið, en nefndin vísar til fyrri ályktana sem enn eru í fullu gildi og hvetur eindregið landsstjórn Færeyja, ríkisstjórn Íslands og landsstjórn Grænlands til að taka þessar ályktanir alvarlega og nota þær sem grundvöll í samningum við aðrar þjóðir.
    Nefndin, en í henni eiga sæti Málmfríður Sigurðardóttir, Kvennalista, Íslandi, Poul Michelsen, Fólkaflokkinum, og Niels Pauli Danielsen, Kristiliga þjóðarflokkinum, Færeyjum, og Preben Lange, Siumut, Grænlandi, leggur hér með fram yfirlýsingu þessa.

Þórshöfn, 4. september 1990.






Fylgiskjal II.

Yfirlýsing.


(2/1990.)


    Vestnorræna þingmannaráðið fer þess enn einu sinni á leit við landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands að þær stofni vestnorrænan menningarsjóð. Vísað er til meðfylgjandi skrár um ályktanir menningarnefndarinnar frá árunum 1985 1989. Tekjur sjóðsins skulu vera fé sem veitt er árlega á fjárlögum landanna þriggja, auk fjárveitinga frá einkaaðilum.
    Fé sjóðsins skal nota til að styrkja sameiginlega menningarviðburði, ferðir listamanna á milli landanna, styrkja ferðir íþróttafólks, auk styrkja til listamanna. Sérstaka áherslu verður að leggja á að styrkja barna- og unglingabókmenntir, m.a. einnig með því að veita árlega bókmenntaverðlaun á þessu sviði.
    Landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands skulu setja sjóðnum stofnskrá að höfðu samráði við samtök listamanna í löndunum þremur.
    Forsenda alls þessa er að fjárveiting verði tryggð fyrir upphaf næsta fjárhagsárs.

Þórshöfn, 4. september 1990.





Fylgiskjal III.

Yfirlýsing.


(3/1990.)


    Vestnorræna þingmannaráðið hvetur öll vestnorræn lönd til að styðja það sjónarmið að leyfilegt skuli vera að nýta skynsamlega allar auðlindir hafsins, þar með talin sjávarspendýr. Einnig ættu Norðurlönd að styðja vísindarannsóknir sem mynda grundvöll að skynsamlegri nýtingu auðlindanna.
    Vestnorrænu löndin ættu að vinna saman á þessu sviði og vera í þessu efni fyrirmynd annarra landa.

Greinargerð.


    Þrátt fyrir tilraunir, sem gerðar hafa verið á fundum norrænu sjávarútvegsráðherranna, til að koma á samvinnu milli Norðurlandaþjóðanna fer hvert land sína leið þegar teknar eru ákvarðanir um nýtingu sjávarspendýra. Ísland, Grænland, Færeyjar og Noregur hafa komið á samvinnu á þessu sviði á þremur fundum nefndarinnar og hafa sett á fót vinnunefnd um vísindarannsóknir á sjávarspendýrunum og mikilvægi þeirra fyrir sjávarfang.