Ferill 204. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 204 . mál.


Ed.

934. Frumvarp til laga



um upplýsingaskyldu stjórnvalda.

(Eftir 2. umr. í Ed., 13. mars.)



1. gr.


     Lög þessi taka til stjórnsýslu ríkis, sveitarfélaga og stofnana þeirra. Í reglugerð, sem forsætisráðherra setur, er heimilt að ákveða að lögin skuli taka til nánar tilgreindra félaga, stofnana og fyrirtækja sem kostuð eru af eða eru í eigu opinberra aðila eða er að lögum fengið vald til þess að taka ákvarðanir fyrir hönd ríkis og sveitarfélaga.
     Lögin taka ekki til starfsemi Alþingis og stofnana þess eða til dómstóla.

2. gr.


     Stjórnvöldum er skylt að veita almenningi aðgang að gögnum með þeim takmörkunum sem um getur í lögum þessum eða öðrum lögum.
     Almenn ákvæði um þagnarskyldu starfsmanna í opinberri þjónustu takmarka ekki skyldu til að láta í té upplýsingar samkvæmt lögum þessum.
     Beiðni um aðgang að gögnum hjá stjórnvöldum skal vera skrifleg og skal í henni tilgreina skýrt þau gögn sem hlutaðeigandi óskar eftir að kynna sér.

3. gr.


     Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða einkahagi manna nema sá samþykki sem í hlut á. Sama á við um gögn sem gerð eru til undirbúnings funda ríkisstjórnar og ríkisráðs eða hafa að geyma frásagnir af þeim fundum.

4. gr.


     Heimilt er að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi gögnin að geyma upplýsingar um:
    Öryggi ríkisins og varnarmál.
    Samskipti við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir.
    Ráðstafanir stjórnvalda til eftirlits með framkvæmd löggjafar og opinberum rekstri og ráðstöfunum er ekki lokið.
    Mál sem til rannsóknar er þar sem ætla má að lögbrot hafi verið framið.
    Fyrirhugaðar hagræðingarráðstafanir eða breytingar á rekstri þeirra stofnana sem falla undir ákvæði 1. gr.
    Fyrirhugaðar ráðstafanir í fjármálum ríkis og sveitarfélaga, þar á meðal í gjaldeyrismálum, peningamálum, skattamálum, tollamálum og til annarrar tekjuöflunar, svo og í kjaramálum starfsmanna þeirra stofnana sem ákvæði 1. gr. ná til. Einnig gögn er geyma upplýsingar um undirbúning löggjafar þegar frumvarp er enn ekki komið fram.
    Mikilvæga viðskiptahagsmuni einstaklinga og fyrirtækja, svo og viðskiptamál fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga til verndar rekstrar - og samkeppnisaðstöðu þeirra.
    Hvers konar prófraunir sem fyrirhugaðar eru á vegum ríkis og sveitarfélaga.

5. gr.


     Ef ákvæði 3. 4. gr. taka einungis til hluta skjals er mönnum heimilt að óska eftir útdrætti af öðrum hlutum skjalsins.
     Ráðherra skal með reglugerð setja ákvæði um meðferð þeirra gagna, sem aðgangur er bannaður eða takmarkaður að, og um það hve lengi skuli banna aðgang að gögnum. Skal í því efni hafa samráð við menntamálaráðherra og Þjóðskjalasafn Íslands.
     Þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. gr. er óheimilt að takmarka aðgang að öðrum gögnum en þeim, er varða einkahagi manna, í lengri tíma en 20 ár. Þó er heimilt að takmarka aðgang að gögnum, er varða öryggi ríkisins og varnarmál, í allt að 40 ár.

6. gr.


     Réttur almennings til að kynna sér gögn hjá stjórnvaldi nær til:
    Allra gagna, sem snerta mál sem komið hefur til afgreiðslu stjórnvalds, þar með talinna endurrita bréfa sem stjórnvaldið hefur sent, enda megi ætla að bréfin hafi borist viðtakanda.
    Skráninga í skjalaskrár og lista um málsgögn.
    Vinnuskjala og bréfa milli aðila innan sama stjórnvalds ef þau ein geyma endanlega ákvörðun stjórnvalds um afgreiðslu máls eða þau geyma upplýsingar sem ekki er unnt að afla annars staðar frá.
     Upplýsingar um þá sem sótt hafa um ráðningu eða stöðuhækkun í opinberri þjónustu skulu bundnar við nöfn umsækjenda.
     Nú eru veittar munnlegar upplýsingar, sem mikilvægar má telja fyrir úrslit máls, og ber þá stjórnvaldi að skrá efni þeirra og leggja það sem skráð hefur verið með öðrum gögnum málsins.

7. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. er þó heimilt að undanþiggja aðgangi vinnugögn starfsmanna, sem rituð hafa verið hjá stjórnvaldi til eigin afnota í sambandi við meðferð máls, og bréfaskipti um málið milli ýmissa deilda eða stofnana innan sama stjórnvalds, sbr. þó 3. tölul. 1. mgr. 6. gr.
     Einnig má undanþiggja aðgangi bréfaskipti stjórnvalda við sérfróða menn til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort mál skuli höfða. Einnig bréfaskipti milli sveitarstjórnar og starfsmanna á hennar vegum.

8. gr.


     Nú er sett fram beiðni um aðgang að gögnum um mál sem stjórnvald hefur tekið ákvörðun um eða hefur til ákvörðunar og skal þá það stjórnvald ákveða hvort orðið skuli við beiðni.
     Ákvarðanir um hvort veita eigi aðgang að gögnum má kæra sérstaklega til æðra setts stjórnvalds ef það er fyrir hendi. Komi fram slík kæra skal hið æðra stjórnvald taka afstöðu til ákvörðunar og málsmeðferðar að öðru leyti.
     Heimilt er ráðherra að setja með reglugerð ákvæði sem víkja frá 1. og 2. mgr.

9. gr.


     Það stjórnvald, sem fær beiðni um aðgang að gögnum, skal eins fljótt og unnt er taka ákvörðun um hvort taka eigi beiðni til greina og hvort veita skuli beiðanda aðgang að gögnunum, annaðhvort með athugun gagna á staðnum eða með afhendingu endurrita eða ljósrita af þeim. Sé ekki orðið við beiðni eða henni hafnað innan viku frá móttöku skal tilkynna aðila um ástæðu fyrir því og hvenær vænta megi að niðurstöður í málinu liggi fyrir.
     Ráðherra eða sveitarstjórn getur ákveðið gjald fyrir afrit og ljósrit gagna samkvæmt lögum þessum.

10. gr.


     Lög þessi gilda ekki um gögn sem stjórnvöld hafa samið eða veitt móttöku fyrir gildistöku laganna. Aðgang má þó veita að upplýsingum um raunveruleg málsatvik, sem er að finna í slíkum gögnum, hafi gögnin verið lögð með máli sem er eða verið hefur til meðferðar eftir að lögin tóku gildi og upplýsingarnar hafa eða höfðu að geyma verulega þýðingu við ákvörðun í málinu.
     Ákvæði annarra laga um aðgang að gögnum hjá stjórnsýslunni skulu halda gildi sínu þó sá réttur sé þrengri en samkvæmt lögum þessum.

11. gr.


     Forsætisráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

12. gr.


     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1992.