Halldór Ásgrímsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég var aðeins að vitna til þess sem við mig hafði verið sagt um þessi mál og hér hefur verið upplýst að þessum ummælum þingflokksformanns Framsfl. var ekki andmælt. Það er nú venjan að menn reyni a.m.k. að hafa bærilegt samkomulag um þinghaldið. Ég sé í sjálfu sér enga ástæðu til að halda hér áfram fram eftir nóttu, þótt það megi mín vegna, og allra síst ef það verður til þess að það komi í veg fyrir það að hæstv. ráðherrar geti tjáð sig um mikilvæg mál.
    Hér hefur hæstv. utanrrh. komið fram með mikilvægar yfirlýsingar að því er varðar landbúnaðarmál þar sem hann sagði að eitt mikilvægasta málið í sambandi við niðurskurð ríkisútgjalda væri niðurskurður í landbúnaðarmálum. Það er alveg nauðsynlegt fyrir okkur að fá upplýsingar um skoðanir hæstv. landbrh. á þessum ummælum.
    Hæstv. utanrrh. hefur jafnframt sagt að það hafi alls ekki verið útilokað að taka upp veiðileyfasölu, sérstaklega í ákveðnum tilvikum sem ég sé ekki betur en muni hindra millifærslu aflaréttinda milli skipa og það er alveg nauðsynlegt fyrir okkur að fá skoðanir hæstv. sjútvrh. á þessum ummælum utanrrh. Utanrrh. hefur talað með þeim hætti hér í kvöld að það er nauðsynlegt að fá frekari upplýsingar frá hæstv. ráðherrum um þessi ummæli hans og við munum að sjálfsögðu krefjast þess. ( Utanrrh.: Ég sagði aldrei veiðileyfasala.)