Ferill 230. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 230 . mál.


Nd.

846. Nefndarálit



um frv. til l. um samvinnufélög.

Frá minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



     Minni hl. telur það löngu tímabært að endurskoða núgildandi lög um samvinnufélög frá árinu 1937. Hins vegar telur minni hl. að umfjöllun nefndarinnar hafi ekki verið nægilega vönduð. Nefndin fékk nokkra aðila á sinn fund en engar skriflegar umsagnir bárust.
    Dæmi um óleyst mál er framtíðarskipan innlánsdeilda samvinnufélaga. Veruleg andstaða virðist vera gegn því að breyta innlánsdeildunum í sparisjóði. Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands telur þann lagaramma, sem innlánsdeildunum er settur, vera ófullnægjandi, einkum hvað snertir vernd innstæðu eigenda. Hins vegar hefur rekstur innlánsdeilda verulega þýðingu fyrir nokkur samvinnufélög. Meiri hl. leggur til að þessi ágreiningur verði leystur með nefndarskipan, sbr. breytingartillögu hans um nýtt ákvæði til bráðabirgða.
     Eitt af nýmælum þessa frumvarps er að samvinnufélögum er gert kleift að afla sér eigin fjár með sölu hluta í B - deild stofnsjóðs sem að mörgu svipar til sölu hluta í hlutafélögum. Efast má stórlega um að þetta nýmæli hafi tilætluð áhrif þar sem eignarhaldi á hluta í B - deild stofnsjóðs fylgir ekki atkvæðisréttur á félagsfundum. Minni hl. telur að atkvæðisréttur, þó takmarkaður væri, yki líkurnar á því að sparifjáreigendur keyptu hlut í B - deild stofnsjóðs.
     Minni hl. harmar fljótaskrift við meðferð þessa máls. Málefnið er of mikilvægt til að kasta til þess höndum. Hins vegar er margt í frumvarpinu til bóta. Minni hl. vill því ekki standa gegn afgreiðslu þess en mun með tilliti til þess sem að framan segir sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. mars 1991.



Guðný Guðbjörnsdóttir.