Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1011, 113. löggjafarþing 420. mál: Byggðastofnun (byggðaáætlun o.fl.).
Lög nr. 39 27. mars 1991.

Lög um breytingar á lögum nr. 64 1. júlí 1985, um Byggðastofnun.


1. gr.

     8. gr. laganna orðist svo:
     Byggðastofnun gerir tillögu að stefnumótandi áætlun í byggðamálum til fjögurra ára í senn. Ráðherra leggur tillöguna fyrir Alþingi til afgreiðslu.
     Í tillögunni komi fram stefna ríkisstjórnar í byggðamálum og tengsl hennar við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum, svo og við áætlanir á sviði opinberrar þjónustu í landinu.
     Í forsendum áætlunarinnar gerir Byggðastofnun grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í einstökum landshlutum og markmiðum sem æskileg eru talin og þjóðhagslega hagkvæmt að stefna að í þróun byggðar landsins í heild.
     Við gerð áætlunarinnar hafi Byggðastofnun samráð við ráðuneyti, Þjóðhagsstofnun, sveitarfélög og samtök þeirra og aðra aðila sem þurfa þykir.
     Byggðaáætlun skal endurskoða á tveggja ára fresti.
     Byggðastofnun gerir einnig svæðisbundnar byggðaáætlanir í samráði við sveitarfélög, atvinnuþróunarfélög og aðra aðila sem málið varðar.
     Hagstofu Íslands, Þjóðhagsstofnun og öðrum ríkisstofnunum eða sveitarfélögum er rétt að veita Byggðastofnun þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar til slíkrar áætlunargerðar.

2. gr.

     9. gr. laganna orðist svo:
     Stjórn Byggðastofnunar fjallar um stefnumótandi hluta byggðaáætlunar við undirbúning hennar. Hún fylgist með framkvæmd þeirra þátta hennar sem henni er falið af Alþingi. Stjórn stofnunarinnar fylgist einnig með þeim svæðisbundnu byggðaáætlunum sem unnar hafa verið af Byggðastofnun í samstarfi við heimaaðila og stjórnin hefur samþykkt.

3. gr.

     Ný grein, sem verði 10. gr., bætist við og breytist númer síðari greina í samræmi við það. Greinin orðist svo:
     Byggðastofnun getur átt aðild að atvinnuþróunarfélögum á landsbyggðinni. Í slíkum félögum starfa sveitarfélög, samtök sveitarfélaga og launþega, atvinnufyrirtæki og aðrir aðilar sem vilja taka þátt í og láta sig varða alhliða þróun og nýsköpun í atvinnulífi á viðkomandi svæði.
     Um stærð félagssvæðis atvinnuþróunarfélaga fer eftir aðstæðum í hverju héraði. Stjórn Byggðastofnunar veitir stuðning við stofnun og rekstur atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni á grundvelli umsókna frá þeim.
     Byggðastofnun er heimilt að taka þátt í atvinnuþróunarfélögum og á fulltrúi hennar að jafnaði sæti í stjórn þeirra.

4. gr.

     Ný grein, sem verði 11. gr., bætist við og breytist númeraröð annarra greina í samræmi við það. Greinin orðist svo:
     Byggðastofnun veitir að fenginni umsókn atvinnuþróunarfélaga styrki til verkefna á vegum þeirra á sviði þróunar og nýsköpunar í atvinnulífi á félagssvæðinu.
     Byggðastofnun hefur samráð við tæknistofnanir atvinnuvega, stofnlánasjóði, háskóla og aðra aðila sem vinna að hliðstæðum verkefnum og beitir sér fyrir samstarfi um stuðning við framkvæmd þeirra verkefna sem hún metur styrkhæf. Stjórn stofnunarinnar setur nánari reglur um þessar styrkveitingar.
     Í hverju kjördæmi skal starfa a.m.k. einn atvinnuráðgjafi. Hlutverk hans er að stunda almenna atvinnuráðgjöf á starfssvæði sínu. Komið skal á nánu samstarfi við aðra aðila sem vinna að ráðgjafar- og leiðbeiningarstarfi í kjördæminu. Byggðastofnun tekur þátt í kostnaði við starfsemi atvinnuráðgjafa.
     Atvinnuráðgjafar kjördæmanna skulu einnig vinna að samstarfi atvinnuþróunarfélaga innan viðkomandi kjördæmis og er heimilt að fela þeim framkvæmdastjórn þeirra ef um semst.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 15. mars 1991.