Ferill 474. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 474 . mál.


Ed.

1033. Frumvarp til laga



um almannatryggingar.


(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990 91.)



I. KAFLI


Skipulag og stjórn.


1. gr.


     Almannatryggingar teljast samkvæmt lögum þessum:
     Lífeyristryggingar.
     Sjúkratryggingar.

2. gr.


     Tryggingastofnun ríkisins annast lífeyris - og sjúkratryggingar eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum. Heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytið hefur yfirumsjón með allri starfsemi hennar.
     Starfsemi stofnunarinnar skal skipt í eftirtalin svið:
     Lífeyristryggingasvið er annast lífeyristryggingar, svo sem kveðið er á um í lögum þessum.
     Sjúkratryggingasvið er annast sjúkratryggingar, svo sem kveðið er á um í lögum þessum.
     Læknisfræðisvið sem annast læknisfræðilega þætti þeirra mála er heyra undir lífeyristrygginga - og sjúkratryggingasvið og önnur svið eftir því sem við á.
     Fjárhags - og umsýslusvið sem annast fjárreiður stofnunarinnar og umsýslu - og umboðsstörf, sbr. 3. gr.
     Hvert svið stofnunarinnar er sjálfstæð eining og hafa lífeyristryggingasvið og sjúkratryggingasvið hvort um sig sjálfstæðan fjárhag.
     Að öðru leyti er tryggingaráði heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að skipa starfsemi stofnunarinnar í svið eftir því sem henta þykir.
     Á vegum Tryggingastofnunar ríkisins skal starfa Tryggingaskóli. Hlutverk hans er að mennta og þjálfa starfsmenn stofnunarinnar og svæðisskrifstofa.

3. gr.


     Tryggingastofnun ríkisins getur tekið að sér að annast reikningshald, daglega afgreiðslu, svo og önnur verkefni fyrir einstaka sjóði og skal fjárhags - og umsýslusvið sinna því.

4. gr.


     Tryggingastofnun ríkisins á heimili og varnarþing í Reykjavík. Utan Reykjavíkur skal Tryggingastofnun hafa svæðisskrifstofur og fer staðarval, fyrirkomulag og rekstur þeirra eftir ákvörðun tryggingaráðs.

5. gr.


     Ráðherra skipar forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, aðstoðarforstjóra og forstöðumenn sviða til sex ára í senn að fengnum tillögum tryggingaráðs og setur þeim erindisbréf.
     Forstöðumenn sviða annast venjulega afgreiðslu mála, hver fyrir sitt svið. Hvers konar nýbreytni og afbrigði frá venju skal bera undir forstjóra.
     Forstjóri annast daglega stjórn stofnunarinnar samkvæmt lögum þessum og reglugerðum og hefur umsjón með rekstri hennar.
     Aðstoðarforstjóri skal vera forstjóra til aðstoðar og staðgengill í fjarveru hans.
     Forstjóri annast ráðningu annarra starfsmanna stofnunarinnar í samráði við forstöðumenn viðkomandi sviða.
     Um ákvörðun launa fer eftir kjarasamningi opinberra starfsmanna.

6. gr.


     Sameinað Alþingi kýs á fyrsta þingi eftir hverjar almennar alþingiskosningar fimm menn í tryggingaráð og aðra fimm til vara.
     Ráðherra skipar formann og varaformann tryggingaráðs úr hópi hinna kjörnu aðalmanna.

7. gr.


     Tryggingaráð fer með yfirstjórn Tryggingastofnunar ríkisins. Ráðið skal hafa eftirlit með fjárhag, rekstri og starfsemi stofnunarinnar og gæta þess að hún starfi í samræmi við lög og reglugerðir á hverjum tíma.
     Mál skulu borin undir tryggingaráð ef tryggingaráðsmenn óska þess eða ef forstjóra svo og forstöðumönnum sviða finnst ástæða til.

8. gr.


     Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta úrskurðar tryggingaráð í málinu.
     Komi ágreiningur fyrir tryggingaráð til úrskurðar og úrlausn hans er að einhverju leyti eða öllu háð læknisfræðilegu, lögfræðilegu eða félagsfræðilegu mati er tryggingaráði hverju sinni heimilt að kveðja sér til ráðuneytis einn til þrjá menn sem hafa sérþekkingu á hlutaðeigandi sviði.

9. gr.


     Reikningar Tryggingastofnunar ríkisins fylgja lögum nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga.
     Tryggingastofnunin skal reglulega birta glöggar upplýsingar um alla starfsemi sína.
     Tryggingastofnun ríkisins skal kynna almenningi rétt sinn til bóta með upplýsingastarfsemi.

II. KAFLI


Lífeyristryggingar.


A. ALMENN ÁKVÆÐI


10. gr.


     Lífeyristryggingar taka til ellilífeyris, einbúauppbótar, örorkulífeyris, endurhæfingarlífeyris, heimildarbóta, örorkustyrks, endurhæfingarlífeyris, vasapeninga, umönnunarbóta, barnalífeyris og ekkju - og ekkilsbóta.

B. BÆTUR


11. gr.


    

Ellilífeyrir.


    Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri, eiga lögheimili hér á landi og hafa átt lögheimili hér í a.m.k. þrjú ár frá 16 til 67 ára aldurs.
     Óskertur ellilífeyrir einstaklings skal vera 11.181 kr. á mánuði.
     Ellilífeyrir greiðist þeim einstaklingum sem:
     hafa átt lögheimili hér á landi í a.m.k. 40 ár frá 16 til 67 ára aldurs; sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við lögheimilistímann; miða skal lífeyri hjóna við lögheimilistíma þess sem lengri réttindatíma á,
     hafa innan við 750.000 kr. í tekjur á ári. Einstaklingur, sem hefur tekjur aðrar en lífeyri almannatrygginga og lífeyri lífeyrissjóða umfram 750.000 kr. á ári, verður fyrir skerðingu lífeyris sem nemur 30% þeirra tekna sem umfram eru.
     Ef aðrar tekjur ellilífeyrisþega en lífeyrir almannatrygginga fara ekki fram úr 177.600 kr. á ári skal greidd tekjutrygging 20.572 kr. á mánuði. Hafi bótaþegi hins vegar tekjur umfram kr. 177.600 á ári skal skerða tekjutrygginguna um 40% þeirra tekna sem umfram eru.
     Frítekjumark hjóna, sem bæði njóta ellilífeyris, skal vera 75% af frítekjumarki tveggja einstaklinga hvað varðar lífeyri og tekjutryggingu.
     Njóti annað hjóna ellilífeyris skal helmingur samanlagðra tekna þeirra teljast tekjur lífeyrisþegans.
     Um hjón og einhleypinga gilda að öðru leyti sömu ákvæði.
     Hver, sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur, skal eiga rétt á töku ellilífeyris frá og með 60 ára aldri, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum þessarar greinar. Starfsár sjómanna skal í þessu sambandi miðast við að sjómaður hafi verið lögskráður á íslenskt skip eða skip gert út af íslenskum aðilum eigi færri en 180 daga að meðaltali á ári í 25 ár. Nánari ákvæði um framkvæmd skulu sett með reglugerð.
     Nú hefur sjómaður stundað sjómennsku í 25 ár eða lengur að hluta eða öllu leyti á opnum báti eða þilfarsbáti undir 12 brl. eða af öðrum ástæðum ekki borið skylda til lögskráningar og er þá heimilt að úrskurða honum ellilífeyri frá og með 60 ára aldri, enda sé sannað að sú sjómennska hafi verið aðalstarf viðkomandi meðan á henni stóð.

12. gr.


    

Einbúauppbót.


    Rétt til einbúauppbótar eiga þeir einstaklingar, 67 ára og eldri, sem njóta ellilífeyris, sbr. 11. gr., búa einir og hafa innan við 15.000 kr. á mánuði í tekjur aðrar en lífeyri almannatrygginga.
     Uppbót getur numið allt að 6.000 kr. á mánuði.
     Uppbót greiðist þannig:

    Tekjur     Uppbót
    0 kr.     Óskert uppbót.
    1 15.000 kr.     Uppbót skerðist um 40% tekna.


13. gr.


    

Örorkulífeyrir.


    
Rétt til örorkulífeyris eiga þeir einstaklingar á aldrinum 16 67 ára sem vegna örorku sinnar geta ekki unnið sér inn 1 / 4 þess sem menn með fulla starfsorku vinna sér inn við störf sem hæfa líkamskröftum þeirra, verkkunnáttu og unnt er að ætlast til af þeim með hliðsjón af undanfarandi starfa, eiga lögheimili hérlendis og hafa átt lögheimili hér a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða hafa haft óskerta starfsorku er þeir tóku hér lögheimili.
     Óskertur örorkulífeyrir skal vera 12.750 kr. á mánuði.
     Örorkulífeyrir greiðist þeim sem:
     eiga lögheimili hérlendis frá 16 ára aldri að viðbættum lögheimilistíma fram til 67 ára aldurs er nái 40 árum; sé tíminn skemmri greiðist hlutfallslegur örorkulífeyrir,
     hafa innan við 750.000 kr. í tekjur á ári, aðrar en lífeyri almannatrygginga og lífeyri lífeyrissjóða. Tekjur umfram 750.000 kr. á ári skerða lífeyri er nemur 30% þeirra tekna sem umfram eru.
     Ef aðrar tekjur örorkulífeyrisþega en lífeyrir almannatrygginga fara ekki fram úr 177.600 kr. á ári skal greidd tekjutrygging 23.500 kr. á mánuði. Hafi bótaþegi hins vegar tekjur umfram 177.600 kr. á ári skal skerða tekjutrygginguna um 40% þeirra tekna sem umfram eru.
     Frítekjumark hjóna, sem bæði njóta örorkulífeyris, skal vera 75% af frítekjumarki tveggja einstaklinga hvað varðar lífeyri og tekjutryggingu.
     Njóti annað hjóna örorkulífeyris skal helmingur samanlagðra tekna þeirra teljast tekjur lífeyrisþegans.
     Um hjón og einhleypinga gilda að öðru leyti sömu ákvæði.
     Læknisfræðisvið annast örorkumat.

14. gr.


    

Heimildarbætur.


    
Heimilt er að greiða elli - og örorkulífeyrisþegum uppbót á tekjutryggingu ef lífskjör viðkomandi eru lakari í samanburði við aðra lífeyrisþega þannig að sýnt sé að bótaþegi komist ekki af án uppbótarinnar.
     Ráðherra skal með reglugerð, að fengnum tillögum tryggingaráðs, setja nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.



15. gr.


    

Örorkustyrkur.


    
Rétt til örorkustyrks eiga þeir einstaklingar á aldrinum 16 67 ára sem vegna örorku sinnar geta ekki unnið sér inn helming þess sem menn með fulla starfsorku vinna sér inn við störf sem hæfa líkamskröftum þeirra, verkkunnáttu og unnt er að ætlast til af þeim með hliðsjón af undanfarandi starfa, eiga lögheimili hérlendis og hafa átt lögheimili hér a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða hafa haft óskerta starfsorku er þeir tóku hér lögheimili.
     Óskertur örorkustyrkur skal vera 9.000 kr. á mánuði.
     Örorkustyrkur greiðist þeim sem:
     eiga lögheimili hérlendis frá 16 ára aldri að viðbættum lögheimilistíma fram til 67 ára aldurs er nái 40 árum; sé tíminn skemmri greiðist hlutfallslegur örorkustyrkur,
     hafa tekjur innan við 750.000 kr. á ári, aðrar en lífeyri almannatrygginga. Sá sem hefur tekjur umfram 750.000 kr. á ári verður fyrir skerðingu styrks sem nemur 30% þeirra tekna sem umfram eru.
     Frítekjumark hjóna, sem bæði njóta örorkustyrks, skal vera 75% af frítekjumarki tveggja einstaklinga.
     Njóti annað hjóna örorkustyrks en ekki hitt þá skal helmingur samanlagðra tekna þeirra teljast tekjur styrkþegans.
     Heimilt er að greiða uppbót á örorkustyrk ef styrkþegi verður sannanlega fyrir verulegum aukakostnaði sökum örorku sinnar. Ráðherra skal með reglugerð, að fengnum tillögum tryggingaráðs, setja nánari ákvæði um framkvæmd uppbótar.
     Uppbót getur numið allt að 50% örorkustyrks.

16. gr.


    

Endurhæfingarlífeyrir.


    
Heimilt er Tryggingastofnun ríkisins, þegar sjúkradagpeningar hafa verið greiddir a.m.k. þrjá mánuði og sjúklingur er enn óvinnufær og án launatekna og ekki verður séð hver örorka verður til frambúðar eftir sjúkdóm eða slys, að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 12 mánuði. Skilyrði er að sjúklingur gangist undir greiningu eða meðferð. Um framkvæmd þessa ákvæðis skal nánar ákveðið með reglugerð. Endurhæfingarlífeyrir skal nema sömu fjárhæð og örorkulífeyrir. Um tekjutryggingu og aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og um örorkulífeyri. Sjúkrahúsvist í greiningar - og endurhæfingarskyni skerðir ekki bótagreiðslur.

17. gr.


    

Vasapeningar.


    Ef elli - eða örorkulífeyrisþegi dvelst lengur en einn mánuð samfellt á stofnun eða vistheimili þar sem sjúkratryggingar greiða fyrir hann fellur lífeyrir hans niður ef vistin hefur verið lengri en fjórir mánuðir undanfarna 24 mánuði. Tryggingaráði er þó heimilt að víkja frá þessum tímamörkum ef sérstaklega stendur á. Sé dvölin ekki greidd að fullu er heimilt að greiða lífeyri allt að því sem á vantar. Hafi hlutaðeigandi innan við 3.000 kr. í tekjur á mánuði er heimilt að greiða honum 10.000 kr. á mánuði í vasapeninga. Tekjur umfram 3.000 kr. skerða vasapeninga um 33% þeirra tekna sem umfram eru. Ef tekjur hlutaðeigandi eru vegna vinnu á stofnuninni og telja má vinnuna þátt í endurhæfingu eða föndur er heimilt að ákveða að tekjurnar hafi ekki skerðingaráhrif á vasapeningana. Nú dvelst lífeyrisþegi utan stofnunar nokkra daga í senn, en útskrifast samt ekki og er þá heimilt að greiða honum dagpeninga sem eigi séu lægri en tvöfaldir sjúkradagpeningar hverju sinni.

18. gr.


    

Umönnunarbætur vegna fatlaðra og sjúkra barna.


    Greiða má framfærendum fatlaðra og sjúkra barna innan 16 ára aldurs, sem dveljast í heimahúsi, allt að 43.450 kr. á mánuði ef andleg eða líkamleg hömlun barnsins hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld eða sérstaka umönnun eða gæslu. Dagleg þjónusta við barn utan heimilis skerðir bætur samkvæmt þessari grein, sbr. reglugerð er ráðherra setur, að fengnum tillögum tryggingaráðs, um framkvæmd þessarar greinar.

19. gr.


    

Umönnunarbætur vegna elli - og örorkulífeyrisþega.


    Maki eða sá sem heldur heimili með og annast elli - eða örorkulífeyrisþega og getur af þeim sökum ekki stundað nema takmarkaða vinnu utan heimilis á rétt á umönnunarbótum er nemi allt að 43.450 kr. á mánuði. Bæturnar skerðast sem nemur tekjum af vinnu utan heimilis og öðrum greiðslum samkvæmt lögum þessum.

20. gr.


    

Barnalífeyrir.


    Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára sem eiga lögheimili hérlendis ef annað hvort foreldrið er látið eða er örorkulífeyrisþegi hafi annað hvort foreldri þess eða barnið sjálft átt hér lögheimili a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skal greiddur tvöfaldur barnalífeyrir.
     Sömu réttarstöðu hafa stjúpbörn og fósturbörn þegar eins stendur á. Þó skal ekki greiddur barnalífeyrir vegna fráfalls eða örorku stjúp - eða fósturforeldris ef barnið á framfærsluskylt foreldri á lífi.
     Barnalífeyrir með hverju barni skal vera 8.500 kr. á mánuði.
     Greiða skal barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega.
     Barnalífeyrir skal greiddur með barni þess sem sætir gæslu - eða refsivist einn mánuð eða lengur, enda hafi hann áður, í hjúskap eða sambúð, framfært barn sitt.
     Liggi fyrir skilríki um að barn verði ekki feðrað greiðir Tryggingastofnun barnalífeyri með því.
     Barnalífeyrir greiðist foreldrum enda séu börnin á framfæri þeirra eða þeim öðrum er annast framfærslu barnanna.
     Heimilt er að greiða einfaldan barnalífeyri til ungmennis á aldrinum 18 til 20 ára vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ef annað foreldri þess eða báðir eru látnir eða annað foreldrið eða báðir eru ellilífeyris - eða örorkulífeyrisþegar. Verði úrskurði skv. 1. mgr. 17. gr. barnalaga, nr. 9/1981, ekki við komið vegna efnaleysis foreldris eða takist ekki að hafa upp á því er heimilt samkvæmt þessari málsgrein að úrskurða ungmenni í námi eða starfsþjálfun barnalífeyri. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd þessarar málsgreinar.



21. gr.


    

Ekkju - og ekkilsbætur.


    Hver sá, sem lögheimili á hér á landi og hefur átt lögheimili samfellt í þrjú ár og verður ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs, á rétt á bótum í 18 mánuði eftir lát maka. Einstaklingur, 67 ára eða eldri, sem verður ekkja eða ekkill, á rétt á bótum í þrjá mánuði eftir lát maka. Við útgáfu leyfis til skilnaðar að borði og sæng eða við slit á óvígðri sambúð fellur réttur samkvæmt þessu ákvæði niður.
     Réttur til ekkju - og ekkilsbóta fellur niður við stofnun hjúskapar eða sambúðar.
     Fjárhæð bóta skal nema 15.000 kr. á mánuði.
     Hafi umsækjandi barn yngra en 18 ára á framfæri sínu á hann rétt á bótum í 18 mánuði til viðbótar.

22. gr.


    

Meðlag.


    Foreldri, sem fær úrskurð yfirvalds um meðlag með börnum sínum eða um sérstök framlög skv. 19. gr. barnalaga, nr. 9/1981, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið greiðslur samkvæmt úrskurði innan þeirra marka er 20. gr. setur um fjárhæð og aldur barna.
     Framlag til menntunar og starfsþjálfunar skv. 17. gr. barnalaga er þó heimilt að greiða samkvæmt úrskurði til 20 ára aldurs.
     Þegar eftir að barnsfaðernismál er höfðað, þ.e. eftir að dómari hefur veitt viðtöku ósk frá réttum aðila um að málið sæti rannsókn og dómsmeðferð, getur móðir fengið meðlag greitt með barninu innan þeirra marka er 20. gr. setur.
     Tryggingastofnun er heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem yfirvaldsúrskurður eða vottorð um höfðun barnsfaðernismáls berst stofnuninni enda eigi þá 6. mgr. 20. gr. ekki við.
     Ákvæði þessarar greinar skulu gilda, eftir því sem við getur átt, um greiðslu meðlags sem feður eða fráskildar konur fá úrskurðað með börnum sínum.

23. gr.


    

Framfærslulífeyrir.


    Hjá Tryggingastofnun ríkisins getur barnsmóðir fengið samkvæmt yfirvaldsúrskurði greiddan:
     framfærslulífeyri í allt að þrjá mánuði skv. 1. mgr. 25. gr. barnalaga, nr. 9/1981,
     hjúkrunar - og framfærslustyrk í allt að níu mánuði skv. 2. mgr. 25. gr. barnalaga,
     kostnað vegna meðgöngu og fæðingar skv. 1. mgr. 26. gr. barnalaga.

24. gr.


     Tryggingastofnun skal senda Innheimtustofnun sveitarfélaga tilkynningu um fyrstu greiðslu innan eins mánaðar skv. 22. og 23. gr. Tilkynningunni skal fylgja afrit af yfirvaldsúrskurði eða staðfestum samningi.
     Innheimtustofnun sveitarfélaga endurgreiðir Tryggingastofnuninni greiðslur skv. 22. og 23. gr. mánaðarlega eftir því sem innheimtist. Um skil vegna óinnheimtra skulda fer eftir ákvæðum laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga.
    Ríkissjóður endurgreiðir Tryggingastofnun ríkisins meðlög vegna foreldra sem framfærslurétt eiga erlendis, svo og meðlög greidd skv. 3. mgr. 22. gr., þar til meðlagsúrskurður liggur fyrir.

25. gr.


     Við ákvörðun bóta skv. 11. og 13. gr. og annars staðar þar sem við á hér að framan skulu umsóknir rökstuddar, t.d. með staðfestum endurritum af skattframtölum og skýrum upplýsingum um hagi bótaþega.
     Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að afla upplýsinga hjá skattyfirvöldum varðandi ákvörðun þeirra bóta sem tekjutengdar eru.
     Úrskurðaðar tekjutengdar bætur skal endurskoða árlega með tilliti til breytinga á tekjum bótaþega. Hinir nýju úrskurðir skulu gilda frá 1. júlí ár hvert. Hafi um verulega lækkun eða missi tekna verið að ræða má láta úrskurði gilda frá 1. janúar það sama ár.
     Með tekjum er átt við tekjur, sbr. II. kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, að teknu tilliti til frádráttar skv. 30. gr. sömu laga, sbr. 31. gr. laganna ef við á.
     Bætur almannatrygginga teljast ekki til tekna við útreikning tekjutengdra bóta nema svo sé mælt fyrir um í lögunum.
     Tekjufjárhæðir í lögunum miðast við tekjur árið 1989. Með reglugerð skal þeim fjárhæðum breytt 1. júlí árlega til samræmis við almennar breytingar á bótum og öðrum tekjum milli ára.
     Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða að frítekjumark lífeyrisþega sé annað gagnvart greiðslum úr lífeyrissjóðum.

C. TEKJUR


26. gr.


     Útgjöld lífeyristrygginga skulu ríkissjóður og atvinnurekendur bera.
     Framlag atvinnurekenda skal vera 2,12% af öllum tegundum launa eða þóknana fyrir starf liðins árs. Sama er hvort greitt er í peningum eða á annan hátt. Sé greitt á annan hátt en í peningum, t.d. í hlunnindum, skal meta þau til stofns eftir sömu reglum og gilda um launaskatt samkvæmt lögum nr. 14/1965, með síðari breytingum.

III. KAFLI


Sjúkratryggingar.


A. ALMENN ÁKVÆÐI


27. gr.


     Allir landsmenn eru sjúkratryggðir eigi þeir lögheimili hér á landi. Börn yngri en 16 ára eru tryggð með foreldrum sínum. Sama gildir um stjúpbörn og fósturbörn.
     Sá sem eignast lögheimili í landinu verður sjúkratryggður sex vikum eftir að lögheimilisbreyting er tilkynnt nema annað leiði af milliríkjasamningum. Heimilt er að greiða nauðsynlega þjónustu í skyndilegum sjúkdómstilfellum þótt biðtíminn sé ekki liðinn.
     Tryggingastofnun ríkisins eða hlutaðeigandi svæðisskrifstofa gefur út réttindaskírteini til þeirra sem sannanlega eru sjúkratryggðir. Ákveða má að réttindaskírteini geti jafnframt verið greiðslukort fyrir lyf, læknishjálp og aðra sjúkrahjálp utan sjúkrahúsa.


B. BÆTUR


28. gr.


     Hverjum þeim, sem sjúkratryggður er skv. 27. gr., skal tryggð ókeypis vist að ráði læknis í sjúkrahúsum enda séu ekki önnur ákvæði í sérlögum. Þetta gildir um sjúkrahús sem rekin eru með ríkisframlagi og gildir þá einu hvort um er að ræða bein fjárframlög samkvæmt fjárlögum eða daggjöld. Sjúkrahúsvist skal tryggð eins lengi og nauðsyn krefur ásamt læknishjálp, lyfjum og annarri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir.
     Daggjöld sjúkrahúsa, sem ekki eru á föstum fjárlögum, hjúkrunarheimila og annarra stofnana, sem almannatryggingar taka til, skulu ákveðin með reglugerð, svo og skilyrði greiðslu daggjalda.

29. gr.


     Ef sjúklingi er brýn nauðsyn á læknismeðferð erlendis, innan sjúkrahúss eða utan, þar sem ekki er unnt að veita honum meðferðina hérlendis greiða sjúkratryggingar kostnað við hana.
     Ráðherra skipar, að fengnum tillögum tryggingaráðs, nefnd til að úrskurða hvort téð skilyrði eru fyrir hendi, svo og hvar hinir tryggðu skuli njóta meðferðar. Nefndina skipa fjórir sérfróðir læknar auk forstöðumanns læknisfræðisviðs sem jafnframt er formaður.
     Njóti sjúklingur meðferðar á dýrari stað erlendis en samþykkt hefur verið greiðir hann sjálfur umframkostnað sem af því leiðir.
     Ferðastyrki skal greiða þeim sjúklingum er þurfa að leita sér læknishjálpar erlendis. Enn fremur skal greiða þeim uppihaldsdagpeninga vegna nauðsynlegrar dvalar utan sjúkrahúss.
     Heimilt er að greiða fylgdarmönnum ferðastyrki, svo og uppihaldsdagpeninga.
     Nánari ákvæði um ferðastyrki og uppihaldsdagpeninga skulu sett með reglugerð, að fengnum tillögum tryggingaráðs.

30. gr.


     Auk þeirra réttinda, sem um ræðir í 28. og 29. gr., skulu sjúkratryggingar greiða fyrir þá hjálp sem hér er talin:
     Almenna læknishjálp utan sjúkrahúsa hjá lækni sem er aðili að samningi við Tryggingastofnun ríkisins. Með reglugerð má ákveða að sjúklingur greiði lækni gjald fyrir hvert viðtal á stofu og hverja vitjun til sjúklings.
     Rannsóknir og aðgerðir hjá sérfræðingum og stofnunum sem Tryggingastofnun ríkisins hefur samning við. Fyrir hverja komu til sérfræðings og/eða stofnunar greiði sjúklingur gjald sem ákveðið skal með reglugerð. Í reglugerðinni má ákveða að sjúklingur greiði hærra gjald ef hann leitar til sérfræðings án skriflegrar beiðni heimilis - eða heilsugæslulæknis.
     Æfingameðferð eða þjálfun vegna afleiðinga sjúkdóma eða slysa samkvæmt beiðni læknis hjá sjúkraþjálfurum sem Tryggingastofnun hefur samning við. Tryggingaráð setur reglur, sem ráðherra staðfestir, um fjölda skipta sem greidd eru. Fyrir hverja meðferð eða þjálfun greiðir sjúklingur gjald sem ákveðið skal með reglugerð. Sjúkratryggingar greiða þó að fullu meðferð eða þjálfun vegna alvarlegra, langvinnra sjúkdóma eða slysa, sbr. lista sem Tryggingastofnun semur og birta skal.
     Við fæðingu í heimahúsum, kostnað vegna aðstoðar ljósmóður samkvæmt samningi Tryggingastofnunar við ljósmæður.
     Við hjúkrun í heimahúsum vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma eða slysa, kostnað vegna aðstoðar hjúkrunarfræðings samkvæmt samningi Tryggingastofnunar við hjúkrunarfræðinga.
     Lyf sem tryggðum er brýn nauðsyn að nota að staðaldri. Af öðrum nauðsynlegum lyfjum greiðir tryggður ávallt gjald sem ákveðið skal með reglugerð. Sé heildarverð viðkomandi lyfs jafnt eða lægra en hlutur sjúklings greiðir hann það. Ráðherra getur og með reglugerð ákveðið hámark eininga lyfjaávísana.
     Þátttöku í kostnaði við öflun og viðhald hjálpartækja sem nauðsynleg eru vegna fötlunar eftir reglum sem tryggingaráð setur.
     Styrki vegna bifreiðakaupa til hreyfihamlaðra einstaklinga. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd þessa stafliðar.
     Óhjákvæmilegan flutningskostnað samkvæmt gjaldskrá eða samningum Tryggingastofnunar ríkisins og þeirra sem sjúkraflutninga annast um sjúkraflutning sjúks manns í sjúkrahús og úr því, enda sé flutningsþörf og heilsu hins sjúka svo varið að hann verði ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningaleiðum. Þó greiðir sjúklingur ávallt gjald sem ákveðið skal með reglugerð þar sem m.a. má ákveða hámarksgreiðslur á almanaksári. Sé fylgd nauðsynleg greiðist fargjald fylgdarmanns báðar leiðir jafnvel þó að um áætlunarferð sé að ræða. Flutningskostnaður milli sjúkrahúsa greiðist að fullu af því sjúkrahúsi sem sendir sjúkling.
     Ferðakostnað sjúklings og fylgdarmanns hans þegar sjúklingur þarfnast meðferðar eða óhjákvæmilegs eftirlits, með eða án innlagnar, hjá nánar tilgreindum heilbrigðisstéttum. Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd þessa stafliðar.
     Uppihaldsstyrk til sjúklings og/eða fylgdarmanns ef dvelja þarf 14 daga samfellt eða lengur á 12 mánaða tímabili vegna læknismeðferðar utan heimabyggðar. Uppihaldsstyrkur greiðist frá og með 15. degi. Skilyrði er að ekki sé hægt að veita sjúklingi nauðsynlega meðferð í heimabyggð. Styrkurinn til sjúklings miðast við dvöl hans utan sjúkrahúss. Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd þessa stafliðar.
     Tryggingastofnun getur ákveðið varðandi stafliði a e að sjúklingur greiði reikninga að fullu og endurgreiða tryggingarnar honum þá hans hluta.

31. gr.


    

Tannlækningar.


    Fyrir tannlæknaþjónustu greiða sjúkratryggingar í samræmi við samninga sem Tryggingastofnun ríkisins hefur gert eða samkvæmt gjaldskrá sem heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra setur séu samningar ekki fyrir hendi sem hér segir, enda sé reikningi framvísað á því reikningsformi sem Tryggingastofnun ríkisins ákveður:
     Fyrir börn og unglinga 0 15 ára greiðist 85% kostnaðar við tannlækningar, aðrar en gullfyllingar, krónu - og brúargerð og tannréttingar. Heimilt er að greiða allt að 50% kostnaðar við gullfyllingar, krónu - og brúargerð og við tannréttingar samkvæmt reglum sem ráðherra setur að höfðu samráði við tryggingaráð. Í reglunum skal m.a. kveðið á um flokkun þessara tannlækninga og þátttöku sjúkratrygginga í þeim eftir eðli aðgerða. Þjónustan samkvæmt þessum tölulið skal veitt hjá skólatannlæknum og á heilsugæslustöðvum nema annað sé talið hagkvæmt og um annað samið. Því aðeins kemur til greiðslna samkvæmt þessari grein þegar í hlut eiga gullfyllingar, krónu - og brúargerð og tannréttingar að fyrir liggi sérstök umsókn þar sem m.a. komi fram flokkur tannréttinga þar sem það á við og samþykki sjúkratrygginga.
     Fyrir 16 ára unglinga greiðist 50% kostnaðar. Greiðslur fyrir gullfyllingar, krónur, brýr og tannréttingar skulu vera í samræmi við reglur 1. tölul.
     Fyrir unglinga, þótt eldri séu en 16 ára, er heimilt að greiða allt að 50% kostnaðar við tannréttingar í samræmi við reglur sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs, sbr. 1. tölul., enda hafi meðferð hafist áður en þeir urðu 16 ára. Heimilt er að greiða 50% kostnaðar við aðgerðir 17 og 18 ára unglinga eftir sömu reglum hafi þörfin komið upp fyrr og eftirlitsaðila samkvæmt síðustu málsgrein þá verið gerð grein fyrir því eigi síðar en unglingurinn verður 17 ára að rétt sé að fresta aðgerðinni.
     Fyrir elli - og örorkulífeyrisþega, sem njóta tekjutryggingar, 75% kostnaðar, en fyrir aðra elli - og örorkulífeyrisþega 50% kostnaðar, þó ekki fyrir gullfyllingar, krónur eða brýr. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að hækka greiðslur fyrir þessa bótaþega í allt að 100%.
     Heimilt er að veita styrk til aðgerða hjá tannlækni umfram það sem að framan er talið vegna meðfæddra galla, svo sem klofins góms eða meiri háttar tannvöntunar.
     Á læknisfræðisviði Tryggingastofnunar ríkisins skal starfa tannlæknir sem hefur eftirlit með framkvæmd þeirra ákvæða í lögum þessum er lúta að tannlækningum.
     Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.

32. gr.


    

Dagpeningar.


    Sjúkratryggingar greiða dagpeninga eftir umsókn ef tryggður, sem orðinn er 16 ára og nýtur ekki elli - eða örorkulífeyris, verður algerlega óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss, enda leggi hann niður vinnu og launatekjur falli niður sé um þær að ræða.
     Dagpeningar eru ekki greiddir lengur en 52 vikur samtals á hverjum 24 mánuðum. Þó er heimilt að ákveða að dagpeningar skuli greiddir lengur ef ekki er lokið lækningatilraunum og ljóst er að sjúklingurinn verður innan skamms vinnufær.
     Dagpeningar greiðast frá og með 15. degi, enda hafi umsækjandi verið óvinnufær í minnst 21 dag. Upphaf biðtímans miðast við þann dag er læknir staðreynir óvinnufærni. Staðfesting vinnuveitenda á launatekjum skal og vera fyrir hendi sé um launþega að ræða. Í öðrum tilvikum skulu sambærileg gögn liggja fyrir.
     Fullir dagpeningar skulu nema 740 kr. fyrir einstakling og 200 kr. fyrir hvert barn á framfæri innan 18 ára, þar með talin börn utan heimilis sem umsækjandi sannanlega greiðir með samkvæmt meðlagsúrskurði eða skilnaðarleyfisbréfi.
     Dagpeningar samkvæmt þessari málsgrein greiðast því aðeins að felld sé niður launuð vinna. Launuð vinna merkir hér öll vinna að tekjuöflun, jafnt atvinnurekenda sem launþega. Dagpeningagreiðslur skulu vera sem hér segir:

    Starfshlutfall     Dagpeningar
    75% 100%     Fullir dagpeningar
    51% 74%      3 / 4 dagpeningar
     0% 50%     Hálfir dagpeningar

    Dagpeningar geta þó aldrei numið meira en 3 / 4 misstra launatekna.
     Falli störf á eigin heimili niður vegna slyss eða veikinda skulu greiddir 3 / 4 af fullum dagpeningum, enda njóti umsækjandi ekki dagpeninga vegna niðurfelldrar launavinnu.
     Nú tekur sjúklingur, sem unnið hefur heils dags launavinnu, upp allt að hálfs dags launað starf og er þá heimilt að greiða honum hálfa dagpeninga meðan svo stendur, þó ekki lengur en í þrjá mánuði.
     Við ákvörðun dagpeninga skal að jafnaði miðað við störf umsækjanda síðustu tvo mánuðina áður en hann varð óvinnufær. Námsfólk á ekki rétt á dagpeningum vegna forfalla frá námi, svo fremi þau valdi ekki töfum á því að námsáfangi náist.
     Dagpeningar eru ekki greiddir þeim sem er í verkfalli nema hann hafi átt rétt til dagpeninga áður en verkfall hófst.

33. gr.


    

Veikindi eða slys erlendis.


    
Ef tryggður maður veikist eða verður fyrir slysi erlendis á hann rétt á endurgreiðslu sjúkrakostnaðar, þó eigi hærri upphæð en kostnaðurinn hefði numið hérlendis. Þetta nær þó ekki til þeirra er samkvæmt milliríkjasamningum öðlast rétt til sjúkrahjálpar í öðru landi vegna dvalar þar að því er varðar þá sjúkrahjálp sem samningarnir taka til.
     Nú verður tryggður maður fyrir verulegum kostnaði vegna veikinda eða slyss erlendis og fær hann ekki endurgreiddan nema að litlu leyti frá sjúkratryggingum. Er tryggingaráði þá heimilt að ákveða að sjúkratryggingasvið taki meiri þátt í slíkum kostnaði.

34. gr.


    

Samningar Tryggingastofnunar ríkisins.


    Tryggingaráð skipar nefnd er annast samningagerð Tryggingastofnunar ríkisins við heilbrigðisstéttir um heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa.
     Í nefndinni eiga sæti einn fulltrúi tilnefndur af heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra, einn fulltrúi tilnefndur af fjármálaráðherra, tveir fulltrúar Tryggingastofnunar ríkisins svo og einn án tilnefningar sem jafnframt er formaður. Með nefndinni skulu starfa forstöðumaður sjúkratryggingasviðs svo og forstöðumaður læknisfræðisviðs.
     Leita skal staðfestingar tryggingaráðs og heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra á samningum nefndarinnar.
     Náist ekki samningar skal gerðardómur ákveða samningskjörin. Tilnefna samningsaðilar einn gerðarmann hvor, en Hæstiréttur Íslands skipar oddamann. Verði dómurinn ekki fullskipaður tilnefnir Hæstiréttur Íslands þá sem vantar.
     Meðan gerðardómur starfar skal áður gildandi samningi og/eða gjaldskrá fylgt.

C. TEKJUR


35. gr.


     Ríkissjóður skal bera útgjöld sjúkratrygginga.

IV. KAFLI


Sameiginleg ákvæði.


A. BÆTUR


36. gr.


     Bætur samkvæmt lögum þessum teljast bætur greiddar í peningum og hjálp til sjúkra og slasaðra sem veitt er á annan hátt.
     Enginn getur samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögum þessum eða lögum um atvinnuleysistryggingar.
     Saman mega þó fara:
     Ellilífeyrir, barnalífeyrir, ekkju - og ekkilsbætur.
     Örorkulífeyrir, barnalífeyrir, ekkju - og ekkilsbætur.
     Endurhæfingarlífeyrir, barnalífeyrir, ekkju - og ekkilsbætur.
     Örorkustyrkur, barnalífeyrir, ekkju - og ekkilsbætur.
     Sjúkradagpeningar, barnalífeyrir, ekkju - og ekkilsbætur.
     Aðrar bætur ef svo er mælt fyrir í lögunum.
     Ef maður á rétt á fleiri tegundum bóta en einni sem ekki geta farið saman má hann taka hærri eða hæstu bæturnar. Nú nýtur umsækjandi um dagpeninga annarra lægri bóta sem veittar eru til langs tíma og skulu þá dagpeningar nema mismuninum.

37. gr.


     Karl og kona, sem búa saman og eru bæði ógift, eiga samkvæmt lögum þessum sama rétt til bóta og hjón ef þau hafa átt saman barn eða konan er þunguð af völdum mannsins eða sambúðin hefur varað samfleytt í tvö ár.
     Sambúðarfólk öðlast aldrei ríkari bótarétt en þau hefðu átt ef væru þau hjón.

38. gr.


     Tryggingastofnun ríkisins getur greitt öðrum en bótaþega eða framfærslumanni bætur ef ástæða er til að ætla að bæturnar séu notaðar á þann hátt að eigi samrýmist tilgangi laganna.

39. gr.


     Heimilt er að fella bætur niður ef tryggður vanrækir að fara að læknisráðum eða neitar að hlíta fyrirmælum um þátttöku í þjálfun eða starfsnámi sem bætt gæti afkomu hans eða búið hann undir nýtt starf.

40. gr.


     Umsóknir um bætur skulu ritaðar á eyðublöð er Tryggingastofnun ríkisins lætur gera. Skulu eyðublöð þessi fást á skrifstofum stofnunarinnar, svæðisskrifstofum og annars staðar, eftir því sem henta þykir.
     Umsækjendum er skylt að svara öllum spurningum og gefa allar upplýsingar, sem nauðsynlegar eru, til þess að hægt sé að úrskurða bætur eða endurskoða bótarétt.
     Að jafnaði verður ekki krafist umsókna um sjúkrabætur að undanteknum sjúkradagpeningum.
     Starfsfólk Tryggingastofnunar og svæðisskrifstofa skal kynna sér til hlítar aðstæður umsækjenda og bótaþega og gera þeim grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkvæmt lögum þessum, reglugerðum og starfsreglum trygginganna.

41. gr.


     Allar umsóknir skulu úrskurðaðar svo fljótt sem kostur er á og skulu bætur reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandinn hefur uppfyllt skilyrði til bótanna. Bætur samkvæmt II. kafla reiknast þó frá fyrsta næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi og falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.
     Bætur aðrar en sjúkradagpeningar skulu aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár. Sjúkradagpeningar skulu eigi úrskurðaðir lengra aftur í tímann en sex mánuði.
     Grundvöll bótaréttar má endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafa.

42. gr.


     Bætur skal greiða mánaðarlega fyrir fram. Þó má greiða sjúkrabætur og dagpeninga fyrir styttri tíma. Enn fremur má greiða bætur eftir á fyrir lengri tíma en einn mánuð.
     Úrskurðaðar bætur falla niður ef þær eru ekki sóttar innan 12 mánaða, en úrskurða má bætur á ný ef rökstudd umsókn berst.

43. gr.


     Nú hafa bótaþega verið greiddar hærri bætur en vera ber samkvæmt lögum þessum og á þá Tryggingastofnun ríkisins endurkröfurétt á hendur honum eftir almennum reglum. Má og draga upphæðina frá bótum sem bótaþegi síðar kynni að öðlast rétt til.
     Ef greiðsla skv. 1. mgr. stafar af sviksamlegu atferli bótaþega getur Tryggingastofnun látið hann endurgreiða allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem ofgreidd var. Hefur þetta engin áhrif á þá refsingu sem bótaþegi að öðru leyti kann að hafa bakað sér.

44. gr.


     Ef bótaþegi er dæmdur til refsivistar eða á annan hátt úrskurðaður til dvalar á einhverri stofnun skulu falla niður allar bætur til hans meðan hann dvelst þar, sbr. þó 17. gr.
     Tryggingastofnun getur þó ákveðið að greiða bæturnar, eða hluta af þeim, maka hans og börnum eða einhverjum þriðja aðila sem sér um að bæturnar komi þeim að sem mestu gagni.

45. gr.


     Óheimilt er að framselja eða veðsetja bótakröfur samkvæmt lögum þessum og ekki má leggja á þær löghald né gera í þeim fjárnám eða lögtak né halda bótafé eftir til greiðslu opinberra gjalda.

46. gr.


     Nú telur Tryggingastofnun ríkisins vafa leika á um lögheimili bótaþega eða umsækjanda um bætur, sbr. lög nr. 21 5. maí 1990, og skal hún þá leita úrskurðar dómara, enda getur hún farið fram á rannsókn og úrskurð með sama hætti og þjóðskrá og sveitarfélag skv. 11. gr. nefndra laga.

47. gr.


     Tryggingaráði er heimilt að greiða bætur til bótaþega, búsettra erlendis, ef sérstaklega stendur á.

B. ÖNNUR ÁKVÆÐI


48. gr.


     Heimilt er ríkisstjórninni að semja við erlend ríki og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir um gagnkvæman rétt til þeirra hlunninda sem almannatryggingar veita. Í slíkum samningum má m.a. kveða svo á að lögheimilistími í öðru samningsríki skuli talinn jafngilda lögheimilistíma á Íslandi hvort sem um er að ræða íslenska þegna eða þegna annarra samningsríkja. Enn fremur er heimilt að kveða þar á um rétt til bótagreiðslna samkvæmt almannatryggingalögum við búsetu í öðru samningsríki, sbr. 11. gr. og 47. gr.

49. gr.


     Ráðherra skal með reglugerð, ársfjórðungslega, breyta bótafjárhæðum samkvæmt lögum þessum í samræmi við launavísitölu sem Hagstofa Íslands reiknar út mánaðarlega, sbr. lög nr. 89 31. maí 1989.

50. gr.


     Ráðherra er heimilt að fela Tryggingastofnun ríkisins að semja við tiltekin atvinnufyrirtæki um að þau taki í vinnu einn eða fleiri öryrkja sem hafa vinnugetu, en nýtast ekki á vinnumarkaðinum og hafa ekki verulegar aðrar tekjur til lífsviðurværis en bætur lífeyristrygginga. Meðan vinnusamningurinn stendur greiðir vinnuveitandinn öryrkjanum fastakaup, en Tryggingastofnunin endurgreiðir:
     75% af þeim launum sem öryrkinn fær greidd fyrsta starfsárið,
     50% af þeim launum sem hann fær greidd annað starfsárið og
     25% af þeim launum sem hann fær greidd þriðja starfsárið.
     Samningstími er samkomulagsatriði samningsaðila.
     Í reglugerð skal kveða nánar á um öryrkjavinnu þessa.

51. gr.


     Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara.

52. gr.


     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1991. Skulu ákvæði laganna enn fremur gilda um lífeyrisbætur og dagpeninga þótt réttur til greiðslna eigi rót sína að rekja til slyss eða sjúkdóms fyrir gildistöku laganna.
     Bætur, sem úrskurðaðar hafa verið fyrir gildistöku laga þessara, skulu ekki skerðast þrátt fyrir gildistökuna.
     Jafnframt eru úr gildi numin eftirtalin lagaákvæði:
1.      Lög nr. 67 20. apríl 1971.
2.      Lög nr. 96 27. desember 1971.
3.      Lög nr. 112 31. desember 1972.
4.      Lög nr. 62 21. maí 1974.
5.      Lög nr. 11 28. apríl 1975 (IV. kafli).
6.      Lög nr. 13 23. maí 1975 (5., 6., 7. og 8. gr.).
7.      Lög nr. 39 27. maí 1975.
8.      Lög nr. 95 31. desember 1975.
9.      Lög nr. 36 14. maí 1976.
10.      Lög nr. 117 31. desember 1976.
11.      Lög nr. 9 12. apríl 1977.
12.      Lög nr. 68 29. desember 1977.
13.      Lög nr. 69 29. desember 1977.
14.      Lög nr. 70 31. desember 1977.
15.      Lög nr. 3 17. febrúar 1978 (II. kafli).
16.      Lög nr. 59 20. maí 1978.
17.      Lög nr. 103 30. nóvember 1978 (II. kafli).
18.      Lög nr. 115 30. desember 1978.
19.      Lög nr. 116 30. desember 1978.
20.      Lög nr. 121 30. desember 1978 (II. kafli).
21.      Lög nr. 50 30. maí 1979.
22.      Lög nr. 16 14. apríl 1980.
23.      Lög nr. 36 19. maí 1980.
24.      Lög nr. 58 3. júní 1980.
25.      Lög nr. 85 23. desember 1980.
26.      Lög nr. 97 29. desember 1980.
27.      Lög nr. 103 29. desember 1980.
28.      Lög nr. 30 26. maí 1981.
29.      Lög nr. 36 26. maí 1981.
30.      Lög nr. 11 3. mars 1982.
31.      Lög nr. 14 6. apríl 1982.
32.      Lög nr. 21 29. mars 1982.
33.      Lög nr. 54 11. maí 1982.
34.      Lög nr. 59 14. maí 1982.
35.      Lög nr. 93 31. desember 1982.
36.      Lög nr. 19 23. mars 1983.
37.      Lög nr. 80 28. desember 1983.
38.      Lög nr. 23 24. apríl 1984.
39.      Lög nr. 25 30. mars 1984.
40.      Lög nr. 43 30. maí 1984.
41.      Lög nr. 98 1. júní 1984.
42.      Lög nr. 127 31. desember 1984.
43.      Lög nr. 73 2. júlí 1985.
44.      Lög nr. 83 2. júlí 1985.
45.      Lög nr. 105 31. desember 1985.
46.      Lög nr. 106 31. desember 1985.
47.      Lög nr. 44 23. apríl 1986.
48.      Lög nr. 61 23. apríl 1986.
49.      Lög nr. 85 31. desember 1986.
50.      Lög nr. 86 31. desember 1986.
51.      Lög nr. 23 24. mars 1987.
52.      Lög nr. 54 31. mars 1987.
53.      Lög nr. 59 31. mars 1987.
54.      Lög nr. 98 30. desember 1987.
55.      Lög nr. 39 19. maí 1989.
56.      Lög nr. 74 31. maí 1989.
57.      Lög nr. 75 31. maí 1989.
58.      Lög nr. 87 31. maí 1989 (IV. kafli).
59.      Lög nr. 122 29. desember 1989.
60.      Lög nr. 7 28. febrúar 1990 (V. kafli).
61.      Lög nr. 115 31. desember 1990.

     Reglugerðir og önnur fyrirmæli, sem sett hafa verið samkvæmt ofangreindum lögum og eldri lögum, halda gildi sínu eftir því sem við á uns þau hafa verið numin úr gildi með stjórnvaldsreglum settum samkvæmt lögum þessum.

Ákvæði til bráðabirgða.


(Miðað við gildistöku 1. janúar 1991.)


     Frá og með 1. janúar 1991 eru lagðar niður stöður forstjóra, skrifstofustjóra, tryggingafræðings, tryggingayfirlæknis, aðalgjaldkera, deildarstjóra og tryggingalækna, sbr. 3. gr. laga 67/1971.
          Eftir gildistöku laganna eiga þeir starfsmenn, sem ráðnir hafa verið fyrir hana, eftir því sem aðstæður leyfa, forgangsrétt til að gegna áfram hliðstæðum störfum hjá Tryggingastofnun og einskis missa í launakjörum sínum. Láti starfsmaður af störfum skal farið eftir ákvæðum 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, eftir því sem við á.
     Við gildistöku laga þessara skulu varasjóður slysatrygginga og annað fé slysatrygginga renna til lífeyristrygginga.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram til kynningar og til að vekja umræðu enda þótt umfjöllun um það í ríkisstjórn sé ekki lokið og þingflokkar hafi fyrirvara um einstaka þætti þess. Þetta er gert til þess að hægt verði að leita umsagnar um það í sumar.
     Með bréfi, dags. 17. desember 1987, skipaði heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra nefnd til að endurskoða lög um almannatryggingar. Í nefndina voru skipaðir:
     Árni Gunnarsson alþingismaður, Guðmundur H. Garðarsson alþingismaður, Helga Jónsdóttir, þáverandi formaður tryggingaráðs, Helgi Seljan, fyrrv. alþingismaður, Kristján Guðjónsson, deildarstjóri hjá Tryggingastofnun ríkisins, Sigurður Hermundarson, deildarstjóri í Ríkisendurskoðun og Finnur Ingólfsson, aðstoðarmaður heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra, sem jafnframt var skipaður formaður. Ritari nefndarinnar var skipaður Gunnar Jónsson, lögfræðingur.
     Í júnímánuði 1988 lét Gunnar Jónsson af störfum sem ritari nefndarinnar, en við tók Svanhvít Jakobsdóttir, deildarviðskiptafræðingur í heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytinu. Í apríl 1989 var Steinunn M. Lárusdóttir lögfræðingur ráðin starfsmaður nefndarinnar. Í október 1989 tók Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir alþingismaður sæti í nefndinni. Í desember 1989 lét Helga Jónsdóttir af störfum sem formaður tryggingaráðs og hætti samtímis í nefndinni. Við sæti hennar tók Bolli Héðinsson, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra, en hann hafði þá verið skipaður formaður tryggingaráðs. Í samræmi við samkomulag heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra, Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands í tengslum við gerð kjarasamninga í febrúar 1990 tóku sæti í nefndinni Benedikt Davíðsson, formaður Sambands byggingamanna, tilnefndur af ASÍ og Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af VSÍ. Seinni hluta vetrar 1990 hóf Sigurður Snævarr, hagfræðingur hjá Þjóðhagsstofnun, störf hjá nefndinni og hefur hann annast samanburðarútreikninga og kostnaðarmat.
     Í upphafi kallaði nefndin á sinn fund hina ýmsu yfirmenn Tryggingastofnunar ríkisins. Einnig voru boðaðir forystumenn helstu samtaka á vinnumarkaðnum svo og fulltrúar þeirra félaga og samtaka sem álitið var að almannatryggingalög og Tryggingastofnun skipti mestu. Auk þeirra hugmynda og ábendinga sem fram komu á þessum fundum hefur nefndin fengið u.þ.b. 30 skriflegar tillögur og erindi frá hinum ýmsu hagsmunahópum og þeim öðrum sem er málið skylt.
     Síðsumars 1989 skipaði heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra nefnd er fjalla skyldi um tannlækningar og skipulag þeirra. Í nefndinni áttu sæti Guðjón Magnússon aðstoðarlandlæknir, Ingimar Sigurðsson skrifstofustjóri og Magnús R. Gíslason yfirtannlæknir, starfsmenn heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytisins. Þessi nefnd samdi að hluta til 31. gr. sem fjallar um þátttöku almannatrygginga í tannlæknakostnaði.
     Fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn 5. janúar 1988. Á þeim fundi var talið grundvallaratriði að athuga samspil lífeyris almannatrygginga og lífeyrissjóða og hvort hverfa mætti að mestu frá hinu tvöfalda kerfi, þ.e. að flestir lífeyrisþegar þiggi bæði lífeyri frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum. Ekki var talið tímabært að hverfa frá hinu tvöfalda kerfi. Lagaendurskoðunin þyrfti hins vegar að verða til þess að einfalda kerfið og tryggja samræmi. Aftur á móti taldi nefndin tímabært að lífeyris - og sjúkratryggingar tækju að nokkru leyti við verkefni slysatrygginga og slysatryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins yrði lögð niður sem sjálfstæð deild, þar sem starfsemi slysatrygginganna væri að verulegu leyti fólgin í því að greiða bætur, sem ella féllu undir önnur ákvæði laganna.
     Vegna fjölda breytinga, sem gerðar hafa verið á gildandi lögum um almannatryggingar nr. 67 20. apríl 1971, er löggjöf þessi orðin óaðgengileg og ómarkviss. Því er hér lagt fram frumvarp til nýrra almannatryggingalaga á grundvelli heildarendurskoðunar gildandi laga.
    Helstu breytingar, sem lagt er til með frumvarpinu að gerðar verði á gildandi lögum, eru eftirfarandi:

I.      Skipulag og stjórn.
          Almannatryggingar eru tvígreindar, þ.e. lífeyristryggingar og sjúkratryggingar. Samkvæmt lögum um almannatryggingar nr. 67/1971 eru þær þrígreindar, lífeyristryggingar, sjúkratryggingar og slysatryggingar.
          Starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins er skipt upp í fjögur meginsvið: lífeyristryggingasvið, sjúkratryggingasvið, læknisfræðisvið og fjárhags - og umsýslusvið. Stofnunin hefur starfað í mjög mörgum deildum sem leitt hefur til þess að verkaskipting milli deilda hefur verið óljós og völd og ábyrgð einstakra deildarstjóra verið ógreinileg. Með breytingunni er nú reynt að gera stjórnskipulag stofnunarinnar skilvirkara, boðleiðir skýrari og afgreiðslu markvissari. Frumvarpið felur í sér umtalsverðar skipulagsbreytingar innan Tryggingastofnunar ríkisins. Fyrst og fremst á sér stað fækkun deilda og tilkoma fárra stórra sviða. Þá er æviráðning afnumin.

II.      Lífeyristryggingar.
    
  
     Tekjutenging aðalbótaflokka lífeyristrygginga, þ.e. elli - og örorkulífeyris, og tekjuhugtakið skilgreint með vísan til II. kafla laga, sbr. 30. og 31. gr. um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981. Vegna tekjutengingarinnar er nauðsynlegt að almannatryggingakerfið fái aðgang að skattakerfinu og því er samræming milli kerfanna nauðsynleg.
               Sú ákvörðun var tekin að tekjutengja elli - og örorkulífeyri, þ.e. að fella niður þessar bætur til þeirra tekjuhæstu í greindum hópum og verja því fé sem þannig sparaðist í aðra þætti, svo sem auknar greiðslur til þeirra sem annast sjúka/aldraða í heimahúsum og ýmis aukin réttindi varðandi sjúkratryggingar.
               Þessi breyting felur m.a. í sér að frítekjumark vegna elli - og örorkulífeyris er 750.000 kr. á ári eða 62.500 kr. á mánuði fyrir ógiftan einstakling og 46.875 kr. á mánuði fyrir giftan einstakling. Ákvæði um frítekjumörk hafa nú verið sett inn í frumvarpið en voru áður í reglugerð. Frítekjumark hjóna hefur verið hækkað úr 70% í 75% af frítekjumarki tveggja einstaklinga (140 verður 150). Skerðingarhlutfall á lífeyri er 30% af umframtekjum. Ellilífeyrir er 11.181 kr. á mánuði (01.07.1990). Þetta þýðir því að þeir aðilar, 67 ára og eldri, sem hafa yfir 99.770 kr. á mánuði í tekjur njóta ekki ellilífeyris. Varðandi öryrkja er þetta mark 105.000 kr., þar sem örorkulífeyrir er 12.750 kr. á mánuði. Tölur þessar miðast við einhleyping.
               Hvað snertir tekjutryggingu, sem er 246.864 kr. á ári, þá hefst skerðingin við tekjur umfram 147.600 kr. á ári og skerðingarprósentan er 40% í stað 45% áður. Þetta þýðir að séu tekjur yfir 66.230 kr. á mánuði fellur tekjutrygging niður.
               Hjá örorkulífeyrisþegum er frítekjumarkið það sama svo og skerðingarhlutfallið, en upphæð tekjutryggingar önnur eða 23.500 kr. á mánuði. Það þýðir að tekjutrygging fellur niður þegar náð er 73.550 kr. á mánuði.
    
  
     Mæðralaun eru felld út úr lögunum og lagt er til að þau verði færð yfir í skattkerfið í formi hækkaðs barnabótaauka til einstæðra foreldra. Skattaleiðin þykir eðlilegri og einfaldari.
    
  
     Ákvæði um fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga er ekki að finna í frumvarpinu. Ráðherra skipaði nefnd undir forystu Daggar Pálsdóttur, deildarstjóra í heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytinu, til að endurskoða ákvæði almannatryggingalaga, nr. 67/1971, sbr. 1. gr. laga nr. 59/1987 um fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga. Sú nefnd hefur nú skilað sérstöku frumvarpi um greiðslur í fæðingarorlofi.

III.      Sjúkratryggingar.
     Í frumvarpinu eru ekki gerðar róttækar tillögur um breytingar á sjúkratryggingum. Helstu breytingar eru:

     Sjúkradagpeningar eru hækkaðir verulega frá því sem verið hefur. Réttur til dagpeninga er nú miðaður við 16 ára aldur í stað 17 ára áður. Er þar fyrst og fremst um samræmingaratriði að ræða við aldursákvæði í slysatryggingum sem áður voru. Greiddir eru 3 / 4 af fullum dagpeningum til þeirra sem hætta störfum á eigin heimili í stað helmings áður. Endurkröfuréttur vinnuveitenda er felldur burtu.

     Greiðsla uppihaldsstyrks er nýmæli. Uppihaldsstyrkurinn er ætlaður þeim sem þurfa vegna veikinda að dvelja langdvölum fjarri heimabyggð utan sjúkrahúsa og þurfa oftast að standa í verulegum fjárútlátum vegna þessa. Uppihaldsstyrk þessum er ætlað að koma til móts við þessi útgjöld.

     Nýtt ákvæði er tekið inn sem felur í sér alveg ný viðhorf gagnvart kaupum trygginganna á þjónustu frá heilbrigðisstéttum. Heilbrigðisráðherra, í samráði við tryggingaráð, er fengið það vald að ákveða á grundvelli fjárlaga hversu mikla heilbrigðisþjónustu skuli kaupa hverju sinni og hversu margir skulu veita þá þjónustu.

     Verulegar breytingar eru gerðar á endurgreiðsluhlutfalli fyrir tannlæknaþjónustu barna og unglinga. Börnum og unglingum fram að 16 ára aldri var áður skipt í tvo hópa vegna mismunandi endurgreiðslna, þ.e. á bilinu 50% til 100%. Samkvæmt frumvarpinu er nú um einn flokk að ræða, þ.e. börn og unglingar fram að 16 ára aldri fá 85% endurgreiðslu tannlæknakostnaðar.

IV.      Slysatryggingar.
          Slysatryggingar eru lagðar niður sem sjálfstæð grein almannatrygginga. Hluti slysatrygginganna er sameinaður og samræmdur sjúkra - og lífeyristryggingum. Fulltrúar nefndarinnar hafa átt fundi með vátryggingafélögunum Sjóvá Almennar og Vátryggingafélagi Íslands þar sem þeim hefur verið kynnt sú breyting sem fyrirhuguð er á almannatryggingum. Niðurstaða þeirra viðræðna er sú að félögin sjá því ekkert til fyrirstöðu að þessi tilflutningur geti orðið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


     Fyrsti kafli laganna nær yfir 1. 9. gr. Hann fjallar um skipulag og stjórn almannatrygginga og skipulag og stjórn Tryggingastofnunar ríkisins.

Um 1. gr.


    Samkvæmt frumvarpinu skiptast almannatryggingar nú í tvö meginsvið, þar sem lagt er til að slysatryggingar verði að hluta sameinaðar og samræmdar lífeyris - og sjúkratryggingum. Starfsemi, hliðstæð þeirri sem innt er af hendi hjá slysatryggingadeild, fer þegar fram hjá síðasttöldu deildunum tveimur.

Um 2. gr.


     Hér er kveðið á um skipulag Tryggingastofnunar ríkisins. Starfseminni er samkvæmt frumvarpinu skipt upp í tiltölulega fá svið en það er gert til þess að ná fram markvissari stjórnun.
     Ákvæðið um tryggingaskóla er löngu tímabært í ljósi þess að almannatryggingar eru vandmeðfarnar og Tryggingastofnun ríkisins og svæðisskrifstofur þurfa á vel upplýstu starfsfólki að halda.

Um 3. gr.


     Ákvæðið er hliðstætt 75. gr. laga nr. 67/1971. Auk reikningshalds og daglegrar afgreiðslu er „öðrum verkefnum“ bætt við. Ljóst er að þeir, sem þessum verkefnum sinna, eru starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins.

Um 4. gr.


     Greinin svarar til 3. mgr. 2. gr. og 8. gr. laga nr. 67/1971.

Um 5. gr.


     Breytingin hér er fólgin í tímabundinni ráðningu yfirmanna stofnunarinnar í stað skipunar ráðherra, þ.e. æviráðningar. Enn fremur er hér kveðið á um nýja stöðu, þ.e. stöðu aðstoðarforstjóra. Breyting á ráðningaformi er gerð til samræmis við þá þróun í þjóðfélaginu að afnema æviráðningu, þar sem tímabundin ráðning er talin eðlilegri. Hér er kveðið á um setningu erindisbréfa en slíkt er nauðsynlegt stjórnunarlega séð.

Um 6. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt 5. gr. laga nr. 67/1971.

Um 7. gr.


     Greinin svarar til 6. gr. laga nr. 67/1971. Í þeirri grein er talið upp á hverju leita skal samþykkis tryggingaráðs. Með því að sleppa þessari upptalningu er ekki ætlunin að þrengja verksvið ráðsins, heldur er það gert þar sem hún þykir óþörf eðli málsins vegna.

Um 8. gr.


    Óbreytt ákvæði 7. gr. laga nr. 67/1971 (2. gr. laga nr. 75 31. maí 1989).

Um 9. gr.


    Í 1. mgr. segir að reikningar Tryggingastofnunar skuli fylgja lögum nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, og er það breyting frá 1. mgr. 9. gr. laga nr. 67/1971 til áréttingar og samræmis. 2. og 3. mgr. eru óbreyttar frá 3. og 4. mgr. 9. gr. laga nr. 67/1971.

Um II. kafla.


     Annar kafli tekur til greina 10 26. Í kaflanum er að finna ákvæði varðandi lífeyristryggingar og greiðslur, sem Tryggingastofnun hefur milligöngu um, svo sem meðlag. Kaflinn skiptist síðan í þrjá meginkafla, A ALMENN ÁKVÆÐI, 10. gr., B BÆTUR, 11. 25. gr. og C TEKJUR, 26. gr.
     Helstu nýmælin í þessum kafla og þau sem mestu máli skipta er tekjutenging aðalbótaflokkanna svo sem áður er vikið að.

Um 10. gr.


     Greinin skýrir sig sjálf. Vert er þó að benda á að ekkjulífeyrir, sbr. 18. gr. laga nr. 67/1971, er felldur niður. Í stað makabóta koma umönnunarbætur. Einbúauppbót svarar til heimilisuppbótar, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971. Endurhæfingarlífeyrir er nýr bótaflokkur. Vasapeningar, sem áður voru í sameiginlegum ákvæðum, þ.e. 51. gr. laga nr. 67/1971, eru nú hafðir með hér til hagræðingar.

Um 11. gr.


     Greinin svarar til 11. gr. laga nr. 67/1971. Nýbreytnin hér er tekjutenging ellilífeyris. Því samfara er ákveðnari skilgreining á tekjuhugtakinu, sbr. 4. mgr. 25. gr. frumvarpsins. Ákvæðið um hækkun lífeyris vegna frestunar á töku hans er fellt út þar sem í ljós hefur komið að ellilífeyrisþegar hafa í reynd tapað á henni. Skerðing vegna hagræðis af sambýli var 10% en er nú fallin út.




Um 12. gr.


     Greinin er hliðstæð 2. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971. Hér er verið að greiða bætur til tekjulausra eða tekjulítilla ellilífeyrisþega, sem búa einir, þ.e. njóta ekki hagræðis af sambýli.

Um 13. gr.


     Greinin svarar til 1., 4. og 5. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971. Örorkulífeyrir er nú tekjutengdur á sama hátt og ellilífeyrir. Ef gengið er út frá öryrkjaskilgreiningunni, þ.e. að geta ekki unnið sér inn 1 / 4 þess sem menn með fulla starfsorku, kann að vera einkennilegt að hugsa sér að öryrki geti haft svo miklar tekjur að til skerðingar þurfi að koma. Þó eru þess dæmi.

Um 14. gr.


     Hliðstæð ákvæði 3. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971. Ákvæðinu er ætlað að vera heimildarákvæði, sbr. reglugerð sem ráðherra setur. Hugsunin er að hér sé ekki um almennt ákvæði að ræða heldur ákvæði sem beitt skuli þegar bótaþegi kemst alls ekki af án uppbótar, sbr. tilvik í reglugerð, þrátt fyrir lífeyri, tekjutryggingu og einbúauppbót þegar hún á við.

Um 15. gr.


     Greinin svarar til 1. og 3. málsl. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971. Örorkustyrkurinn er tekjutengdur og greinin hliðstæð 14. gr. að öllu öðru en örorkustigi. Nýmæli hér er uppbót á styrk sem getur orðið allt að 50% af styrknum og skerðist því hlutfallslega með honum.
     Þá er heimildarákvæði í lokamálsgrein til greiðslu á sérstökum örorkustyrk til þeirra, er njóta hvorki örorkulífeyris né örorkustyrks vegna tekna, en verða sannanlega fyrir verulegum aukakostnaði vegna örorku sinnar. Uppbót tengist ekki þessum sérstaka styrk.

Um 16. gr.


     Ákvæðið er efnislega hliðstætt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971 (lög nr. 39 19. maí 1989). Athuga ber niðurlag greinarinnar, en þar er tekið fram að sjúkrahúsvist í greindum tilvikum skerði ekki bótagreiðslur, þ.e. hér er rýmri réttur en elli - og örorkulífeyrisþegar hafa, sbr. 17. gr.

Um 17. gr.


    Fyrri hluti greinarinnar er samsvarandi seinustu málsgrein 51. gr. laga nr. 67/1971. Breytingin hér felst í tekjutengingu vasapeninga. Þeim sem dveljast á stofnunum eða vistheimilum er nú leyfilegt að vinna sér inn smáfjárhæð án þess að til skerðingar komi, en vinna, oft gegn greiðslu, er í dag liður í almennri endurhæfingu. Gert er ráð fyrir umtalsverðri hækkun vasapeninga og að fjárhæð þeirra sé sú sama hvort sem í hlut eiga elli - eða örorkulífeyrisþegar. Vasapeningar til öryrkja hafa fram að þessu verið um 1000 kr. hærri á mánuði en vasapeningar ellilífeyrisþega.
     Þá er einnig gert ráð fyrir því að sjúklingar, sem eru í vistun virka daga en eru sendir heim um helgar án þess að útskrifast, fái auk vasapeninganna sjúkradagpeninga í hlutfalli við dagafjölda heima í hverjum mánuði. Er hér um sanngirnismál að tefla.

Um 18. gr.


     Umönnunarbætur vegna fatlaðra og sjúkra barna koma í stað barnaörorku. Hér er um verulega hækkun bótafjárhæðar að ræða. Við ákvörðun fjárhæðar var höfð hliðsjón af fjárhæðum bóta skv. 10. gr. laga nr. 41/1983, um málefni fatlaðra, en umönnunarbætur koma einnig í stað þeirra. Greiðslur skv. 10. gr. tilheyrðu áður félagsmálaráðuneytinu, en Tryggingastofnun ríkisins annaðist milligöngu þeirra. Barnaörorka og greiðslur 10. gr. hafa skarast til þessa, en greiðslur vegna barnaörorku verið langtum mun lægri. Eðlilegra er talið að hafa eitt kerfi í gangi þannig að sömu reglur gildi um fjárhagslega aðstoð hvort heldur barn, sem dvelst í heimahúsi og þarfnast nánar tilgreindrar umönnunar, er fatlað eða veikt. Félagsmálaráðherra hefur farið þess á leit að bætur skv. 10. gr. verði felldar inn í almannatryggingalöggjöfina og að Tryggingastofnun ríkisins annist þar með afgreiðslu þeirra. Er það nú gert.

Um 19. gr.


     Ákvæði greinarinnar felur í sér rýmkun frá eldri lögum. Skv. 13. gr. laga nr. 67/1971 átti aðeins maki rétt á bótum fyrir umönnun elli - og örorkulífeyrisþega en nú á ekki einungis maki rétt heldur getur einnig heimilisfastur einstaklingur átt rétt á bótum fyrir umönnun elli - eða örorkulífeyrisþega, þ.e. makabætur verða að umönnunarbótum. Hér er gert ráð fyrir töluverðri aukningu á bótaþegum, en leið þessi er talin þjóðhagslega hagkvæm. Þetta er og í samræmi við þá stefnu að elli - og örorkulífeyrisþegar njóti aðhlynningar í heimahúsum svo lengi sem þeir óska og færi gefst. Hafa ber í huga að réttur til bóta samkvæmt þessari grein stofnast því aðeins að viðkomandi verði fyrir tekjumissi sem afleiðing af takmarkaðri vinnu utan heimilis vegna umönnunar elli - eða örorkulífeyrisþega í heimahúsi.

Um 20. gr.


     Greinin er hliðstæð 14. gr. laga nr. 67/1971.
     Í 4. og 5. mgr. segir nú skal í stað tryggingaráð getur ákveðið. Seinasta málsgrein einfaldar afgreiðslu mála frá því sem nú er.

Um 21. gr.


     Nokkur nýmæli eru hér. M.a. er skilyrði um 3 ára lögheimili til þess að öðlast rétt samkvæmt þessari grein. Réttur samkvæmt greininni fellur niður við stofnun hjúskapar eða sambúðar. Bætur samkvæmt greininni greiðast nú í 18 mánuði eftir lát maka í stað 6 áður og hafi bótaþegi barn yngra en 18 ára á framfæri greiðast bætur óbreytt fjárhæð í 18 mánuði til viðbótar. Áður var þessi viðbót 12 mánuðir og lægri fjárhæð en fyrstu 6 mánuðina. Um 12 mánaða lengingu bótagreiðslna er hér að ræða. Rýmkun þessi er gerð vegna niðurfellingar ekkjulífeyris í 18. gr. og 8 ára bóta (slysatrygging) í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 67/1971. Með hliðsjón af breyttum þjóðfélagsháttum þykja þær greinar ekki lengur eiga við. Ekki skiptir lengur máli varðandi bótarétt hvort andlát verður vegna sjúkdóms eða slyss.

Um 22. og 23. gr.


     Greinar þessar eru 73. gr. laga nr. 67/1971 efnislega óbreytt en sú grein er gerð að tveimur greinum til skilningsauka.

Um 24. gr.


     Óbreytt 74. gr. laga nr. 67/1971.

Um 25. gr.


     Hliðstæð ákvæðum í 1., 5. og 6. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971.
     Tekjutenging bótaflokka hefur í för með sér að tekjuhugtakið þarf að vera vel skilgreint. Þá þarf að vera greiður aðgangur að upplýsingum um tekjur þeirra bótaþega, sem væntanlega eiga rétt á tekjutengdum bótum. Eina leiðin fyrir Tryggingastofnun til þess að ná þessum upplýsingum er í gegnum skattakerfið. Mismunandi sjónarmið eru uppi um það hvort skilgreina eigi tekjur varðandi almannatryggingar á sama hátt og í skattarétti. Á meðan skattaleiðin er eina leiðin til upplýsingaöflunar þá verður með tilliti til daglegrar framkvæmdar að hafa samræmi í skilgreiningu á tekjuhugtakinu. Þar sem skilgreining er vandasöm en jafnframt til í lögum um tekju - og eignarskatt var talið eðlilegast að vísa hér beint í þau. Með þeirri lausn eru skattskyldar tekjur lagðar til grundvallar við ákvörðun tekjutengdra bóta og að megininntaki eru allar tekjur skattskyldar, sbr. II. kafla laga nr. 75/1981 að teknu tilliti til frádráttar skv. 30. gr. sömu laga, sbr. 31. gr. laganna ef við á.

Um 26. gr.


     Greinin er efnislega óbreytt 20. gr. laga nr. 67/1971. Framlag atvinnurekenda er þó hækkað úr 2% í 2,12%, þar sem hluti af slysatryggingum færist yfir í lífeyris - og sjúkratryggingar. Árið 1989 voru bótagreiðslur slysatrygginga áætlaðar kr. 323.779.000. Eftir breytingar myndu 110.795.000 tilheyra sjúkratryggingum, en kr. 55.852.000 lífeyristryggingum, samtals kr. 166.647.000. Niðurfelldur bótaréttur næmi kr. 157.132.000 og vega þar þyngst kaup og aflahlutur, svo og örorkubætur ein greiðsla.
     Þá er gert ráð fyrir að framlag samkvæmt þessari grein fjármagni einnig greiðslur í fæðingarorlofi, sbr. ákvæði í sérstöku frumvarpi til fæðingarorlofslaga.

Um III. kafla.


    Undir III. kafla falla 27. 35. gr. Í kaflanum er að finna ákvæði almannatrygginga um sjúkratryggingar. Líkt og II. kafli skiptist sá þriðji í A. ALMENN ÁKVÆÐI, 27. gr., B. BÆTUR, 28. 34. gr., og C. TEKJUR, 35. gr.

Um 27. gr.


     Sjálfræðisaldri, þ.e. 16 árum, er fylgt hér varðandi sjálfstæðan rétt til sjúkratrygginga. Áður voru mörkin 17 ár.
     Ákvæðið í 2. mgr. um 6 vikna biðtíma er nýtt í lögum. Er þessi biðtími settur til að koma í veg fyrir að einstaklingar, íslenskir ríkisborgarar, sem lögheimili eiga erlendis og hafa e.t.v. átt í áraraðir, geti komið til landsins og notið „ókeypis læknishjálpar“ strax við komuna með því einu að skrá lögheimili sitt hér og síðan horfið af landi brott að lokinni meðferð. Nokkur brögð hafa verið að slíku. Biðtíminn er þó með þeim undantekningum að komi upp skyndileg sjúkdómstilfelli eða slys, þá greiða tryggingarnar fyrir nauðsynlega þjónustu.
     Í 3. mgr. er ákvæði um réttindaskírteini sem jafnframt eru hugsuð sem greiðslukort sjúklings gagnvart almannatryggingum fyrir lyf, læknishjálp og aðra sjúkrahjálp utan sjúkrahúsa. Það er álitið að slík kort geti stuðlað að auknu öryggi og tryggi eftirlit.

Um 28. gr.


     Hér er efnisbreyting frá hliðstæðu ákvæði í 41. gr. laga nr. 67/1971. Áður fyrr var sjúkrahúsvist afdráttarlaust öllum að kostnaðarlausu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæði í sérlögum geti leitt til breytingar þar á.
     Að öðru leyti er fyrri málsgrein hliðstæð tilvitnaðri grein, en sniðin að þróuninni í fjármögnun sjúkrahúsa, þ.e. frá daggjaldakerfi yfir í kerfi framlaga samkvæmt fjárlögum.
     Með 2. mgr. er daggjaldanefnd, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 67/1971, lögð niður auk þess sem ekki er lengur sjálfgefið að stofnun komist á daggjöld, þó svo að rekstrarleyfi hafi verið gefið út.

Um 29. gr.


     Greinin lýtur að svokölluðum siglinganefndarmálum og er hliðstæð 42. gr., svo og e - lið 39. gr. laga nr. 67/1971. Í 42. gr. er talað um vistun í erlendu sjúkrahúsi. Hefur verið litið svo á að þar sé átt við innlögn. Með breyttum starfsháttum lækna hefur orðið aukning í göngudeildarþjónustu og þjónustu utan sjúkrahúsa. Hefur verið reynt að láta gildandi ákvæði, þrátt fyrir framangreint orðalag, ná yfir þá landsmenn sem orðið hafa að sækja utanspítalaþjónustu til útlanda. Málið er leyst samkvæmt frumvarpinu með því að segja: læknishjálp erlendis innan sjúkrahúss eða utan.
     Í 2. mgr. er kveðið á um nefnd sem sker úr um hvort skilyrði skv. 1. mgr. eru fyrir hendi. Ekki er talið ráðlegt að binda skipun í nefndina við yfirlækna á tilgreindum sjúkrahúsum svo sem gert er í lögum nr. 67/1971. Hins vegar eru menn á einu máli um að úrskurðir nefndarinnar séu endanlegir vegna þeirrar sérfræðiþekkingar sem nefndarmenn búa yfir.
     Hér eru uppihaldsdagpeningar vegna nauðsynlegrar dvalar utan sjúkrahúss teknir inn. Leiðir það af eðli máls þegar göngudeildarþjónusta eykst og meiri háttar aðgerðum með miklu eftirliti fjölgar.

Um 30. gr.


     Þessi grein er afar þýðingarmikil og spannar mikinn hluta þeirrar þjónustu sem sjúkratryggingar standa straum af. Greinin er hliðstæð 39. og 43. gr. laga nr. 67/1971.
Stafliður a. Efnisinntak er í aðalatriðum sama og í a - lið 43 gr. laga nr. 67/1971.
Stafliður b. Ákvæðið er hliðstætt b - lið í 43. gr. laga nr. 67/1971. Í ákvæðinu segir að með reglugerð megi ákveða að sjúklingur greiði lægra gjald hjá sérfræðingi ef hann er með skriflega beiðni frá heimilis - eða heilsugæslulækni.
Stafliður c. Hér kemur inn lagaheimild til greiðsluþátttöku almannatrygginga í sjúkraþjálfun, sem nauðsynleg er vegna ýmissa sjúkdóma. Í lögum nr. 67/1971 er heimild í 32. gr. 1. tölul. til greiðslu fyrir sjúkraþjálfun vegna slysa. Í b - lið 39. gr. er heimild til greiðslu sjúkraþjálfunar vegna alvarlegra, langvinnra sjúkdóma eða slysa, þ.e. til 100% endurgreiðslu. 60% endurgreiðsla, sem til skamms tíma hefur verið innt af hendi, hefur til þessa ekki átt sér lagastoð. Úr því er nú bætt.
Stafliður d. Stafliðurinn er sambærilegur við f - lið 43. gr. laga nr. 67/1971. Felld er niður greiðsla dagpeninga í 10 daga.
Stafliður e. Efnislega hliðstæður k - lið 43. gr. laga nr. 67/1971 (2. gr. laga nr. 44/1986). Stafliður f. Ákvæðið er sama og c - liður 1. mgr. 43. gr. laga nr. 67/1971 og niðurlag 2. mgr. sömu greinar (1. gr. laga nr. 95/1975).
Stafliður g. Að hluta sambærilegt ákvæði við a - lið 39. gr. laga nr. 67/1971. Gert er ráð fyrir að fleiri tegundir gleraugna komi inn sem hjálpartæki. Enn fremur að til komi þátttaka almannatrygginga í kostnaði við gleraugnakaup þegar mörg börn innan sömu fjölskyldu þurfa á gleraugum að halda. Ýmsir sjóngallar eru ættgengir. Ekki er fátítt að flestir eða allir innan sömu fjölskyldu noti gleraugu, a.m.k. á einhverju skeiði ævinnar. Það er oft umtalsverður fjárhagslegur baggi á fjölskyldu að standa straum af kostnaði vegna gleraugnanotkunar sé þannig ástatt að flestir eða allir innan hennar þurfi á gleraugum að halda. Þessum fjárútlátum er nú ætlunin að mæta.
Stafliður h. Samkvæmt lögum nr. 67/1971 voru bifreiðastyrkir ýmist greiddir hjá lífeyrisdeild, sbr. 4. mgr. 19. gr., eða sjúkratryggingadeild, sbr. a - lið 39. gr., eftir því hvort umsækjendur voru elli - og örorkulífeyrisþegar eða aðrir. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að afgreiðsla bifreiðastyrkja verði sameinuð, flytjist úr lífeyrisdeild og verði eingöngu á vegum sjúkratryggingadeildar.
Stafliður i. Hér er um staflið hliðstæðan i - lið 43. gr. laga nr. 67/1971 að ræða. Reglur í þessum staflið um óhjákvæmilegan flutningskostnað hafa verið rýmkaðar og einfaldaðar, að því er framkvæmd varðar. Í lögum 67/1971 segir flutningsþörf svo bráð og heilsu hins sjúka svo varið . Orðin svo bráð hafa verið felld út og er hugsunin sú að ákvæðið nái til allra þeirra sem ekki verða fluttir eftir venjulegum farþegaflutningaleiðum. Eru þá hafðir í huga þeir sjúklingar, sem eru heima en fara t.d. í geisla - eða lyfjameðferð og þurfa á sjúkrabifreið að halda til að komast á milli. Reglan um að sjúklingur greiði ávallt fyrir fyrstu 10 km er úr gildi. Enn fremur greiðist nú fargjald báðar leiðir fyrir fylgdarmann hafi fylgd verið nauðsynleg jafnvel þó um áætlunarferð sé að ræða.
Stafliður j. Sambærilegur við j - lið 43. gr. laga nr. 67/1971.
Reglur í stafliðnum um ferðakostnað eru þó rýmkaðar og aðstandendur teknir inn. Einnig segir nú hjá nánar tilgreindum heilbrigðisstéttum í stað hjá lækni eða í sjúkrahúsi.
Stafliður k. Greiðsla uppihaldsstyrks er nýmæli. Þeir sem vegna veikinda þurfa að dvelja langdvölum fjarri heimabyggð verða oftast að leggja út verulegt fé. Er ákvæðinu ætlað að koma til móts við þessi útgjöld.

Um 31. gr.


     Greinin er efnislega hliðstæð 44. gr. laga nr. 67/1971 (lög 122 29. desember 1989).
     Greinin felur í sér breytingar frá eldri grein varðandi þá hópa sem endurgreiðslu njóta. Þá er endurgreiðsluhlutfall annað varðandi börn og unglinga. Þar sem börnum og unglingum 0 15 ára var áður skipt í tvo hópa vegna mismunandi endurgreiðslna (50 100%) er nú aðeins um einn flokk að ræða, þ.e. börn og unglingar 0 15 ára fá 85% endurgreiðslu tannlæknakostnaðar, þó með þeim undantekningum sem í greininni segir.
     Í 4. tölul. er nú reglugerðarheimild fyrir ráðherra. Samkvæmt lögum nr. 67/1971 var það tryggingaráð sem setti reglurnar áður. Að öðru leyti er gert ráð fyrir óbreyttri framkvæmd á ákvæðum þessa töluliðar.
     Önnur málsgrein er efnislega hliðstæð c - lið 39. gr. laga nr. 67/1971 (6. gr. laga 59/1978). Eðlilegra þykir að hafa öll ákvæði er lúta að tannlækningum í sömu grein.
     Næstseinasta málsgrein er breytt frá eldri grein. Í stað „tryggingaráð ræður tannlækni . . . “ stendur nú „Á læknisfræðisviði Tryggingastofnunar ríkisins skal starfa tannlæknir, . . . “ Þetta orðalag þykir eðlilegra með tilliti til skipulags stofnunarinnar.

Um 32. gr.


     Greinin er hliðstæð 45. gr. laga nr. 67/1971. Samkvæmt frumvarpinu greiða sjúkratryggingar nú sömu dagpeninga hvort sem óvinnufærni er rakin til sjúkdóms eða slyss. Rétt til bóta samkvæmt þessari grein öðlast menn nú við 16 ára aldur í stað 17 ára áður. Er hér um samræmingaratriði að ræða, sbr. aldursákvæði í slysatryggingakafla laga nr. 67/1971.
     Í 3. mgr. er kveðið á um staðfestingu vinnuveitanda. Hér er verið að lögfesta áralanga framkvæmd.
     5. mgr. fjallar um dagpeningagreiðslur vegna niðurfelldrar launaðrar vinnu. Skv. 5. mgr. 45. gr. laga nr. 67/1971 var annað hvort um fulla dagpeninga eða hálfa að ræða. Þetta þýddi bókstaflega að starf t.d. 75% eða 80% leiddi til hálfra dagpeninga. Slíkt þótti rangt og hefur verið leiðrétt með því að setja 3 / 4 dagpeninga inn.
     Hafa ber í huga að þó svo að greiddir hafi verið hálfir dagpeningar þá hefur barnabótin ekki verið skert.
     Sjöunda málsgrein lýtur að störfum við eigið heimili. Greiða skal 3 / 4 af fullum dagpeningum til þeirra sem fella niður störf á eigin heimili. Í lögum 67/1971 greiðist helmingur af fullum dagpeningum að viðbættum 1 / 2 hluta greiðslu fyrir heimilishjálp, samkvæmt nánari reglum. Ákvæðið um greiðslur vegna heimilishjálpar hefur komið tiltölulega fáum til góða, þannig að í langflestum tilvikum er um hlutfallslega hækkun á dagpeningagreiðslum að ræða. Þar sem breytingin leiðir ekki til hækkunar verður um beina lækkun að ræða, þ.e. þegar viðkomandi hefur náð fullum dagpeningum með framlagningu reikninga fyrir heimilishjálp, en þau tilvik hafa verið tiltölulega fá í gegnum tíðina.
     Endurkröfuréttur vinnuveitanda, sbr. 5. mgr. 33. gr. og næstsíðustu málsgrein 45. gr. laga nr. 67/1971, er hér felldur burt.
     Vinnuveitendur nýttu sér þennan rétt sem hér segir árið 1989.
     Sjúkradagpeningagreiðslur á landinu öllu námu á árinu 1989 208.959.067 kr. Þar af námu greiðslur til atvinnurekenda vegna endurkröfuréttar, sbr. 10. mgr. 45. gr. laga 67/1971 43,6 millj. kr. (u.þ.b. 20%). Sú fjárhæð skiptist þannig:

    Ríki                     7,6 millj. kr.
    Sveitarfélög      9,7 millj. kr.
    Aðrir               26,3 millj. kr.

     Slysadagpeningagreiðslur árið 1989 voru að fjárhæð 70.800.249 kr. þar af voru endurgreiðslur til atvinnurekenda 16.719.478 kr. Til viðbótar þeirri fjárhæð var endurgreitt til atvinnurekenda sem hér segir í kr.:

    Kaup og aflahlutur sjómanna (2 mán.)
95.736.640

    Vegna sjómanna á farskipum (1 vika)
870.735


     Þessar greiðslur eru hafðar sér þar sem ekki er um hreina dagpeninga að ræða.

Um 33. gr.


     Greinin er hliðstæð 47. gr. laga nr. 67/1971. Greinin er þó þrenging á sambærilegri grein laga nr. 67/1971. Í 47. gr. (20. gr. laga nr. 87/1989) þeirra laga segir: „Nú er sjúkratryggðum nauðsyn að leita sér lækninga sé hann staddur erlendis . . . “ Aftur á móti segir hér: „Ef tryggður maður veikist eða verður fyrir slysi erlendis . . . “ Skilyrði er að veikindi komi upp eða slys verði erlendis. Sá sem fer veikur eða slasaður utan á ekki rétt til endurgreiðslu samkvæmt grein þessari. Er þessi þrenging sett m.a. til að koma í veg fyrir að sjúklingar, sem fengið hafa synjun sbr. 29. gr., haldi utan og fái endurgreiðslu sjúkrakostnaðar eftir öðrum leiðum laganna.

Um 34. gr.


     Hér er í fyrsta skipti sett í lög ákvæði um samningsgerð Tryggingastofnunar ríkisins og hverjir skuli annast hana. Rétt þykir að leita samþykkis bæði tryggingaráðs og heilbrigðisráðherra á samningum nefndarinnar. Samþykki tryggingaráðs þykir eðlilegt þar sem ráðið skipar nefndina og fer með yfirstjórn stofnunarinnar. Samþykki ráðherra þykir eðlilegt með tilliti til heildarstjórnunar heilbrigðismála. Þá þótti rétt að setja ákvæði er lúta að því þegar ekki nást samningar eða samningar eru ekki í gildi.

Um 35. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um IV. kafla.


     Undir IV. kafla falla 36. 52. gr. Í kaflanum er að finna ákvæði sem eru sameiginleg fyrir aðra kafla laganna. Kaflinn skiptist í A BÆTUR, 36. 47. gr., og B ÖNNUR ÁKVÆÐI, 48. 52. gr.

Um 36. gr.


     Greinin er að mestu samsvarandi 51. gr. laga nr. 67/1971. Breytingar eru þó eðli máls samkvæmt að finna í því hvaða bætur megi fara saman. Nýtt er að saman megi fara ellilífeyrir og ekkju - og ekkilsbætur. Þessi breyting hefur þótt mikið réttlætismál þar sem fráfall maka veldur oftast fjárhagslegri röskun, alveg óháð aldri.

Um 37. gr.


     Ákvæðið er að mestu sama efnis og 52. gr. laga nr. 67/1971.

Um 38. gr.


     Ákvæðið er sama efnis og fyrri málsliður 53. gr. laga nr. 67/1971. Seinni málslið þeirrar greinar er sleppt þar sem hann þykir ekki lengur eiga við.

Um 39. gr.


     Grein þessi er að mestu sama efnis og 54. gr. laga nr. 67/1971, en í þeirri grein segir: „Bætur . . . greiðast ekki . . . “ þar sem nú segir: „Heimilt er að fella bætur niður . . . “ Það orðalag er nær raunveruleikanum, en þessu ákvæði hefur svo til aldrei verið beitt, en þó þykir rétt að láta það standa.

Um 40. gr.


     Ákvæðið er sama efnis og 55. gr. laga nr. 67/1971.

Um 41. gr.


     Greinin er að mestu samhljóða 56. gr. laga nr. 67/1971. Varðandi úrskurð á sjúkradagpeningum þá er sex mánaða fyrningafrestur nú í stað tveggja mánaða almennrar reglu áður.

Um 42. gr.


     Greinin er efnislega hliðstæð 57. gr. laga nr. 67/1971. Fram til þessa hefur átt að greiða bætur almannatrygginga eftir á. Í reynd eru þær greiddar 10. dag bótamánaðarins. Það hefur oft valdið bótaþegum vandræðum að bótagreiðslur berast ekki fyrr en 10. hvers mánaðar og jafnvel kallað á skammtímalántökur. Með ákvæðinu um að bætur skuli greiðast mánaðarlega fyrir fram er komið til móts við bótaþega. Þá þótti óþarfi að halda inni málslið 57. gr. laga nr. 67/1971 sem lýtur að erfiðum samgöngum.

Um 43. gr.


     Ákvæðið er sama efnis og 58. gr. laga nr. 67/1971.

Um 44. gr.


     Greinin er svo til samhljóða 60. gr. laga nr. 67/1971. Hér þó notað orðið refsivist í stað fangelsisvistar áður.

Um 45. gr.


     Ákvæðið er að mestu samhljóða 61. gr. laga nr. 67/1971. Niðurlagi þeirrar greinar er sleppt þar sem um iðgjöld er ekki lengur að ræða.

Um 46. gr.


     Ákvæðið er samhljóða 62. gr. laga nr. 67/1971. Í framkvæmd hefur lítið reynt á þetta ákvæði. Þó þykir rétt að láta það standa áfram.

Um 47. gr.


     Greinin er hliðstæð 63. gr. laga nr. 67/1971.

Um 48. gr.


     Greinin er efnislega óbreytt 78. gr. laga nr. 67/1971.

Um 49. gr.


     Grein þessi er hliðstæð 79. gr. laga nr. 67/1971, þ.e. lýtur að því hvenær breyta skuli upphæðum bóta almannatrygginga. Réttara þykir nú að bæturnar taki breytingum samkvæmt launavísitölu útreiknaðri af Hagstofu Íslands en að hafa fyrri viðmiðun.

Um 50. gr.


     Ákvæðið er að mestu samhljóða 2. tölul. laga nr. 59 20. maí 1978 (ákvæði til bráðabirgða). Afar fáir samningar hafa verið gerðir á grundvelli þessa ákvæðis. Talið er að það hafi m.a. stafað af því að samkvæmt lögunum skyldu bætur til öryrkjans falla niður á starfstímanum og að starfssamningur var til þriggja ára. Þótti það of langur tími. Þessir vankantar hafa nú verið sniðnir af. Bætur greiðast meðan á starfstíma stendur og samningstími er samkomulagsatriði samningsaðila. Er von til þess að með þessum lagfæringum ákvæðisins megi koma fleiri öryrkjum út á vinnumarkaðinn.

Um 51. gr.


     Greinin skýrir sig sjálf og er óbreytt 81. gr. laga nr. 67/1971 (lög nr. 75/1989).

Um 52. gr.


     Greinin skýrir sig sjálf.