Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 28. maí 1991


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Svona í upphafi máls míns þá vil ég segja að ég hef aldrei skilið þá málvenju þannig að þó við tölum um að sá sem flytji sína fyrstu ræðu flytji jómfrúrræðu að hann þurfi endilega að vera jómfrú. En það er nú kannski túlkun þeirra í Alþfl.
    En ég ætla að koma hér að þessu máli út frá sjónarmiði okkar sem ekki höfum setið í þingskapalaganefndinni og þar hafa vissulega komið fram margvísleg sjónarmið sem mönnum hefur fundist að væri ástæða til að taka tillit til. Ég hef hins vegar skilið þessi vinnubrögð og þau þingskjöl sem hér hafa verið lögð fram þannig að hér yrði ekki gengið frá öðru í lagaformi en því sem samstaða væri um. Og ég minni þingmenn á það að í þskj. 5, þ.e. í nál., eru sex tölusettir liðir um ýmis efnisatriði sem ýmsum aðilum hefði fundist ástæða til að koma inn í þingskapalög. En um það var ekki samstaða og því ekki haldið til streitu. Það væri ósköp auðvelt að taka upp harðan málflutning fyrir hverjum einstökum lið sem þar er og þá væri lítið orðið úr þeirri samstöðu sem um þetta mál hefur verið og full ástæða er til að verði áfram.
    Þetta voru nú meginþættirnir sem ég vildi koma hér á framfæri.
    Að því viðbættu féll um sjálfan sig málflutningur hv. 17. þm. Reykv. þegar hann talaði um þann fjölda sem þarf að vera í fjvn. til þess að mæta þörfum smáflokka. Í hans máli kom það greinilega fram, sem hann hefur mátt vita, að það þarf ekki nema einfalda lagabreytingu sem hægt er að gera hvenær sem er til þess að breyta þessum lögum og þess vegna er hægt að bregðast við slíkri stöðu þegar hún kemur upp. Þau rök eru því ekki fyrir hendi.
    Það er búið að rökstyðja það líka að það eru ekki þau rök fyrir hendi að hér sé um að ræða aukið vinnuálag. Frekar þvert á móti að það sé hægt að dreifa störfum á þann hátt að það minnki álagið á fjárlaganefnd. Þá stendur ekkert eftir annað en hér liggja á bak við einhverjir þeir þættir sem flm. hafa ekki upplýst enn þá um.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. talaði um hrossakaup. Ég vil nú ekki tala um hrossakaup í þessu sambandi. Mér býður hins vegar í grun að þarna sé um að ræða part af heiðursmannasamkomulagi. Og nú vil ég að það verði dregin upp þau undirplögg sem greina frá þessum hluta heiðursmannasamkomulagsins, (Gripið fram í.) bakskjöl heitir það já, sem greina frá þessum þætti heiðursmannasamkomulagsins og við verðum upplýst um það hér og nú.