Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (um þingsköp) :
    Frú forseti. Það fór fram umræða á milli formanna flokka og formanna þingflokka í þeim tilgangi að ná fram sem skilvirkustum þingstörfum hér á þessu skamma aukaþingi. Ég taldi allgóða sátt um þann málatilbúnað og þá skipan mála sem þar var rætt um.
    Ég vil á hinn bóginn staðfesta að það er rétt sem kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að hann hafði fyrirvara varðandi umræður um Evrópskt efnahagssvæði ef þar mundi eitthvað gerast sem þætti umræðuvert. Það er hárrétt að sá fyrirvari kom fram og ég man ekki betur en menn hafi á fundinum almennt tekið vel undir þann fyrirvara.
    Vegna þessara umræðna mundi ég vilja árétta að tillaga hv. 8. þm. Reykv. yrði samþykkt hér, en jafnframt tel ég eðlilegt að beita mér fyrir því að á fundi, til að mynda á fimmtudag, yrði kosið í utanrmn. og þá gæti átt sér stað stutt umræða, ef samþykkt yrði, um það efni sem menn kjósa að ræða hér og er í samræmi við þann fyrirvara sem gerður var á fundi formanna flokka og formanna þingflokka.