Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Myndun núv. ríkisstjórnar getur vissulega boðað kaflaskil í íslenskum stjórnmálum ef ríkisstjórninni endist aldur og hún situr út þetta kjörtímabil. Það eru hins vegar nú þegar farnar að koma fram efasemdir í opinberri umræðu um það hvort innviðir ríkisstjórnarinnar séu slíkir og stuðningur við hana í landinu sé slíkur að ekki sé víst að hún verði margra ára gömul. En hvað sem líður slíkum spádómum og skoðanakönnunum er alveg ljóst að myndun þessarar stjórnar getur reynst afdrifarík. Hún felur í sér hægri stefnu með aukið frjálsræði markaðsafla og samdrátt í félagslegri þjónustu. Fyrir landsbyggðina eru hættumerkin mörg og auðsæ og það getur verið skammt í skerðingu á efnahagslegu og stjórnarfarslegu sjálfstæði þjóðarinnar.
    Nokkuð hefur verið rætt um myndun ríkisstjórnarinnar og hversu langan aðdraganda stjórnarmyndunin átti sér. Ég hef haldið því fram, og gerði það raunar á síðasta þingi, að þá þegar væru komin skýr teikn um að búið væri að ganga frá föstu bandalagi milli Alþfl. og Sjálfstfl. um myndun ríkisstjórnar að loknum kosningum ef þeir fengju til þess meiri hluta. Sólarmerkin voru auðvitað mörg og auðsæ að þessu leyti. Einna skýrast lágu þau fyrir í sambandi við álmálið svokallaða og það sem laut að ráðum í þýðingarmiklum stjórnum eins og stjórn Landsvirkjunar, sem tengist því máli, og birtist mönnum fyrir þinglok þegar Sjálfstfl. rauf samkomulag sem hann var búinn að gera við Kvennalistann um kosningar í þá þýðingarmiklu stjórn.
    En það var auðvitað mjög margt annað sem lá fyrir, einnig tengt þessu máli. Það voru beinar yfirlýsingar af hálfu núv. varaformanns Sjálfstfl. þess efnis að ef þáv. ríkisstjórn hefði ekki meiri hluta til að ganga frá álsamningum mundi Sjálfstfl. hlaupa undir bagga. Auðvitað var hlustað á þessi mál af þeim sem með völdin fara í Alþfl. Og það voru fleiri ráðin að tjaldabaki sem tengdust þessu bandalagi, þar á meðal ráðning nýs seðlabankastjóra.
Ætli það hafi verið einhver tilviljun að það var gengið frá því milli þessara flokka að í sæti Geirs Hallgrímssonar heitins sem bankastjóri í Seðlabankanum kæmi þingmaður úr Sjálfstfl., Birgir Ísleifur Gunnarsson? Og það var raunar bent á það af þeim sem hér stendur í umræðum á síðasta þingi að tengt þessu máli væri samkomulag um það að þáv. og núv. hæstv. viðskrh. hefði verið að tryggja sér bankastjórastól í Seðlabankanum þegar tímar líða innan fárra ára. Það vill svo til að einmitt nú í dag lesum við það í einu dagblaðanna og sjáum það með nokkuð ótvíræðum hætti staðfest af málsvörum Alþfl. og raunar hæstv. viðskrh. sjálfum að þannig var frá hnútunum gengið. Það var sem sagt ekki aðeins verið að fjalla um ráðherrastóla heldur líka um bankastjórastóla í þessum efnum fyrir utan svo þau málefni sem Alþfl. voru kærust í síðustu ríkisstjórn og hann reyndi að keyra þar fram og sem hann fékk undirtektir við frá Sjálfstfl. án skilyrða eins og undirstrikað hefur verið,

án þess að þar væru nokkrir varnaglar slegnir, bæði í sambandi við byggingu álbræðslu á Keilisnesi og einnig í sambandi við stofnun Evrópsks efnahagssvæðis ef samningar væru á annað borð í boði þar að lútandi.
    Það eru líka sterkar líkur fyrir því, þó að hæstv. forsrh. væri að reyna að bera það af sér hér í ræðu fyrr í þessari umræðu, að hann hafi hnýtt endana í sambandi við þetta bandalag áður en hann tók ákvarðanir um það að bjóða sig fram til forustu í Sjálfstfl. gegn þáv. formanni Þorsteini Pálssyni. Því að auðvitað þurfti hæstv. núv. forsrh. að hafa tryggingu fyrir því eins mikla og hann gæti til þess að skila flokki sínum inn í ríkisstjórnarsamstarf að kosningum loknum. Þessi ráð eru því ráðin að öllum líkindum fyrri hluta febrúarmánaðar og raunar liggja þræðirnir lengra til baka.
    Það verður hins vegar ekki talið heiðarlegt af Alþfl. að reyna að breiða yfir þessi áform og yfir þetta samkomulag sem ráðið var að tjaldabaki fyrir kosningar og villa á sér heimildir með þeim hætti sem hann reyndi að gera, að hann hugsanlega væri til viðtals um áframhaldandi stjórnarmyndun þeirra flokka sem þá mynduðu ríkisstjórn og safna til sín fylgi með málflutningi frambjóðenda víða um land sem gekk allur í þá átt að það væri það samstarf sem Alþfl. keppti að að kosningum loknum. En nú er Alþfl. kominn í þetta samstarf og hæstv. forsrh. minnti sérstaklega á í stefnuræðu sinni viðreisnarárin ellefu eða tólf á árunum 1959 -- 1971 með þessum orðum, með leyfi forseta:
    ,,Ég tel að stjórnarmyndunin sé rökrétt niðurstaða af úrslitum nýgenginna kosninga. Sjálfstfl. og Alþfl. fengu sameiginlega ríflegan meiri hluta á Alþingi. Afar góð reynsla var af samstarfi þessara tveggja flokka á árunum 1959 -- 1971.``
    Þetta og fleira sagði hæstv. forsrh. þegar hann var að rifja upp endurminningarnar af þessu stjórnarsamstarfi.
    Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að grípa hér niður í gamla umræðu, í ræðu sem haldin var síðla á þessu tímabili af manni sem eitt sinn var í Alþb., gekk síðan í Samtök frjálslyndra og vinstri manna og að lokum í Alþfl., forustumaður í íslenskri verkalýðshreyfingu, Björn Jónsson. Hann sagði við almenna stjórnmálaumræðu 1969 þegar hann leit yfir ferilinn, svo langt sem þá var komið sögu:
    ,,Eftir eigin uppgjöri á kjaraþróun vinnustéttanna á viðreisnarárunum, frá 1960 og til þessa dags, standa leikar nú svo að almennt neysluvöruverðlag hefur rétt um það bil þrefaldast, þ.e. verðbólguvöxtur orðið nálægt 20% á ári að meðaltali, sem mun vera nálegt heimsmeti ef frá eru skilin ríki Suður - Ameríku. Á hinn bóginn hefur kaup verkamanna hækkað verulega minna á sama tímabili og hvergi nærri haldið í við óðaverðbólguna, einkanlega þegar þess er gætt að þær neysluvörur sem hinir lægst launuðu kaupa og neyta hlutfallslega meira en aðrir hafa jafnvel áttfaldast meðan meðalhækkanir hafa þó haldist innan þreföldunarmarkanna enn sem komið er. . . . Síðustu tvö árin hefur steininn tekið úr í þessum efnum er kjör verkafólks hafa fyrir beinan tilverknað stjórnvalda verið rýrð um 20 -- 25% að mati verkalýðssamtakanna.``
    Og í sömu umræðu segir hv. þm. eftir að hafa vikið orðum að fyrrv. samstarfsaðilum í Alþb.:
    ,,Á hinu leitinu stendur svo Alþfl., sem hefur fyrirgert öllum siðferðilegum rétti til að bera sér í munn orðið ,,jafnaðarstefna`` eftir 11 ára þjónustu við Sjálfstfl., þar sem engu stefnumáli jafnaðarmannaflokks hefur verið fram komið.``
    Þetta var dómur Björns Jónssonar yfir þessu stjórnarsamstarfi sem hæstv. forsrh. minntist svo ljúflega í stefnuræðu sinni. ( ÓRG: Er ekki rétt að kalla utanrrh. í salinn og lofa honum að heyra þetta?) Jú, það væri full ástæða til þess en kannski rifja ég eitthvað upp úr munni föður hans síðar í umræðunni og þá er rétt að hæstv. utanrrh. verði viðstaddur.
    Í þessari stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar, sem er stuttorð og hefur verið sérstaklega lofuð af núv. formanni þingflokks Alþfl. fyrir það að vera stuttorð, gagnorð og áræðin og kölluð bjarghellan, er m.a. boðaður niðurskurður ríkisútgjalda og að þjónustustofnanir taki í auknum mæli gjöld fyrir veitta þjónustu. Það á að semja um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði og ríkisstjórnin hefur þegar veitt utanrrh. fyrirvaralaust umboð til þess að ganga frá slíkum samningi. Það á að kanna hvernig stuðla megi að auknum stöðugleika í efnahagslífinu með tengingu íslensku krónunnar við evrópska myntkerfið og það á að ljúka samningum um álbræðslu á Keilisnesi sem hefur í för með sér um 100 milljarða kr. fjárfestingu ef í verður ráðist. (Gripið fram í.) 100 milljarða kr. fjárfestingu vegna þeirrar álbræðslu, hv. þm. Egill Jónsson, með virkjunum talið vissulega, og allt lýtur það að sama marki. Málefnum sjávarútvegsins er hins vegar vísað í nefnd og óljóst um það fullkomlega hvað stjórnarflokkarnir geta orðið sammála að lokum.
    Í stefnuyfirlýsingunni er auk þess boðað: . . . ,,að Íslendingar verði á fordómalausan hátt þátttakendur í hinni miklu umsköpun í átt til frelsis sem nú setur svip sinn á þróun stjórnmála í Evrópu.`` Þessi véfréttarstíll ætti að minna menn á að hvorugur stjórnarflokkanna hefur útilokað aðild að Evrópubandalaginu.
    Þetta eru siglingaljósin, sum nokkuð óskýr, sem við blasa af þessari ríkisstjórn sem núv. stjórnarflokkar bundu fastmælum mörgum vikum fyrir kosningar að efna til ef þeir fengju til þess fylgi.
    Ég ætla, virðulegi forseti, að víkja hér nánar að örfáum atriðum þessara mála og óska eftir því að auk hæstv. viðskrh., sem ég ætla að ræða ögn við hér varðandi málefni Evrópsks efnahagssvæðis, og raunar hæstv. utanrrh., sem ég óska eindregið eftir að verði hér viðstaddur, verði hæstv. umhvrh. einnig hér fljótlega í þingsal vegna fyrirspurna sem ég ætla að bera fram við hann og tengjast álbræðslu á Keilisnesi.
    Þátttaka Íslands í Evrópsku efnahagssvæði er einn af hornsteinum þessarar ríkisstjórnar. Eins og fram hefur komið, þá liggur fyrir um það fyrirvaralaus stuðningur Sjálfstfl. við kröfu Alþfl. um það og keppikefli að slíkur samningur verði gerður. Nú er það svo

að það var hér til sérstakrar umræðu þegar hæstv. utanrrh. flutti skýrslu um Evrópskt efnahagssvæði, hvort með því að stefna að slíkum samningi væri verið að skerða völd íslenskra stofnana, Alþingis Íslendinga, íslensks dómsvalds og fullveldi okkar á fleiri sviðum. Ég inni forseta eftir því hvort ekki sé von á hæstv. utanrrh. í þingsal. ( Forseti: Það er verið að finna hann.)
    Hæstv. utanrrh. hefur hér ítrekað borið til baka staðhæfingar okkar stjórnarandstæðinga um það að með gerð samnings um Evrópskt efnahagssvæði sé verið að afsala völdum, m.a. gengið á vald Alþingis Íslendinga, og völdum í sambandi við dómsmál og framkvæmdarvald. Ég vil í þessu sambandi, virðulegur forseti, rifja það upp að þessi mál hafa verið víðar til umræðu en hér á Íslandi. Það mat hefur komið fram í öðrum EFTA - ríkjum, m.a. hjá norska forsætisráðherranum, að hér sé um að ræða yfirþjóðlegt vald, yfirþjóðlegar ákvarðanir í sambandi við Evrópskt efnahagssvæði þannig að ekki er deilt um það í því landi. Á ráðstefnu þingmanna EFTA - ríkjanna --- er hæstv. utanrrh. ekki í þinghúsi? ( Forseti: Hann er í þinghúsinu. Það er verið að finna hann.) Ég held, virðulegur forseti, að ég hljóti að gera aðeins hlé á ræðu minni á meðan hæstv. utanrrh. er að skila sér í þingsal því að ég vil helst ekki þurfa að endurtaka margt af því sem ég er hér að segja.
    Virðulegur forseti. Það er dálítið erfitt að vera hér í umræðum um stefnuræðu forsrh. þegar þeir hæstv. ráðherrar sem málið er skylt gefa sér ekki tíma til þess að vera í þingsal og þar á meðal formaður Alþfl. en ég vænti þess fastlega að hann fari að sýna sig. ( Forseti: Hæstv. utanrrh. mun vera á leiðinni inn í salinn.)
    Þá er hæstv. utanrrh. kominn hér í kallfæri og ég ætla þá að halda áfram ræðu minni. Ég nefndi það, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra hefði haldið því fram og undirstrikað það sérstaklega að með samningi um Evrópskt efnahagssvæði væri ekki verið að ganga á völd Alþingis og skerða vald Alþingis. Ég vil vísa til þess að á vettvangi þingmannasamtaka EFTA hafa þessi mál verið til umræðu. Þar liggja fyrir um það tillögur, eins og þeir mega gerst þekkja sem sóttu fund þingmannasamtaka EFTA í síðustu viku, tillögur um það að stofnuð verði sérstök samkunda þingmanna á hinu Evrópska efnahagssvæði, bæði frá Evrópubandalaginu en einnig frá EFTA - ríkjunum. Í undirbúningi þessa fundar var haldinn fundur þann 18. apríl sl. þar sem formaður þingmannasamtaka EFTA um þessar mundir, Austurríkismaðurinn Herbert Schmidtmeier, og hæstv. utanrrh. vill væntanlega telja hann flokksbróður sinn, hann er sósíaldemókrati austurrískur, þar hélt herra Schmidtmeier inngangserindi og vék sérstaklega að í því erindi hver nauðsyn væri á því að stofna sérstök þingmannasamtök frá þingum landa í hinu Evrópska efnahagssvæði vegna þess að ein af afleiðingum þess að til þess svæðis sé stofnað sé óhjákvæmilega, de facto loss, raunveruleg skerðing áhrifa á þjóðþingum EFTA - ríkjanna. Og segir þar að hann vildi sjá slíka samkomu þingmanna til þess

að fylgjast með og vinna gegn því tapi á völdum, eins og stendur orðrétt í hans ræðu, þjóðþinganna yfir í raunverulega alþjóðlegt löggjafarferli.
    Þetta eru orð formanns þingmannasamtaka EFTA í opinberu inngangserindi sem hann flytur 18. apríl sl. Svo kemur hæstv. utanrrh. hér trekk í trekk í ræðustól, gerði það þegar hann ræddi hér um skýrslu sem hann flutti um Evrópska efnahagssvæðið fyrir röskri viku, og fullyrðir það og ítrekar að ekki sé um að ræða neitt valdaafsal Alþingis Íslendinga vegna stofnunar Evrópska efnahagssvæðisins. Ég held að hæstv. utanrrh. ætti að tjá sig hér við þessa umræðu og hvernig hann lítur á ummæli þingbróður síns austurrísks og flokksbróður að máli sósíaldemókrata. Og ég held að það sé hollt fyrir hv. þm. á Alþingi Íslendinga að hugleiða þessi mál áður en lengra er haldið í þessu stefnumiði ríkisstjórnarinnar að stofna þetta Evrópska efnahagssvæði.
    Ég hef hér fyrir framan mig drögin að þessari samkomu sem hugmyndin er að efna til til þess að vinna gegn þessu valdaafsali til raunverulega alþjóðlegs löggjafarferlis eins og þarna er talað um. Ég ætla ekki að fara að rekja þau drög frekar, en það er auðvitað ekki að ástæðulausu sem þingmenn í EFTA - ríkjunum eru áhyggjufullir yfir þessu efni og telja að það þurfi að koma eitthvað í staðinn. Og það eru þessi þingmannasamtök sem hv. þm. Jón Helgason og Vilhjálmur Egilsson, ég hygg að hann hafi verið í ferðum þessu tengdum, geta greint hér frá frekar ef þeir sjá ástæðu til við umræðuna.
    Ég vil í þessu tilviki einnig nefna grein sem birtist í opnu Morgunblaðsins 24. maí sl., skrifuð af hæstaréttarlögmanni Jóhanni Þórðarsyni þar sem hann á skilmerkilegan hátt reifar það og rekur hvað hér er á ferðinni í sambandi við valdaafsal. Það er freistandi, virðulegur forseti, vegna þess að hann beinir þar orðum sínum til nýrra þingmanna á Alþingi Íslendinga, að vitna til orða hans þar sem hann er að greina frá því hvaða höft Alþingi er sett í og þingmenn hér og hvaða þröskulda nýir þingmenn á Alþingi rekast á eftir að við værum orðnir aðilar að Evrópsku efnahagssvæði ef þeim dytti nú í hug að fara að flytja lagafrumvörp á sviði fjórfrelsisins, þessum 60% af lögum og samþykktum Evrópubandalagsins sem meiningin er að gera að íslenskum lögum og fella inn í íslenska lagasafnið ef við verðum
aðilar að þessu svæði. Ég skora á alla hv. þm. og ekki síst þá sem nýir eru á Alþingi Íslendinga að setja sig inn í það hvað hér er að gerast í raun og veru ef við ætlum að ganga inn í þennan samning sem þarna liggur í aðalatriðum frágenginn og nánast alveg frágenginn að því er varðar öll ákvæði sem snerta innri markaðinn. 98% hefur hæstv. utanrrh. gjarnan nefnt í þessu sambandi. Það er að magni til sjálfsagt ekki fjarri lagi þó ég leggi ekki mat á efnisinnihaldið eða þýðinguna að því er Ísland varðar.
    Ég vil, virðulegur forseti, einnig nefna það að mér finnst það ekki aðeins vera núv. stjórnarflokkar sem gá ekki alltaf að sér í þessum efnum. Mér hefur fundist að Framsfl., sem gekk ansi langt í því í tíð síðustu ríkisstjórnar að bakka hæstv. utanrrh. upp í þessum efnum og hæstv. viðskrh., ráðherra Alþfl., að þeir líti nú um öxl og endurskoði þá stefnu sem sumir þeirra a.m.k. vildu halda á lofti og tækju undir með þeim mörgu stuðningsmönnum og forustumönnum Framsfl., því ég vil telja menn eins og ritstjóra Tímans í hópi forustumanna flokksins, sem hafa mælt mjög gild og gagnmerk varnaðarorð í þessum efnum. Það nægir að vísa til leiðara Tímans 22. maí sl., undir fyrirsögninni ,,Staða Íslands`` þar sem ritstjóri Tímans rekur að mínu mati með skilmerkilegum hætti hvað hér er á ferðinni og hvaða hættur blasa við sjálfstæði Íslands ef við bindumst þessum samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
    Ég ætla ekki að vitna í þennan leiðara í löngu máli en leyfi mér þó að grípa niður í honum þar sem segir: ,,Bjargálna fólk í ýmiss konar smárekstri mun lenda í samkeppni við útlenda menn enda munu útlendingar sækja á íslenskan vinnumarkað langt umfram það sem eðlilegt er. Hvernig á 250 þús. manna þjóð að standast forgjafarlaust samkeppni við 380 milljónir Evrópubúa sem sækja að óvörðu efnahagskerfi smáþjóðar í nafni fjórfrelsisins? Hitt má líklegt telja að yfirþjóðlegu völdin verði smám saman víkkuð út, aukin og efld stig af stigi, þangað til mörkin milli Evrópubandalagsins og Evrópska efnahagssvæðisins hafa verið máð út.``
    Það er mál manna í vaxandi mæli, virðulegur forseti, ekki síst í EFTA-ríkjunum utan Íslands, að í rauninni verði Evrópskt efnahagssvæði ekkert annað en biðsalur með stuttri dvöl áður en gengið verði alla leið inn í Evrópubandalagið. Í upphafi skal endinn skoða og það er því fyllsta ástæða fyrir okkur hér á Alþingi að staldra við.
    Einn þátturinn að nálgun að Evrópubandalaginu eru ákvæðin í stjórnarsáttmálanum þar sem segir, með leyfi forseta, að ásetningurinn sé með því að kanna vandlega hvernig stuðla megi að auknum stöðugleika í efnahagslífinu með tengingu íslensku krónunnar við evrópska myntkerfið.
    Hæstv. viðskrh. gerði þetta að umtalsefni í ræðu sinni um daginn og sagði í þessu sambandi: ,,Við þurfum að finna leiðir til þess að gera stöðugleika í gengi, þennan aga sem það veitir okkar efnahagslega umhverfi, trúverðugan í augum þeirra sem semja um kaup og kjör og í augum þeirra sem gera ráðstafanir fram í tímann í sínum viðskiptum við önnur lönd og í sínum fjárráðstöfunum.``
    Þetta sagði hæstv. viðskrh. þegar hann var að skýra áhuga sinn á því að þessi tenging yrði könnuð í fyllstu alvöru. En þarna þurfa menn sannarlega að átta sig á hvað fylgir. Hvað fylgir því ef við förum að binda íslensku krónuna við evrópska myntkerfið? Ja, þá eru menn búnir að afsala sér enn frekar stjórntækjum í þýðingarmiklum þáttum íslensks efnahagslífs. Þá eru menn í rauninni að festa hér endanlega hávaxtastefnu í sessi. Því þegar búið er að opna fyrir fjárstreymi inn og út úr landinu, frjálst fjárstreymi, sem hæstv. viðskrh. gerði sér lítið fyrir og gerði raunar með reglugerðarsetningu á sl. sumri, til þess svona

að taka forskot á sælu fjórfrelsisins í þessum efnum, þegar það er búið, ja þá er ekki lengur möguleiki á að halda hér fjármagni í landinu séu ávöxtunarmöguleikar ekki taldir fýsilegir eða ákjósanlegir í atvinnurekstri af þeim sem vilja ávaxta sitt pund, aðrir en þeir að egna fyrir með háum vöxtum. Með háum vöxtum, það er það eina sem eftir er. Og hvað þýðir það fyrir atvinnurekstur og nýsköpun í atvinnulífi? Ætli hávaxtastefna sé hvetjandi fyrir fjárfestingar og nýsköpun í atvinnulífi? Ætli hún sé líkleg til þess að tryggja hér atvinnu í landinu og þróun atvinnulífs í landinu? Ætli það sé ekki hætt við að það fylgi henni atvinnuleysi, svipað og er reyndin innan Evrópubandalagsins, þrefalt eða ferfalt meiri en er hjá EFTA-ríkjunum, m.a. vegna þess hvernig þeir standa að stýringu efnahagsmála á sínu svæði.
    Ég ætla ekki að gera ríkisstjórninni það að ganga blinda inn í hið Evrópska efnahagssvæði en trúin er augljós á að þetta sé framtíðin sem þarna eigi að stefna í að tengja krónuna þessu evrópska myntkerfi, reyra hana fasta og afsala sér þannig einu af þýðingarmestu stjórntækjunum í okkar efnahagslífi.
    Hæstv. viðskrh. nefndi það hér, og ég vil aðeins staldra við það stutt, í sambandi við sjávarútvegsmálin að ríkisstjórnin ætlaði að framfylgja og festa í sessi og gera að veruleika að fiskstofnarnir á Íslandsmiðum væru sameign þjóðarinnar. Það er vissulega gott og gilt markmið og hæstv. viðskrh. var eins og alþýðuflokksmenn hafa stundað nú um hríð að merkja þetta stefnumið og þessa áherslu sérstaklega Alþfl.
    Ég vil leyfa mér hér við þessa umræðu að rifja það upp, virðulegur forseti, að þó Alþfl. hafi stutt þetta sjónarmið þá er hann ekki frumkvöðull þessara mála hér í þingsölum. Þegar fyrst var flutt frv. um stjórn fiskveiða í íslenskri lögsögu haustið 1983, þ.e. stjórn fiskveiða með núverandi kvótakerfi, þá var þetta mál rætt og ég vil leyfa mér að rifja upp örfá orð sem ég mælti við þá umræðu undir lok ræðu þann 14. des. 1983, þar sem segir:
    ,,Vegna þess að hér er verið að ræða um að breyta mjög verulega til, að brjóta í blað er óhætt að segja í sambandi við stjórnun fiskveiða í landinu, er eðlilegt að menn spyrji: Er ekki réttmætt að taka til athugunar að kveða á um í lögum hver sé eignar- og umráðaaðili hinna lífrænu auðlinda hafsins? Ég veit að slík löggjöf er vandaverk því að það er tiltölulega auðvelt að slá því föstu, sem mörgum kann að þykja sjálfsagt og þurfi ekki að skrá í lög, að auðlind hafsins innan íslenskrar fiskveiðilögsögu sé almannaeign þar sem íslenska ríkið fari með eignarréttinn. En menn eru að ræða í tengslum við breytta fiskveiðistefnu og uppi eru hugmyndir um sölu veiðileyfa og margt af því tagi, þó að hæstv. ráðherra sé ekki að gera tillögu um það hér og hafi jafnvel lýst andstöðu sinni við það. En ef til einhvers slíks kemur, þá er nú kannski vissara að menn hafi það nokkuð á hreinu hver sé eignar- og umráðaaðili yfir þessari auðlind, fiskstofnunum við landið.``
    Í framhaldi af þessu minnti ég á frv. sem ég hafði þá flutt á þinginu um eignarrétt íslenska ríkisins að

auðlindum hafsbotnsins, frv. sem var lögfest á síðasta þingi eftir að hafa verið flutt hér oft í þingsölum.
    En þingmenn Alþb. fluttu, vegna þessa frv. 1983, brtt. við frv. Flm. voru Steingrímur J. Sigfússon, Geir Gunnarsson og sá sem hér talar, og lagt var til að það kæmi ný grein, 1. gr., inn í þetta frv.: ,,Fiskveiðilandhelgi Íslands og auðlindirnar innan hennar eru þjóðareign, sameign allra Íslendinga.``
    Þessi tillaga fékk stuðning þáv. stjórnarandstöðu á þingi með þó örfáum undantekningum. Auk Alþb. studdu þetta þingmenn Alþfl. og þingmenn Kvennalista og einhverjir þingmenn Bandalags jafnaðarmanna sem þá voru á þingi. En tillagan var felld og það er ekki fyrr en á þinginu síðla árs 1987 sem þetta er lögfest og vissulega ætla ég ekki að taka af Alþfl. að hafa átt þátt í því að þetta ákvæði kom inn í löggjöfina þá. En hugmyndin og áherslan lá fyrir löngu fyrr, strax og tillögur komu hér fram frá stjórnvöldum um að taka upp núverandi stjórnkerfi á fiskveiðum.
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, nefna hér þannig að því sem rétt er í þessum efnum sé til haga haldið og er þó sannarlega ástæða til einnig að halda því til haga sem sameiginlegt telst í málflutningi og sjónarmiðum Alþfl. og Alþb., því að því miður hefur þeim atriðum farið heldur betur fækkandi í seinni tíð sem þessir flokkar geta tekið sameiginlega undir og lagst sameiginlega á árar. Því miður.
    Þá vil ég, virðulegur forseti, aðeins víkja hér að öðru máli sem oft er kallað stórt eða mikið í sniðum af flutningsmönnum, þ.e. álbræðslumálið. Ég ætlaði að fá eyra hæstv. umhvrh. vegna þess máls sérstaklega og bið virðulegan forseta að gera honum aðvart en hæstv. ráðherra hefur setið hér undir þessum umræðum, þannig að ég er síst að finna að því þó að hann hafi vikið sér frá. --- Ég vænti þess að hæstv. ráðherra komi senn í þingsal. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir. Hann gengur hér í salninn.)
    Við umræðuna hér, virðulegur forseti, 22. maí tók hæstv. umhvrh. þátt í henni og það var vegna máls hv. 15. þm. Reykv. í sambandi við mengunarvarnir frá fyrirhugaðri álbræðslu á Keilisnesi. Hæstv. umhvrh. lét þar ágæt orð falla, þar sem hann tók undir málflutning hv. þm. Kristínar Einarsdóttur, sagði orðrétt: ,,undir það tek ég heils hugar með henni``. ,,Hún lýsti áhyggjum sínum vegna þess [sagði ráðherrann] að hún sagði að sér sýndist að ekki ætti að krefjast fullkominna mengunarvarna og lagði áherslu á að við ættum í þeim efnum að gera miklar kröfur. Undir það tek ég heils hugar með henni en fullvissa hana jafnframt um að gerðar verða mjög strangar kröfur um fullkomnar mengunarvarnir í þessu iðjuveri og legg áherslu á að ef þetta álver rís á þessum stað verður það búið bestu mengunarvörnum sem í dag eru tíðkanlegar í slíkum fyrirtækjum. Á því leikur enginn vafi. Um það verða gerðar kröfur.``
    Allt eru þetta mjög ánægjuleg orð og yfirlýsingar frá hæstv. umhvrh. og ég vil lýsa ánægju minni yfir því að hæstv. ráðherra hefur í orðum sínum sem ráðherra eftir að hann kom inn í umhvrn. kveðið mjög fast að orði um þau miklu verkefni sem þar sé að

sinna. Ég er sannfærður um að allir hv. þm. --- og það er vonandi þorri ef ekki allir á Alþingi Íslendinga sem vilja sjá aðgerðir til bóta og til að byggja fyrir spillingu og spjöll á íslensku umhverfi. Það skiptir því afskaplega miklu máli að menn standi þar vel á verði, ekki síst þegar stórmál af þessu tagi eru á döfinni.
    Nú er það svo að í síðustu viku gengu nokkur orð í fjölmiðlum á milli fyrrv. ráðherra og núv. um þessi mál, sem snúa að undirbúningi álbræðslu á Keilisnesi að því er varðar umhverfismálin sérstaklega. Það væri kannski ekki úr vegi, virðulegur forseti, að hv. 7. þm. Reykn. Steingrími Hermannssyni yrði gert viðvart vegna þess að ég ætla að leyfa mér aðeins að leiða hann til vitnis hér með tilvitnun í orð hans, ef honum yrði greint frá því að hér sé vikið að máli sem væri ágætt ef hann vildi á hlýða. En það var í síðustu viku, 23. maí, að rætt var við hv. þm., fyrrv. forsrh., um þessi efni vegna ræðu sem hann flutti í kjördæmi sínu og vék m.a. að undirbúningi álbræðslu. Er hv. þm. í húsinu? ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til að gera hv. 7. þm. Reykn. viðvart.) Já, ég þakka. Þar segir fjölmiðillinn, sem er Ríkisútvarpið, í hádegisfréttum: ,,En harðast gagnrýndi Steingrímur Jón Sigurðsson fyrir það sem hann kallaði alvarleg mistök í álmálinu.`` Síðan segir þingmaðurinn orðrétt: ,,Ég er hræddari við mengunarmálin. Þar urðu iðnrh. á veruleg mistök sem ég satt að segja forðaðist nú að ræða í kosningabaráttunni. Hann skrifaði undir minnisblað eða hvað á að kalla það 4. okt., sem hann hefði aldrei átt að gera. Hann telur að með því móti hafi hann fest samningsaðilana mjög. Staðreyndin er sú að þeir hafa vísað í þetta allan tímann og sagt að undir þetta skrifaði ráðherrann og því verður ekki breytt, a.m.k. alltaf þegar þeim hefur hentað.``
    Og fréttamaður segir: ,,Steingrímur Hermannsson sagði að á minnisblaðinu væri tekið fram að Íslendingum væri eingöngu heimilt að krefjast strangari mengunarvarna ef slíkt væri samþykkt á alþjóðavettvangi og sýnt væri fram á að tjón yrði að öðrum kosti á landi á Keilisnesi. Þetta litla ,,og`` sé stórhættulegt.`` Og þingmaðurinn segir áfram: ,,En ef samþykktur yrði einhver staðall yfir allan heiminn, meiri kröfur um hreinsun á brennisteini eða flúor, þá er sem sagt okkur ekki heimilt að krefjast þess nema sýnt sé fram á að það valdi tjóni á Keilisnesi. Þetta náttúrlega gengur ekki og satt að segja var Júlíus Sólnes að berjast við þetta eina ,,og`` í síðustu tvo mánuðina fyrir kosningar. Og honum var alltaf sagt: ,,Þetta hefur iðnrh. skrifað undir.`` En þetta er atriði sem þeir hafa alls ekki fallist á að breyta til þessa, svo ég nefni eitt lítið atriði. Það voru líka mistök hjá iðnrh. að fara út til Amsterdam í ágúst í fyrra, þegar menn Landsvirkjunar sátu þar að samningum um raforkuverðið, og handsala samkomulagið sem hann hafði ekki nokkurn rétt til að gera. Það er Landsvirkjun sem semur um raforkuverðið, að vísu þarf iðnrh. síðan að samþykkja það. Þessir erlendu aðilar, þegar beðið var um hækkun eða styttingu á afsláttartímanum, sögðu: Ja, ráðherrann er búinn að samþykkja þetta. Þannig hafa því

miður orðið mistök í þessu máli og mjög alvarleg mistök.``
    Í öðrum ummælum í fjölmiðlum lætur fyrrv. forsrh. að því liggja að þessi mistök hæstv. iðnrh. gætu kostað álverið. En sem kunnugt er hefur hv. þm. Steingrímur Hermannsson verið stuðningsmaður þess um hríð, ef ég hef lesið rétt í hans mál, að þessi verksmiðja yrði byggð. Ég segi nú því miður, því að ástæða væri til að . . . ( Forseti: Forseti vill upplýsa hv. 4. þm. Austurl. um að hv. 7. þm. Reykn. mun vera nýfarinn úr húsinu, en hann mun væntanlega koma hingað innan tíðar vegna þess að hann er sjálfur á mælendaskrá.) Já, við skulum vænta þess. Hann getur þá e.t.v., ef ástæða er til, blandað sér í þessa umræðu og tekur þátt í umræðunni hér síðar. En ég taldi rétt, virðulegur forseti, að víkja að þessu máli hér og leiða til vitnis hv. þm.
    Nú er það svo að um þessi efni fjallaði ég allítarlega í ræðu sem haldin var hér í þinginu 13. mars sl. og vitnaði þá til, vegna þess að það bæði lá fyrir í þeim texta sem þar var til umræðu og einnig hafði þetta mál fengið rúm á síðum Dagblaðsins 8. febr. sl., einmitt þetta ,,og`` og ,,eða``. Og það leyndi sér heldur ekki í þeim skýrslum sem hæstv. ráðherra lagði fyrir Alþingi sl. haust að lokinni undirskrift, 4. okt. sl. og aftur í þingskjali, skýrslunni sem ráðherrann lagði hér fyrir í marsmánuði og var hér til umræðu. Ég innti hæstv. þáv. umhvrh. alveg sérstaklega eftir því við þessa umræðu
eftir að hafa rakið þessa 7. gr. í samkomulagsdrögum um umhverfismál: Hvernig verður aðstaða íslenskra stjórnvalda að því er þetta varðar þegar allt er saman lagt sem hér er upp talið, þ.e. allir þessir þættir sem tengdir eru saman og sem sagt samþætt skilyrði fyrir því að taka upp samninginn varðandi umhverfisvarnir í álbræðslunni á 35 ára samningstíma. Það er nú ekkert minna sem hér er undir. Spurningin um það hvort íslensk stjórnvöld að gerðum samningi, sem efnislega væri á þessa leið eins og þarna lágu fyrir drög um, hafi rétt til þess að taka þennan samning upp á samningstímabilinu. Hálfur mannsaldur sem um er að ræða, 35 ár, eins og að er stefnt varðandi þennan samning.
    Þetta atriði bið ég hæstv. umhvrh. að skýra út hér fyrir okkur við þessa umræðu alveg sérstaklega í ljósi þess að á morgun munu standa yfir samningaviðræður varðandi umhverfismálin sérstaklega, þar sem væntanlega verður tekist á um þessi efni og fleira sem varðar verndun íslensks umhverfis gagnvart þessu stóra fyrirtæki ef byggt verður.
    Og það er fleira sem ég vildi nefna í þessu sambandi. Það er til að mynda spurningin um mörk varðandi brennistein sem hafa verið til umræðu hér oft fyrr á Alþingi. Spurningin um vothreinsun eða ekki vothreinsun. En fyrrv. umhvrh. greindi okkur frá því í marsmánuði við umræðuna um skýrslu hæstv. iðnrh. að hann hefði ekki allt of mikla trú á vothreinsun. Það sagði núv. hæstv. umhvrh. efnislega, hygg ég, við umræðuna hér að hann væri ekki sannfærður um að vothreinsun væri það sem skilaði bestum árangri.

Í staðinn ætlaði Júlíus Sólnes að gera kröfur um 2% mörk á brennisteini í rafskautunum sjálfum. Og ég vil spyrja hæstv. umhvrh.: Er afdráttarlaust kveðið á um það í þeim drögum sem rædd eru að viðmiðunarmörk verði 2% að því er varðar innihald brennisteins í rafskautum í bræðslunni?
    Það er auðvitað fjölmargt fleira í sambandi við þetta mál sem ástæða væri til að ræða, þar á meðal stöðuna varðandi raforkusamning, þar sem hæstv. viðskrh. og samningamenn hans telja að langt sé komið á leið og nánast búið að ganga frá meginatriðum að því leyti. Ég ætla ekki að fara að taka tíma hér til þess að ræða þau efni sérstaklega, en ég vil spyrja hæstv. viðskrh.: Ætlar hann ekki að gefa því Alþingi sem nú situr skýrslu um þessi efni, hver staðan raunverulega er varðandi álbræðslusamningana? Því ég tel að hæstv. ríkisstjórn skuldi Alþingi upplýsingar um það þýðingarmikla mál og þinginu eigi ekki að fresta áður en málið hefur verið rætt og staða þess upplýst af hálfu hæstv. ráðherra sem þar bera mesta ábyrgð. Ég vænti þess að hæstv. viðskrh. verði við því þannig að hér geti orðið ítarleg umræða á þessu þingi um þetta mál áður en sumarhlé verður tekið og þinginu frestað eins og áformað mun vera. Ýmislegt hefur komið fram sem ástæða er til að ræða, nýjar upplýsingar í fjölmiðlum, sem ég ætla ekki að fara að rekja hér sérstaklega, þar á meðal hindranir í vegi þess að Íslendingar eigi þann hlut í sambandi við byggingu þessa fyrirtækis sem menn höfðu talið að yrði og fjölmargt fleira.
    Hæstv. iðnrh., sem einnig er viðskrh., orðaði stöðuna þannig 22. maí sl.: ,,Ég held að málið sé óðum að þéttast í einn punkt`` --- eins og hann orðaði það. Ég held að það sé rétt að hæstv. ráðherra kynni Alþingi stöðuna áður en þessi punktur er settur undir og aftan við þá samninga sem hæstv. ráðherra er að vinna að. Ég trúi ekki öðru en hæstv. forsrh. stuðli frekar að því en hitt að þingið verði upplýst um þessi efni, ekki síst af því að hæstv. forsrh. hefur á fyrri stigum lýst þungum áhyggjum vegna þessa samnings og upplýsti þjóðina um það í nóvember sl. að þarna stefndi í mikla tvísýnu og ljóst væri að ekkert væri nema tap upp úr þeim viðskiptum að hafa sem þarna væru ráðgerð næstu 15 -- 20 árin, svo ég vitni efnislega til þess sem hæstv. núv. forsrh., stjórnarmaður í Landsvirkjun, þá greindi frá í fjölmiðlum.
    Virðulegi forseti. Það eru mörg efnin sem ástæða væri til að ræða af tilefni þessarar stefnuyfirlýsingar. Auðvitað vonum við stjórnarandstæðingar að þessi ríkisstjórn haldi ekki áfram eftir þeim siglingaljósum sem hún hefur dregið upp, en það er út af fyrir sig ekki réttmætt að ganga út frá öðru en að hún fylgi því sem formaður þingflokks Alþfl. kallar áræðna yfirlýsingu og þá bjarghellu sem þjóðin þurfi á að halda. Þetta stuttorða kver sem heitir Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er samkvæmt orðum formanns þingflokks Alþfl. mikið að innihaldi því þrátt fyrir sparnað í orðum er stefnuyfirlýsing Viðeyjarstjórnarinnar sérstök fyrir hversu vel og ítarlega brýnustu verkefnin eru skilgreind, eins og hann orðaði það í leiðara Alþýðublaðsins 14. maí sl. Hann nefnir líka Lilju í því sambandi sem jafnaðarmenn vildu helst orta, eins og hann orðar það, og telur að þarna sé margt komið sem Alþfl. hefur lengi barist fyrir. Það á kannski ekki við um hv. þm. að hann hafi lengið verið baráttumaður þeirra stefnumiða en nú er hann kominn inn á þessa nýju bjarghellu sem orðin er til á grundvelli hreinskilinna viðræðna yfir borði Skúla fógeta í Viðey, eins og þingmaðurinn orðaði það, þar sem formennirnir gerðu flokkum sínum tillögu að stuttri en kjarnyrtri starfsáætlun næstu fjögurra ára, og brýnir lið sitt allt að sýna trúnað þeirri starfsáætlun sem félagarnir samþykktu með lýðræðislegum hætti tveir og einir yfir borðinu í Viðey.
    En það er mál þeirra stjórnarsinna sjálfra hvernig þeir túlka þessa stefnuyfirlýsingu sem einhverjir kynnu að kalla hrollvekju eftir að hafa skoðað hana. Það eru margir sem eyddu atkvæðum sínum á Alþfl. í kosningunum 20. apríl sl. sem áreiðanlega hafa fengið eftirþanka. En spurningin er auðvitað sú: Hversu lengi heldur þetta samstarf? Hversu lengi lætur Alþfl. leiða sig í þessu samstarfi?
    Virðulegur forseti. Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. sé ekki víðs fjarri því ég ætla að vitna hér til orða föður hans, eins ég lofaði fyrr við umræðuna, sem hann mælti hér síðla á viðreisnarskeiðinu. --- Er hæstv. utanrrh. hér nálægt? Eins og menn muna stóð þetta samstarf í 11 eða 12 ár samfleytt en skilaði ekki mikilli uppskeru, ekki fyrir launafólk í landinu, ef trúa má þeim orðum sem ég vitnaði til frá einum af forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar á þeim árum, samkvæmt orðum Björns Jónssonar. Hannibal Valdimarsson þingmaður mælti svo í almennum stjórnmálaumræðum þann 28. apríl 1969, með leyfi forseta:
    ,,En hvenær halda menn að forusta Alþfl. taki sinnaskiptum og hverfi frá kjötkötlunum hjá Sjálfstfl.? Halda menn að hann taki saman pjönkur sínar og hverfi frá allri íhaldssamvinnu og gerist stríðandi Alþfl. á ný ef hann heldur fylgi sínu eða eykur það í næstu kosningum? Nei, svo barnalegur getur enginn verið. Auðvitað er einasta vonin til þess að Alþfl. hverfi aftur til síns fyrra hlutverks að hann verði fyrir miklu áfalli í næstu kosningum. Þá og því aðeins er nokkur von til þess að Gylfi Þ. Gíslason vakni upp við vondan draum einn morguninn og athugi eitthvað sinn gang, standi frammi fyrir spurningunni: Hvers vegna varð Alþfl. fyrir fylgishruni? Þá gæti e.t.v. hvarflað að honum að hann yrði líklega að breyta eitthvað til. Einasta leiðin til þess að toga Alþfl. aftur á rétta braut er sú að kjósendurnir refsi honum fyrir íhaldsþjónkun hans og segi honum þannig til vegar.``
    Þetta mælti fyrrum formaður Alþfl., síðar formaður Alþb., hv. þm. Hannibal Valdimarsson. Og væri betur að skammt væri til kosninga því þá væri kannski von til þess að sá meiri hluti sem illu heilli varð til og þessi ríkisstjórn hvílir á hyrfi og væri ekki lengur til staðar. Því það er ýmislegt sem þegar bendir til þess að kjósendur Alþfl. hefðu kosið að ráðstafa atkvæði sínu öðruvísi en gert var ef þeir hefðu gert sér í hugarlund hvaða ríkisstjórn yrði hér mynduð u.þ.b.

viku eftir kosningar.