Málefni EES
Föstudaginn 31. maí 1991


     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Ég skil hann svo að hér sé eingöngu um það að ræða að halda áfram þeim viðræðum sem hafa staðið allt frá árinu 1976.
    Það er hins vegar mjög mikilvægt að það sé sameiginlegur skilningur milli Íslands og Efnahagsbandalagsins um form þessara viðræðna. Og ef þessi tilvitnun í Krenzler er rétt, þá má líta svo á að hann sé að túlka það að verið sé að flytja þessa deilu yfir á annað svið. Og það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að ekki sé gengið til þessara viðræðna með þeim skilningi. Því hlýt ég að leggja á það áherslu að það komi fram sameiginlegur skilningur á viðræðunum áður en þær hefjast.
    Í öðru lagi vildi ég ítreka þá spurningu til hæstv. utanrrh. sem hann svaraði ekki: Við hverja fara þessar viðræður fram? Er hér um að ræða viðræður við DG 14 eða undir þeirra forustu, eða er um að ræða viðræður við Evrópubandalagið, þ.e. utanríkismáladeild þess, þ.e. DG 1? Það hefur mikla þýðingu í þessu máli. Ef eingöngu er um að ræða framhald á því sem áður hefur farið fram, þá væri eðlilegt að það væri við DG 14. Ef um eitthvað annað er að ræða, þá er það væntanlega við DG 1.