Ferill 466. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 466 . mál.


Nd.

956. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



1. gr.


     1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo: Sjóðfélagar skv. 1. tölul. 2. gr. greiða 4% af öllum launatekjum sínum frá ríkissjóði í iðgjald til sjóðsins.


2. gr.


     3. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
     Launagreiðendur greiði í iðgjöld til sjóðsins 6% af öllum launagreiðslum sem sjóðfélagi tekur hjá þeim og skal greiða þau til sjóðsins samtímis iðgjöldum sjóðfélaga.

3. gr.


     Á eftir 12. gr. a kemur ný grein, 12 b, svohljóðandi:
     Þeim ríkisstarfsmönnum, sem ekki hafa fengið að greiða iðgjald til Lífeyrissjóðsins af aukatekjum sínum frá ríkissjóði, er heimilt að kaupa full réttindi til eftirlauna á eftirfarandi hátt:
     Greiða að fullu lífeyrissjóðstillag sem þeir hefðu átt að greiða af aukatekjum með einni greiðslu.
     Greiða lífeyrissjóðstillag með afborgunum á 5 10 árum eftir samkomulagi.
     Tillag lífeyrisþega verði dregið frá auknum eftirlaunum hans á 5 10 árum.
    Ríkissjóður skal semja við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins um greiðslu þess hluta tillagsins sem ríkissjóði ber að greiða.

4. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


     Lífeyrir er einhver dýrmætasti réttur vinnandi fólks og því verður að tryggja öllum launþegum sanngjörn eftirlaun að loknum starfsdegi. Nú er mikið misræmi í greiðslum eftirlauna til opinberra starfsmanna. Eftirlaun eru ekki greidd af aukavinnutekjum og ríkisstarfsmenn fá ekki að greiða iðgjald af aukavinnu í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þeir eru þó að sjálfsögðu skyldugir til að greiða skatta og önnur gjöld af þessum aukavinnutekjum í ríkissjóð þrátt fyrir það.
     Það getur munað lífeyrisþega umtalsverðum fjárhæðum í dag hvort hann hefur fengið greidd laun samkvæmt háum launaflokki eða fengið sömu heildarlaun greidd að hluta í föstum launum og að hluta í aukavinnugreiðslum. Þess eru mörg dæmi hjá ríkinu að aukavinna starfsmanna sé frá 1 / 4 til 1 / 3 af heildartekjum þeirra. Það er hátt hlutfall af ævitekjum starfsmanna og allt saman utan við lífeyrisrétt þeirra.
     Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna ber starfsmönnum skylda til að vinna ákveðna eftirvinnu ef yfirmaður þeirra gefur fyrirmæli um að hennar sé þörf. Hjá mörgum ríkisstofnunum verður ekki hjá því komist að láta vinna hluta verkefna í aukavinnu. Nægir í því sambandi að benda á löggæslu og slökkvilið. Aðrar ríkisstofnanir þurfa að láta vinna árstíðabundna aukavinnu og má þar nefna skattstofur.
     Hér er um misrétti að ræða og því er lagt til hér að breyta lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins þannig að framvegis verði allar greiðslur vegna aukavinnu taldar með til höfuðstóls fyrir lífeyrisgreiðslur. Eins að þeir ríkisstarfsmenn sem hlotið hafa aukavinnutekjur án lífeyrisréttinda geti keypt þau réttindi á sanngjarnan hátt í lífeyrissjóði sínum.