Einar Kr. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Þessar umræður sem hafa staðið lengi dags og nokkra daga hafa á margan hátt verið fróðlegar og athyglisverðar. Ekki síst hefur verið fróðlegt og athugandi fyrir okkur stjórnarsinna að fylgjast með umræðum og yfirlýsingum stjórnarandstæðinga í þeirra nýja hlutverki. Það verður náttúrlega að segjast eins og er að auðvitað hefur borið mjög á því að þeir hafa ekki kunnað almennilega fótum sínum forráð í þessu nýja hlutverki, enda kannski ekki von, og fullyrðingar og umræður svona gengið á víxl og þvers og kruss án þess að endilega væri mikið samræmi í málflutningnum. T.d. hefur borið talsvert á því að núv. stjórnarandstæðingar hafa fullyrt það að núv. hæstv. ríkisstjórn væri stefnulaus og að mjög hefði skort á það að stefnumótun hæstv. ríkisstjórnar hefði komið fram í stefnuræðu hæstv. forsrh. En jafnskjótt og einn stjórnarandstæðingur hafði sleppt orðinu í þessa veru tók sá næsti til máls og fullyrti að þessi ríkisstjórn væri byggð á hugmyndafræði kaldrar frjálshyggju og sú kalda frjálshyggja var meira að segja nánar ættfærð og ættir hennar raktar út til Bretlands. Þannig er nú samræmið í málflutningnum að á sama tíma og menn tala um að skorti á um stefnumótun ríkisstjórnarinnar, þá er talað um það í öðru orðinu að ríkisstjórnin sé háð hugmyndafræði frjálshyggjunnar. Einhvern tíma hefur verið sagt að sú hugmyndafræði væri býsna skýr þó að um hana mætti að öðru leyti ýmislegt grátt segja.
    En vegna þessara miklu umræðna um það að töluvert hafi á það skort að stefnumótun ríkisstjórnarinnar kæmi nógu skýrt fram, þá hafði ég fyrir því að lesa í gegnum stefnuræðu hæstv. fyrrv. forsrh. sem hann flutti á haustdögum 1988, nánar tiltekið 2. nóv. það ár.
Og það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir að leitað sé með miklum velvilja og farið mjög ítarlega yfir þessa ræðu og lesið með eins jákvæðu hugarfari og hægt er að hugsa sér þá verður ekki sagt að um skýra stefnumótun hæstv. forsrh. sé að ræða. Sú ræða var að verulegu leyti hefðbundið fortíðaruppgjör, uppgjör við fortíðina og lýsing á því sem gert hafði verið, en fátt um fína drætti verðandi stefnumótun til framtíðarinnar. Ég hygg að sá hluti stefnuræðu þáv. hæstv. forsrh. sem fjallaði um raunverulega stefnumótun þáv. ríkisstjórnar sé 2 -- 3 mínútur af þeim hálftíma sem ráðherrann hafði til umráða. Svo mikið um þá skýru stefnu sem vænta mátti frá þeim mönnum sem hér hafa galað hvað hæst um að það skorti mjög á skýrleika í stefnumótun núv. hæstv. ríkisstjórnar.
    Sannleikurinn er auðvitað sá að stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið að koma fram og hefur komið fram með skýrum hætti. Það er að sönnu rétt að stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar er ekki mjög löng en það er náttúrlega bara kostur en stefna hennar hefur komið skýrt fram. Hún hefur m.a. birst í þeim efnahagsráðstöfunum sem kynntar hafa verið upp á síðkastið og miða að því, sem flestir sem hér hafa tekið til máls hafa tekið undir, að treysta og tryggja efnahagslegt jafnvægi og stöðugleika í landinu. Þess vegna hefur verið gripið til þeirra efnahagsaðgerða sem mjög hafa verið ræddar á síðustu dögum m.a. hér í þinginu.
    Núv. hv. stjórnarandstæðingar hafa látið sem svo að viðskilnaður fráfarandi ríkisstjórnar hafi verið mjög góður. Fráfarandi hæstv. forsrh. talaði um að það væri ánægjulegt til þess að vita að hann hefði skilað mjög góðu búi og í ljósi þessa er kannski ekki að undra þó að ekki geti að líta í ræðum hv. stjórnarandstæðinga miklar tillögur um leiðir í þeim vanda sem vissulega blasir við. Því að ef menn eru þeirrar skoðunar að allt sé í svo miklu himnalagi sem hv. stjórnarandstæðingar tala um, þá er auðvitað ekki ástæða til þess að hafa uppi miklar tillögur. Þess vegna er það auðvitað þannig að þegar hv. stjórnarandstæðingar tala hér eins og t.d. hv. 1. þm. Austurl. áðan, þá finnur maður ekki í ræðum hans vott af miklum tillöguflutningi. Að vísu gat þingmaðurinn þess alveg sérstaklega í ræðu sinni að nú kæmi að þeim kafla í ræðunni þar sem mundi örla á tillögum, hugmyndum að lausn á þeim málum sem við blasa, lausn á vandanum í ríkisfjármálum, lausn á vandanum varðandi hina opinberu lánsfjárþörf o.s.frv. Svo biðu menn í ofvæni og niðurstaðan varð sú að ekkert birtist nema einhverjir almennt orðaðir frasar um að það þurfi að draga úr opinberri lánsfjárþörf og það sé mikilvægast að halda jafnvægi í samfélaginu og hann sé sammála ríkisstjórninni um það að gæta aðhalds og sparnaðar í ríkisbúskapnum. Þetta var nú kjarninn í þessum tillöguflutningi. Úr því að svo er hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, þá er kannski ekki við því að búast að það sé mikið stórbrotnara sem frá stjórnarandstöðunni kemur í þessum efnum.
    En hver er þá raunveruleikinn? Hvað blasir við okkur? Hver eru þau vandamál sem við er að glíma í búskap ríkisins og hins opinbera? Ég skal nefna nokkur atriði sem hér hafa auðvitað komið fram mörg hver en það sakar ekki að séu ítrekuð.
    Í fyrsta lagi liggur það fyrir og hefur ekki verið gerður um það ágreiningur að hallinn á ríkissjóði verði að óbreyttu, ef stjórnarstefnu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar verði fylgt áfram, ef stefnu Ólafs Ragnars Grímssonar, hæstv. fyrrv. fjmrh., verði fylgt áfram, helmingi meiri, verði tvöfalt meiri en talað var um í upphafi þegar fjárlagafrv. var afgreitt. Það liggur fyrir skjalfest að mati þeirra sérfræðinga sem gleggst mega vita, sérfræðinga fjmrn., að hallinn á ríkissjóði verður tvöfalt meiri en um var talað í upphafi. Og telja menn svo ekki ástæðu til þess að taka til hendinni og sýna aðhald og sýna ráðdeildarsemi í ríkisbúskapnum?
    Í öðru lagi lagði ríkisstjórnin af stað með það í farteskinu að innlendur sparnaður sem átti að standa undir allri opinberri lánsfjáröflun átti að verða 38 milljarðar. Hann verður ekki 38 heldur 26, líka að mati þeirra sérfræðinga sem gleggst mega um vita. Það er kunnara en frá þurfi að segja að fráfarandi ríkisstjórn lagði á það höfuðáherslu að í framtíðinni og í hennar tíð yrði að miða við það að opinber lánsfjármögnun færi fram á innlendum lánamarkaði. Það yrði að reiða sig á þann innlenda sparnað sem til staðar væri í landinu. Þegar það blasir við að sparnaðurinn hefur hrunið saman og ekki bara það, heldur einnig hitt að allar tölur fráfarandi ríkisstjórnar um opinbera lánsfjárþörf eru gersamlega út í loftið og gersamlega vanáætlaðar, þá blasir auðvitað við hverju einasta mannsbarni að það er vá fyrir dyrum. Það blasir auðvitað við að sú stjórnarstefna að fjármagna opinbera lánsfjárþörf eingöngu innan lands gengur ekki upp. Hún er orðin efnahagslega og pólitískt gjaldþrota þegar það liggur fyrir að sparnaðurinn hefur hrunið um 12 milljarða og opinber lánsfjárþörf hefur aukist um 11. Málum er einfaldlega þannig komið núna að opinber lánsfjárþörf er 8 milljörðum meiri, 8 þúsund milljónum meiri en gervallur sparnaðurinn í landinu.
    Við sjálfstæðismenn vöruðum mjög við því fyrir kosningarnar að miðað við þær forsendur sem þáv. hæstv. ríkisstjórn gaf sér um sparnaðinn í landinu og um opinberar lántökur í landinu væri teflt mjög á hið tæpasta vað. Um þá staðreynd að þáv. ríkisstjórn ætlaðist til þess að 60% af sparnaðinum í landinu rynnu til hins opinbera og það sem eftir væri ætti síðan að skiptast á milli atvinnulífsins og einstaklinganna í landinu sögðum við sem svo: Þessi stefnumótun getur ekki haft nema eitt í för með sér. Hún hlýtur að hafa í för með sér verulega vaxtahækkun. Því að þegar kapphlaup almennings og fyrirtækja um sparnaðinn í landinu byrjar, um þennan takmarkaða sparnað sem hið opinbera ætlaði að skilja eftir til ráðstöfunar fyrir þessa aðila, þá hljóta vextirnir að hækka. Og vitaskuld hefur þetta gerst og það var auðvitað það sem var undirliggjandi í þessu hagkerfi. Það var þessi mikli þrýstingur á það að vextirnir mundu hækka. Og það er auðvitað það sem er að koma á daginn.
    Hv. 1. þm. Austurl. talaði um það hér áðan að hann efaðist um að vaxtahækkunin nú ylli neinni aukningu í heildarsparnaði í landinu. Hann efaðist um það og hann sagði sem svo efnislega að vaxtahækkun við þessar aðstæður væri alls ekki nein einhlít lausn á þeim vanda sem við var að glíma. Ég gæti ekki verið meira sammála honum en ég er um þetta mál vegna þess að auðvitað er þetta rétt. Vaxtahækkun við þessar aðstæður ein og sér er engin einhlít lausn og þess vegna er það auðvitað þannig að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur lagt á það höfuðáherslu að draga úr hinni opinberu lánsfjárþörf, draga úr sókn ríkisins og hins opinbera inn á lánamarkaðinn jafnframt því að hækka vextina. Þannig hefur verið reynt að gera hvort tveggja, að auka á ný sparnaðinn sem efnahagsstefna fyrrv. ríkisstjórnar hafði drepið niður og líka það að draga úr hinni opinberu lánsfjárþörf sem ríkisstjórnin, sem hv. 1. þm. Austurl. sat í, hafði aukið nánast dag frá degi. Það er mjög athyglisvert t.d. að skoða það í opinberum hagtölum að brúttólánsfjárþörf opinberra aðila tvöfaldaðist, jókst um helming, um 100%, á valdatíma hæstv. síðustu ríkisstjórnar. Og samt sem áður láta talsmenn stjórnarandstöðunnar alveg eins og ekkert sé, eins og hér sé ekki um að ræða neitt vandamál sem þurfi að taka á. Sem betur fer finnast þeir talsmenn fyrrv. ríkisstjórnar sem viðurkenna að það sé við vanda að glíma og sem betur fer eru til heiðarlegir talsmenn hæstv. fyrrv. ríkisstjórnar sem tala á þessum nótum, viðurkenna vandann þegar hann blasir við. Ég vil í þessu sambandi sérstaklega vekja athygli á grein eftir Má Guðmundsson, fyrrv. efnahagsráðgjafa fráfarandi fjmrh., sem rekur þessi mál mjög vel, ítarlega og efnislega. Þar er þá a.m.k. um að ræða sæmilega efnislega tilraun til þess að taka til varnar fyrir hæstv. fráfarandi ríkisstjórn og reyna að gera sér grein fyrir því hvað í raun og veru er á seyði í þessum málum sem við erum núna að fjalla um.
    Mig langar í þessu sambandi til að vitna til nokkurra lykilorða úr grein Más Guðmundssonar sem ég held að ekki síst hv. stjórnarandstæðingar ættu að lesa og kynna sér vel og vandlega. Már Guðmundsson segir t.d. orðrétt, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Við mikinn vanda er að stríða í ríkisfjármálum og hefur verið um árabil hvað sem líður mismunandi mati á því hver halli ríkissjóðs muni hugsanlega verða í ár að óbreyttu.`` Og áfram heldur Már Guðmundsson, með leyfi forseta: ,,Í fyrsta lagi er útlit fyrir að halli ríkissjóðs verði meiri en gert var ráð fyrir við samþykkt fjárlaga verði ekki gripið til aðgerða í tekju - og útgjaldahlið ríkisfjármálanna.``
    Þetta er mjög athyglisverð yfirlýsing. Hann viðurkennir með öðrum orðum að tekju - og útgjaldaáform ríkisstjórnarinnar á fjárlagafrv. hafi ekki staðist. Og áfram heldur hann: ,,Í öðru lagi hefur innlend lánsfjáröflun gengið verr það sem af er en á sama tíma í fyrra og stafar það af minni sparnaði almennings og fyrirtækja en í fyrra og því að vextir á ríkisvíxlum og spariskírteinum hafa dregist aftur úr öðrum vöxtum, einkum á húsbréfum, þrátt yfir hækkun vaxta á ríkisvíxlum og spariskírteinum í upphafi ársins.``
    Hér er það viðurkennt að lánsfjáröflun hins opinbera mistókst, eins og við höfum verið að halda fram, þrátt fyrir það að þáv. hæstv. ríkisstjórn hafi beitt sér fyrir vaxtahækkunum, vaxtahækkunum af því tagi og þeim toga sem hv. stjórnarandstæðingar eru sífellt núna gasprandi um og gagnrýnandi okkur fyrir.
    ,,Í þriðja lagi``, segir svo efnahagsráðgjafi fráfarandi fjmrh., ,,eru svo horfur um innlenda fjáröflun ríkissjóðs taldar verri á árinu í heild vegna minni sparnaðar og aukinnar lánsfjáreftirspurnar fyrirtækja og einstaklinga.``
    Og síðan segir hann og það er niðurstaða hans máls að það skipti raunar ekki máli hvaða ríkisstjórn sé við völd. Aðalmálið við þessar aðstæður sé frá hreinu hagstjórnarsjónarmiði minni halli ríkissjóðs og/eða meiri innlend lánsfjáröflun en ella hefði orðið við óbreyttar aðstæður.
    Í þessari grein er sem sagt farið mjög ítarlega yfir málin og sýnt fram á þennan veikleika sem í raun og veru var kominn fram og hefur verið að birtast okkur mjög áberandi upp á síðkastið varðandi efnahagsstjórn fráfarandi ríkisstjórnar.
    Í þessum umræðum hefur mjög verið rætt um tengsl þessara vaxtahækkana, sem óhjákvæmilegar

voru, ekki síst af þeim ástæðum sem ég hef þegar rakið með skírskotun í grein Más Guðmundssonar, og hinnar svokölluðu þjóðarsáttar, sáttar um sanngjarnt kaup og kjör sem við sjálfstæðismenn studdum mjög þegar þessir tímamótasamningar voru gerðir á síðasta ári. Fyrrv. hæstv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, talaði mjög á þessum nótum og vitnaði með mikilli velþóknun í orð Einars Odds Kristjánssonar, formanns Vinnuveitendasambands Íslands, sem farið hafði viðurkenningarorðum um fráfarandi ríkisstjórn fyrir það hversu vel hún hafði staðið að því að standa með aðilum vinnumarkaðarins að því að vernda þau markmið sem sett höfðu verið í upphafi þjóðarsáttar, ekki síst með þeim hætti að berja niður kauphækkanir BHMR, en það var það mál sem Einar Oddur ræddi um um leið og hann hældi Steingrími Hermannssyni og ríkisstjórn hans í ræðu sinni á aðalfundi Vinnuveitendasambands Íslands. Það væri kannski fróðlegt í þessu sambandi að vekja athygli á því að Einar Oddur Kristjánsson hefur einmitt tjáð sig um það hvert sé samband þeirra efnahagsráðstafana sem nú sé verið að gera og þeirrar þjóðarsáttar sem hann kannski öðrum fremur hefur orðið persónugervingur fyrir. Hann hefur sagt það í blaðaviðtali að hann fullyrði að sú vaxtahækkun sem menn urðu að grípa til við þessar aðstæður núna sé rétt þrátt fyrir það að hún kunni að koma harkalega til skemmri tíma litið við bæði almenning og fyrirtæki í landinu. Hann segir sem svo í Morgunblaðinu 18. maí, með leyfi forseta:
    ,,Ég fullyrði að þó að vaxtahækkunin sé bæði óvinsæl og komi illa við atvinnureksturinn og margan launþegann, þá er hún rétt.`` Og hann segir: ,,Það hefði þurft að grípa til vaxtahækkunar hjá ríkinu miklu, miklu fyrr`` eins og hann segir orðrétt. Og hann vekur auðvitað athygli á því sem er kjarni þessa máls og hefur auðvitað komið fram í máli okkar talsmanna ríkisstjórnarinnar. Hann segir: ,,Aðalmálið í þessu sambandi er auðvitað það að hægt sé að halda aftur af eyðslu ríkissjóðs þannig að hægt sé að skapa skilyrði til þess stöðugleika sem við þurfum að búa við í okkar landi.``
    Virðulegi forseti. Núv. stjórnarandstaða hefur mjög, eins og ég hef rakið, látið sem ekkert sé. Það sé ekki við slíkan vanda að glíma sem við stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar höfum talað um. Eins og ég rakti fyrr, þá fullyrti fráfarandi hæstv. forsrh. að hann mundi skila mjög góðu búi. Í þessu sambandi langar mig sérstaklega til þess að vekja athygli á því sem ég tel að sé kannski hvað alvarlegast varðandi viðskilnað fráfarandi ríkisstjórnar og er mál sem ég bið sérstaklega talsmenn stjórnarandstöðunnar á landsbyggðinni, talsmenn stjórnarandstöðunnar sem hafa látið sig hagsmuni útflutningsgreinanna einhverju varða, bið þessa menn sérstaklega að leggja við eyrum vegna þess að það blasir við að að óbreyttu stefndi viðskiptahallinn á þessu ári í algert met. Við vorum mjög mörg á árinu 1987 og 1988 sem sögðum: Viðskiptahallinn er gersamlega óásættanlegur eins og hann er og kemur til með að verða að óbreyttu. Við sögðum: Ef ekki verður gripið á þessu máli, ef ekki verður

gripið í taumana og beitt þeim aðhaldsaðgerðum sem nauðsynlegar eru, þá mun þessi viðskiptahalli ríða útflutningsgreinunum á slig. 3,5% viðskiptahalli, sem blasti við á árunum 1987 og 1988 og varð reyndin á, er allt of mikill.
    Hvað er það sem blasir við núna? Jú, að mati fjmrn., þetta er byggt á tölum um innflutning það sem af er árinu og líklegar horfur um útflutning, þá blasir það við að viðskiptahallinn verði ekki 3,5 -- 3,7% eins og hann var á árinu 1987 og 1988 heldur 4,5% af landsframleiðslu. Að viðskiptahallinn verði með öðrum orðum 16 -- 17 milljarðar, 16 -- 17 þúsund milljónir króna. Hafi verið ástæða til þess að bregðast hart við, eins og vissulega var á árunum 1987 og 1988, þá spyr ég: Hvernig var ástæða til þess að bregðast við þessu máli núna? Eru t.d. talsmenn Framsfl. sem mjög höfðu hátt um sig á þessum tíma ekki sammála því að það þurfi að bregðast við þessum alvarlegu og válegu tíðindum með því að gæta aðhalds í ríkisbúskapnum, draga úr þenslunni þar sem hún er og þar fram eftir götunum? Hafa menn kannski skipt um skoðun á þessum árum við að sitja í nokkur ár í ríkisstjórn? Ég vona að svo sé ekki.
    Ég sagði hér áðan að það hefði lítið komið frá stjórnarandstæðingum varðandi lausnir á þeim málum sem við blasa. En þó að þessar hugmyndir að lausn hafi ekki komið fram hér í umræðunum, þá er það hins vegar þannig að í tímaritinu Þjóðlífi birtist að vísu mjög losaraleg grein, lausleg frásögn af
því að alþýðubandalagsmenn hefðu á fyrstu dögum eftir kosningar gengið mjög með grasið í skónum á eftir Alþfl. og að því er ráða má af þessari grein boðið fram mjög athyglisverð mál, mál sem sagt er að hafi átt að greiða fyrir því að Alþb. og Alþfl. næðu saman í stjórn. Og þó að formaður Alþb. sé fjarstaddur, þá situr hér a.m.k. varaformaður þess sama flokks og getur kannski upplýst okkur um það frekar hvað Alþb. var að hugsa með þessum hugmyndum sem þarna voru lagðar fram í tillöguformi. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að tekin verði upp kvótaleiga sem í mínu ungdæmi var nú bara kallaður auðlindaskattur. Það verði með öðrum orðum tekinn upp auðlindaskattur ef Alþb. megi nokkru ráða. Þetta eru mjög athyglisverðar upplýsingar sem hér eru lagðar fram og eru auðvitað nýjar í þeim umræðum sem fram hafa farið. ( Gripið fram í: Í hvaða tímariti er þetta?) Þetta er tímaritið Þjóðlíf. (Gripið fram í.) Ég er að spyrja varaformann Alþb. hvort þetta sé rétt. Vegna þess að hér er verið að segja frá því af hinu opinbera, liggur mér við að segja, alþýðubandalagsmanni sem hefur ritað sérstaka bók um innviði Alþb. og er þar mjög hnútum kunnugur eins og varaformaður Alþb. ætti að vita, e.t.v. núv. flokksbróðir hans, ég man það ekki lengur. Það hefur verið svo hraður flóttinn úr þeim flokki að maður man nú ekki lengur hverjir sitja þar eftir. Hins vegar greinir þessi söguskýrandi Alþb. jafnframt frá því að hér sé um að ræða sjö síðna lesningu og athyglisverða í þokkabót fyrir sakir opnunar og frjálsræðis. Opnun og frjálsræði. Það er frjálsræði sem er allt í einu farið að láta

á sér kræla á þeim bæ. Í þessu opnunar - og frjálsræðisplaggi er m.a. gert ráð fyrir að haldið verði áfram að selja ríkisfyrirtæki og væri nú gaman að heyra hvaða ríkisfyrirtæki voru komin á sölulista Alþb.
    Í öðru lagi er rakinn stuðningur við hið Evrópska efnahagssvæði sem við ræddum um hér áðan. Sérstök stuðningsyfirlýsing í þessu plaggi við hið Evrópska efnahagssvæði og ekki bara það. Frjálsræðið er svo mikið þarna að það er ekki nóg með að það eigi að styðja hið Evrópska efnahagssvæði, heldur efla fríverslun við Bandaríkin, Kanada og Kyrrahafslöndin samfara Evrópusamningnum. Og síðan eigi að fara fram uppstokkun á landbúnaðarkerfinu eins og það leggur sig að því er mér virðist.
    Þetta er auðvitað hið fróðlegasta plagg. Þó að það sé ekki ítarlegt hérna í þessum litla bút, þá er það örugglega ítarlegra á þessum sjö síðum frjálslyndis og opnunar sem frá er greint og ég veit að varaformaður Alþb. hefur örugglega lesið með mikilli athygli og þekkir auðvitað því að hér er um að ræða, að því er sagt er, hans tillögur, tillögur hans flokks, tillögur til þess að reyna að setja á brú frá Alþb. til Alþfl.
    Virðulegi forseti. Eins og ég hef sagt hefur ekki í þessum umræðum komið fram mjög ítarleg stefnumótun stjórnarandstöðunnar þó að við því hafi verið að búast vegna þess að stjórnarandstæðingar hafa talað hér langt mál. (Gripið fram í.) Það hefur hins vegar komið fram, varaformaður Alþb., að stefna ríkisstjórnarinnar er skýr og undan því hefur ekkert þurft að kvarta. Það er ekki það sem er vandinn í þessari umræðu heldur miklu frekar hitt að uppgjöf stjórnarandstöðunnar og það að neita að horfast í augu við þær staðreyndir sem blasa við hverjum manni er auðvitað það sem hefur verið niðurstaðan í þessum umræðum, algerlega málefnaleg uppgjöf stjórnarandstöðunnar. Þess í stað hef ég dregið fram hér sögulegan fróðleik um það að Alþb. hafi lagt fram ýmsar tillögur sem væri mjög fróðlegt að fá nánari upplýsingar um.