Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 340 . mál.


Nd.

967. Nefndarálit



um frv. til l. um leikskóla.

Frá 2. minni hl. menntamálanefnd

ar.

     Frumvarp þetta var afgreitt óvænt úr nefndinni 12. mars sl. Formaður nefndarinnar hafði áður lýst yfir því að málið yrði ekki afgreitt þar sem ekki gæfist tími til að senda það til umsagnar er svo skammt væri til þingloka. Undirrituð óskaði þá eftir fresti á afgreiðslunni til þess að fá tækifæri til að kynna málið fyrir þingflokki og að frumvarpið yrði sent til umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga en hvoru tveggja var hafnað. Þessi vinnubrögð ganga þvert á hefðbundnar venjur um afgreiðslu mála á Alþingi og eru því ekki ásættanleg.
     Málefni leikskóla er búið að vera ágreiningsefni í ríkisstjórninni á yfirstandandi þingi. Menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra hafa deilt hart og bæði viljað að þessi málaflokkur heyrði undir sitt ráðuneyti. Þannig lagði félagsmálaráðherra fram frumvarp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem m.a. var kveðið á um leikskóla. Menntamálaráðherra lagði engu að síður fram frumvarp til laga einnig um leikskóla þannig að á tímabili voru tvö frumvörp til meðferðar í þinginu um sama efni.
     Svo virðist sem félagsmálaráðherra hafi nú þurft að breyta sínu frumvarpi þannig að ákvæði um leikskólann voru tekin í burtu, enda ekkert óeðlilegt því að það er skoðun margra, m.a. sjálfstæðismanna, að þessi málaflokkur eigi betur heima í menntamálaráðuneytinu.
     Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að frumvarp menntamálaráðherra komst þar með svo seint til meðferðar að enginn tími gafst til efnislegrar umfjöllunar í nefndinni. Þar er því ekki við stjórnarandstöðuna að sakast þar sem ekki var einu sinni veitt tækifæri til að leita álits Sambands íslenskra sveitarfélaga sem eiga þó að bera hitann og þungann af þessu máli, sbr. nýleg lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þannig segir m.a. í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins: „Stofnun leikskóla og rekstur er á ábyrgð sveitarfélaganna en fagleg yfirstjórn málaflokksins samkvæmt lögum þessum er á hendi menntamálaráðuneytis.“
    Samband íslenskra sveitarfélaga hefur mótmælt þessari málsmeðferð með svohljóðandi bréfi, sbr. fylgiskjal með nefndaráliti þessu.
    Þá kemur fram í greinargerð frumvarpsins að nefndinni, er samdi upprunalegt frumvarp, var einnig falið að athuga æskilegt fyrirkomulag á stofn- og rekstrarkostnaði og samdi nefndin annað frumvarp um ríkisframlag til sveitarfélaga vegna leikskóla. Það frumvarp var stöðvað í ríkisstjórninni og fékkst ekki lagt fram, væntanlega vegna þeirra miklu útgjalda sem það hefði í för með sér fyrir ríkissjóð og vart yrðu fjármögnuð öðruvísi en með skattahækkunum. Hefur stjórnarliðum e.t.v. þótt nóg að gert í aukningu á
skattbyrði almennings, enda kosningar fram undan. Þrátt fyrir þá staðreynd að ekkert sé hugsað fyrir fjármögnun samfara þessu frumvarpi þá leggur menntamálaráðherra áherslu á afgreiðslu þessa máls og gangi það eftir þá er ljóst að næstu ríkisstjórn verður nokkur vandi á höndum þar sem henni ber þá að tryggja framkvæmd þessara laga.
     Margir hafa bent á nauðsyn þess að fjármögnun verði jafnhliða tryggð. Þannig segir t.d. í umsögn ASÍ frá 3. október 1990: „Miðstjórn Alþýðusambandsins álítur að markmiðum þeim, sem nefnd til endurskoðunar á byggingu og rekstri dagvistarheimila setti sér í sínu starfi, verði ekki náð nema bæði frumvörp nefndarinnar verði samþykkt sem lög. Jafnframt vill miðstjórnin leggja áherslu á að frumvörpunum verði ekki breytt á þann hátt að skertur verði réttur barna til vistunar og skyldur sveitarfélaga til uppbyggingar og rekstrar leikskóla.“ Í þessari umsögn er vakin athygli á þeirri staðreynd að við meðferð málsins í ríkisstjórn var sú breyting gerð sem nú kemur fram í 3. gr. frumvarpsins. Þar sem áður var kveðið á um skyldu sveitarfélaga til þess að reka leikskóla segir nú í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins:
     „Sveitarfélögum er samkvæmt lögum þessum skylt að hafa forustu um að tryggja börnum þann lögvarða lágmarksrétt til þjónustu sem lög þessi gera ráð fyrir.“ Þessi setning er illskiljanleg og hætt er við ágreiningi þegar ganga á úr skugga um hvað þessi „réttur“ feli raunverulega í sér.
     Undirrituð er þeirrar skoðunar að það samræmist ekki tilgangi löggjafar að hafa lög þannig úr garði gerð að þau feli einungis í sér einhverja viljayfirlýsingu, slíkt eigi öllu fremur heima í ályktunum þingsins. Lagafyrirmæli eiga að vera skýr og kveða á um rétt og skyldur.
     Þetta frumvarp er mjög merkilegt fyrir margar sakir og felur í sér athyglisverð nýmæli sem væntanlega kæmu barnafjölskyldum þessa lands til góða. Augljóst er að mikil vinna hefur verið lögð í gerð þess og vafalaust hafa margir áhuga á framgangi frumvarpsins enda þörfin víða brýn. Þó verður ekki hjá því komist að benda á þá staðreynd að eins og staðið er að þessu máli tryggir það á engan hátt meginmarkmið frumvarpsins. Ríkisstjórnin getur ekki vikið sér undan ábyrgð á þennan hátt. Hún verður að taka afstöðu til þess hvort henni sé alvara í því að taka raunhæft á þessu máli. Til þess að fá úr því skorið er hér gerð tillaga um það að máli þessu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi 14. mars 1991.



Sólveig Pétursdóttir.






Fylgiskjal.





Athugasemdir við frumvarp til laga um leik

skóla.

Bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga til menntamálanefndar neðri deild

ar.

(13. mars 1991.)



    Samband íslenskra sveitarfélaga gerir athugasemd við það að nú skuli stefnt að því að afgreiða á Alþingi frumvarp til laga um leikskóla án þess að sambandinu hafi verið gefinn kostur á að fjalla efnislega um málið og gefa formlega umsögn.
    Menntamálaráðherra og aðstoðarmaður ráðherra komu á fund stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 19. janúar 1990 og kynntu drög að frumvarpi til laga um leikskóla og drög að frumvarpi til laga um ríkisframlög til sveitarfélaga vegna leikskóla.
    Fjölmargar athugasemdir við frumvörpin komu fram á fundinum og var gengið út frá því að stjórnin fengi þau til formlegrar umsagnar þegar málið yrði lagt fyrir Alþingi.
    Augljóst er að svo veigamikill málaflokkur, sem nú er í höndum sveitarfélaga samkvæmt verkaskiptalögum ríkis og sveitarfélaga, verður að fá umfjöllun á sameiginlegum vettvangi sveitarstjórnarmanna.
    Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ýmsar athugasemdir fram að færa, einkum varðandi III. og IV. kafla frumvarpsins, þar sem fjallað er um hlutverk sveitarfélaga í stofnun og rekstri leikskóla og yfirstjórn, enda kom það skýrt fram á fyrrnefndum fundi með ráðherra.
    Samband íslenskra sveitarfélaga væntir þess að mál þetta verði eigi afgreitt nú án samráðs við sambandið.

Virðingarfyllst,


Þórður Skúlason, framkvæmda

stjóri.