Ferill 462. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 462 . mál.


Ed.

915. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



1. gr.


     Síðasta málsgrein 51. gr. laganna hljóði svo:
     Ef elli - eða örorkulífeyrisþegi dvelst lengur en í mánuð samfellt á stofnun eða vistheimili sem er á föstum fjárlögum eða þar sem sjúkratryggingar greiða fyrir hann fellur lífeyrir hans niður ef vistin hefur verið lengri en fjórir mánuðir undanfarna 24 mánuði. Tryggingaráði er þó heimilt að víkja frá þessum tímamörkum ef sérstaklega stendur á. Sé dvölin ekki greidd að fullu er heimilt að greiða lífeyri allt að því sem á vantar. Hafi hlutaðeigandi innan við 3.000 kr. í tekjur á mánuði er heimilt að greiða honum 10.000 kr. á mánuði í vasapeninga. Tekjur umfram 3.000 kr. skerða vasapeninga um 33% þeirra tekna sem umfram eru. Ef tekjur hlutaðeigandi eru af vinnu á stofnuninni og telja má vinnuna þátt í endurhæfingu eða föndur er heimilt að ákveða að tekjurnar hafi ekki skerðingaráhrif á vasapeningana. Nú dvelst lífeyrisþegi utan stofnunar nokkra daga í senn en útskrifast samt ekki og er þá heimilt að greiða honum dagpeninga sem eigi séu lægri en tvöfaldir sjúkradagpeningar hverju sinni.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Unnið hefur verið að endurskoðun laga um almannatryggingar á vegum stjórnskipaðrar nefndar sem hóf störf í upphafi árs 1988. Nefndin skilaði áliti sínu í október 1990 í formi frumvarps til laga um almannatryggingar ásamt ítarlegum athugasemdum og greinargerð. Tillögur nefndarinnar hafa verið til umfjöllunar í heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytinu, hjá ríkisstjórn og þingflokkum hennar.
     Á síðari hluta starfstíma nefndarinnar vísaði ráðuneytið flestum þeim málum til hennar sem fram komu varðandi breytingar á lögunum. Áformað var að leggja nýtt frumvarp til laga um almannatryggingar fyrir Alþingi haustið 1990 þannig að ný lög gætu gengið í gildi 1. janúar 1991.
     Nú er ljóst að frumvarpið verður ekki að lögum á þessu þingi. Það er hins vegar mat Tryggingastofnunar ríkisins og ráðuneytisins að nauðsyn sé á að breyta framkvæmd þeirra mála er 51. gr. fjallar um með sérstöku tilliti til vaxandi fjölda sjúklinga sem dveljast utan sjúkrahúsa nokkra daga í senn án þess að útskrifast. Þess vegna hefur heilbrigðis - og trygginganefnd fallist á þá beiðni ráðherra að flytja þetta frumvarp.

Um 1. gr.


     Vasapeninga fá þeir einstaklingar sem dveljast á stofnunum og hafa engar tekjur. Samkvæmt ákvörðun tryggingaráðs eru þó greiddir skertir vasapeningar til þeirra sem hafa mánaðarlegar tekjur lægri en vasapeningum nemur þannig að einstaklingar á stofnunum hafa aldrei minna fé til ráðstöfunar en sem nemur fjárhæð vasapeninga. Vasapeningar eru tvenns konar. Elli - og örorkulífeyrisþegar á dvalarstofnunum fá 7.089 kr. á mánuði. Vasapeningar á hjúkrunarstofnun eru nú 5.957 kr. á mánuði.
     Hér er lagt til að vasapeningar lúti sömu lögmálum og aðrar tekjutengdar bætur þannig að vasapeningar skerðist ekki ef tekjur eru undir ákveðnu marki. Tekjur umfram markið, sem hér er sett við 3.000 kr., munu hins vegar skerða vasapeningana um 33% þeirra tekna sem umfram eru. Þó er gert ráð fyrir heimild til þess að tekjur skerði ekki vasapeninga ef þeirra er aflað með vinnu innan stofnunar sem telst til endurhæfingar. Vasapeningar eru einnig hækkaðir í 10.000 kr. á mánuði.
     Þá er einnig gert ráð fyrir því að sjúklingar, sem eru í vistun virka daga en eru sendir heim um helgar án þess að útskrifast, fái auk vasapeninganna sjúkradagpeninga í hlutfalli við dagafjölda heima í hverjum mánuði. Er hér um sanngirnismál að tefla.

Um 2. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.