Ferill 448. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 448 . mál.


Sþ.

841. Tillaga til þingsályktunar



um samninga um álver í Vatnsleysustrandarhreppi.

(Lögð fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990 91.)



     Alþingi ályktar að halda skuli áfram samningaviðræðum um byggingu og rekstur álvers með um 210.000 tonna ársframleiðslugetu og viðræðum um kaup á jarðnæði fyrir álverið og höfn vegna þess í samvinnu við Vatnsleysustrandarhrepp. Þegar samkomulag hefur tekist um orkuverð og mengunarvarnir skulu niðurstöður lagðar fyrir Alþingi.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Í skýrslu iðnaðarráðherra til Alþingis um stöðu samninga um nýtt álver, sem lögð var fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi í október 1990, var gerð ítarleg grein fyrir stöðu viðræðnanna og frá því greint að stefnt væri að framlagningu stjórnarfrumvarps um málið til afgreiðslu á haustþinginu.
     Viðræður um nýtt álver hafa tekið nokkru lengri tíma en gert var ráð fyrir í október 1990. Fyrst kom það til að Atlantsálsaðilarnir óskuðu í nóvember sl. eftir fresti til þess að ganga frá samningum sín á milli og við lánastofnanir áður en gengið yrði endanlega frá aðalsamningi. Því var ákveðið að fresta framlagningu heimildalagafrumvarps. Sú tímaáætlun, sem unnið var eftir fram til þess tíma að Persaflóastríðið hófst, miðaðist við að gengið yrði frá aðalsamningi og orkusölusamningi um mánaðamótin janúar/febrúar 1991 og að heimildalagafrumvarp yrði lagt fram í beinu framhaldi af því. Þessi áætlun miðaðist við að lokasamningar yrðu undirritaðir í apríl 1991, álverið tæki til starfa 1. ágúst 1994 og yrði komið í fullan rekstur 1. apríl 1995. Vegna Persaflóastríðsins óskuðu forsvarsmenn álfyrirtækjanna eftir frestun á fundum um málið síðari hluta janúar sl. og raskaðist tímaáætlun viðræðnanna þar með enn frekar. Af þessu leiðir að gangsetning álversins mun frestast frá 1. ágúst 1994 til áramótanna 1994 95. Álverið yrði samkvæmt því komið í fullan rekstur 1. september 1995.
     Iðnaðarráðherra átti fund með aðalforstjórum Atlantsálsfyrirtækjanna 12. og 13. febrúar 1991 til að fara yfir stöðu samninga og annarrar undirbúningsvinnu fyrir álverið og til að ræða framhald þess. Í yfirlýsingu, sem út var gefin í fundarlok, sagði m.a.:
    „Allir aðilar ítrekuðu eindreginn vilja sinn til að halda Atlantsálsverkefninu áfram. Á fundinum var fjallað um tvö mikilvægustu viðfangsefnin sem nú þarf að leysa. Það fyrra er að tryggja fjármögnun á sanngjörnum kjörum og það seinna að bæta arðsemi verkefnisins þannig að fjárfesting allra samningsaðila skili eðlilegri ávöxtun.
    Útvegun fjármagns til álverkefnisins mun taka lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir vegna ástandsins á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum og þeirrar sérstöku óvissu sem ríkir um þróun kostnaðar, verðlags og gengismála. Framvinda mála undanfarnar vikur hefur þó ekki dregið úr áhuga samningsaðila á verkefninu, hvorki af hálfu Íslendinga né Atlantsálshópsins. Hins vegar gera samningsaðilar sér ljóst að lengri tíma er þörf, líklega sex til tíu mánaða, til að ljúka fjármögnun verkefnisins. Áformað er að ljúka samningagerð innan næstu þriggja mánaða.
    Samningsaðilar munu halda áfram undirbúningi sínum með það fyrir augum að ljúka samningunum og afla verkefninu nauðsynlegra heimilda og samþykkis. Mikilvægt er að fram komi á Alþingi frumvarp til heimildalaga á yfirstandandi þingi til að tryggja lagalegan ramma verkefnisins.“
     Þrátt fyrir að lokafrágangur samninga taki meiri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir er mikilvægt fyrir framhald málsins að fyrir liggi afstaða Alþingis til samningagerðarinnar. Samþykki Alþingis á tillögu þeirri til þingsályktunar, sem hér er lögð til, styrkir samningsumboðið af Íslands hálfu og er til þess fallið að greiða fyrir fjármögnun álversins og lokaumfjöllun um málið í stjórnum álfélaganna.
     Samhliða framlagningu þessarar þingsályktunartillögu hefur verið gerð tillaga um heimildir í lánsfjárlögum til kaupa á jarðnæði fyrir álverið og vegna virkjanaundirbúnings á árinu 1991 í þágu nýs álvers. Tillögurnar eru þessar:
    Heimild til að veita Vatnsleysustrandarhreppi lán til að kaupa jarðnæði fyrir nýtt álver.
                   Iðnaðarráðuneytið hefur lagt til að við frumvarp til lánsfjárlaga fyrir árið 1991 bætist ný grein sem verði 13. gr. og orðist svo:
                   Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð eða taka lán að hluta eða öllu leyti í stað ríkisábyrgðar og endurlána Vatnsleysustrandarhreppi allt að 300 Mkr. til að kaupa jörðina Flekkuvík, ásamt mannvirkjum, og lönd úr jörðunum Stóru - og Minni - Vatnsleysu, ásamt mannvirkjum, og fjármagna annan undirbúning hreppsins vegna álvers á Keilisnesi. Endurgreiðsla Vatnsleysustrandarhrepps á veittum lánum samkvæmt þessari grein skal háð því að af byggingu og rekstri álvers verði, en að öðrum kosti skulu hinar keyptu eignir falla til ríkissjóðs.
    Heimild Landsvirkjunar til lántöku vegna undirbúnings virkjana.
                   Iðnaðarráðuneytið hefur lagt til að við 3. gr. frumvarps til lánsfjárlaga fyrir árið 1991 bætist ný málsgrein sem orðist svo:
                   Landsvirkjun er enn fremur heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að taka 580 Mkr. að láni eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til undirbúnings Fljótsdalsvirkjunar, stækkunar Búrfellsvirkjunar, fimmta áfanga Kvíslaveitu og stofnlína eins og nauðsynlegt er til þess að unnt verði að sjá nýju álveri fyrir nægri raforku frá áramótum 1994 95.
     Iðnaðarráðuneytið hafði áður sent fjárhags - og viðskiptanefnd bréf, dags. 20. desember 1990, með beiðni um hækkun á heimild Landsvirkjunar til lántöku skv. 3. gr. frumvarps til lánsfjárlaga 1991 úr 3.000 Mkr. í 3.631 Mkr. Það erindi var til komið vegna þess að Landsvirkjun taldi nauðsynlegt að hækka lánsfjárheimildina um 631 Mkr. vegna ákvarðana sem þá höfðu verið teknar um gjaldskrármál og leiddu til þess að ekki var fyrirséð að hægt yrði að taka neitt fé úr rekstri til ráðstöfunar í framkvæmdir á árinu 1991. Af hækkunarbeiðni Landsvirkjunar voru 220 Mkr. vegna virkjanaundirbúnings á árinu 1991 sem nauðsynlegur er til að sjá nýju álveri fyrir raforku frá áramótum1994 95. Samtals er því gerð tillaga um 800 Mkr. lánsheimild vegna virkjanaundirbúnings í þágu nýs álvers.
     Nánari grein er gerð fyrir máli þessu í sérstakri skýrslu iðnaðarráðherra til Alþingis um álver á Keilisnesi. Í skýrslunni koma drög að frumvarpi til heimildalaga fram sem fylgiskjal.
     Brýnt er að tillaga þessi til þingsályktunar og ofangreindar lánsfjárheimildir verði samþykktar á þessu þingi. Með því hefur af Íslands hálfu verið gert það sem gera þarf til að gangsetning álversins frestist aðeins um fimm mánuði, þ.e. frá 1. ágúst 1994 til áramótanna 1994 95, þótt samningsgerðin sjálf og viðræður um fjármögnun álversins taki meiri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir.