Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans og jafnframt fagna því að nú gefst tími til að ræða þetta afar mikilvæga mál, líklega það mikilvægasta sem fyrir okkur hefur legið frá stofnun lýðveldis og sumir segja reyndar sambærilegt við mál sem um var fjallað á 13. öld. Vonandi verða afleiðingarnar ekki þær sömu og þá. Við þurfum því að vanda mjög það sem nú er gert.
    Það er rétt sem hæstv. utanrrh. sagði um aðdraganda þessa máls. Fyrri ríkisstjórn setti mjög ákveðna fyrirvara. Ég setti þá fram í ræðu í Ósló vorið 1989 og síðan var fjallað um það í ríkisstjórninni á fjölmörgum og löngum og ítarlegum fundum. Og það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði að þá var engum rýtingi beitt, heldur komst hnífurinn ekki á milli okkar í afstöðu til þessara mála.
    Ég verð hins vegar að viðurkenna að af þeirri yfirlýsingu sem nú hefur birst hef ég nokkrar áhyggjur og mun einkum styðjast við hana í ýmsum þeim spurningum sem ég vil varpa hér fram. Þeir meginfyrirvarar sem við settum voru, eins og kom reyndar fram hjá hæstv. ráðherra, að ekki kæmi til greina að veita erlendum aðilum heimild til veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu, að þess væri vandlega gætt að orkulindir, bæði vatnsafl og jarðvarmi, væru í okkar höndum og nýting þeirra, að vissa fyrirvara þyrfti að setja um erlenda fjárfestingu, t.d. í frumvinnslu sjávarafurða, og sömuleiðis að við þyrftum að hafa möguleika til þess að takmarka hér búsetu- og atvinnuréttindi. Jafnframt að unnt yrði að tryggja að erlendir aðilar, erlendir auðmenn eða erlend fyrirtæki, eignuðust ekki óeðlilega land hér, heldur eingöngu það sem tengt væri atvinnurekstri sem leyfður væri samkvæmt samningnum. Við töldum okkur einnig þurfa að hafa nokkuð meiri aðlögun heldur en ýmsar aðrar þjóðir.
    Það vakti því töluverða athygli þegar í fréttum birtist, ég hygg 5. maí sl., að hæstv. utanrrh. væri genginn til nýrra samninga. Það mátti skilja af þeirri tilkynningu að fyrirvarinn væri eingöngu sá að ekki kæmi til greina að veita erlendum aðilum veiðiheimild í íslenskri fiskveiðilögsögu.
    Hæstv. utanrrh. hefur nú rakið það mál nokkuð ítarlega hér og mér heyrðist hann telja flesta þá fyrirvara sem ég nefndi og við höfðum í fyrri ríkisstjórn. Ég legg afar mikla áherslu á það, og við framsóknarmenn, að við þá fyrirvara alla verði staðið og til nauðsynlegra aðgerða verði gripið til að tryggja þá fyrirvara. Tek ég undir það með honum að tryggja verði betur en gert hefur verið t.d. einkarétt okkar Íslendinga til að nýta jarðvarma. Sömuleiðis er óhjákvæmilegt að tryggja miklu betur en íslensk lög gera að erlendir aðilar geti ekki keypt hér upp jarðir og þau hlunnindi sem þeim fylgja.
    Ég ætla síðan að snúa mér að þeirri tilkynningu sem komið hefur frá þessum fundi nú. Ég get út af fyrir sig fagnað því að gæta á heildarjafnvægis. Um það var oft rætt á okkar fundum að slíku þyrfti að ná fram. Ég held hins vegar að það sé orðið afar nauðsynlegt að fjalla betur um það en við höfum gert í hverju slíkt heildarjafnvægi felst, hver er ávinningur okkar og hver er ávinningur þeirra þjóða sem við erum að semja við. Ég vek athygli á því að á vegum síðustu ríkisstjórnar, undir forsjá forsrn. fór fram mjög ítarleg athugun á þeim ávinningum sem kynnu að fylgja í samkomulagi um Evrópskt efnahagssvæði. Ég skal viðurkenna það að mér þótti þegar ég fór yfir þær fjölmörgu og ítarlegu skýrslur raunar minni ávinningur heldur en ég hafði áður talið. Ef ég man rétt var hann talinn vera, svona á heildina litið, í kringum 5% af þjóðarframleiðslu. Það er rétt að það fylgir þessu verulegur ávinningur fyrir sjávarútveginn en þó kann að vera að hann sé ofmetinn. Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að skiptar skoðanir væru um það hve mikið af þeim tolli sem greiða verður nú er greiddur af neytendum og hve mikið af framleiðendum. Þetta er hárrétt. Ég hygg að á sumum sviðum sé tollurinn nánast allur greiddur af neytendum, t.d. á saltfiskframleiðslunni. Þessi ávinningur, hvort sem þarna er um einn eða tvo milljarða að ræða fyrir íslenskan sjávarútveg, er satt að segja mjög lítill.
    Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að í þessu fælist einnig sá ávinningur að ef samningar nást yrði unnt að framleiða meira en nú er gert fyrir neytendur, þ.e. neytendaframleiðslu. Þetta hygg ég að sé ekki í raun að öllu leyti rétt því í þeim samningum sem við höfum núna í bókun 6 njótum við vissra sérréttinda að þessu leyti. Við höfum nánast tollfrelsi á neytendaframleiðslu. Það sem skapar hættu á þessu sviði er hins vegar það að það er tollur á ferskum flökum sem síðan eru unnin í Evrópubandalaginu í styrktri framleiðslu og nýtur þess vegna tvöfaldrar verndar miðað við það þegar um slíka framleiðslu hér heima er að ræða. Því er í raun og veru afar slæmt að í þessum samningum hefur ekki tekist að ná fram breytingu á styrkjastefnu Evrópubandalagsins í fiskiðnaði. Það er slæmt og það er að því er mér virðist vonlaust að það náist fram. Jafnvel þótt takist að fella niður tollinn af flökum, sem er afar mikilvægt því hann er núna 18%, þá mun samt sem áður vera vernd í Evrópubandalaginu á framhaldsvinnslu úr slíkum flökum og yfirleitt úr sjávarafurðum. Þarna er enn þá mismunur sem verður náttúrlega að leggja mjög mikla áherslu á að verði afnuminn og í raun og veru kannski lykilatriði ef meta á þær hagsbætur sem við höfum af þessum samningum.
    Ég ætla síðan að koma að nokkrum atriðum hér sem mér sýnast orka meira tvímælis. Í 6. lið þessarar tilkynningar er tekið fram að setja skuli upp sjálfstæða EFTA-stofnun sem hafi samsvarandi umboð og svipað hlutverk og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hins vegar.
Einnig er rætt um það í þessari sömu grein hvernig skipta megi málum milli stofnananna tveggja. Hér er vitanlega um lykilatriði að ræða og reyndar láðist mér að telja upp áðan að í þeim fyrirvörum sem við settum var það einn aðalfyrirvarinn að yfirþjóðlegar stofnanir kæmu ekki til greina. Það skal að vísu tekið fram að í umræðu í fyrri ríkisstjórn leist mér a.m.k. svo á

að ekki yrði hjá því komist að samþykkja dómstól sem væri á mjög takmörkuðu sviði. Ég vil hins vegar taka fram að það mál var aldrei endanlega frágengið í fyrrv. ríkisstjórn en ég hygg að á takmörkuðu sviði verði að koma dómstóll. Það er mín skoðun.
    En hvað þýðir þetta, sambærileg EFTA - stofnun? Er þá orðið um að ræða EFTA - stofnun sem er yfirþjóðleg á einhverjum sviðum, t.d. með tilliti til þeirra verkefna sem þeirri stofnun verða falin? En mér skilst að það eigi að vera einhvers konar samkomulagsatriði á milli EFTA og EB. Þetta er vitanlega afar stórt atriði og það verður alls ekki frá því horfið að Alþingi Íslendinga hafi lykil- og endanlegt ákvörðunarvald í fjölmörgum mjög mikilvægum málum sem í framtíðinni hljóta að verða þetta samstarf innan Evrópsks efnahagssvæðis. Ég veit að hæstv. ráðherra kom nokkuð inn á þetta og lagði áherslu á að hér væri ekki um yfirþjóðlegt vald að ræða en því miður finnst mér tilkynningin bera nokkuð annað með sér.
    Þá er í 7. lið talað um jafnörugga vernd á sviði heilbrigðis - , öryggis - og umhverfismála samhliða fríverslun. Þetta mun tryggja að þorri viðeigandi samþykkta Evrópubandalagsins kemur að fullu til framkvæmda innan EFTA - landanna frá 1. jan. 1993. Á tilteknum öðrum sviðum verður hindrunum aflétt innan EES frá 1. jan. 1993 á grundvelli samþykkta Evrópubandalagsins. Þetta held ég að þurfi langtum nánari skýringa við en hingað til hafa fengist. Er það virkilega svo að það eigi að fara að innleiða hér lög og reglur Evrópubandalagsins á sviði heilbrigðis - , öryggis - og umhverfismála? Ég held að ég megi fullyrða að okkur datt þetta aldrei í hug í fyrri ríkisstjórn eða a.m.k. þegar það var rætt, þá höfðu menn á því mikla varnagla. Ég held að ég megi jafnframt fullyrða að ýmis lög Evrópubandalagsins á sviði heilbrigðis - , öryggis - og umhverfismála eru langtum slakari en þau sem gilda hér og t.d. á Norðurlöndunum almennt. Ég held að öryggisreglur á sviði vinnuverndar séu miklu strangari hér en þar almennt gildir. A.m.k. held ég að engum sem ferðast um Suður - Evrópu dyljist að þar gildir allt annað en það sem hér hefur verið. Og ég vil alveg sérstaklega undirstrika einnig í sambandi við umhverfismálin, þar sem við erum að reyna að hasla okkur völl og gerum ráð fyrir að hér á landi verði þau mál til fyrirmyndar og þau eru áreiðanlega einhver sú mesta auðlind sem við getum átt ef vel til tekst: Er hugsunin sú að lög og reglur Evrópubandalagsins á sviði umhverfismála eigi að gilda hér? Þetta þyrfti að sjálfsögðu að skoðast mjög nákvæmlega áður en unnt er að samþykkja.
    Þá segir einnig í þessari sömu grein, með leyfi virðulegs forseta: ,,EFTA - lönd geta þó haldið eigin löggjöf þar til lagðar hafa verið fram nýjar bandalagsreglur.`` Þetta er að sjálfsögðu afar leitt að lesa. Sem sagt, það er svo að í framtíðinni getur bandalagið lagt fram einhliða reglur sem gilda á þessum sviðum og þá sé okkur, með góðvild þeirra, leyft að halda eigin reglum þar til nýjar bandalagsreglur hafa verið lagðar fram. Eigum við ekkert að hafa um það að segja hvernig þessar reglur í framtíðinni verða? Það er

þó athyglisvert að hér segir: ,,Fyrir vissar afurðir hefur verið samþykkt ótímabundið aðlögunartímabil sem tekið verður til endurskoðunar 1995``, og síðan segir innan sviga: þ.e. áburður sem inniheldur kadmíum. Það er baneitrað efni. Að vísu hef ég ekki haft tíma til að gá að því en ég trúi varla að það sé leyft hér í áburð. Er það ætlunin að a.m.k. til 1995 getum við bannað notkun á kadmíum hér á landi í áburð? Ég treysti því að það verði aldrei fallist á það að leyfa það eða önnur eiturefni til áburðarnotkunar.
    Það segir að vísu svo á eftir að nokkuð bíði þarna úrlausnar sem varðar hættuleg efni, tilbúin efni og lausnir, upplausnir hlýtur það að eiga að vera, og meindýraeitur. Já, ég trúi því að þar eigi eftir að skoða betur ef reglur Evrópubandalagsins eiga að gilda á þeim sviðum því að ég leyfi mér einnig að fullyrða að þær séu mjög slakar víða.
    Í 10. lið er fagnað samkomulagi sem náðst hefur um hindrunarlausa fjármagnsflutninga og þjónustuviðskipti. Við tókum það skref þegar að stuðla að hindrunarlausum fjármagnsflutningum með ákveðinni aðlögun og ég vil segja fyrir mitt leyti að ég tel að það hafi verið rétt. Þjónustuviðskiptin hafa hins vegar verið til umræðu og hér þarf náttúrlega meiri upplýsingar til að geta metið hvað þar er átt við. Er þar gert ráð fyrir því að yfirleitt allt sem undir það fellur verði frjálst, allar tryggingar, allir flutningar o.s.frv.? Ég treysti mér ekki til að taka afstöðu til þessa atriðis fyrr en um það liggja fyrir miklu betri upplýsingar og e.t.v. hefur hæstv. ráðherra þær nú þegar.
    Hér segir síðan í þessari sömu grein, sem ég skil ekki hvað þýðir: ,,Athuga verður nánar útvarpstilskipun Evrópubandalagsins.`` Eiga útvarpstilskipanir Evrópubandalagsins að fara að gilda hér á landi? Ég spyr. Hvað þýðir þetta? Eigum við að ganga undir einhverjar útvarpstilskipanir Evrópubandalagsins? Það getur varla verið að svo lágt verðum við settir. En þetta þarf skýringar við.
    Hér segir síðan í 12. lið að óunnið sé starf varðandi búsetu - og atvinnuréttindi. Hæstv. ráðherra kom inn á það og ég skildi það svo á hans orðum að þar gilti það sem við hefðum talað um að við hefðum þar fyrirvara og gætum stöðvað óæskilegan eða of mikinn flutning á vinnuafli til landsins og ég segi enn að ég treysti því að svo verði.
    Í 13. lið segir: ,,Þeir [þ.e. hæstv. ráðherrar] tóku fram að samkomulag hefði náðst um það að á nokkrum sviðum almenns eðlis þar sem samþykktir bandalagsins verða teknar upp af EFTA - löndunum munu almennt gilda aðlögunartímabil í allt að tvö ár.`` Og síðan segir innan sviga: Félagaréttur, félagsmálastefna, umhverfisstefna. Hér er innan sviga fjallað um mjög stór mál. Hvað þýðir þetta? Er hér komið inn á t.d. rétt verkalýðsfélaganna og skipulag á þeim sviðum? Er hér hugmyndin að það sem gildir hjá okkur verði fellt undir reglur EB, sem ég held einnig að séu æði slakar? Þetta hlýtur náttúrlega að vera mál sem þarf langtum nánari skýringa við. Ég hélt satt að segja að allt sem þarna er, eins og félagsmál, félli utan við þennan samning á viðskipta - og efnahagssviðinu og

vil að sjálfsögðu vara mjög við því, öllu sem tengist okkar velferðarkerfi og félagslegum rétti sem hér er verður að vera haldið þarna utan við. Það eru hlutir sem við Íslendingar erum vonandi allir stoltir af og þurfum enn að bæta til að auka það jafnrétti sem hér er og jafnræði með þegnum þessa lands. Þar má engu glata, heldur þarf miklu frekar meira að vinna. Ég vil því gjarnan fá nánari skýringar á því.
    Um landbúnaðarafurðir var fjallað, um það var rætt áður. Ég held að það væri æskilegt að kæmi hér fram hvaða 4 -- 5 afurðir þetta eru. Listi var lagður fram. Ég hef hann ekki hér en ég tel að það væri afar æskilegt að menn hafi það fyrir framan sig og geti metið það.
    Þá segir einnig í 14. gr.: ,,Sérstaklega verður unnið að því marki að afnema viðskiptahindranir af völdum reglugerða um heilbrigði dýra og jurta. Að því er hið síðastnefnda varðar munu EFTA - löndin taka yfir að svo miklu leyti sem unnt er samþykktir Evrópubandalagsins.`` Heilbrigði dýra og jurta. Það felst mikið í þeim fáu orðum. Við höfum hingað til staðið mjög ötullega gegn því t.d. að leyfa innflutning á jurtum og dýrum sem gætu flutt með sér sjúkdóma hingað til lands. T.d. hefur það verið talinn einn ávinningur okkar Íslendinga á sviði gróðurhúsaræktar að hér eru ýmsir af þeim sjúkdómum, sem hafa nánast lagt slíkan iðnað að velli erlendis, ekki til. Og það er afar mikils virði fyrir framtíð þessarar iðngreinar að slíkum sjúkdómum verði alls ekki hleypt inn í landið. Ég tala nú ekki um t.d. sjúkdóma eins og gin - og klaufaveiki. Á að fara að hleypa hér inn dýrum? Ég veit að það á ekki að flytja inn kjöt, ekki a.m.k. af dauðum dýrum, en á að fara að flytja hér inn dýr sem gætu valdið því að slíkir sjúkdómar flyttust til landsins, svo að ég nefni dæmi? Þarna er náttúrlega um afar stórt mál að ræða sem ég veit t.d. að hæstv. landbrh., sem nú sýnir okkur þá virðingu að vera hér, hlýtur að bera mjög fyrir brjósti og standa ötullega gegn.
    Rætt hefur verið nokkuð um fjárhagsstofnun, eins konar byggðasjóð hefur mér skilist. Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt þá er ætlunin að hann verði tímabundinn. Ég held að það væri fróðlegt að vita hve mikið við Íslendingar ættum að greiða í slíkan sjóð t.d. Vonandi fer ekki allur þessi ávinningur sem hefur verið reynt að meta í slíkan sjóð.
    Ég get einnig tekið undir það með hæstv. ráðherra að það er vissulega gott að fá inn öryggisákvæði sem hægt er að beita almennt og ég held að það sé nú betra, ég er honum sammála, en að það væri bundið við ákveðnar greinar. Þó eru þarna atriði sem þarf að ræða miklu betur. Í þessari grein segir: ,, . . . beita í hvert skipti sem alvarleg efnahagsleg, þjóðfélags - og/eða umhverfisvandamál í atvinnugrein eða í héraði væru að koma upp.`` Það er þetta ,,í héraði``, ,,í atvinnugrein eða í héraði``, á þetta ekki örugglega við land í heild sinni eins og Ísland? Kannski kalla þeir Ísland bara hérað. ( Utanrrh.: Nei.) Nei, jæja, það er gott að heyra það að við erum ekki skráðir sem hérað. En sem sagt, það er vitanlega afar mikilvægt að þarna sé ekki nokkur minnsti misskilningur og þetta geti í raun gilt fyrir Ísland, sem er náttúrlega ekkert

meira en lítið hérað í þessum stóru löndum í raun og veru, svo að þetta verður að vera mjög opið ákvæði og gilda fyrir hverja þá röskun, umtalsverða röskun sem gæti orðið hér af framkvæmd þessa samnings. Ég styð þetta ákvæði en vil gjarnan hafa það vel útfært.
    Þá er í 19. gr. fjallað um aðild okkar að ýmissi ákvarðanatöku. Þar ætlar EB í góðvild sinni, þegar það undirbýr tillögur, að leita til sérfræðinga EFTA - landanna á sama hátt og til sérfræðinga aðildarríkjanna. Hvað þýðir þetta? EFTA - löndin eru öll hópuð saman sem eitt aðildarríki að þessu leyti, jafnrétthá. Ég vil ætla að við séum miklu rétthærri í raun og veru. Nú hefur verið talað um það að þarna séu 2000 nefndir og okkur hraus hugur við því í fyrri ríkisstjórn að senda sérfræðinga í þær allar. Að vísu sagði einhver að það væri kannski gott að losna við 2000 manns ef mætti velja þá, en ég veit ekki hvort við treystum ríkisstjórn hver sem hún er til þess. Hvað þýðir þetta? Hvað er það í raun og veru mikið bákn sem menn eru að ræða um að taka þátt í? Hafa menn reynt að gera sér nánari grein fyrir því hvernig Íslendingar gerðu það?
    Dómstólinn mætti vitanlega mjög mikið ræða. Ég sagði áðan að ég hef talið, og þó að ekki hafi verið tekin endanleg afstaða til þess í Framsfl., þá höfum við almennt talið óhjákvæmilegt að hafa einhvern slíkan úrskurðaraðila í deilum. Hins vegar er afar mikilvægt jafnframt að takmarka þau málefni sem fara fyrir slíkan dómstól. Hjá því verður ekki komist að takmarka það mjög. Þau eru talin hér upp í þremur liðum en því miður leyfir tíminn það varla að ég fari ítarlega í það. En er það rétt sem ég skil að þar sé eingöngu um að ræða deilur sem varða samninginn sjálfan, ekki t.d. nýjar ákvarðanir í framtíðinni sem EB vill að gildi fyrir EES? Alls ekki t.d. ef eitthvert af EFTA - ríkjunum kýs að samþykkja alls ekki slíkar reglur. Slíkt má að sjálfsögðu alls ekki fara fyrir neinn dómstól. Það er ekkert yfirþjóðlegt vald sem við Íslendingar getum samþykkt í því sambandi.
    Hér segir svo í 23. gr. að reglur EES skuli hafa forgang í þeim tilfellum sem þær rekast á við önnur ákvæði innri löggjafar EFTA - ríkjanna. Þetta er auðvitað mjög umhugsunarvert ákvæði og getur aldrei komið til framkvæmda í raun nema löggjafarþing EFTA - ríkjanna hafi þá samþykkt það. Þá skil ég það. Ef eitthvert ákvæði, hvort sem það er í upphaflega samningnum eða nýjum ákvæðum, hefur verið samþykkt af viðkomandi EFTA - ríkjum, þá er það að sjálfsögðu orðið ný lög þess ríkis. Ég held að við þurfum að skoða þetta vandlega.
    Ég vil aðeins nefna það hér sem tengist þessum Evrópumálum, að ég hef heyrt það á ráðherrum, a.m.k. Sjálfstfl., að ætlunin sé að tengjast ECU, hinni evrópsku mynt. Og vitanlega er það rétt að með því er skapaður stöðugleiki í gengismálum. En ég vil aðeins varpa því hér fram að menn athugi þetta mjög vandlega áður en það er gert því að staðreyndin er vitanlega sú, sem reyndar kom fram í athyglisverðri ræðu þó að það væri ekki beint fjallað um þetta, athyglisverðri ræðu formanns Vinnuveitendasambandsins, að hér gilda viss grundvallaratriði sem eru töluvert önnur. T.d. gildir alls ekki stöðugleiki hér í sjávarútvegsmálum, sem er grundvallaratriði í þessu sambandi. Hvernig ætla menn þá að mæta þeim sveiflum sem kunna að verða í sjávarútvegsmálum?
    Við leituðumst við að hafa gengið fast á árunum 1987 -- 1988 með mjög slæmum afleiðingum. Og sjávarútvegurinn taldi það eina af meginorsökum þeirra erfiðleika sem þá voru að gengið hefði ekki hreyfst þegar afli dróst saman. Hafa menn hugleitt það? Hvernig ætla menn þá að mæta slíku? Ég vil aðeins varpa því hér fram þó það sé ekki kannski beint spurning til hæstv. utanrrh.
    En að lokum aðeins þetta. Margir eru með töluverða glýju í augum yfir þessu Evrópska efnahagssvæði. Ég sagði áðan að ég varð dálítið hugsi þegar ég hafði lesið þessar viðamiklu skýrslur og fór að velta því fyrir mér hvort ávinningurinn væri í raun svo mikill umfram það sem við höfum fengið með bókun 6 og ég hef hér aðeins nefnt og skal ekki rekja aftur. Þó að ég viðurkenni að ávinningurinn er nokkur og þó að ég segi að við þurfum að opna okkar efnahagslíf og auka okkar samstarf með öðrum þjóðum, og ég hef sjálfur flutt frv. um erlenda fjárfestingu sem er raunar bylting á því sviði, og við framsóknarmenn teljum að við eigum að efla slíkt samstarf og við eigum að bjóða erlendum aðilum að vinna með okkur og ýmsum atvinnugreinum, þá vara ég við því að setja eggin okkar öll í eina körfu. Og ég vara við því t.d. með slíkum samningum að glata mikilvægum markaði í Bandaríkjunum eða í Japan og á því svæði. Ég held nefnilega að þegar menn meta ávinninginn af því að tengjast Evrópsku efnahagssvæði verði þeir einnig að gæta þess mjög vandlega að halda þeim ávinningi sem er á öðrum markaðssvæðum. Og nú þegar dollarinn hefur hækkað hefur þetta svæði dregið til sín stöðugt meiri fisk frá þessu landi. Við megum alls ekki lokast þarna innan múra og eiga ekki afturgengt.
    Þetta skulu vera mín síðustu orð í þessari umræðu nú. En þó vil ég segja það að ég tel þau e.t.v. þau mikilvægustu í málinu öllu.