Halldór Ásgrímsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég vildi aðeins fá það upplýst hvort það standi til að fresta þessari umræðu eða ekki. Ég legg á það áherslu að henni verði frestað. Ég geri engar athugasemdir við það þótt umræður haldi eitthvað áfram og tel þá nauðsynlegt að um það sé rætt á milli þingflokksformanna hvort þessar umræður verði síðan sameinaðar eða ekki. Ég legg á það áherslu að hún haldi áfram og henni verði lokið. Ég á ekki von á því að það taki mjög langan tíma. Ég vildi gjarnan að við gætum jafnframt athugað með það hvort túlka beri þingsköp með þeim hætti að þeir sem töluðu í útvarps - og sjónvarpsumræðunum hafi talað tvisvar. Það má vel vera rétt. En mér finnst vera lögð allmikil ofuráhersla á þá túlkun. Það verður að gæta þess að sú umræða þar sem ræðutími er takmarkaður við tiltölulega fáar mínútur er samkvæmt sérstakri grein þingskapanna og því með öðrum hætti en venjulegar umræður. Ég vildi gjarnan fá það upplýst hvort það hafi verið áður túlkað með þessum hætti í störfum Alþingis þótt í reynd skipti það nú ekki neinu meginmáli því það eru nægir til að tala um þessi mál ef þeir sem vildu gjarnan tala aftur hafa ekki heimild til þess. En áður en lengra er haldið vildi ég fá upplýst hvort það standi til að fresta umræðunni eða ekki.