Búvörusamningur
Föstudaginn 31. maí 1991


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þakka forseta fyrir að skapa pláss fyrir þessa umræðu hér. Ég held að það hafi því miður reynst algerlega óhjákvæmilegt að færi gæfist á að leggja spurningar fyrir hæstv. ráðherra og gefa þeim eitt færi enn á því að reyna að skýra afstöðu hæstv. ríkisstjórnar eða öllu heldur einstakra ráðherra til þessa máls sem hér er á dagskrá.
    Í stefnuræðu hæstv. forsrh. segir um landbúnaðarmál, með leyfi forseta: ,,Fjórða meginverkefni stjórnarinnar verður að framkvæma þá stefnu í landbúnaðarmálum sem mörkuð hefur verið af stjórnvöldum og bændum í sameiningu hin síðari ár.`` En í ræðu aðfaranótt sl. þriðjudags sagði hæstv. utanrrh. á hinn bóginn ýmislegt sem gaf mönnum tilefni til að spyrja hvernig ætti þá að skilja texta í stefnuræðu hæstv. forsrh. Aðspurður um afstöðu Alþfl. til búvörusamnings, veiðileyfasölu og fleira sagði hæstv. utanrrh. í ræðu sinni að Alþfl. hefði ekki fallið frá afstöðu sinni varðandi endurskoðun búvörusamnings og gjaldtöku fyrir veiðileyfi og hafði um það ýmis fleiri orð, vitnaði til fyrirvara Alþfl. og greinargerðar um landbúnaðarmál. Og að síðustu greindi hæstv. utanrrh. frá sérstöku stefnuskjali um landbúnaðarmál sem væri ítarlegra en ákvæði málefnasamnings og lýsti betur því sem hæstv. ríkisstjórn hygðist fyrir í landbúnaðarmálunum.
    Hæstv. landbrh. tók svo til máls hér í upphafi fundar í fyrradag og endurtók þá yfirlýsingu sem hann hefur áður gefið í fjölmiðlum að hann vilji, eins og hann orðar það, virða búvörusamninginn. En sú yfirlýsing fékk ekki að standa lengi því að hæstv. forsrh. kom hér ítrekað í ræðustól í sömu umræðu og sagði m.a. þetta, með leyfi forseta:
    ,,Varðandi þriðja atriðið sem hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi varðandi það sem hann kallaði stuðningsaðgerðaþátt samningsins, þ.e. búvörusamningsins, er þar um að ræða miklar fjárskuldbindingar. Auðvitað hlýtur ríkisstjórn sem tekur við völdum í landinu og þarf að huga að stórkostlegum halla ríkissjóðs``, segir nú reyndar hæstv. forsrh., ,,að taka atriði eins og þetta til skoðunar. Ef niðurstaðan verður sú að ríkisstjórnin væri algerlega bundin af þessum þætti sérstaklega, þá gæti hún engu að síður tekið það atriði upp við viðsemjendur með skírskotun til þess ástands sem væri í ríkisbúskapnum.
Það væri óhjákvæmilegt og í þágu landsins alls og þar með viðsemjandans, þjóðarinnar allrar, að draga úr eða fresta þessum þætti. Mér finnst það blasa við að þessir kostir séu færir,`` segir hæstv. forsrh. Og hann verður ekki skilinn öðruvísi, hæstv. forsrh., en að hann telji það opið að taka upp, fresta eða fella niður ákveðna þætti þessa samnings.
    Hæstv. fjmrh. kom enn fremur í umræðunni um ríkisfjármál sem stóð í fyrrakvöld og bætti um betur í þetta safn og voru þá yfirlýsingar hæstv. ráðherra orðnar fjórar, hver í sína áttina og má segja að ein hafi gengið til hverrar höfuðáttar, yfirlýsingar ráðherra um búvörusamning.

    Af þessum sökum, hæstv. forseti, sé ég mig knúinn til að leggja spurningar fyrir hæstv. ráðherra. Það er ljóst í mínum huga að þessi samningur er ein heild. Hæstv. ríkisstjórn hefur það ekki á valdi sínu að tína einstök atriði út úr samningnum og ákveða hvað hún vill standa við og hvað ekki, svoleiðis er þessi samningur ekki úr garði gerður. Það er nauðsynlegt að eyða allri óvissu um framkvæmd samningsins sem hæstv. landbrh. hefur þegar hafið framkvæmd á. Í fyrsta lagi spyr ég hæstv. landbrh.: Þegar hann, hæstv. ráðherrann, segist vilja standa við samninginn og virða hann, er þá hæstv. landbrh. að tala um samninginn allan? Um heildina? Eða telur hæstv. landbrh. að ríkisstjórnin hafi það á valdi sínu að framkvæma ákveðna hluta samningsins en aðra ekki? Það er alveg nauðsynlegt að það komi fram hjá hæstv. landbrh. vegna þess sem komið hefur fram í máli m.a. hæstv. forsrh. --- er ekki hæstv. landbrh. að tala um samninginn í heild?
    Í öðru lagi spyr ég hæstv. forsrh., og nú ætla ég að prófa að orða spurninguna svona, ef það mætti auðvelda hæstv. forsrh. að gera upp hug sinn: Hyggst hæstv. forsrh. styðja landbrh. sinn, sem hefur ítrekað lýst því yfir að hann vilji virða búvörusamninginn og telur það embættisskyldu sína að framkvæma hann, samanber viðtal við hann í Morgunblaðinu? Hyggst hæstv. forsrh. styðja landbrh. sinn? Þetta er einföld spurning.
    Í þriðja lagi vil ég spyrja, og væntanlega hæstv. forsrh., nema ef vera skyldi hæstv. fjmrh.: Verður lögfræðiálit ríkislögmanns á réttarstöðu búvörusamningsins sent þingmönnum og gert opinbert á næstu dögum? Ég hygg að það sé æskilegt til þess að menn séu ekki að geta sér til um það hvað í því standi að það komi fram.
    Í fjórða lagi spyr ég hæstv. fjmrh., af því hann hefur ekki talað jafnskýrt og hæstv. landbrh. hefur gert um embættisskyldur sínar í þessu sambandi: Hverjar telur hæstv. fjmrh. vera embættisskyldur sínar gagnvart búvörusamningnum og þá ekki síst stuðningsaðgerðaköflum, viðaukum I og II, sem fjmrh. fyrrv. og forveri hæstv. núv. fjmrh., undirritaði? Hverjar telur hæstv. fjmrh. vera embættisskyldur sínar í því ljósi að þessir kaflar samningsins eru undirritaðir af forvera hans?
    Í fimmta lagi vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Má líta svo á ef framkvæmd búvörusamningsins verður ekki stöðvuð á næstu dögum að þar með sé hæstv. ríkisstjórn í reynd að lýsa því að hún ætli að virða samninginn?
    Í sjötta lagi hefði ég viljað spyrja: Verður það leyniskjal um landbúnaðarmál, sem að sögn hæstv. utanrrh. er til milli ríkisstjórnarflokkanna, gert opinbert? Þá á ég við það sem hæstv. utanrrh. kallaði sérstakt stefnuskjal en forsrh. hæstv. gaf ýmis önnur nöfn í umræðum hér í fyrradag. Verður þetta skjal birt, gert opinbert á næstunni? Ég held að það þurfi ekki að útskýra hversu bagalegt það er ef tvennum gögnum um þetta mál á að halda leyndum. Þar á ég við annars vegar álit ríkislögmanns og hins vegar þetta svokallaða stefnuskjal sem síðan reyndist ekkert stefnuskjal vera og lengi ég ekki umræðuna með því að rekja það.