Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 15. maí 1991


     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til stjórnarskipunarlaga. Það er rétt sem fram kom hjá frsm., hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, að hér var um samkomulagsmál að ræða, en það er jafnframt háð því að góð samstaða náist um annað frv. sem nú er til umræðu í Nd., þ.e. um þingsköp Alþingis.
    Það var ekki hugmynd mín að fara út í langar umræður um frv. til stjórnarskipunarlaga en á síðari stigum mun frv. til laga um þingsköp Alþingis að sjálfsögðu koma til umfjöllunar hér í hv. Ed. Þessi frv. tengjast mjög mikið og það er vissulega gott að ræða þau í samhengi þó að ég hafi ekki ætlað mér að fara út í öll atriði að því er varðar þingsköpin.
    Það er alveg rétt að að þessu máli hefur verið unnið af öllum þingflokkum. En það var hins vegar svo að lítill tími gafst til að ræða þingskapamálið á síðasta þingi og þingmenn uppteknir við margt annað þannig að okkur, sem ekki komum að málinu, gafst ekki tími til að fjalla ítarlega um það.
    Nú er það svo að ýmsar breytingar hafa þegar verið gerðar á þessu frv. Við hljótum samt að taka ýmis atriði þess til umfjöllunar í þeirri nefnd sem kosin verður í þeim tilgangi að ná fram sem bestum þingsköpum sem geta staðið fyrir Alþingi Íslendinga um sem lengstan tíma. Þá má að sjálfsögðu ekki taka mið af þeim aðstæðum sem eru í dag heldur þeirri staðreynd að við verðum að hafa sem best þingsköp fyrir þá einu deild sem ætlað er að starfa í framtíðinni.
    Hér er um mjög mikla breytingu að ræða og við vitum það sem höfum starfað í hv. Ed. að oft hefur komið fyrir að leiðrétta og breyta hefur þurft frv. sem ekki hafa hlotið nægilega góða umfjöllun. Því er mikilvægt að öll umfjöllun héðan í frá verði mun vandaðri en hingað til hefur verið. Við verðum að taka mið af þeirri staðreynd að nú eiga aðeins að fara fram þrjár umræður í hinni nýju skipan í stað sex áður. Þá er að mínu mati mikilvægt að það sé alveg skýrt að hægt sé að vísa máli til nefndar áður en 1. umr. er lokið. Það er að mínu mati mikill kostur að þingmenn geti kynnt sér mikilvæg mál og komist hjá því að vera að spyrja flm., sérstaklega ráðherra, út úr um ýmis ákvæði slíkra frv. og mikilvægara að hægt sé að taka þau strax fyrir í nefnd þannig að þingmenn séu sem best undirbúnir fyrir umræðuna. Mér þykir skorta að þetta sé nægilega skýrt í því frv. til þingskapalaga sem nú liggur fyrir. Í öðru lagi þykir mér skorta að það sé nægilega ljóst að hægt sé að biðja um 4. umr. í mjög mikilvægum málum, vandasömum málum, sem mér finnst full ástæða til að gera til að tryggja betri umfjöllun mála á Alþingi.
    Það eru nokkur atriði sem ég tel mikilvægt að fjalla um og ég skal ekki eyða miklum tíma í að gera hér í umræðum en óska eftir því að verði rætt í þeirri nefnd sem málið fær til umfjöllunar. Það er í fyrsta lagi um starfssvið forsetanna og hvernig þeir skuli kosnir. Ég fagna því að það er ætlunin að tryggja að stjórnarandstaða á hverjum tíma hafi eðlilegan aðgang að stjórn þingsins. Ég tel það afar mikilvægt. Við

minnumst þess að við höfum búið við það að stjórnarandstæðingur hefur stjórnað hér annarri deildinni og ég veit ekki betur en það hafi gengið mjög vel og allir aðilar hér á þingi verið ásáttir með það. Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir þingið að sem bestur friður ríki um stjórn þess. Því verður að tryggja rétt minni hluta sem meiri hluta að því leytinu. Nú kemur það ekki skýrt fram í þessu þingskapalagafrv. með hvaða hætti það verður gert. Þar er að vísu vitnað til hefða og það er vel. En mér finnst að það hljóti að koma til álita að festa þær hefðir í lögum ef ætlunin er að viðhalda þeim. Það er ekkert því til fyrirstöðu að lögfesta góðar og gamlar hefðir og tryggja þannig að eftir þeim verði farið um ókomna framtíð meðan lögum er ekki breytt.
    Ég tel einnig mikilvægt að átta sig á því hvert starfssvið forsetanna á að vera. Það var t.d. minnst á það af hv. frsm. að starfssvið forsetanna í dag er m.a. að stjórna mikilvægri stofnun Alþingis sem heitir Ríkisendurskoðun. Það er afar mikilvæg stofnun sem Alþingi getur beitt í mikilvægum málum auk þess sem Ríkisendurskoðun er eftirlitsstofnun með framkvæmdarvaldinu. Ég hef enga sannfæringu fyrir því að það sé rétt skipan að forsetar Alþingis séu yfirmenn þessarar stofnunar. Ég tel að forsetar Alþingis hafi í nægu öðru að snúast að stýra þinghaldi og öllu sem því fylgir. Ég held að á margan hátt geti komið til vissra árekstra í því máli. Því tel ég eðlilegt að það væri tekið til umfjöllunar hvort ekki væri rétt að breyta því nú, og að sérstök stjórn yrði kjörin yfir Ríkisendurskoðun og forsetar þingsins leystir undan þeirri ábyrgð. Ég er þeirrar skoðunar, eftir að hafa hugleitt þessi mál mjög mikið á sínum tíma, að það væri eðlilegri skipan mála að yfir Ríkisendurskoðun væri sérstök stjórn. Þegar forsetum er nú fjölgað --- í reynd er þeim fækkað en hingað til hafa forsetar deildanna og forseti Sþ. verið þeir sem farið hafa með málefni Ríkisendurskoðunar en ekki varaforsetar, en nú skil ég það svo að ætlunin sé að forseti og varaforsetar, a.m.k. fimm talsins, fari með þessa stjórn.
    Mér finnst jafnframt mikilvægt að það verði rætt hvernig taka skuli á málum eins og t.d. 15. gr. þar sem náðist samstaða um það eftir allmiklar ýtingar hér á Alþingi að ,,reglulegar alþingiskosningar skulu fara fram eigi síðar en við lok kjörtímabils. Upphaf og lok kjörtímabils miðast við sama vikudag í mánuði, talið frá mánaðamótum.``
    Í lok janúar sl. upphófust langar umræður í hv. Ed. um þingsköp, óvenjulega langar því að þær stóðu í marga klukkutíma og voru mjög góðar. Upphafsmaður þeirra umræðna var hv. þm. Halldór Blöndal, sem nú á því miður ekki sæti lengur í þessari hv. deild. ( SvG: Hann hefur málfrelsi hér.) Hann hefur þegar farið fram á það en mér vitanlega hefur ekki verið fallist á það. En hann er nú hæstv. landbrh. og samgrh. Þá var því haldið fram, m.a. af þeim sem hér stendur, að það væri eðlilegt að alþingiskosningar yrðu annan laugardag í maí og þar með yrði farið inn á reglulegan kjördag samkvæmt lögum. Það tel ég eðlilega skipan. En hv. þm. Sjálfstfl. sérstaklega töldu það

á engan hátt standast stjórnarskrá sem ég tel vera rangt og studdi það þeim rökum sem ég skal ekki endurtaka hér, en get þó gert síðar ef ástæða er til.
    Hv. þm., núv. hæstv. landbrh. og samgrh., Halldór Blöndal hélt því fram að ef það væri ætlunin að komast inn á reglulegan kjördag, þá ætti að sjálfsögðu að kjósa fyrr. Hann benti mönnum á að það hefði náttúrlega verið best að kjósa sem fyrst eftir að þessi kjördagur var ákveðinn. Mér sýnist að okkur sé nokkur vandi á höndum því ef ætti t.d. að kjósa á næsta ári, þá hefði samkvæmt þessari tillögu átt að kjósa laugardaginn fyrir páska, þ.e. eftir föstudaginn langa. Ég er ekki viss um að það væri talinn mjög heppilegur kjördagur. Ef við ættum t.d. að kjósa á næsta ári, og ég hef ekkert á móti því og get út af fyrir sig vel fallist á að gera það jafnvel fyrr, þá er ég ekki viss um að hv. þm. þætti það mjög heppilegur kjördagur að kjósa laugardaginn fyrir páska og þá hefðu kosningarnar þurft að vera 11. apríl en ekki 18. apríl. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra og stuðningsmenn núv. ríkisstjórnar: Er það skoðun þeirra að við eigum endanlega að vera fastir í vetrarkosningum? Telja þeir það heppilegt fyrirkomulag?
    Ýmsir hafa þá reynslu af þeim kosningum sem nú er nýlega lokið að þeir lentu í margvíslegri ófærð og vondum veðrum og oft var erfitt með fundahöld. En sem betur fer var nú bærilegt veður á kosningadaginn og Vegagerðin stóð sig nokkuð vel í að ryðja vegi en þó var alls ekki hægt að opna alls staðar. Ég tel þetta mjög óheppilegt fyrirkomulag að við eigum að festast hér endanlega í vetrarkosningum ef við göngum út frá því að kjörtímabil verði að öllu eðlilegu fjögur ár og ég vænti þess að hæstv. núv. ríkisstjórn hafi ætlað sér að starfa allt kjörtímabilið. Eina leið hennar til þess að komast inn á reglulegan kjördag er að leggja það til --- og það er vissulega á hennar valdi, forsrh. hefur þingrofsréttinn --- að stytta kjörtímabilið. Ég sé ekki að hjá því verði komist fyrst hv. þm. Sjálfstfl. vildu alls ekki gangast inn á þá ágætu tillögu að efna til kosninganna í maí í ár. Við vorum hins vegar þannig sem stóðum að þáv. ríkisstjórn að við vildum allt gera til að tryggja sem best samstarf um kosningadaginn, sem við hljótum að þurfa að gera, en við hljótum með sama hætti að stefna að því að hafa sem best samstarf og samstöðu um komandi kjördag. Ég held að það sé rétt að taka það til umræðu nú þegar. Og mér finnst þá lágmark að við fáum upplýsingar um það hvort við getum þá a.m.k. ekki treyst því að kosið verði annan laugardag í maí innan þriggja ára því að það má alls ekki líða lengri tími til þess að komast inn á reglulegan kjördag. Við erum að sjálfsögðu til viðræðu um að hafa þennan kjördag mun fyrr, en það er nauðsynlegt að vita þetta sem allra fyrst og það er að sjálfsögðu mikilvægt að þjóðin fái upplýsingar um það hvað menn ætlast fyrir í þessum efnum. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég tel áríðandi að fjallað verði um.
    Eitt atriði til viðbótar sem ég tel líka mikilvægt að við fjöllum um í tengslum við þessa miklu breytingu er sú aðstaða sem Alþingi Íslendinga hefur eftir að

þessi breyting hefur átt sér stað. Það skiptir afar miklu máli að húsakostur þingsins og öll aðstaða tryggi sem best vinnubrögð hér í þinginu. Eins og hv. þm. hafa orðið varir við, og ekki síst þeir sem nýir eru hér á Alþingi, er heldur þröngt hér í húsinu og starfsemi þingsins fer fram í mörgum húsum hér allt um kring. Það var tillaga forseta í eina tíð að byggt yrði nýtt hús hér við hliðina og þar með tryggt framtíðarhúsnæði fyrir Alþingi. Þessi tillaga reyndist afar kostnaðarsöm og ég á ekki von á því að það hafi mikið fylgi meðal alþingismanna að ráðast í svo dýrar framkvæmdir, sérstaklega ekki um þessar mundir þegar meginvandamál ríkisstjórnar og Alþingis er sú staðreynd að of mikill halli er á fjárlögum. Það kemur að sjálfsögðu ekki til greina að fara þá að ráðast í mjög kostnaðarsamar framkvæmdir. Það er jafnframt staðreynd að mjög hefur verið þrengt að þinginu með byggingu ráðhúss þannig að mönnum líst ekki vel á að fara að reisa nýja stórbyggingu í líkingu við þau ósköp hér í næsta nágrenni þingsins. Mikil umfjöllun fór fram um þetta mál og að lokum varð um það góð samstaða hér í þinginu að það réttasta sem hægt væri að gera væri að kaupa hentugt húsnæði í nágrenni þingsins. Og það vildi svo til að til sölu var hús sem heitir Hótel Borg og Alþingi var um það bil að ná samningum um að kaupa það virðulega, gamla hótel. Þá kom skyndilega fram á sjónarsviðið borgarstjórinn í Reykjavík, sem var þá mikill áhugamaður um veitingarekstur í borginni og keypti gjarnan slík hús ef þau voru tóm og til sölu, og keypti húsið á augabragði. Þar með var ekkert hægt að gera hér á Alþingi og menn stóðu uppi ráðalausir.
    Ég er þeirrar skoðunar að það sé afar mikilvægt að fá þetta hús keypt og að það henti mjög vel fyrir framtíðarstarfsemi Alþingis. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort þeir séu tilbúnir til að beita sér fyrir því að Alþingi geti keypt þetta hús og hvort þeir séu tilbúnir að beita sér fyrir því í núverandi ríkisstjórn að skapa þannig góð samskipti við Alþingi sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á, sérstaklega forsrh., að taka upp viðræður við Reykjavíkurborg um að þetta hús verði keypt.
    Nú vill svo vel til að enn þann dag í dag er núv. hæstv. forsrh. jafnframt borgarstjórinn í Reykjavík og aðalkaupmaður þessa húss. Og það vill líka svo vel til að núv. hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að hvað svo sem á gengur þá ætli hann sér að sitja áfram í borgarstjórn Reykjavíkur, hvernig sem það er samrýmanlegt fyrir forsrh. landsins, það fæ ég ekki skilið. En a.m.k. ætti þetta að geta orðið gott tækifæri til þess að endurskoða þetta mál og vita hvort Reykjavíkurborg fæst ekki til að selja húsið til Alþingis þannig að sómasamlega verði hægt að búa að starfsemi þingsins. Það hlýtur að vera metnaðarmál höfuðborgar landsins að sem best sé búið að þinginu sem á sér aðsetur hér í borginni samkvæmt lögum. Og svo mun að sjálfsögðu verða að á meðan Reykjavík er höfuðborg, og við hljótum að reikna með að svo verði í framtíðinni sem hingað til, þá mun Alþingi Íslendinga starfa hér. Það er ekki aðeins metnaðarmál Alþingis að vel

sé búið að þessari stofnun, það hlýtur jafnframt að vera metnaðarmál stjórnenda höfuðborgarinnar. Að mínu mati hefur ekki farið nægilega mikið fyrir þeim metnaði hjá stjórnendum höfuðborgarinnar. En ég vildi leyfa mér að óska þess að þar geti orðið breyting á.
    Herra forseti. Ég ætlaði fyrst og fremst að taka þau atriði til umræðu sem við hljótum að fjalla um nú á næstunni við meðferð þessa mikilvæga máls. Við verðum að gæta þess að þingsköpin séu þannig úr garði gerð að sem lýðræðislegust vinnubrögð geti farið fram hér á Alþingi með því að tryggja þar rétt bæði meiri hluta og minni hluta; með því að tryggja að eðlilegar umræður geti farið fram um mál, með því að tryggja að Alþingi búi í góðu og eðlilegu starfsumhverfi og aðstaða þingsins sé sem best; að tengsl Alþingis við ríkisstjórn á hverjum tíma séu jafnframt góð og að starfssvið forseta þingsins sé með þeim hætti að þeir geti sem best sinnt skyldum sínum. Þar á ég ekki síst við að verði tekið til endurskoðunar hvort ekki sé rétt að yfirstjórn Ríkisendurskoðunar verði breytt.