Ferill 438. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 438 . mál.


Sþ.

808. Tillaga til þingsályktunar



um að reisa nýjan fjölbrautaskóla í Grafarvogi í Reykjavík.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að búa sig undir að reisa þegar í stað nýjan fjölbrautaskóla í Grafarvogi í efri byggðum Reykjavíkur.

Greinargerð.


     Með breyttri verkaskipan hjá ríki og sveitarfélögum kemur frumkvæðið að byggingu framhaldsskóla í hlut ríkisins. Með auknum fólksfjölda í efri byggðum Reykjavíkur hefur þörfin vaxið fyrir að reisa jafnóðum nýja framhaldsskóla í hverfunum.
     Fjölbrautaskólinn í Breiðholti er gott dæmi um prýðilegt menntasetur í fjölmennu íbúðahverfi. Þar gefst nemendum úr Breiðholtshverfum og öðrum byggðarlögum kostur á fjölbreyttu námi á sviði verkmenntar og bóklegra greina auk lista. Þá er kvöldkennsla við skólann fyrir eldri nemendur og fullorðna. Geysileg aðsókn hefur jafnan verið að skólanum og er hann nú stærsti framhaldsskóli landsins.
     Ört vaxandi byggð í Grafarvogi kallar á nýjan framhaldsskóla fyrir þetta nýjasta íbúðahverfi borgarinnar. Reynslan af Fjölbrautaskólanum í Breiðholti mælir hiklaust með því að farið verði inn á sömu braut í Grafarvogi og þar reistur nýr fjölbrautaskóli. Borgaryfirvöld hafa tekið frá lóð undir framhaldsskóla í hverfinu og því er ríkinu ekkert að vanbúnaði að reisa 600 800 manna skólabyggingu strax.