Þingsköp Alþingis
Miðvikudaginn 15. maí 1991


     Flm. (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Ég þarf ekki að lengja þessa umræðu en ég vil einungis þakka jákvæðar undirtektir við þetta frv. Við athugun á því komu að sjálfsögðu upp fjöldamörg álitamál og smekksatriði og það er eðlilegt að sérnefndir þær, sem kosnar verða til þess að fjalla um málið í báðum deildum Alþingis, skoði þessi atriði og skoði þau vandlega. Við sem höfum unnið að undirbúningi þessa frv. erum búin að fara yfir þetta mörgum sinnum og þetta er sú útgáfa sem breiðust samstaða gat orðið um í okkar hópi. Margar hugmyndir sem voru uppi á borðinu hafa horfið þaðan í bili a.m.k., en vel getur svo farið að skynsamlegt sé að taka einhverjar þeirra upp aftur ef sérnefndirnar telja það heppilegt.
    Ég vil drepa á örfá atriði sem hafa komið hér fram í máli manna. Hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson lét í ljósi ákveðnar efasemdir um breytingar á starfi fjárlaganefndar, þ.e. við breytum nú í fyrsta lagi nafninu á fjvn. og köllum hana fjárlaganefnd, og ég held að það þjóni betur þeim markmiðum sem nefndinni eru ætluð. Þetta ætti að stuðla að enn þá ábyrgari vinnubrögðum í fjárlaganefnd, þá þegar af nafnbreytingunni ættu nefndarmenn að hafa nokkurn móralskan stuðning.
    Þessi nefnd er ein hin starfsamasta í þinginu og vinnur við mest álag og það eykst að hluta til við tilkomu þess að nú er samkvæmt þessu frv. ætlast til að þessi nefnd fjalli um lánsfjárlög og um ríkisreikning sem undanfarið hefur verið til meðferðar í fjh.- og viðskn. Það er rökrétt að bæði fjárlög og lánsfjárlög séu til meðferðar í sömu nefnd þannig að þar verði samræmd sjónarmið og samræmdar afgreiðslur.
    Þessi tilraun með að vísa til fagnefnda ákveðnum þáttum fjárlagafrv. er beinlínis gerð í því skyni að reyna að létta vinnuálagið á þessari fjárlaganefnd og jafnframt að skaffa henni með því móti betri tíma til til breiðrar yfirsýnar yfir fjárlögin og að hún festist ekki og þurfi ekki að eyða dýrmætum tíma sínum í smáatriði. Ég tel eðlilegt að menn prófi sig áfram með þetta. Ef raunin verður sú að þetta lánist ekki vel, ef menn fella sig ekki við þessi vinnubrögð, þá er einfalt að færa sig frá þeim aftur vegna þess að þarna er ekki um neitt fortakslaust orðalag að ræða því að þar segir ,,að jafnaði``. Það er ekki verið að gera það að algjörri skyldu að vísa málunum til fagnefnda.
    Af þessu höfum við ofurlitla reynslu, starfi fagnefndanna. Samvinnunefnd samgöngumála hefur farið með ákveðna þætti og hún hefur skilað áliti sínu til þingsins. Ég held að það sé ekki heppilegt fyrirkomulag og ekki hafi verið sérstaklega góð reynsla af samvinnunefnd samgöngumála eða þætti hennar í fjárlagagerðinni. Þetta má ekki verða til þess að nefndirnar fari að verka eins og einhver þrýstihópur. Að sjálfsögðu verður þetta allt að vera innan ákveðins ramma og það er fjárlaganefndarinnar að halda utan að þessum ramma og standa vörð um hann.
    Ég hef tekið þátt í starfi fagnefndar sem hefur kynnt sér ákveðna þætti fjárlaga. Ég hef á nokkrum

undanförnum kjörtímabilum setið í iðnn. deildarinnar. Á síðasta kjörtímabili veitti henni forstöðu hv. 4. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson og hann beitti sér fyrir því að nefndin að eigin frumkvæði athugaði ákveðna þætti fjárlaganna sem vissu að iðnaði og stofnunum iðnaðarins og lagði í það talsvert mikla og vandaða vinnu. Ég tel að það sé fengur að því ef fagnefndir þingsins ynnu þannig --- og þetta var ágæt æfing hjá okkur --- með því að deila þessu svona niður þá sé hægt að fá um fjárlögin markvissari athugun heldur en ella hefði orðið. Ég tel hins vegar að það sé mjög mikilvægt að það sé fjárlaganefndin sem kemur með hið endanlega þingskjal til 2. umr., að það sé hennar verkefni að leggja fyrir þingið endanlegar brtt. við fjárlögin. Og ég legg á það alveg sérstaka áherslu að það er meining okkar að það verði fjárlaganefndin sem gerir það en ekki fagnefndirnar jafnvel þó að álit fagnefndanna sem þær kunna að setja fram sé prentað líka.
    Hv. þm. gerði að umræðuefni tekjuhlið fjárlaganna. Ég held að undanfarið hafi kannski veikasti þátturinn í meðferð okkar á fjárlögum verið varðandi tekjuhliðina. Ég held að vinnan við tekjuhliðina hafi ekki verið nægilega markviss og ég held og er reyndar viss um að ef lögð væri í hana aukin og markvissari vinna eins og efnahags - og viðskiptanefnd ætti að vera kleift að gera, þá fengjum við af því betri og réttari mynd hvernig hún liti út. Það er eðlilegt að sú nefnd sem fjallar um skattalögin og tekjuöflun til ríkissjóðs fari yfir þessa þætti. Ég tel að það sé mjög mikilvægt og eðlilegt að svo sé. Það getur vel verið að það sé rétt hjá hv. þm. að þeirri athugun geti ekki lokið fyrir 2. umr. Ég er á því að efnahags - og viðskiptanefnd þyrfti að endurskoða og fylgjast með þeim þætti alveg til lokaafgreiðslu við 3. umr.
    Ég vil áður en ég yfirgef fjárlagagerðina láta í ljósi þá skoðun sem kom glögglega fram í hópi þeim sem hefur unnið að undirbúningi þessa þingskapalagafrv. að okkur þykir eðlilegt að Alþingi komi sér upp starfsliði til að vinna að fjárlagagerðinni. Það er ekki nógu gott að hafa það eins og nú er að Ríkisendurskoðun sé að vinna að fjárlagagerðinni. Ríkisendurskoðun á að vera eftirlitsaðili með því að fjárlögunum sé framfylgt, að farið sé með fjármunina eins og Alþingi ákveður að gert sé, en að mínum dómi á Ríkisendurskoðun eða starfsmenn hennar ekki að standa líka að lagasetningunni. Ég tel jafnframt að það sé ekki eðlilegt að það séu bara embættismenn fjmrn. sem að því koma. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að Alþingi komi sér upp starfsliði sem séu embættismenn fjárlaganefndar með formlegum hætti og tækju við því verkefni sem Ríkisendurskoðun hefur unnið fyrir fjvn. undanfarið að gerð fjárlaganna.
    Hér kom fram hjá hv. 9. þm. Reykn. Önnu Ólafsdóttur Björnsson að hún lét í ljósi vissan ugg um að verið væri að leggja óeðlileg bönd á málfrelsi þingmanna. Ég held að ég mæli fyrir munn allra þeirra sem að þessu máli hafa komið eða undirbúningi þess að menn vilja varðveita málfrelsið og ég legg afskaplega ríka áherslu á það að við megum ekkert gera sem

þrengir með óeðlilegum hætti málfrelsi þingmanna. Stjórnarandstaða eða minni hluti, hversu lítill sem er, verður að eiga sinn rétt til þess að tjá skoðanir sínar með skipulegum hætti og eðlilegum hætti hér innan þings og úr þessum ræðustól. Þetta er hins vegar hægt að misfara með og það er líka óeðlilegt að verið sé að bjóða sérstaklega upp á það að minni hlutinn tefji mál með óeðlilegum hætti, haldi uppi málþófi til þess eins að hægja á málum eða stöðva þau. Minni hlutinn verður að hafa þann rétt að tjá sig og koma sínum sjónarmiðum á framfæri, en meiri hlutinn verður líka að hafa þann rétt að hann verður að fá vilja sínum framgengt. Minni hlutinn má ekki og á ekki að hafa aðstöðu til þess að knésetja meiri hlutann. Eðli lýðræðisins samkvæmt er það réttur meiri hlutans að ráða jafnvel þó að meiri hlutinn í sumum tilfellum sé að gera rangt. Það er bara eðli þingræðisins að hann hafi síðasta orðið.
    Ég tel að í þessu frv. felist ekki nein óeðlileg þrenging á málfrelsi eða rétti þingmanna til að tjá skoðanir sínar. Að mestu leyti er farið eftir þeim reglum sem undanfarið hafa þróast og eru festar í þingsköpum, þ.e. um þáltill. breytist ekki ræðutími, lagafrv. eru með sömu takmörkunum, eða sama takmarkaleysi öllu heldur og verið hefur í gildandi þingsköpum, vegna þess að þeim takmörkunum sem eru í gildandi þingsköpum er yfirleitt ekki beitt og hefur ekki verið beitt í áratugi. Það sem gert er er það að reynt er að setja skorður við mjög löngum ræðum í utandagskrárumræðum án þess þó að þrengja með óeðlilegum hætti að umræðunni eða koma í veg fyrir það að menn geti tjáð sig. Eins er það með þingskapaumræðuna. Henni er settur rammi, þ.e. maður sem vill gera athugasemd um þingsköp hefur 5 mínútur til umráða og umræðan má ekki standa lengur en í hálfa klukkustund. Á 5 mínútum er hægt að finna að því sem mönnum þykir athugavert við fundarstjórn. Ef menn þurfa lengri tíma í þingskapaumræðu þá eru þeir að leita eftir einhverjum öðrum markmiðum heldur en að leiðbeina forseta eða ,,krítisera`` fundarstjórnina. Þá eru þeir farnir að slægjast eftir öðrum markmiðum svo sem eins og að tefja framgang dagskrármála.
    Varðandi athugasemdir sem komið hafa fram um nefndastörfin, m.a. frá hv. 2. þm. Vestf. --- og reyndar eitt enn varðandi takmörkun á ræðutímanum sem ég vil ítreka og kom reyndar inn á í framsögu minni, þ.e. að það er tekinn af ráðherrum forgangur sem þeir hafa notið hér á Alþingi. Ráðherra hefur getað og getur samkvæmt gildandi þingsköpum og hefð tekið til máls hvenær sem honum þóknast jafnvel þó svo sá málaflokkur sem til umræðu er á hverjum tíma sé ekki honum viðkomandi sérstaklega. Það er eðlilegt að varðveita þennan rétt handa ráðherra sem ber ábyrgð á máli, að hann geti komið sínum viðhorfum á framfæri hvenær sem er í umræðunni, en það er óeðlilegt að öll ríkisstjórnin geti hrúgast í ræðustól, hver ráðherra á eftir öðrum, á meðan allur annar þingheimur verður að bíða. Þessi forgangur er tekinn af ráðherrunum nema þeim sem hefur forræði máls eða málaflokks á sinni könnu á hverjum tíma. Þetta tel ég að

sé spor í rétta átt og stuðli að jafnrétti og eðlilegum starfsháttum í þinginu.
    Varðandi nefndastörfin þá eiga þau eftir nýju skipulagi að geta verið eðlileg og markvissari heldur en þau hafa verið, jafnvel þó að nefndirnar séu tvær núna og deildirnar tvær og farið í gegnum sex umræður. Það er í fyrsta lagi fjölgað í nefndunum og betur sjá augu en auga. Málum er hægt að vísa til nefnda á hverju stigi sem er. T.d. er opnað fyrir það með þessum þingsköpum að taka mál til umræðu, til athugunar í nefnd áður en 1. umr. fer fram. Það getur staðið þannig á að nauðsynlegt sé eða heppilegt sé að t.d. stjórnarandstaða hafi tækifæri til þess að kalla fyrir sérfræðinga, höfunda frv. og aðra sem sérþekkingu hafa á máli áður en afstaða er tekin til málsins í 1. umr. Þetta getur gert vinnubrögðin markvissari. Jafnframt er gert ráð fyrir því að mál fari til nefndar á milli 2. og 3. umr. sem er nýmæli að hluta til, þ.e. ef breytingar verða gerðar á frv. við 2. umr. og brtt. sem nefnd hefur ekki skoðað verða samþykktar, þá fari málið til 3. umr. Jafnframt er opnaður möguleiki fyrir að stöðva 3. umr. eða afgreiðslu í þriðju lotu skulum við segja, sem er kannski réttara orðalag, og skoða málið enn og aftur. Þannig að brtt. ættu allar og málið í heild að vera þaulskoðað í nefnd áður en Alþingi tekur endanlega afstöðu til þess.
    Hv. 2. þm. Vestf. taldi það ljóð á þessu frv. að ekki væri gert að skyldu að öll rafeindaatkvæðagreiðslan yrði prentuð. Ég er honum sammála um það að eðlilegt væri og heppilegt væri að hver einasta atkvæðagreiðsla væri prentuð í Alþingistíðindum, en mér er tjáð og það gefur reyndar auga leið að það kostar talsvert mikinn pappír að prenta allar atkvæðagreiðslur við löng og viðamikil frumvörp. Ég gæti hugsað mér þá lausn að meginatkvæðagreiðslur væru prentaðar. Ég held nú að jafnvel þó að þingmenn séu stundum kvefaðir, þá mundu þeir hafa einurð á því, a.m.k. einhverjir í salnum, að biðja um að meginatkvæðagreiðslur yrðu prentaðar með nafnakalli. Það er reyndar ekki forhlaupin tíð því að öll nafnaköllin verða varðveitt í skjalasafninu jafnvel þó að þau verði ekki prentuð í Alþingistíðindunum. Þetta er atriði sem sérnefndin getur athugað sérstaklega og komist að niðurstöðu um.
    Varðandi setu varamanna í nefndum held ég að hér höfum við hitt á skynsamlega leið. Þingflokki er heimilað að setja annan varamann í nefnd heldur en varamann viðkomandi þingmanns. En það verður hins vegar þingflokkurinn að gera á sína ábyrgð og það gerist ekki sjálfkrafa. Það er á þessu fastara og betra form heldur en er í gildandi þingsköpum þannig að ég held þetta sé til bóta. Í mörgum tilfellum getur verið eðlilegt að varamaður þingmanns taki við hans nefndarstörfum en hugsanlegt er, eins og hv. 11. þm. Reykn. Rannveig Guðmundsdóttir benti á, að mál séu það flókin að það sé erfitt fyrir varamenn að taka á þeim af fullum myndugleik á örfáum fundum sem þeir sitja í nefndum.
    Varðandi útvarp og sjónvarp frá umræðum í Alþingi get ég tekið undir ýmislegt af því sem hv. 4.

þm. Austurl. sagði hér áðan. Raunar eru í þessu frv. einfaldaðar þær reglur sem þarf að fara eftir. Fréttamenn eða fulltrúar útvarpsstöðva eða sjónvarpsstöðva þurfa einungis leyfi forseta til þess að útvarpa frá þingfundum. Samkvæmt gildandi þingsköpum þarf deildin eða sameinað þing að greiða um það atkvæði í hvert skipti sem er náttúrlega úrelt ákvæði. Ég tel hins vegar að heppilegt væri að prófa það að senda út frá Alþingi einhverjar stundir og ég er að tala um í tilraunaskyni, ekki fara endilega að gera það að föstu efni. Þá fengist á því nokkur raun hvort það yrði fylgst með þessum umræðum eða ekki. Við eigum að starfa hér í heyranda hljóði og fyrir augum alþjóðar og það er eðlilegt að svo sé. Það getur verið ákveðinn hemill á okkur sjálf og ég held að það sé eðlilegt að þetta sé prófað. Það kann að vera að enginn hafi áhuga á því að hlusta á okkur og þá það. Þá er ástæðulaust að vera að eyða fjármunum í að senda þetta út, en það er eðlilegt að það sé reynt.
    Eitt atriði væri afar auðvelt að leysa til hagræðis við sjónvarpsútsendingar héðan úr salnum. Það væri það að færa þetta myndavélarauga þannig að það horfi ekki alltaf niður á þingheiminn heldur væri í eðlilegri hæð en það er staðsett núna. Þetta mundi nú ekki kosta verulega fjármuni heldur einungis nokkurra mínútna vinnu fyrir lagtækan mann, að færa það þannig að betri svipur kæmi af sjónhorni vélarinnar í þinginu.
    Ég vil að endingu, herra forseti, láta þess getið og lýsa ánægju minni yfir hinni miklu þverpólitísku samstöðu sem er um þetta mál. Það sýnist að vísu nokkuð sitt hverjum og menn hafa deildar meiningar um ákveðna hluti í þessu. Það fer ekki eftir stjórnmálaskoðunum eða eftir flokkum. Það fer nokkuð eftir reynsluheimi manna kannski frekast. Um þetta hefur myndast breið samstaða. Það hefur ekki skipt verulegu máli, og engu máli að mínum dómi, hvort menn hafa verið í stjórn eða stjórnarandstöðu. Menn hafa unnið með mikilli samviskusemi og mjög miklum vilja til þess að ná skynsamlegri lendingu á þessu máli og fyrir það er ég mjög þakklátur.