Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er eðlileg krafa hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að þau skjöl sem eru formleg stefnuskjöl ríkisstjórnarinnar verði lögð fyrir þingið, sérstaklega ef einhver hæstv. ráðherra vitnar í þau formlega í umræðu máli sínu til staðfestingar. Það er ekki hægt fyrir þingið að láta bjóða sér það að ráðherra vitni í einhver óbirt skjöl í rökræðum hér á þinginu og segi að þar með sé málflutningur þingmanna afsannaður. Ég vil þess vegna taka undir þá kröfu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar að sé hér um formleg stefnuskjöl ríkisstjórnarinnar að ræða þá er eðlilegt að þau séu birt.
    Ég vil hins vegar vekja athygli hv. þm. á því að það kann að vera að ræða hæstv. forsrh. hér áðan hafi verið diplómatísk aðferð til að koma því til skila að ummæli utanrrh. í þessum efnum væru oftúlkuð, svo notað sé frægt orðalag.
    Utanrrh. hélt því fram að landbúnaðarskjalið væri stefnuskjal. Nú hefur hæstv. forsrh. sagt hér í ræðustól að svo sé ekki heldur séu þetta eingöngu minnisblöð stjórnmálaflokka. Þar með er búið að gefa til kynna að standi þau orð forsrh. að það liggi ekki fyrir neitt stefnuskjal sem utanrrh. gaf hér til kynna þannig að enn á ný hafi virðulegur utanrrh. oftúlkað það sem er stefna hæstv. ríkisstjórnar.