Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 475 . mál.


Sþ.

1036. Frumvarp til fjáraukalaga



fyrir árið 1990, sbr. lög nr. 72/1990 og lög nr. 105/1990.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990 91.)




REPRÓ af 8 bls.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöðutölur um greiðslur úr ríkissjóði á árinu 1990 umfram þær heimildir sem veittar hafa verið af Alþingi í fjárlögum 1990, lögum nr. 72/1990 og nr. 105/1990, fjáraukalögum fyrir árið 1990.
    Frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1990, sem lagt var fyrir Alþingi 1. nóv. sl., fylgdi ítarleg greinargerð um framvindu ríkisfjármála á árinu 1990, og þær heimildir sem óskað var samþykktar á umfram heimildir fjárlaga og fjáraukalaga sem samþykkt voru á Alþingi 5. maí 1990. Þá liggur fyrir Alþingi ítarleg skýrsla um ríkisfjármál 1990 þar sem afkoma ríkissjóðs er skýrð í samanburði við áform fjárlaga og útkomu ársins 1989.
    Alþingi hefur þannig breytt greiðsluheimildum fjárlaga tvívegis á árinu 1990, sbr. eftirfarandi yfirlit:



















    Heildarheimildir til útgjalda nema þannig 797 m.kr. umfram endanlegar útgreiðslur. Heimilda til lántöku, umfram það sem áætlað var í seinni fjáraukalögum, var aflað með lögum nr. 125/1990, um breyting á lánsfjárlögum fyrir árið 1990. Samkvæmt því eru nægar lántökuheimildir til þess að mæta lánsfjárþörf ársins.

    Í athugasemdum hér á eftir er fyrst gerð grein fyrir nokkrum lykilatriðum í efnahagsmálum ársins 1990 og afkomu ríkissjóðs og frávikum frá áætlun. Síðan er gerð grein fyrir fjárheimildum einstakra ráðuneyta og stofnana.
    Efnahagsaðstæður voru frekar óvissar þegar fjárlög fyrir árið 1990 voru afgreidd frá Alþingi í desember 1989. Ekki var búist við miklum umskiptum á árinu 1990 heldur hægfara bata. Þannig var áfram gert ráð fyrir minnkandi afla og samdrætti í framleiðslu sjávarafurða þriðja árið í röð. Atvinnuleysi var talið geta aukist fremur en minnkað á árinu. Mesta óvissan var þó um verðlags- og launaþróun á árinu þar sem kjarasamningar flestra launþega voru lausir um áramótin 1989/1990. Gengið var út frá áætlun um rúmlega 16% meðalhækkun verðlags milli ára og 11% hækkun launa. Í þessu fólst um það bil 5% kaupmáttarrýrnun milli áranna 1989 og 1990. Því var reiknað með að þjóðarútgjöldin minnkuðu um 1½% að raungildi og að landsframleiðslan drægist saman um rúmlega 1% milli áranna.
    Bráðabirgðatölur benda til þess að þróun efnahagsmála hafi orðið nokkuð önnur en spár fyrr á árinu gerðu ráð fyrir. Þar skiptir mestu máli veruleg aukning innflutnings, einkum á síðari hluta ársins. Það kom fram í meiri aukningu þjóðarútgjalda en áður var búist við, enda er nú talið að þau hafi aukist í stað þess að dragast saman samkvæmt fyrri spám. Neikvæða hliðin á þessari þróun er að viðskiptahallinn varð meiri eða rétt innan við 3% af landsframleiðslu samkvæmt síðustu áætlunum. Á hinn bóginn urðu tekjur ríkissjóðs af veltusköttum meiri en spáð hafði verið fyrr á árinu og er það skýrt hér að neðan.
    Í fjárlögum 1990, sem samþykkt voru á Alþingi í desember 1989, var gert ráð fyrir að halli á rekstri ríkissjóðs yrði um 3,7 milljarðar króna. Kjarasamningar, sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði í febrúar 1990, breyttu launa- og verðlagsforsendum fjárlaga um 2% til lækkunar. Breyttar forsendur kölluðu óhjákvæmilega á endurskoðun á tekju-og útgjaldaliðum fjárlaga. Sú endurskoðun var staðfest með samþykkt fjáraukalaga í maímánuði. Við það lækkuðu áætlaðar tekjur ríkissjóðs um 2,6 milljarða króna og gjöldin um 1,8 milljarða. Áætlaður halli á rekstri ríkissjóðs hækkaði þar með um 0,8 milljarða króna eða í 4,5 milljarða. Sérstakar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir kjarasamningum urðu til þess að gjöldin lækkuðu minna en tekjur.
    Samhliða frumvarpi til fjárlaga 1991 var lagt fram öðru sinni frumvarp til fjáraukalaga. Þau lög voru samþykkt í byrjun desember sl. og hækkuðu útgjaldaheimildir um 4,2 milljarða króna eða í 97,7 milljarða króna. Á þeim tíma voru tekjur ríkissjóðs áætlaðar um 92,6 milljarðar króna þannig að rekstrarhalli ríkissjóðs stefndi í 5,1 milljarð króna.
    Nú liggur fyrir endanlegt greiðsluuppgjör vegna A-hluta ríkissjóðs fyrir árið 1990. Eins og sést á eftirfarandi yfirliti, námu innheimtar tekjur ríkissjóðs 92,5 milljörðum króna og útgjöld námu 96,9 milljörðum króna eða 0,8 milljörðum króna undir útgjaldaheimildum fjárlaga. Afkoma ríkissjóðs varð þannig nokkru betri en gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjáraukalaga í desember sl. eða sem nemur 0,7 milljörðum króna og nam rekstrarhallinn rúmlega 4,4 milljörðum króna sem svarar til 1,3% af landsframleiðslu.
    Í umfjöllun, sem hér fer á eftir, er með fjárlögum 1990 átt við fjárlög eins og þau voru samþykkt í maí 1990 í kjölfar kjarasamninganna frá í febrúar þar sem þau fólu í sér stefnuna í ríkisfjármálum eftir að launaforsendur lágu fyrir.


Tekjur

.
    Ef fyrst er litið á þróun tekjuöflunar ríkissjóðs kemur í ljós eins og sést á meðfylgjandi yfirliti að innheimtar tekjur ríkissjóðs 1990 urðu um 3,5 milljörðum króna hærri en fjárlög frá í maí sl. gerðu ráð fyrir. Frávik frá áætlun laga nr. 105/1990, fjáraukalaga fyrir árið 1990 sem lögð var fram í nóvember 1990, eru hins vegar lítil eða 122 m.kr.

Yfirlit yfir innheimtar tekjur ríkissjóðs 1990.



















    Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga jukust innheimtar tekjur ríkissjóðs um tæp 4% frá fjárlögum. Þannig urðu tekjur af tekjuskatti, bæði einstaklinga og fyrirtækja, mun meiri en reiknað var með og svipuðu máli gegnir um innheimtu innflutningsgjalda og launaskatta. Á móti komu minni tekjur af virðisaukaskatti. Þá urðu vaxtatekjur meiri en gert hafði verið ráð fyrir við gerð fjárlagaáætlunar. Nánari umfjöllun um innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1990 er að finna í skýrslu um ríkisfjármál 1990 sem nú liggur fyrir á Alþingi.


Gjöld.


    Nokkrar breytingar urðu á gjaldahlið frá því sem áætlað var í fjárlögum sem afgreidd voru í desember 1989. Fjáraukalög, sem samþykkt voru á Alþingi 5. maí sl. í kjölfar kjarasamninganna í febrúar, höfðu áhrif á útgjöld með tvennum hætti. Annars vegar lækkuðu útgjöld um rúma tvo milljarða króna vegna breyttra launa- og verðlagsforsendna. Hins vegar var ákveðið að hækka útgjöld um nálægt 1.200 m.kr. til að greiða fyrir kjarasamningum. Þar vó þyngst 800 m.kr. hækkun á framlagi til niðurgreiðslna sem átti að mæta hækkun á smásöluverði hefðbundinna búvara fram til 1. des. 1990. Jafnframt var fallið frá fyrirhugaðri þrengingu bótaréttar vegna gjaldþrota sem hækkuðu áætluð útgjöld um 100 m.kr. og framlag til lífeyristrygginga var hækkað um 110 m.kr. Í meðförum fjárveitinganefndar Alþingis hækkuðu framlög til Ríkisspítala um 147 m.kr. Til að hamla gegn óæskilegum áhrifum aukins ríkissjóðshalla á efnahagslífið var samtímis ákveðið að lækka útgjöld, einkum til fjárfestingar, um 915 m.kr.
    Seinni fjáraukalögin, sem lögð voru fram snemma á haustþingi, voru samþykkt í byrjun desember. Lögin hækkuðu útgjaldaheimildir fjárlaga um 4,2 milljarða króna eða samtals í 97,7 milljarða króna. Helstu tilefni til hækkunar skýrast af nokkrum stórum liðum. Tryggingabætur hækkuðu um 1.260 m.kr., endurmat á áhrifum verkaskiptalaga ríkis og sveitarfélaga leiddi til 280 m.kr. aukningar útgjalda, Endurbótasjóður menningarstofnana fékk 300 m.kr. framlag í stað lánveitingar sem áður var áformuð, ýmsar ályktanir Alþingis leiddu til 320 m.kr. viðbótarútgjalda og framlag til að ljúka uppgjöri endurgreiðslu söluskatts nam 200 m.kr. Eftirfarandi yfirlit sýnir gjöld ríkissjóðs 1990 samanborið við fjárlög og lög nr. 105/1990.


Yfirlit yfir gjöld ríkissjóðs 1990.
































    Eins og sést á yfirlitinu urðu endanlegar greiðslur ríkissjóðs 797 m.kr. lægri en heimildir segja. Helstu frávik skýrast af lægri vaxtagjöldum og lægri greiðslum á rekstrartilfærslum. Rekstrargjöld stofnana ríkisins í heild urðu því sem næst í samræmi við heimildir og hið sama gildir um viðhald og fjárfestingu.
    Í 3. gr. frumvarpsins kemur fram að umframgreiðslur vegna einstakra stofnana námu alls 609 m.kr. en á móti vega óhafnar fjárveitingar vegna annarra fjárlagaliða, samtals 1.406 m.kr. Af þessari fjárhæð hefur fjármálaráðherra fallist á geymslu á rúmlega 295 m.kr., einkum vegna óhafinna fjárveitinga til viðhalds- og stofnkostnaðarverkefna. Eftirfarandi yfirlit sýnir gjöld umfram heimildir, óhafnar fjárveitingar og geymdar fjárveitingar, skipt eftir ráðuneytum.

Yfirlit yfir umframgjöld, óhafnar fjárveitingar og geymdar fjárveitingar 1990.














































    Með tilliti til þess að greiðsluheimildum stofnana hefur verið breytt tvívegis á árinu 1990 hefur umframfjárþörf einstakra stofnana nú verið skoðuð sérstaklega. Þar sem viðhlítandi skýringar liggja ekki fyrir er lagt til að stofnanir beri umframgreiðslur ársins 1990 að hluta af fjárveitingu ársins 1991. Með þessum hætti er miðað við að 21,3 m.kr. færist milli áranna 1990 og 1991. Því þarf fyrir afgreiðslu þessa frumvarps að endurskoða greiðsluheimildir til einstakra stofnana sem þessu nemur. Frádrátturinn tekur til eftirtalinna stofnana:

































02 Menntamálaráðuneyti.

    
    Greiðslur ráðuneytisins urðu 53.692 þús. kr. umfram heimildir fjárlaga. Sótt er um 203.822 þús. kr. viðbótarheimildir en óhafnar fjárveitingar eru 150.130 þús. kr.
    Greiðslur til háskóla- og vísindastofnana urðu 38.410 þús. kr. umfram heimildir eða 1,7% af heildarfjárveitingum. Þær stofnanir, sem einkum fara fram úr heimildum, eru eftirtaldar: Útgjöld Tilraunastöðvar Háskólans að Keldum urðu alls 20.552 þús. kr. umfram heimildir. Stafar þetta að nokkru af því að tekjur skila sér ekki í samræmi við áætlanir. Kemur þar til samdráttur í sölu bóluefnis og að illa hefur tekist að innheimta þjónustugjöld vegna fiskeldisverkefna. Ákveðið hefur verið að taka rekstur stofnunarinnar til sérstakrar skoðunar á þessu ári. Þá fer Raunvísindastofnun 5.817 þús. kr. umfram heimildir fjárlaga. Árlegar fjárveitingar sýna ekki rétta mynd af umfangi stofnunarinnar þar sem sértekjur stofnunarinnar koma ekki fram nema að hluta í fjárlagaáætlun. Í fjárlögum 1990 voru sértekjur áætlaðar 30.500 þús. kr. en þær reyndust 73.000 þús. kr. Miðað er við að stofnunin beri 2.000 þús. kr. af umframgreiðslum 1990 af fjárveitingu ársins 1991. Greiðslur til Kennaraháskóla Íslands umfram heimildir námu 7.486 þús. kr. eða um 3,4%. Á árinu 1989 námu greiðslur umfram heimildir aftur á móti um 13% og því hefur orðið breyting til batnaðar í rekstri skólans. Greiðslur umfram heimildir 1990 skýrast annars vegar af því að lækkun á fjárveitingu til tækjakaupa náði ekki fram og hins vegar að launakostnaðar varð meiri en gert var ráð fyrir. Við gerð fjárlaga 1991 var tekið tillit til þessa.
    Fjárheimildir til starfsemi framhalds- og héraðsskóla námu alls um 3.705 m.kr. en greiðslur á árinu urðu alls 3.718 m.kr., þ.e. 13 m.kr. umfram fjárheimildir. Frávik frá áætlun reyndust mismikil eftir skólum en fjórir skólar skera sig úr vegna meiri kennslukostnaðar en heimilað var í fjárlögum. Rekstur þessara skóla er nú til sérstakrar skoðunar á vegum menntamálaráðuneytisins.
    Fjárlagaheimildir vegna grunnskóla og skóla fyrir fatlaða námu alls 4.601 m.kr. Kostnaður varð hins vegar 4.575 m.kr. eða 26 m.kr. lægri en heimildir fjárlaga.
    Þá er þess að geta að kostnaður við stofnun meðferðarheimilis fyrir unga fíkniefnaneytendur nam 14.092 þús. kr. umfram fjárlagaáætlun. Útgjöldin eru eingöngu vegna endurbóta á húsnæði sem keypt var fyrir starfsemina að Móum á Kjalarnesi samkvæmt heimild í 6. gr. fjárlaga.
    Útgjöld Þjóðminjasafnsins urðu alls 10.274 þús. kr. umfram heimildir fjárlaga. Til þessara útgjalda er stofnað vegna hærri launagreiðslna en fjárlög kváðu á um og vegna nauðsynlegra viðhaldsverkefna á safnhúsinu. Á árinu 1991 verður markvisst unnið að því að semja starfsemi safnsins að fjárheimildum. Kostnaður við starf Náttúruverndarráðs fór 6.656 þús. kr. umfram heimildir eða 15,6%. Starfsemi stofnunarinnar var meginhluta ársins á vegum umhverfisráðuneytisins og er nú unnið að endurskoðun á starfseminni og fjárhagsstöðu stofnunarinnar. Lagt er til að 2.000 þús. kr. af umframkostnaði ársins 1990 verði dreginn frá fjárveitingu ársins 1991. Loks nam kostnaður við rekstur Þjóðleikhússins 8.239 þús. kr. umfram heimildir. Er þetta vegna launakostnaðar sem ekki varð mætt með auknum sértekjum. Þrátt fyrir þennan umframkostnað hefur rekstur Þjóðleikhúss ekki verið nær heimildum fjárlaga um langt árabil.


03 Utanríkisráðuneyti.


    Greiðslur ráðuneytisins á árinu urðu 70.565 þús. kr. lægri en heimildir fjárlaga. Sótt er um 22.443 þús. kr. viðbótarheimildir en óhafnar fjárveitingar eru 93.008 þús. kr. Rekstrarkostnaður aðalskrifstofu ráðuneytisins varð 2.473 þús. kr. umfram heimildir eða 0,7%. Til reksturs sendiráða er sótt um 18.261 þús. kr. en á móti vega óhafnar fjárveitingar að fjárhæð 13.758 þús. kr. Skýringu á umframgreiðslum má rekja til annarra gengisbreytinga en fjárlög gerðu ráð fyrir og mikilla umsvifa í starfi sendiráðanna í Vestur-Evrópu. Framlög til alþjóðastofnana urðu 1.711 þús. kr. umfram fjárlög sem einnig skýrist af gengisbreytingum. Þá standa ónýttar greiðsluheimildir í árslok vegna framlags til aðstoðar við flóttafólk sem hart varð úti vegna Persaflóastríðsins. Reiknað er með að sú fjárhæð flytjist yfir áramót og komi til greiðslu í ár.


04 Landbúnaðarráðuneyti.


    Greiðslur ráðuneytisins á árinu urðu 9.489 þús. kr. lægri en heimildir fjárlaga. Sótt er um 31.718 þús. kr. viðbótarheimildir en óhafnar fjárveitingar eru 41.207 þús. kr. Greiðslur til embættis veiðistjóra urðu 982 þús. kr. umfram heimildir sem skýrist af lögbundnum greiðslum til eyðingar minka og refa. Þá fór Skógrækt ríkisins 6.532 þús. kr. umfram heimildir. Sótt er um viðbótarheimildir að fjárhæð 4.532 þús. kr. en gert ráð fyrir að 2.000 þús. kr. verði dregnar af fjárveitingu ársins 1991. Ástæður umframgreiðslna má í aðalatriðum rekja til vanmats á kostnaði við flutning embættisins að Hallormsstað. Greiðslur Landgræðslu ríkisins urðu 1.073 þús. kr. umfram heimildir og er gert ráð fyrir að sú fjárhæð verði dregin af fjárveitingu ársins 1991. Rekstur Veiðimálastofnunar fór verulega umfram heimildir. Landbúnaðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti standa nú sameiginlega að úttekt á rekstri og fjármálum stofnunarinnar. Til yfirdýralæknisembættisins er sótt um 2.490 þús. kr. viðbótarheimild. Ástæður þessa eru raktar til vanmats á launakostnaði vegna vaktagreiðslna, forfalla og námsleyfa. Rekstur bændaskólans á Hvanneyri varð 2.449 þús. kr. umfram fjárlög. Lagt er til að 1.000 þús. kr. verði dregnar af heimildum fjárlaga 1991 og því sótt um greiðsluheimild 1990 í samræmi við það.


05 Sjávarútvegsráðuneyti.


    Greiðslur ráðuneytisins urðu 5.277 þús. kr. eða 0,5% umfram heildarfjárheimild ársins. Sótt er um viðbótarheimildir að fjárhæð 7.917 þús. kr. en óhafnar fjárveitingar eru 2.640 þús. kr. Aðalskrifstofa ráðuneytisins fór umfram heimildir sem nemur 1.955 þús. kr. sem skýrist af kostnaði vegna sérstaks vinnuhóps um sjávarútvegsmál sem settur var upp í sambandi við samningagerð milli EB og EFTA. Kostnaður vegna þessa féll að mestu á seinni hluta ársins og lá því ekki fyrir við gerð fjáraukalaga sl. haust. Hafrannsóknastofnun fór 2.653 þús. kr. fram úr heimildum eða 0,5% en miðað er við að stofnunin beri 1.000 þús. kr. af þeim halla af fjárveitingu ársins. Ríkismat sjávarafurða fór um 4,6% fram úr heimildum eða 2.992 þús. kr. sem skýrist af lægri sértekjum í kjölfar þess að ekki tókust síldarsölusamningar við Sovétmenn. Í fjárlögum fyrir árið 1991 er tekið tillit til þessarar lækkunar á sértekjum stofnunarinnar.


06 Dómsmálaráðuneyti.


    Greiðslur ráðuneytisins á árinu urðu 3.639 þús. kr. umfram heimildir fjárlaga. Sótt er um 46.013 þús. kr. viðbótarheimildir en óhafnar fjárveitingar eru 42.374 þús. kr. Rekstur borgardómaraembættisins varð 2.410 þús. kr. umfram heimildir. Á árinu urðu óvenjumikil forföll starfsmanna vegna veikinda og af öðrum ástæðum. Til borgarfógetaembættisins er sótt um 9.718 þús. kr. viðbótarheimild. Skýringar er annars vegar að leita í sívaxandi fjölda mála sem koma til umfjöllunar hjá embættinu og hins vegar aukins húsnæðiskostnaður. Til reksturs embætta sýslumanna og bæjarfógeta er farið fram á 13.271 þús. kr. viðbótarfjárheimild. Nokkur embætti hafa tekið að sér innheimtu gjalda til sveitarfélaga. Þessu fylgir aukinn kostnaður sem ekki er að fullu áætlað fyrir í fjárlögum. Á móti koma tekjur sem teljast ekki sértekjur embættanna en renna í ríkissjóð. Í aðalatriðum hefur tekist að halda yfirvinnu embættanna innan marka fjárlaga. Þá veldur meiri vinna við innheimtu opinberra gjalda og aukinn málafjöldi meiri kostnaði en ráð var gert fyrir.
    Útgjöld Landhelgisgæslunnar urðu 8.050 þús. kr. umfram heimildir. Skýringar eru fyrst og fremst raktar til óvæntra útgjalda vegna bilana í loftförum og skipum. Til Löggildingarstofunnar er sótt um 7.101 þús. kr. viðbótarheimild. Fram undan eru verulegar breytingar á rekstri stofnunarinnar vegna svokallaðs Tampere-samkomulags EFTA-ríkja. Á árinu var unnið að undirbúningi að breytingum á starfseminni í samræmi við ofannefnt samkomulag. Greiðslur af fjárlagaliðnum, Ýmis kirkjuleg málefni, varð 1.295 þús. kr. umfram heimildir sem skýrist af kostnaði vegna kjörs til kirkjuþings og kosningar vígslubiskups í Skálholtsumdæmi.


07 Félagsmálaráðuneyti.


    Greiðslur ráðuneytisins á árinu urðu 47.756 þús. kr. lægri en heimildir fjárlaga. Sótt er um 18.070 þús. kr. viðbótarheimildir en óhafnar fjárveitingar eru 65.226 þús. kr. Til embættis skipulagsstjóra ríkisins er sótt um 8.184 þús. kr. en embættið nýtur markaðra tekna samkvæmt lögum. Gert er ráð fyrir að umframgreiðslur ársins komi til lækkunar á inneign markaðra tekna. Greiðslur vegna málefna fatlaðra urðu alls 9.454 þús. kr. umfram heimildir. Ástæður þessa eru að verulegu leyti raktar til óviðráðanlegra atvika eins og veikinda starfsmanna o.fl. Slíkar launagreiðslur námu alls um 11.500 þús. kr. á árinu. Gert er ráð fyrir að 1.500 þús. kr. af umframgreiðslum svæðisstjórnarinnar á Norðurlandi eystra og 1.000 þús. kr. af umframgreiðslum Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar verði dregnar af heimildum ársins 1991.


08 Heilbrigðisráðuneyti.


    Greiðslur ráðuneytisins urðu 131.793 þús. kr. lægri en heimildir segja til um. Sótt er um 14.430 þús. kr. viðbótarheimildir, en óhafnar fjárveitingar eru 146.223 þús. kr. Rekstur landlæknisembættisins varð 772 þús. kr. umfram heimildir. Frávik má einkum rekja til umfangsmeiri útgáfu á heilbrigðisskýrslum og ófyrirséðra tímabundinna launagreiðslna. Umframgreiðslur lyfjanefndar skýrast af ofmati á sértekjum og hefur verið tekið tillit til þess í fjárlögum ársins 1991. Halli á rekstri eiturefnanefndar nam 692 þús. kr. sem einkum skýrist af þátttöku í erlendu samstarfi. Þá er sótt um 1.050 þús. kr. viðbótarheimild til Þroskaþjálfaskóla Íslands sem fyrst og fremst skýrist af auknum húsnæðiskostnaði. Til Lyfjatæknaskólans er sótt um 1.797 þús. kr. viðbótarheimild vegna aukinna rekstrargjalda.


09 Fjármálaráðuneyti

.
    Greiðslur ráðuneytisins á árinu urðu 4.710 þús. kr. lægri en heimildir fjárlaga. Sótt er um viðbótarheimildir að fjárhæð 182.318 þús. kr. en óhafnar fjárveitingar urðu 187.028 þús. kr. Útgjöld vegna starfsemi gjaldheimta og annars innheimtukostnaðar fór verulega fram úr fjárlögum. Þannig námu umframgreiðslur vegna ýmiss konar innheimtukostnaðar 11.003 þús. kr., sem skýrist af því að ekki var áætlað að fullu fyrir innheimtukostnaði sem greiddur er til Bifreiðaskoðunar Íslands og Pósts og síma. Greiðslur til Gjaldheimtunnar í Reykjavík urðu 20.141 þús. kr. umfram heimildir. Gjaldheimtan er rekin með Reykjavíkurborg og hefur kostnaður hennar í kjölfar upptöku staðgreiðslunnar verið vanmetinn í fjárlögum. Til Gjaldheimtu Suðurnesja voru greiddar 6.990 þús. kr. umfram heimildir af sömu ástæðum og að ofan er getið.
    Greiðslur vegna uppbótar á lífeyri urðu 0,9% umfram heimildir eða 6.180 þús. kr. Greiðslur af fjárlagaliðnum Ýmsar fasteignir ríkissjóðs námu 123.846 þús. kr. umfram heimildir. Þessi munur skýrist af annarri framsetningu á eignakaupum í ríkisreikningi en í fjárlögum. Í fjárlögum er áætlað fyrir þeim hluta kostnaðar við fasteignakaup sem kemur til greiðslu á árinu en í uppgjöri Ríkisbókhalds eru fasteignakaup að fullu færð til gjalda, en á móti koma lántökur á efnahag.


10 Samgönguráðuneyti

.
    Greiðslur hjá ráðuneytinu fóru samtals 24.980 þús. kr. umfram heimildir. Sótt er um 28.412 þús. kr. viðbótarheimildir en óhafnar fjárveitingar eru 3.432 þús. kr. Greiðslur til aðalskrifstofu ráðuneytisins fóru 1.775 þús. kr. umfram heimildir og er skýringa að leita til mikillar vinnu að ferðamálum á árinu sem ekki var séð fyrir. Sérstaklega reyndist kostnaður vegna ferðamálanefndar og útgáfustarfs meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Þá voru felldar niður skuldir tveggja hafna við ríkissjóð samkvæmt heimild í 6. gr., samtals 15.000 þús. kr. Niðurfelling þessi var gjaldfærð á liðinn Vita- og hafnamálaskrifstofan. Vitaskipið Árvakur var selt á árinu en rekstrarkostnaður, sem féll til þar til skipið var selt, var gjaldfærður hjá Vita- og hafnamálaskrifstofunni. Greiddar voru 3.639 þús. kr. umfram heimildir fjárlaga vegna vaxta af skuldum Arnarflugs samkvæmt lögum frá 1986 um málefni félagsins. Liðurinn Ýmis framlög fóru 3.126 þús. kr. umfram fjárheimildir sem skýrist m.a. af því að vegna tíðra flugslysa fóru útgjöld rannsóknanefndar flugslysa fram úr áætlun.


11 Iðnaðarráðuneyti.


    Greiðslur á árinu urðu 96.967 þús. kr. lægri en heimildir fjárlaga. Sótt er um 12.195 þús. kr. viðbótarheimild en óhafnar fjárveitingar námu 109.102 þús. kr. Greiddar voru skuldbindingar að fjárhæð 2.065 þús. kr. vegna lokauppgjörs á sölu hlutabréfa Sjóefnavinnslunnar til Hitaveitu Suðurnesja. Þá urðu greiðslur vegna endurskoðunar ársreikninga Ísals, mengunareftirlits, vatnstöku o.fl. 4.263 þús. kr. umfram heimildir. Fjárhæð þessi hefur undanfarin ár verið tekin af óskiptu framleiðslugjaldi af áli. Loks er lagt til að greiðslur til Orkustofnunar umfram heimildir, 4.000 þús. kr., verði dregnar frá fjárveitingu ársins 1991.


12 Viðskiptaráðuneyti.


    Greiðslur viðskiptaráðuneytisins urðu alls 3.960 þús. kr. umfram heimildir. Sótt er um 18.030 þús. kr. viðbótarheimildir en óhafnar fjárveitingar námu 14.070 þús. kr. Niðurgreiðslur á vöruverði urðu 10.722 þús. kr. umfram heimildir fjárlaga eða 0,2%. Útgjöld vegna hlutafélagaskrár urðu 7.300 þús. kr. umfram heimildir og skýrist eingöngu af því að sértekjur stofnunarinnar, sem samkvæmt fjárlögum eru færðar henni til tekna, eru í Ríkisbókhaldi færðar upp sem tekjur ríkissjóðs.


14 Umhverfisráðuneyti.


    Greiðslur aðalskrifstofu umhverfisráðuneytisins urðu 4.588 þús. kr. umfram heimildir. Ráðuneytið hóf starfsemi sína á árinu og hefur kostnaður við stofnun þess og rekstur reynst meiri en áætlað var, einkum kaup á búnaði og aðkeypt sérfræðiráðgjöf.



Lánahreyfingar ríkissjóðs

.
    Í fjárlögum 1990 var ráðgert að mæta áætluðum greiðsluhalla ríkissjóðs, að fjárhæð um 4,5 milljarðar króna, með innstreymi á hreyfingum veittra lána ríkissjóðs að fjárhæð um 0,4 milljarðar króna og með nýrri lántöku ríkissjóðs að fjárhæð um 4,1 milljarður króna. Reyndin varð hins vegar sú að útstreymi varð á hreyfingum veittra lána og viðskiptareikninga sem nam 2,7 milljörðum króna og hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs á árinu 1990 nam alls 7,2 milljörðum króna eða sem svarar til um 2,1% af vergri landsframleiðslu. Árið 1989 var þetta hlutfall 2,6% og 3,3% árið 1988. Lánsfjárþörf ríkissjóðs hefur því þrátt fyrir nokkurt frávik frá upphaflegum fjárlögum 1990 farið lækkandi á undanförnum árum.
    Eftirfarandi yfirlit sýnir niðurstöðutölur ríkisfjármála á árinu 1990 samanborið við fjárlög 1990 og útkomu ársins 1989:























    Í skýrslu um ríkisfjármál árið 1990 er gerð ítarleg grein fyrir hreyfingum á lánareikningum A-hluta ríkissjóðs og vísast til þeirrar umfjöllunar. Hér verður þó gerð grein fyrir þremur lykilatriðum, þ.e. stöðu viðskiptareikninga, lánsfjáröflun 1990 og stöðu ríkissjóðs gagnvart Seðlabanka Íslands.

     Viðskiptareikningar, nettó. Útgreiðslur umfram inngreiðslur af viðskiptareikningi voru áætlaðar 560 m.kr. í fjárlögum. Í reynd urðu útgreiðslur 2.079 m.kr. Mismunurinn skýrist að stærstum hluta af veittum gjaldfresti á virðisaukaskatti vegna greiðslu á tolli af innflutningi. Þessi gjaldfrestur, sem nemur 1.082 m.kr., kemur í fyrsta skipti til bókunar nú en lög um virðisaukaskatt tóku gildi í ársbyrjun 1990.
    Í lok árs 1989 var lokið uppgjöri ríkissjóðs vegna sölu á Útvegsbanka Íslands hf. samtals að fjárhæð 1.140 m.kr. Ekki tókst að ganga frá lánsskjölum á því ári og var fjárhæð þessi færð til skuldar á skammtímahreyfingum. Samkomulag varð um það við Íslandsbanka hf. í byrjun árs 1990 að bankinn tæki við spariskírteinum að fjárhæð 928 m.kr. og ríkisvíxlum að fjárhæð 212 m.kr. til greiðslu á skuldinni. Eins og aðrar skuldbreytingar eru þessi viðskipti ekki sýnd í niðurstöðutölum greiðsluuppgjörs.

     Lánsfjáröflun ríkissjóðs. Á árinu 1990 var aukin áhersla lögð á að afla ríkissjóði lánsfjár innan lands. Árangurinn varð sá að yfirdráttur í Seðlabanka innan ársins var með minnsta móti. Ástæða þessa var óvenju góð lausafjárstaða bankanna vegna minni eftirspurnar atvinnufyrirtækja eftir lánsfé og aukinn peningalegur sparnaður. Eftirspurn atvinnufyrirtækja eftir lánsfé á síðustu mánuðum ársins varð til þess að sala ríkisvíxla dróst þá saman. Því var ákveðið að sækja á erlendan lánamarkað til að greiða viðskiptaskuld ríkissjóðs við Seðlabankann frá árinu 1989, afborganir af erlendum lánum í Seðlabankanum, auk þess sem heimildir lánsfjárlaga til að taka lán og endurlána voru nýttar í stað þess að veita ríkisábyrgðir. Heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs var í upphafi árs áætluð 11,8 milljarðar króna en reyndist í árslok vera 14,1 milljarður króna. Eftirfarandi yfirlit sýnir sundurliðun á lánsfjáröflun ríkissjóðs 1990 borið saman við útkomu ársins 1989:


















     Staðan gagnvart Seðlabanka Íslands. Seðlabanki Íslands er viðskiptabanki ríkissjóðs. Fjármálaráðherra er fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að taka skammtímalán í Seðlabankanum til að fjármagna sveiflur í tekjum og gjöldum ríkissjóðs innan ársins. Skuld ríkissjóðs, sem reynast kann að vera á viðskiptareikningum í lok árs, ber að gera upp innan þriggja mánaða frá lokum viðkomandi fjárhagsárs.






















    Greiðsluhreyfing ríkissjóðs gagnvart Seðlabanka Íslands var jákvæð um 5,6 milljarða króna á árinu 1990. Þar af varð 2,5 milljarða króna bati á skammtímareikningum A-hlutans og var staðan á þeim reikningum jákvæð í árslok um 0,3 milljarða króna í fyrsta sinn um langan tíma. Að auki voru greidd upp skuldabréf ríkissjóðs í Seðlabanka að fjárhæð um 3,1 milljarður króna. Með heimild í lögum nr. 39/1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, yfirtók ríkissjóður skuldir Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins í Seðlabanka með útgáfu skuldabréfs dags. 1. nóv. 1990, að upphæð 18,5 milljónir SDR sem jafngildir 1.458 m.kr. Þessari skuldayfirtöku fylgdu engar greiðsluhreyfingar og er henni því haldið utan við greiðsluyfirlit ríkissjóðs. Hins vegar kemur þessi tilfærsla fram í rekstraruppgjöri ríkissjóðs.


B-hluti.


    Samkvæmt bráðabirgðatölum um fjárstreymi milli A- og B-hluta ríkissjóðs 1990 kemur í ljós að tilfærslur til B-hluta fyrirtækja og sjóða urðu um 87 m.kr. lægri en fjárlög, að viðbættum lögum nr. 72/1990 og lögum nr. 105/1990, gerðu ráð fyrir. Þá urðu skil B-hluta fyrirtækja í ríkissjóð um 38 m.kr. undir áætlunum. Eftirfarandi yfirlit sýnir greiðslustreymi milli A- og B-hluta ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum, lögum nr. 72/1990, lögum nr. 105/1990 og greiðsluuppgjöri 1990.

Yfirlit yfir greiðslustreymi milli A- og B-hluta ríkissjóðs 1990.














    Sex fyrirtækjum í B-hluta ríkissjóðs var ætlað að skila hagnaði af starfsemi sinni í ríkissjóð. Frávik á greiðsluskilum þeirra til A-hluta frá áætlun koma fram í eftirfarandi yfirliti:


Yfirlit yfir greiðslur B-hluta fyrirtækja í ríkissjóð 1990

.



















    Frávik milli fjárlaga, laga nr. 72/1990, laga nr. 105/1990 og endanlegs uppgjörs hvað varðar tilfærslur frá A-hluta ríkissjóðs til einstakra stofnana í B-hluta urðu sem hér segir:

Yfirlit yfir tilfærslur til B-hluta fyrirtækja og sjóða 1990

.





























































    Eins og sést á yfirlitinu urðu frávik frá fjárheimildum stærst hjá Orkusjóði, en greiðslur til sjóðsins voru um 82 m.kr. innan fjárheimilda. Þá voru greiðslur til Ríkisábyrgðasjóðs um 19 m.kr. undir heimildum. Önnur frávik eru minni.