Þingsköp Alþingis
Miðvikudaginn 15. maí 1991


     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja mikið þessa umræðu, en þó er hér atriði sem ég vil gjarnan koma á framfæri og nota því tækifærið að nefna aðra þætti sem mér finnst áhugaverðir. Það er þá fyrst og fremst það sem snýr að störfum nefnda sem ég mundi vilja nefna hér og leggja áherslu á að nái fram að ganga í þeim sérnefndum sem fjalla um þetta mál. Auðvitað tek ég undir þau orð sem hér hafa fallið um að það hafi verið unnið gott starf og náðst góð samstaða um þetta frv. að þingsköpum, og verður væntanlega góð samstaða um afgreiðslu á því.
    Það sem mér finnst áhugavert er það sem kemur fram hér á bls. 18 í liðum 6, 8 og 9, eiginlega nýir þættir um að nefnd verði að eigin frumkvæði heimilt að fjalla um önnur mál en þau sem þingið vísar til hennar, að nefnd geti látið uppi álit á tveimur eða fleiri málum saman ef þau fjalla um skyld efni, og að nefnd geti með skýrslu gert þinginu grein fyrir athugun sinni á þingmáli sem hún hefur ekki lokið athugun á að fullu. Þetta eru mjög góðir þættir í störfum nefnda umfram það sem hefur viðgengist til þessa.
    Ég er líka öfugt við hv. 2. þm. Norðurl. v. mjög spennt fyrir því að nefndir fái til umfjöllunar efnisatriði fjárlaga sem heyra til þeirra nefnda og það kemur greinilega fram í umfjöllun í þessu riti hér þar sem sagt er frá því um þessa tillögu að þetta viðgengst víða í öðrum þingum, t.d. því norska, sænska og þýska, að fagnefndir fjalla milli 1. og 2. umr. um þann þátt fjárlagafrv. sem snertir málefnanefndirnar og svið þeirra. Ég er ekki í vafa um að við getum tekið upp góð vinnubrögð eins og viðgangast annars staðar svo fremi að það reynist þannig að það hafi þótt góð vinnubrögð. Og ef það rekst á við eldri hefðir í vinnubrögðum fjvn., nú fjárlaganefndar, þá hlýtur hún bara að breyta þeim vinnubrögðum í takt við nýja siði.
    Ég kom hér fyrst og fremst upp til þess að ræða um tilnefningu varamanns til setu í nefnd skv. 17. gr. Ég hef setið hér á tveimur þingum og hef nokkuð velt fyrir mér hlut varaþingmanna sem koma hér inn í tvær vikur oftast nær og fara beint til starfa í nefnd þess þingmanns sem þeir eru að leysa af, ef það má nota þau orð. Oft á tíðum hafa verið þau verkefni hjá nefndinni sem aðrir þingmenn úr þinghópnum hafa fjallað náið um og eru komnir með nána þekkingu á og gæti því verið æskilegt að þingmaður úr hópnum færi inn í nefndina í stað þess varaþingmanns sem tekur sæti. Nú hef ég skilið það svo að það sé einmitt markmið með breytingum í þessu frv. að slíkt megi verða. En orðalag 17. gr. gefur eiginlega ekki tilefni til að skilja þetta svo því að þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Varaþingmaður, sem tekur sæti á Alþingi í forföllum þingmanns, skal eiga sæti í þeim nefndum sem aðalmaður var kjörinn í.`` --- Þetta virðist nokkuð fortakslaust. Og síðan kemur næsta málsgrein:
    ,,Í forföllum nefndarmanns er þingflokki hans heimilt að tilnefna varamann um stundarsakir til setu í

nefnd og skal tilkynna formanni nefndar um það. Staðgengill nýtur allra sömu réttinda og aðrir nefndarmenn.``
    Það má skilja þessa grein svo að séu forföll nefndarmanns, forföll þingmanns fyrir hendi á þann veg að varaþingmaður hafi ekki komið inn, þá geti þingflokkur tilnefnt varamann, en ég hefði haft áhuga á að það yrði skoðað hvort ekki væri heimilt að tilnefna varamann í nefnd óháð því hvort varaþingmaður komi inn og það hljóti þá að vera gert í einhvers konar sátt. Þetta er mín ábending og orsök þess að ég kem hér upp.
    En ég vil einnig í lokin nefna að það er áhugavert að fá inn ný ákvæði um stutt andsvör við ræður og sérstaka stutta fyrirspurnatíma og afskaplega gott að nú skuli kveðið upp úr með að forseti í upphafi verði sá sem hafi lengsta fasta þingsetu í stað aldursforseta vegna þess að þetta mun gefa fordæmi annað. Þetta hefur oft komið kjánalega út, t.d. í sveitarstjórnum þar sem nýliðar hafa komið beint í forsæti. Sumir hafa langa setu í sveitarstjórn, aðrir ekki, en það er aldur sem ræður. Ég býst við að þessi ákvörðun, verði hún tekin hér, hafi fordæmi víða annars staðar í stjórnsýslunni og mér finnst þetta rökrétt.