Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um fullveldi, afsal á fullveldi, valdaframsal o.s.frv. er eitt athyglisvert. Ég hef engan heyrt halda því fram hér að í þessum samningum sé gert ráð fyrir framsali á valdi Alþingis, löggjafarvaldinu. Ég hef engan heyrt halda því fram að hér væri um að ræða framsal á valdi ríkisstjórnar, þ.e. frá löggjafar - eða framkvæmdarvaldi til einhverrar samþjóðlegrar stofnunar. Það virðist mér vera skýrt. ( ÓRG: Þær fullyrðingar hafa verið settar fram.) Ég hef ekki heyrt þær. ( ÓRG: Þá átt þú að hlusta betur.) Ég var einmitt að lýsa ánægju minni með það að menn hafa viðurkennt þessar staðreyndir. Það eitt út af fyrir sig er athyglisvert.
    Við erum hér að ræða um alþjóðasamning sem í fyrsta lagi tekur ekki gildi nema Alþingi Íslendinga hafi samþykkt samninginn sem slíkan. Og það verða engar ákvarðanir teknar innan æðstu stofnana Evrópska efnahagssvæðisins nema með samstöðu. Í því felst m.a. að þar tekur engin ákvörðun gildi í formi nýrra laga eða reglna nema þær hafi verið samþykktar af þjóðþingum viðkomandi EFTA - landa með undantekningunni tæknilegar reglugerðir, sem þá verður kveðið svo á um að löggjafarsamkoma viðkomandi lands framselur það vald í hendur ríkisstjórnar eins og menn þekkja hér með reglugerðarsmíð.
    Hins vegar hafa menn staldrað nokkuð við dómsþáttinn. Um það eru skiptar skoðanir. Þar hafa menn nefnt til sögunnar nokkra þætti. Í fyrsta lagi er það það sem í þessu samkomulagi er kallað á ensku ,,primacy`` og þýðir þá forgangsréttur sérreglna EES - samningsins. Í annan stað spyrja menn spurninga um bein réttaráhrif laga og reglna í þessum samningi. Í þriðja lagi spyrja menn um hlutverk dómstóls.
    Fyrst að því er varðar forgangsrétt laga og reglna, þá hef ég um það þetta að segja: Samkvæmt íslenskum rétti ber að túlka íslensk lög í samræmi við þjóðréttarskuldbindingar. Hvað þýðir þetta? Það þýðir það að ef Alþingi Íslendinga staðfestir alþjóðasamning þannig að hann er orðinn þáttur í okkar íslensku löggjöf þá er það skuldbinding af hálfu ríkisins sem er túlkuð sem sérregla og hefur forgang umfram aðra íslenska löggjöf ef þar verða árekstrar í milli. Hlutur löggjafarvaldsins er í engu skertur. Hvað er að segja um bein réttaráhrif? Menn þekkja til þess innan Evrópubandalagsins að þar hafa þjóðþing og ríkisstjórnir framselt vald í hendur samþjóðlegum stofnunum. Framkvæmdastjórnin hefur þar vald til þess að gefa út ,,directive`` sem hefur lagagildi.
    Að því er varðar EES - samninginn geta þessir samningar og lög á grundvelli hans ekki fengið bein réttaráhrif, tekið lagagildi, nema því aðeins að um lögfestingu þess hafi verið að ræða á þjóðþinginu. Hér segir: ,,Í EFTA - ríkjunum þarf að lögfesta EES - reglurnar til þess að þær öðlist bein réttaráhrif.`` Gert er ráð fyrir því að gengið verði úr skugga um við nýja lagasetningu að hún brjóti ekki í bága við þjóðréttarskuldbindingar viðkomandi ríkis. EFTA - ríkin hafa bent

á að hægt sé við lögfestingu samningsins að setja ákvæði sem kveður á um að EES - reglur gildi sem sérreglur gagnvart öðrum lögum samkvæmt þessu.
    Þá er spurt um dómstól. Ég hef þegar svarað því að breytingin að því er varðar niðurstöðu um dómstólinn og hlutverk hans er fyrst og fremst í því fólgin að ekki er á það fallist, það er ekki partur af samkomulaginu, að hann kveði upp forúrskurði, sem hefði verið samkvæmt kröfu EFTA - ríkjanna, ekki EB, kröfu EFTA - ríkjanna, meginhlutverk dómstólsins og hefði verið að mati sérfræðinga um 80 -- 90% af þeim málum sem hann hefði um fjallað.
    Hvert er þá hlutverk þessa dómstóls úr því að hann kveður ekki upp forúrskurði? Hlutverkið er þetta: Að kveða á um lausn deilumála, einkum og þar á meðal varðandi túlkun á EFTA - reglum að frumkvæði eða beiðni pólitísku nefndarinnar yfir EES eða þátttökuríkja.
    Í annan stað er það að leysa úr deilum og úrskurða í deilum milli eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA - lands, þ.e. milli ríkisins og eftirlitsstofnunarinnar.
    Í þriðja lagi að úrskurða í málum sem eru flutt af fyrirtækjum eða aðildarríkjum gegn úrskurðum EFTA - eftirlitsstofnunarinnar og varða túlkun á samkeppnisreglum. Þetta er hlutverk þessa dómstóls. Það er með öðrum orðum minna en ráð var fyrir gert.
    Hvað er þá að segja um hliðstæður og fordæmi? Hliðstæðurnar og fordæmin eru þau að við höfum á Alþingi Íslendinga í mörgum tilvikum, áratugum saman samþykkt alþjóðasamninga sem fela í sér sambærilegar skuldbindingar. Hér hafa verið nefnd dæmi: Lög nr. 30/1932, sem eru Norðurlandasamningur um viðurkenningu dóma, lög nr. 101/1972, sem fjalla um skattamál, lög nr. 93/1962, um innheimtu meðlaga. Íslendingar hafa einnig samþykkt lögsögu alþjóðadómstóla undir þeim sáttmálum sem þeir eru aðilar að, samanber Mannréttindadómstól Evrópuráðsins. Það er mat lagalegra sérfræðinga okkar að þessi dómstóll samkvæmt þessu verksviði geti ekki verið skilgreindur sem hæstiréttur Íslands, að það er rangt þegar menn segja að hæstiréttur Íslands flytjist við þetta til Lúxemborgar. Þar á það við að fari landsdómstóll ekki eftir niðurstöðu EES - dómstóls þá gildir niðurstaða landsdómsins gagnvart aðilum málsins.
    Menn hafa spurt um eftirlitsstofnunina, hvort hún væri dæmi um yfirþjóðlegt vald og vitnað í ummæli, greinilega að lítt athuguðu máli, í fréttum þar sem var viðtal við Gunnar G. Schram lagaprófessor. Þau ummæli voru ekki nákvæmari en svo að honum sýndist, honum virtist eitthvað, en það þyrfti margra og nánari skýringa við. Ef menn hafa skoðað það mál með eftirlitsstofnunina þá er það fjarri öllum sanni að fara að lýsa henni sem einhverri yfirþjóðlegri stofnun. Það er ekkert valdaframsal umfram þetta. Ég hef aldrei sagt annað en þetta: Það er ekkert valdaframsal í þessu fólgið umfram það sem felst í alþjóðlegum skuldbindingum samkvæmt hliðstæðum og fordæmum og er fólgið í því að slíkar alþjóðlegar skuldbindingar eru metnar sem sérreglur og hafa ákveðinn forgang

að íslenskum rétti. ( ÓRG: Er það líka lítt athugað hjá Gro að komast að sömu niðurstöðu?) Ég ætla ekki að kveða upp neina úrskurði hér og er ekki til þess hvort þessi mál líta eitthvað öðruvísi við gagnvart norsku stjórnarskránni enda snertir það ekki kjarna þessa máls. En að því er varðar t.d. túlkun á stjórnarskránni, af því að menn hafa verið að gera því skóna, þá segir svo í skýrslu utanrrh., frá því núna í lok seinasta þings: ,,Íslenska stjórnarskráin hefur, eins og framangreind dæmi bera með sér, verið túlkuð með tilliti til aukins samstarfs þjóða og þróunar á alþjóðavettvangi. Telja verður að þær hugmyndir sem varða valdsvið sameiginlegra stofnana á Evrópska efnahagssvæðinu falli innan ramma stjórnarskrárinnar eins og hún hefur verið túlkuð fram að þessu.``
    Ég hef að sjálfsögðu rætt þetta mál við þá menn sem helst hafa verið nefndir hér til sem sérfræðingar. Ég hef engan mann, lögfræðing eða þjóðréttarfræðing, heyrt halda því fram að þessar skuldbindingar sem við nú höfum lýst kalli á einhverja breytingu á íslensku stjórnarskránni. Hvort því háttar eitthvað öðruvísi til í Noregi, ég vissi að svo var a.m.k., má vel vera.
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Austurl. komst svo að orði áðan að hann teldi mikilvægt að tiltrú milli manna héldist, hvort heldur er í stjórn eða stjórnarandstöðu, ekki síst í mikilvægum málum sem varða þjóðarhag. Ég get gert þessi orð hans að mínum og ég tek eindregið undir þau. Mér finnst það athyglisvert að hann sker sig úr að mörgu leyti sem stjórnarandstæðingur yfirlýstur, hann hefur í engu breytt þeirri skoðun sem hann fylgdi sem aðili að ríkisstjórn. Hann styður þessa samninga, hann vill að við náum þessum samningum, varaformaður Framsfl., að því tilskildu að þær forsendur sem lagðar voru haldi. Það þykir mér virðingarvert. Hann sagði hins vegar að formaður Alþfl. yrði nú að sitja uppi með það að honum hafi kannski þótt eitthvað óþægilegt hvernig stefna Alþfl. gagnvart Evrópubandalaginu var túlkuð af hálfu framsóknarmanna. Ég var ekki að tala þar neitt um óþægindi. Ég var að tala um óheiðarleika af þeirri einföldu ástæðu að það fór ekkert á milli mála hver stefna Alþfl. í þessu máli var. Þar stóð skýrum stöfum að Alþfl. útilokaði ekki aðild að Evrópubandalaginu enda væri gulltryggt að Íslendingar héldu óskoruðu forræði yfir auðlindum sínum, bæði orkulindum og fiskstofnum.
    Það sem gerðist í kosningabaráttunni var náttúrlega það að þessi orð voru afflutt, rangtúlkuð og út úr þeim snúið. Og þau orð voru látin fylgja að samstarfsaðilinn, Alþfl., en vitað var að ekki hafði farið hnífurinn á milli samstarfsaðilanna af því að við vorum algerlega sammála um það hvernig á þessu máli var haldið, þar gegnir öðru máli um Alþb., hann var sakaður um að vera úlfur í sauðargæru. Hann var raunverulega af frambjóðendaskara Framsfl., sem tugir ef ekki hundruð dæma eru til um, sakaður um það að vera vargur í véum, sakaður um að vera ekki treystandi í helstu sjálfstæðismálum þjóðarinnar. Allt var þetta að tilefnislausu, allt var þetta gert í þeim

ómerkilega tilgangi að reyna að krækja sér í atkvæði með upplognum sökum á annan flokk, samstarfsflokk, og þetta var ómerkilegt athæfi. Sem betur fór var þessum áróðri öllum hnekkt og þeir sem honum beittu græddu ekki á því, það græddu aðrir á því. En málinu var unninn mikill skaði vegna þess að þetta gerði málið tortryggilegt að tilefnislausu, ástæðulausu. ( ÓRG: Var allt satt sem þú sagðir um Sjálfstfl. í kosningabaráttunni?) Þetta er ástæðan fyrir því að við þurftum að skjóta lausu skoti fyrir bóginn á framsóknarmönnum í þessu athæfi þeirra. Og ég veit ekki til að við höfum farið að einu eða neinu leyti með rangt mál í því. Mér var ekki kunnugt um t.d. einhver dæmi frá 1977 eða 1981 um einhverjar formlegar viðræður við Evrópubandalagið um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum. Ef það eru staðreyndir þá er það eitthvað sem mér var ekki kunnugt um.
    Virðulegi forseti. Það er eitt atriði enn sem rétt er að vekja athygli á að lokum. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson flutti ræðu sem skar sig dálítið úr öðrum ræðum. Þar var farið með pólitíska orðaleiki og sett á svolítil sýning og menn krafðir svara við spurningum sem farið var fram með nokkuð geyslega. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson taldi að þetta einfalda nei sem ég gaf við retorík Ólafs Ragnars Grímssonar hefði verið eitthvað háskalegt. Það er mesti misskilningur. ( ÓRG: Það var retorík sjútvrh.) Það er mesti misskilningur. Spurningin sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson vildi beina til mín var þessi: Útilokar þú aðild að Evrópska efnahagssvæðinu ef því skilyrði er ekki fullnægt að við fáum tollfrjálsan aðgang fyrir sjávarafurðir, að tollar verði felldir niður af sjávarafurðum? Mitt svar var nei. Nú geta menn, sem þekkja kannski lítið til málsins, túlkað það eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var fljótur að gera í sinni mælskulist sem einhverja stórmerkilega yfirlýsingu. En hafi ég einhvern tímann heyrt oftúlkun þá var það nú það, hv. þm. Vegna þess að á hvaða grundvelli ætlum við að meta hagsmuni Íslands, ávinninginn í samanburði við skuldbindingar eða óhagræði af aðild að Evrópska efnahagssvæðinu? Þar er eitt mál öllum öðrum mikilvægara og það er þetta: Fyrrverandi ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn hafa báðar dregið línuna þar sem þær segja: Við munum ekki fallast á aðgang að auðlindinni fyrir tollaívilnanir eða niðurfellingu á tollum. Það er kjarni málsins. Það er hið mikilvæga í málinu. Þar er grunnlínupunkturinn dreginn.
    Við vitum á þessari stundu út af fyrir sig ekki hvert tilboð Evrópubandalagsins verður. Það er hygginna manna háttur að gera ráð fyrir því að þeir gefist ekki upp við það sem er skuldbinding þeirra samkvæmt samningsumboðinu, sem er einfaldlega það að krefjast einhverra veiðiheimilda, jafnvel þótt þeir dragi eitthvað úr ýtrustu kröfum. Ef synjað er um veiðiheimildir þá er það viðleitni Evrópubandalagsins að leita eftir jafnvægi innan greinarinnar og að meta þá eitthvað minna þær tollaívilnanir sem væru í boði.
    Þegar ég svaraði fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar á stundinni að við synjuðum þessari hugmynd, þessu óformlega tilboði, þá var það m.a. af þeirri einföldu ástæðu að aðgöngumiðinn sem við hefðum átt að borga, sem var 30.000 tonn í þorskígildum, var miklu, miklu hærra aðgönguverð en niðurfelling allra tolla á núverandi útflutningi Íslands. Tollamálið í þessu máli er nefnilega ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að þeir komist ekki hingað að auðlindinni. Það er kjarni málsins.
    Við börðumst fyrir þeirri formúlu og komum henni inn í 15. gr. að þetta mál ætti ekki að semja um á grundvelli einhvers jafnvægisreiknings innan greinarinnar sjálfrar, heldur út frá heildarmati á hagsmunum allra aðildarríkja, út frá samningnum í heild. Þeir menn sem halda því fram að tollarnir sem íslenskur sjávarútvegur nú greiðir lendi, þegar seljendamarkaður er gildandi, nærri því allur á neytendum m.a. á saltfiskmörkuðum á Spáni, þeir eru þá ekki að græða neitt á niðurfellingu á tollum. Við borgum þá enga tolla eða hvað? Menn hafa verið að halda því fram hér að þetta sé svo. Þetta dæmi er dálítið öðruvísi.
    Þar að auki er rétt að bæta því við að mitt svar, mitt einfalda nei-svar, við hv. þm. sem spurði var m.a. byggt á því að ég heyrði það á öllum hans málflutningi að hann hefur ekkert kynnt sér þessi mál af neinni alvöru frekar en skýrsluna sem fjmrn. gaf út í hans nafni. Spurningin var nefnilega þessi: Að fella niður tolla af sjávarútvegi. Þegar menn skoða tollskýrslurnar um það og tollskrárnúmerin um það þá væri krafa um að það yrðu felldir niður allir tollar af öllum tollskrárnúmerum allra sjávarafurða. Það hefur aldrei verið krafa okkar Íslendinga. Ég er ekkert sérstaklega að berjast fyrir því að tollar verði afnumdir á sumum þeim tegundum af fiski sem Norðmenn flytja út einir. Ég er ekkert að gera þá kröfu að tollnúmerin verði hreinsuð. Ég er að berjast við að fá afnumda tolla á tilteknum tegundum af fiskafurðum, ekki síst unnum fiskafurðum. Mér er ekkert mjög mikið í mun að Evrópubandalagið haldi áfram 0% tollum eða 2% tollum á óunninn fisk þannig að við höldum áfram að flytja út hráefni í fiskvinnsluna þeirra, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. Þetta nei-svar mitt var nefnilega að mjög vel yfirveguðu ráði. Málið er nefnilega dálítið flóknara en það. Það á ekki að svara svona spurningum út af fyrir sig með jái eða neii, það er alveg rétt. En retorík Ólafs Ragnars Grímssonar gerði ráð fyrir því að hann teldi sig hafa hankað utanrrh. með einhverjum hætti á þessu svari og ég hafði svo sem gaman af að leika leikinn með honum. En túlkun hans á því máli var öll önnur og gaf ekkert tilefni til þess. ( ÓRG: Ég þarf að bera af mér sakir hér, það er alveg á hreinu.) Ég sé ekki að út af fyrir sig þurfi ég að svara frekar.
    Ég tek undir með þeim sem hafa sagt að þessi langa umræða hafi að mörgu leyti verið fróðleg og hún hefur skýrt margt. Hún hefur alla vega leitt það í ljós að þetta mál er ekki einfalt og það er ekki svarthvítt, það er ekki verið að selja landið. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson gaf þá afdráttarlausu yfirlýsingu hér, þótt annað hafi heyrst á þeim framsóknarmönnum í kosningabaráttunni, það er verið að selja fisk. Það er alveg ljóst. Það er verið að reyna að tryggja

það að Ísland geti nýtt sér þann hag sem það fyrirsjáanlega getur haft af aðild sinni að þessum innri markaði. Það er ekki verið að afsala fullveldi Íslendinga og það er ekki verið að framselja löggjafarvald eða framkvæmdarvald í hendur yfirþjóðlegum stofnunum þótt ég geri ráð fyrir því að enn geti menn skoðað einhver álitamál. Hvað meina menn með tilfærslu valda á dómssviðinu? Þar geta menn lesið margar mismunandi skoðanir lagasérfræðinga, m.a. eina líka frá norskum prófessor sem skrifar mikla bók um það að engin alþjóðleg stofnun geti risið undir þeirri skilgreiningu að heita yfirþjóðleg stofnun.