Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 237 . mál.


Ed.

807. Nefndarálit



um frv. til l. um sjóðshappdrætti til stuðnings flugbjörgunarmálum og skák.

Frá 1. minni hl. allsherjarnefndar.



    Lífsafkoma Íslendinga byggist á því sem hafið gefur en um leið því að í landinu búi fólk sem er reiðubúið til að stunda fiskveiðar. Því hlýtur það að vera sameiginlegt hagsmunamál allrar þjóðarinnar að vel sé að sjómönnum búið í alla staði og öryggi þeirra tryggt eftir því sem kostur er.
    Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur margsannað gildi sitt bæði við björgun sjómanna úr sjóslysum og björgun á landi, að ógleymdu mikilvægi hennar við sjúkraflutninga, bæði milli staða innan lands og frá skipum á hafi úti.
    Það er löngu ljóst og viðurkennt að ein þyrla af þeirri stærð, sem nú er í eigu Landhelgisgæslunnar, nægir ekki til að sinna því mikilvæga hlutverki sem henni er ætlað. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur tvisvar sinnum verið flutt þingsályktunartillaga þar sem skorað er á ríkisstjórnina að kaupa nýja björgunarþyrlu. Í lok 110. löggjafarþings, 11. maí 1988, var slík tillaga samþykkt einróma sem ályktun Alþingis. Fyrirspurnir um afdrif tillögunnar voru lagðar fram á 111. og 112. löggjafarþingi. Á 113. löggjafarþingi var aftur lögð fram tillaga til þingsályktunar um sama efni, en hún hefur ekki enn hlotið afgreiðslu.
    Þær ríkisstjórnir, sem setið hafa á kjörtímabilinu, hafa þannig ekki orðið við áskorun Alþingis þrátt fyrir þá staðreynd að flestir viðurkenni að löngu sé tímabært að ganga til samninga um kaup á annarri þyrlu.
    Með þessu frumvarpi er lagt til að stofnað verði til sérstaks happdrættis til að fjármagna kaup nýrrar björgunarþyrlu.
    Fyrsti minni hl. telur óverjandi að ríkisstjórnin víki sér á þennan hátt undan að tryggja nauðsynlegt fjármagn til þyrlukaupa en velji frekar þá leið að láta happdrættisgleði íslensku þjóðarinnar ákvarða hvenær ný þyrla verður keypt.
    Í síðustu viku kom fram að fjármálaráðherra telur mögulegt að leggja fram fé að upphæð 2 milljarðar króna, m.a. til að flýta framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar, byggingu flugskýlis í Keflavík og stækkun hafnar í Þorlákshöfn.
    Fyrsti minni hl. telur að kaup á björgunarþyrlu þoli enga bið og skorar því á ríkisstjórnina að nota það fé, sem virðist vera á lausu til ýmissa framkvæmda, til að sinna þessum brýna öryggisþætti í þágu allrar þjóðarinnar.

Alþingi, 6. mars 1991.



Danfríður Skarphéðinsdóttir.