Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Frú forseti. Hv. 8. þm. Reykn. kemur manni sífellt á óvart. Hann gerði það líka núna. Ég ætla ekki að segja að hann hafi flutt stórbrotna sögulega ræðu en það munaði nú ekki miklu að hann gerði það.
    Ég vil aðeins byrja á því að fjalla um þessa skýrslu fjmrn. sem mér skilst að sé ráðherranum algjörlega óviðkomandi. Það kemur hér fram að hún er gefin út í aprílmánuði. Ríkisstjórnin sem situr undir mínu forsæti tók við 30. apríl, ég hygg að það hafi verið um tvöleytið síðasta dag þess mánaðar. Ég hygg að fjmrh. núv. hæstv. hafi komið í ráðuneytið og tekið við lyklunum og það var söguleg og stórbrotin stund auðvitað fyrst hann hitti Ólaf Ragnar Grímsson, fráfarandi fjmrh., um þrjú til fjögur leytið. Þannig að sé þessi skýrsla unnin í aprílmánuði eins og hér segir og á ábyrgð núv. fjmrh. en ekki hins fyrrv. þá hefur það gerst á milli fjögur og fimm þann dag og fram undir miðnætti. Það hefur nú vel að verið hjá stefnulausum flokki og stefnulausum ráðherra að ná þessu fram á þessum tíma.
    Fyrrv. hæstv. fjmrh., hv. 8. þm. Reykn., hefur gert mikið að því að reyna nú að sýna fram á grundvallarágreining í þessu máli innan ríkisstjórnarinnar og hann hefur beðið mig æ ofan í æ að úrskurða um þennan ágreininginn og hinn. Ég sé enga ástæðu til þess vegna þess að ég sé ekki þennan ágreining sem hv. þm. fjallar um. En þingmaðurinn heldur áfram að koma á óvart vegna þess að ég man ekki betur en skömmu fyrir 30. apríl, kannski fjórum, fimm dögum fyrr, skömmu áður en varð í rauninni söguleg stórbrotin stund í sjónvarpi, þar sem hv. 8. þm. Reykn. grét framan í þjóðina í heild yfir því að Alþfl. hefði svikið hann og ég held bara gjörvalla jafnaðarmannahreyfinguna fyrr og síðar, bæði hér og erlendis. Það var til tekinn fjöldinn allur af löndum. Þar og þá og dagana þar á undan þá fullyrti þessi sami þingmaður og þá ráðherra að það væri enginn ágreiningur í stærstu málum á milli sín og utanrrh. hæstv., núv. og þáv. Það væri ekki nokkur einasti ágreiningur. Þetta er sami maðurinn sem núna fer ofan í saumana og reynir að tína upp þetta atriðið og hitt, þessa ræðuna og hina og finna út úr því stórbrotinn, sögulegan ágreining sem ég eigi hér og nú að úrskurða. Ég kem ekki auga á neinn þess háttar ágreining.
    Ég vísa til þess varðandi þau orð sem hv. þm. var að hafa eftir hæstv. sjútvrh., sem farinn er af fundinum, að um þessi efni segir í stefnuyfirlýsingu stjórnar, sem er nú ekki löng og auðlesin í látlausum litlum bæklingi hér á borðum: ,, . . . með því að semja um þátttöku Íslendinga í Evrópska efnahagssvæðinu til þess að tryggja hindrunarlausan aðgang sjávarafurða að Evrópumörkuðum.`` Þetta er stefna mín. Þetta er stefna hæstv. utanrrh. og þetta er stefna hæstv. sjútvrh. Það er enginn ágreiningur milli okkar um þessi atriði.
    Yfir alla þessa þætti, líka þau atriði sem fólust í þeim spurningaleik sem hv. þm. setti á svið hér áðan, var farið á hinum ítarlega vinnufundi þar sem aðalsamningamaður Íslands og hæstv. utanrrh. gerðu grein fyrir málinu. Það kom enginn ágreiningur þar fram. Hæstv. utanrrh. fór afskaplega nákvæmlega á þeim fundi ofan í öll þessi atriði og ríkisstjórnin sem heild, hver og einn ráðherra, var sammála honum um þá málsmeðferð sem hann kynnti og þau verkefni sem fram undan voru. Það eru því engin tilefni til þess að setja allt þetta á svið með þessum hætti sem hv. 8. þm. Reykn. gerði hér.
    Ég tel fyrir mitt leyti, þótt ekki liggi endanlega fyrir nú að samningar um þennan mikilvægasta þátt okkar í utanríkismálum um þessar mundir gangi fram með þeim hætti sem við kjósum, að þá sé engu að síður ljóst að málinu hefur þokað í þá átt sem við viljum ganga, ríkisstjórnin sem heild. Hæstv. utanrrh. hefur unnið fjarskalega vel að málinu fyrir hönd þessarar ríkisstjórnar, fyrir hönd meiri hluta Alþingis og ég vil segja fyrir hönd þjóðarinnar.
    Ég ætla ekki að lengja umræðuna eða fara út í þær einstöku spurningar sem hv. þm. nefndi. Þó vil ég nefna það, af því að það var gert hér að sérstöku, stórbrotnu, sögulegu ágreiningsefni sem afhjúpast hefði á þessum mínútum, að hæstv. sjútvrh. hefði talað um að í þessum yfirlýsingum ráðherranna og í þessari samningsgerð allri gæti falist yfirþjóðlegt vald. Þetta er auðvitað spursmál um túlkun. En hvers konar yfirþjóðlegt vald var hann að nefna? Hann nefndi að Íslendingar hefðu með vissum hætti samþykkt tiltekið yfirþjóðlegt vald eins og varðandi Mannréttindadómstól Evrópu sem í raun, de facto, hefur áhrif á íslensk lög. Þeim er breytt ef dómar falla þannig að úrslit mála hér þykja hafa gengið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála og Mannréttindadómstóll úrskurðar á þann veg. Við höfum nýleg dæmi þess. Enginn okkar er hræddur við yfirþjóðlegt vald af þessu tagi. Hvorki ég, sjútvrh., eða, hygg ég, hv. 8. þm. Reykn. Ég verð því að segja að mér fannst hálffáfengilegt, ég verð að segja það, svo ég noti orð fyrirrennara míns, af hálfu þingmannsins að reyna að vera með þennan spurningaleik, ég vil segja orðhengilshátt, á þessum fundi í lok þessarar mikilvægu umræðu.
    Ég ítreka það: Það er full eining og eindrægni um þessa þætti innan ríkisstjórnarinnar, var í upphafi þegar sest var niður á rökstóla, var svo þegar stefnuyfirlýsing var samin og stjórnin mynduð og er það enn og verður svo.