Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu mikið. Umræða um stefnuræðu hæstv. forsrh. er orðin nokkuð löng og hefur leitt í ljós ýmsa athyglisverða hluti.
    Það er fróðlegt að rifja það upp að árið 1971 var mynduð ríkisstjórn, vinstri stjórn hér á þessu landi. Þá var í vinnu sem dagskrárgerðarmaður hjá útvarpinu grínisti sem hafði þar með höndum þáttagerð. Sú ríkisstjórn gaf út málefnasamning og þessir grínistar sem unnu hjá útvarpinu kölluðu þann málefnasamning málamyndasamansetninginn. Nú er þessi grínisti orðinn forsrh. í þessu landi og ég held að það megi með réttu kalla þennan málefnasamning málamyndasamansetninginn. Það hefur þessi umræða leitt í ljós. Og einnig má kalla þessa stefnuræðu málamyndastefnuræðu því að það hefur komið í ljós við þessa umræðu að yfirlýsingar stangast nokkuð á. Einstakir ráðherrar hafa sem betur fer gefið hér út ákveðnar yfirlýsingar um sína málaflokka eins og hæstv. sjútvrh. gerði áðan, tók af skarið með það hvernig nefndaskipan í sjávarútvegsmálum á að verða. Það sparar mér að spyrja hann spurninga um þau mál.
    Eigi að síður var erindi mitt upp í þennan ræðustól að spyrja spurninga og þá hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. um það með hverjum hætti þeir ætla að hafa samskipti við aðila vinnumarkaðarins í landinu og landssamtök. Það er ástæða til að spyrja slíkra spurninga vegna þess að þau mál hefur borið á góma í þessum löngu umræðum. Í morgun er leiðari í Alþýðublaðinu og kveikjan að honum eru þessar umræður hér. Lestur hans varð til þess að ég ákvað að inna eftir því hvort forustumenn ríkisstjórnarinnar eru sammála því sem hér er sagt. Hér segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Þótt eðlilegt og sjálfsagt sé á stundum að leita álits og umsagnar hagsmunaaðila þessara atvinnugreina`` --- þar er átt við sjávarútveg og landbúnað --- ,,er óþarfi að andi þeirra svífi yfir, undir og allt um kring í hvert skipti sem málefni þeim tengd ber á góma. Hagsmunaklíkurnar`` --- takið eftir því --- ,,hafa gott af því að verma áhorfendabekki af og til. Sjávarútvegsmálin, og þar með talin stjórn fiskveiða, hafa vafist fyrir stjórnmálaflokkunum. Þeir hafa átt erfitt með að móta heildstæða stefnu á því sviði sem taki mið af þeirri staðreynd að fiskimiðin eru sameign allrar þjóðarinnar. Það er í senn hjákátlegt og aumkunarvert þegar stjórnarandstaðan og hagsmunapotarar kvótakónganna fyllast heilagri vandlætingu og hneykslan vegna þess að nokkrir aðilar frá stjórnarflokkunum ætla að setjst niður og ræða þessi mál í von um að komast að einhverri vitlegri niðurstöðu.``
    Síðar í þessum leiðara kemur niðurstaða hans sem er þannig, með leyfi forseta: ,,Það hlýtur því að vera ófrávíkjanleg krafa þjóðarinnar að kjörnir fulltrúar hennar fái að ræða þessi mál sín á milli án þess að hafa hagsmunaklíkur`` --- og takið eftir --- ,,hagsmunaklíkur hangandi yfir sér, kjósi þeir svo. Málið mun á sínum tíma fá eðlilega umfjöllun í nefndum

Alþingis og á Alþingi og hver veit nema hleruð verði viðhorf útgerðarmanna og fleiri aðila í fyllingu tímans.``
    Hæstv. sjútvrh. hefur tekið af skarið um það að hann ætlar ekki að hlera þetta í fyllingu tímans, heldur ætlar hann að hafa samráð eins og lögin gera ráð fyrir og ég fagna því. En hins vegar vil ég fá að heyra frá forustumönnum ríkisstjórnarinnar og formönnum stjórnarflokkanna hvort þetta sé sá samskiptamáti sem á að ríkja við aðila vinnumarkaðarins, landssamtök ýmissa atvinnugreina, hvort það eigi að orða það þannig að menn ætli ekki ,,að hafa þessi samtök hangandi yfir sér`` á meðan þeir eru að taka ákvarðanir. Mér finnst nauðsynlegt að vita þetta því að fram undan er erfitt tímabil hvað varðar þessi samskipti. Fyrrv. ríkisstjórn kappkostaði að hafa þessi samskipti góð og maður vissi ekki annað en um það væri breið pólitísk samstaða í þjóðfélaginu að hafa þessi samskipti sem best og hafa sem best samráð á þessum vettvangi.
    Fram undan eru samningar í þá veru að framlengja þjóðarsátt. Ég var staddur á aðalfundi Vinnuveitendasambands Íslands og ég heyrði þann eindregna vilja hjá formanni Vinnuveitendasambandsins að framlengja þjóðarsátt. Hann sagði þar að hlutverk ríkisvaldsins í þeim samningum væri gríðarlega mikið og réði reyndar úrslitum um hvort þjóðarsáttin yrði framlengd eða ekki. Þessir samningar eru fram undan. Og það væri fróðlegt að heyra það hvort nú á að kasta þessum samskiptum fyrir róða og orða það þannig að menn vilji ekki hafa verkalýðshreyfinguna, Vinnuveitendasambandið, LÍÚ eða bændasamtökin hangandi yfir sér meðan menn eru að taka ákvarðanir í þessu þjóðfélagi.
    Það var breið samstaða í þjóðfélaginu um að hafa þann vinnuhátt á eins og var í fyrrv. ríkisstjórn og ég vissi ekki annað en það væri breið samstaða um það einnig hjá þeim flokkum sem nú fara með stjórnartaumana. Ef svo er ekki, þá væri gott að heyra það úr þessum ræðustól hjá forustumönnum stjórnarflokkanna. Það er reyndar ófrávíkjanleg krafa að hæstv. forsrh. og utanrrh. komi upp í þennan ræðustól áður en umræðum lýkur og taki af skarið um það, á að halda því góða samráði og samskiptum við aðila vinnumarkaðarins sem verið hefur í næstu kjarasamningum?
    Það er ekki ástæða til þess af minni hálfu að lengja þessa umræðu öllu meira. Ég vil aðeins áður en ég yfirgef þennan ræðustól taka eindregið undir það að það er auðvitað skýlaus krafa að áður en þessari umræðu lýkur eða þá umræðunni um ríkisfjármálin komi það fram hvort ríkisstjórnin ætlar að standa að stuðningsaðgerðunum við búvörusamning. Það var ófrávíkjanlegt skilyrði hjá bændastéttinni sem féllst á þessar sársaukafullu aðgerðir að stuðningsaðgerðirnar sem bókaðar eru með búvörusamningnum kæmu til framkvæmda og hægt væri að draga úr þeim gífurlegu áhrifum á byggð í landinu sem þessi búvörusamningur hefur óhjákvæmilega í för með sér. Það mætti tala um þetta langt mál, en ég ætla ekki að

endurtaka það sem um þetta hefur verið sagt í mörgum ágætis ræðum við þessa umræðu.