Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Ragnar Arnalds :
    Herra forseti. Vafalaust gerist það nú ekki oft að þáltill. eða lagafrv. sé samþykkt með örfáum atkvæðum vegna þess að allir aðrir sitji hjá. En hitt er fullkomlega raunhæft og á vafalaust eftir að gerast oft ef ekki eru reistar við því skorður að brtt., sem kannski hefur aldrei farið til meðferðar í nefnd og þingmenn þekkja ekki mjög mikið til, sé samþykkt með örfáum atkvæðum en aðrir sitji hjá og enn fleiri séu fjarstaddir. Ég held að slíkt sé ekki við hæfi, ekki sæmandi hér á Alþingi þegar verið er að fjalla um lög sem eiga að gilda árum og áratugum saman í mörgum tilvikum og ég held að það sé ekki til of mikils mælst að sú krafa sé gerð að sérhver samþykkt hljóti a.m.k. helming atkvæða þeirra sem viðstaddir eru atkvæðagreiðsluna. Það finnst mér svona lágmarkskrafa sem eðlilegt sé að gera og því segi ég já.