Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 15:02:00 (2531)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Fyrir um það bil mánuði óskaði ég eftir því við hæstv. landbrh. að hann gæfi þinginu munnlega skýrslu um horfur fyrir íslenskan landbúnað með tilliti til þeirrar stefnu sem GATT-viðræðurnar um landbúnað voru þá að taka. Þrátt fyrir góðar undirtektir í fyrstu varð ekki af því og skýringin sem var gefin var sú að ekkert frásagnarvert væri að gerast en hæstv. utanrrh. mundi leggja fram skýrslu um málið. Hæstv. utanrrh. lagði rétt fyrir jólin plagg á borð þingmanna sem bar þetta nafn. Það er ekki merkt sem þingskjal og því ekki hægt að óska eftir umræðum um það samkvæmt þingsköpum. Til þess að fá fram viðhorf hæstv. landbrh. og svör hans við nokkrum spurningum hef ég því talið óhjákvæmilegt að óska eftir þessari umræðu utan dagskrár og vil ég þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa hana.
    GATT-samningaviðræðurnar hafa staðið í allmörg ár, en þær strönduðu í árslok árið 1990. Ástæðan var þá fyrst og fremst ágreiningur um landbúnaðarmál og þá sérstaklega milli Bandaríkjanna annars vegar og Evrópubandalagsins hins vegar, en það má segja að þar sé a.m.k. forustan fyrir þær fylkingar sem fyrst og fremst hafi tekist á um þetta og þeirra hagsmunir virðast ráða þar mest ferðinni. Þessar viðræður voru svo teknar upp að nýju þegar kom fram á síðasta ár og þá um landbúnaðarmálin sérstaklega undir forsæti Arthurs Dunkels sem er framkvæmdastjóri GATT, en hann tók að sér formennsku í samninganefndinni. Hann reyndi að koma hreyfingu á málið með því að bera fram hugmyndir um mjög breyttan grundvöll frá því sem áður hafði verið rætt um og þegar kom fram í byrjun desembermánaðar sl., um mánaðamótin þá, var komin nokkuð skýr mynd af því í hverju þetta fólst.
    Stærsta breytingin frá því sem áður hafði verið rætt um var sú að horfið skyldi algerlega frá öllum magntakmörkunum á innflutningi búvara, en í staðinn yrði heimilt að leggja á innflutningsgjald, svokallað tollaígildi. En þó skyldi vera skylda að flytja inn 3% af neyslu hverrar tegundar að magni og það hækkað upp í 5% á nokkrum árum.
    Þetta kom m.a. fram í þeirri skýrslu sem hæstv. utanrrh. lagði á borð þingmanna og ég gat um áður. Þar kemur einnig fram að mikil áhersla sé lögð á að hraða þessum samningaviðræðum sem mest og talið líklegt að þeim muni ljúka fyrir jól. En það var augljóst að þarna var mjög breytt um frá þeim hugmyndum sem Íslendingar höfðu um nýja GATT-samninga og ákvæði sem var íslenskum landbúnaði ákaflega hættulegt. Þess vegna lagði Stéttarsamband bænda fram nokkra minnispunkta þar sem lögð var áhersla á breytingar sem nauðsynlegt væri að koma inn í þessar umræður til þess að hægt væri að una við niðurstöðuna því að það var talið mikilvægt að geta komið á framfæri athugasemdum áður en viðræðunum lyki í desembermánuði.
    Þetta kemur m.a. fram í minnisblaði sem ég hef frá norsku bændasamtökunum þar

sem þau segja að það væri óverjanlegt og ómögulegt að setja fram skilyrði á lokastigi sem ekki væri búið að gera skýrt grein fyrir í umræðum áður. Í þessu norska minnisblaði kemur líka fram, þar sem Norðmenn eru mjög áhyggjufullir um þá stefnu sem málin eru að taka, að þeir séu að leita eftir samstöðu annarra landa til að fá þau í lið með sér til að hafa áhrif á gang mála þannig að fram kæmu önnur viðhorf en þau sem stóru aðilarnir, Evrópubandalagið og Bandaríkin, hafa í forustu fyrir stórútflytjendurna. Það var af þeim sökum sem Kanadamenn tóku sig saman ásamt nokkrum öðrum þjóðum, þar á meðal Norðmönnum, um að flytja fyrirvara eða athugasemd sem m.a. fól í sér að þeim löndum sem væru nettóinnflytjendur að landbúnaðarvörum væri heimilt að setja á magntakmarkanir, sérstaklega þar sem framleiðslutakmarkanir væru innan lands. Því hlaut það að vera Íslendingum ákaflega mikilvægt að tillit yrði tekið til slíkra sjónarmiða.
    Af einhverjum ástæðum sem erfitt er að skilja kaus íslenska sendinefndin ekki að gerast flutningsaðili með Kanada, Noregi og fleiri þjóðum um svona athugasemd og það fór því svo að þessum viðræðum var slitið 18. des. án þess að nokkur skrifleg athugasemd bærist frá Íslendingum. Hins vegar lá fyrir að þegar eftir að umræðum yrði slitið mundi formaður nefndarinnar, Arthur Dunkel, leggja fram drög að nýjum samningi sem hann mundi byggja á þeim niðurstöðum sem hann teldi sig hafa fengið út úr viðræðunum þó þar næðist ekki samkomulag. Það gerði hann 21. des. og því var dreift til aðildarlandanna. Þar er því miður jafnvel gengið að sumu leyti lengra en talið var að umræður stefndu í þegar málin voru þar á umræðustigi.
    Þegar bændasamtökunum barst vitneskja um þessi drög að samkomulagi töldu þau nauðsynlegt að reyna að gera sér grein fyrir því á eins skömmum tíma og unnt væri hvað í þeim fælist til að geta myndað sér skoðun á því hvernig íslenskur landbúnaður stæði ef þetta mundi ná fram að ganga. Tíminn var mjög skammur þar sem Dunkel hafði boðað að hann mundi halda á ný fund í nefndinni 13. janúar þar sem hann ætlaðist til þess að athugasemdir yrðu gerðar við þau atriði sem viðkomandi lönd væru ekki ásátt með. Bændasamtökin fengu því Ketil Hannesson ráðunaut til að reyna að gera sér grein fyrir innihaldi þessara draga og hann lauk því á skömmum tíma eftir því sem hann hafði tök á miðað við þær upplýsingar sem fyrir hendi lágu, en engin greinargerð fylgdi þessum samningsdrögum og því miður var takmarkað hvað hægt var að fá útskýringar á einstökum atriðum af hálfu ráðuneytismanna þar sem ákvæðin virtust jafnvel þeim vera nokkuð óljós.
    Ég ætla að rekja nokkuð af því sem Ketill dregur fram í áliti sínu til að gera hv. þm. grein fyrir því hvernig þessi mál standa svo að auðveldara sé að móta sína afstöðu. Með leyfi forseta segir m.a. að skipta megi samningsdrögunum í fimm meginefnisþætti, þ.e. markaðsaðgangur, sérstök öryggisatriði, innanlandsstuðningur, útflutningsuppbætur, takmörkun á innflutningi vegna dýra- og plöntusjúkdóma og sérákvæði þróunarlanda sem flytja mikið inn af landbúnaðarvörum. Að auki eru ákvæði í samningnum um að sett verði á stofn landbúnaðarnefnd GATT-þjóðanna. Jafnframt er samið um að fram fari endurskoðun á ýmsum ákvæðum samningsins, m.a. með tilliti til áhrifa mikillar verðbólgu við að fylgja eftir lækkun niðurgreiðslna. Aðildarlöndum gefst þar einnig tækifæri til að koma á framfæri málefnum sem varða samninginn.
    Aðildarlönd skulu viðurkenna að markmið þessa samkomulags er þegar til lengri tíma er litið að draga úr stuðningi við innlendan landbúnað og öll innflutningshöft og að þróun í þá átt haldi áfram í næstu lotu um aldamótin. Endurskoðun samningsins í grundvallaratriðum skal þó ekki hefjast fyrr en eitt ár er eftir af samningstímanum.
    Markmið þessa samkomulags er að auka alþjóðaviðskipti með landbúnaðarvörur sem komi aðildarlöndunum til góða í lægra vöruverði og að framleiðsla landbúnaðarvara fari fram í ríkara mæli þar sem hún sé hagkvæmust. Þessu marki skal ná með því að þvinga

flest ef ekki öll aðildarlönd til að flytja inn eitthvað af sem flestum landbúnaðarvörum. Draga skal úr stuðningi við útflutning og lækka markaðstruflandi aðgerðir sem draga úr viðskiptum með landbúnaðarvörur. Innanlandsstuðningur skal takmarkast við styrki sem tengjast ekki framleiðslumagni. Greiðslum til bænda fyrir að hætta framleiðslu tímabundið má viðhalda óbreyttum sem og greiðslum tengdum umhverfisvernd.
    Fyrir 1. mars 1992 skulu aðildarlönd senda inn alla útreikninga sem varða samninginn, þar með talda útreikninga á tollígildi hverrar vörutegundar, tollkvóta, viðmiðunarverð, útreikninga varðandi niðurgreiðslur og annan innanlandsstuðning samkvæmt vinnureglum samningsins.
    Um einstök atriði segir svo, m.a. um takmarkanir vegna dýra- og plöntusjúkdóma: ,,Mörg lönd hafa, þar á meðal Ísland, haft í gildi heilbrigðisreglur sem koma í veg fyrir innflutning á margvíslegum landbúnaðarafurðum. Meginreglan nú verður sú að aðildarlönd verða að sanna á vísindalegum grunni hverra takmarkana er þörf í þessum efnum. Ekki verður annað séð en margvíslegar landbúnaðarafurðir, sem ekki hefur verið leyft að flytja til landsins fram að þessu með tilvísun í heilbrigðisreglur, standist ekki þetta próf. Einungis ferskar og frystar kjötvörur og e.t.v. egg munu falla undir þetta ákvæði. Að svo miklu leyti sem innflutningsbanni á mjólk og mjólkurvörum eða unnum kjötvörum hefur verið haldið uppi á þessum forsendum verður að gera ráð fyrir að það verði úr sögunni.``
    Á fundi bændasamtakanna með landbrh. og mönnum úr landbrn. í gær kom það fram hjá yfirdýralækni að hann reiknaði ekki með að mikið hald yrði í þessum heilbrigðisreglum eftir að íslensk lög verða úr gildi fallin og við eigum þá allt undir úrskurði GATT-dómsins hvaða vörum við getum hindrað innflutning á og hverjum ekki.
    Um markaðsaðgang er það að segja að almenna reglan er á þá leið að magntakmarkanir á innflutningi landbúnaðarvara verði felldar niður en þess í stað verði reiknað tollígildi. Tollígildið er mismunur á heimsmarkaðsverði cif og heildsöluverði í innflutningslandinu á vöru sem takmarkaður hefur verið innflutningur á. Það er því furðulegt að heyra þá fullyrðingu hæstv. utanrrh. í fjölmiðlum í gærkvöld, eina af mörgum, að við nytum fjarlægðarverndar því að viðmiðunarverðið skal vera cif-verðið, varan komin hingað. Tollígildi kemur á þennan hátt í staðinn fyrir magntakmarkanir eða innflutningsbann. Tollígildi skal reikna sem fasta stærð eða hlutfall. Aðrar innflutningstakmarkanir skulu felldar burt. Fyrir landbúnaðarvörur sem ekki hafa lotið magntakmörkunum verður upphafsviðmiðun þær tollbindingar sem í gildi eru og rauntollur 1. september 1986 fyrir þær vörur sem eru með óbundna tolla samkvæmt GATT-skrá. Tollígildi skal lækka um 36% á tímabilinu, mismunandi á einstökum vörutegundum, en þó þannig að fyrir enga vöru verði lækkunin minni en 15% en meðaltalslækkun skal vera 36%. Til viðbótar þessu er samið um lágmark innflutnings er skal nema 3% af innanlandsneyslu allra vörutegunda umfram núverandi innflutning sem síðan verður hækkaður í 5% á samningstímanum.
    Meginreglan kveður á um að innflutningshömlur verði afnumdar en þess í stað tekin upp tollígildi. Ætti þá innflutt og innlend vara að vera á svipuðu verði. Mismunur á innlenda verðinu og verði á innfluttum vörum skal hins vegar lækka um 36% á árunum 1993--1999. Dæmi: Ef innlenda varan kostar 100 kr. en innflutt 50 er tollígildi 50 kr. Lækkun á tollígildi um 36% jafngildir 18 kr. Verð vörunnar verður þá 82 kr. eða 18% lækkun. Ef innlenda varan kostar 100 kr. og innflutta varan 20 kr. er tollígildið 80. Lækkun nemur þá 29% eftir aðlögun. Hér er reiknað með því að leiðrétt sé fyrir mismunandi verðbólgu í aðildarlöndunum og tollígildið haldi gildi sínu. Ekkert ákvæði er hins vegar að finna um þetta atriði og tollígildið getur því í reynd lækkað mun meira og einnig að tollígildið í byrjun sé mun lægra.
    Ljóst er að afurðaverð til bænda verður lækkað mun meira ef innlenda varan á að

seljast. Ástæðan fyrir því er sú að þessu til viðbótar kemur síðan lækkun á niðurgreiðslum. Á móti vegur einhver hækkun á heimsmarkaðsverði í kjölfar lækkandi útflutningsbóta.
    Um innanlandsstuðning er m.a. sagt: Á þessu sviði er ætlast til að aðildarlönd skuldbindi sig til niðurskurðar eins og á öðrum sviðum. Stuðningur sem ekki telst markaðstruflandi fellur utan við samninginn. Niðurgreiðslur hér á landi falla undir þennan flokk og þær skulu lækka um 20%. Viðmiðunarárin eru hins vegar árin 1986--1988, meðaltal þeirra, en niðurgreiðslur hækkuðu mjög mikið á árinu 1988 þegar söluskattur var lagður á matvöru og var endurgreiddur. Árið 1988 eru þessar greiðslur því nær helmingi hærri en hin árin eða meira. Það skiptir því miklu máli við hvaða ár er miðað. Af þessum sökum er upphæðin 1988, þó hún sé lækkuð um 25% eins og gert var ráð fyrir í tilboði sem sent var í þessum viðræðum haustið 1990, miklu hærri en upphæð sem er fundin út frá meðaltali þessara þriggja ára og lækkuð um 20%. Það er því algert öfugmæli, sem hæstv. utanrrh. sagði í viðtali í gærkvöld í fjölmiðlum, að þessi samningsdrög væru að þessu leyti hagstæðari fyrir okkur en hugmyndirnar sem sendar voru í fyrra.
    Beinar greiðslur til bænda eru í sauðfjárrækt í dag innan þess ramma sem þarna eru flokkaðar. Búvörusamningi yrði að breyta á þá leið að beinar greiðslur yrðu ekki tengdar framleiðslu til þess að þær féllu ekki undir skerðingu, en vegna þess að þarna eru tölur óverðbættar frá 1986--1988 mundi þetta þýða að beinar greiðslur til bænda yrðu sennilega þegar á næsta ári að lækka um 25% ef miðað væri við fulla verðtryggingu en allt upp í 65% ef verðtrygging fengist ekki. En það er óvíst um verðtryggingu á þessum tölum og er þar með augljóst hversu gífurleg skerðing það yrði á greiðslum til bænda.
    Um útflutningsbætur er það að segja að þær skuli vera á fjárlögum hvers ríkis og magn afurða tilgreint. Á tímabilinu frá 1993--1999 skulu útflutningsbætur lækkaðar í fjárlögum um 36% og magn afurða sem nýtur stuðnings um 24%. Viðmiðunarárin skulu vera 1986--1990 og ekkert er þar minnst á verðbólguleiðréttingar. Hins vegar höfum við Íslendingar nú ákveðið í samningi bænda og ríkisvaldsins að fella niður allar útflutningsbætur. Með því móti telja bændasamtökin að Íslendingar hafi þegar lagt fram svo stóran skerf í þessar GATT-viðræður og það eitt ætti að skapa þeim algera sérstöðu og gera þeim kleift að þrýsta á um önnur atriði sem þeim ríður á að halda þarna inni.
    Ég hef ekki tíma til að rekja mikið meira af þessum atriðum en gríp niður í niðurlagsorðunum þar sem segir: ,,Í þessum hugleiðingum hefur einkum verið leitast við að sýna fram á megináhrif þessara samningsdraga á íslenskan landbúnað eins og þau blasa við eftir lauslega yfirferð. Þeir sem kjósa að hafa landbúnað hér á landi hljóta að fyllast ugg við þann lestur. Tollígildi skal lækka á sex árum um 36%. Útflutningsbætur skulu lækka á sex árum um 36%. Innanlandsstuðningur skal lækka á sex árum um 20%. Lágmarksinnflutningur skal vera 3% af innanlandsneyslu sem hækkar í 5% á sex árum. Innflutningshöft verða ekki leyfð. Hvort hér verður landbúnaður eða ekki ræðst fyrst og fremst af samkeppni í verði og gæðum við innfluttar afurðir. Heilbrigðisreglur geta haft einhver áhrif á takmörkun á innflutningi, en hætt er við því að það sé skammgóður vermir. Öryggisákvæði geta tafið mikla magnaukningu á innflutningi, en eru ekki innflutningsvernd að öðru leyti.``
     Margt er óljóst um endanlega niðurstöðu því að greinargerðin fylgir ekki eins og ég sagði áður. En ljóst er þó að áhrif hugsanlegs samnings verði mikil og til frambúðar. Aukinn samdráttur er óumflýjanlegur, að lágmarki 3% strax, lækkandi afurðaverð til bænda er fyrirsjáanlegt sem gæti orðið 20--50% í mörgum vöruflokkum á næstu sex árum. Nákvæmar tölur eru þó ekki fyrir hendi.
    Herra forseti. Þegar þessar staðreyndir lágu fyrir töldu bændasamtökin óhjákvæmilegt að vekja athygli hæstv. landbrh. á þeim alvarlegu horfum sem þarna blasa við í íslenskum landbúnaði. Í gær afhentu þau ráðherra bréf þar sem lögð var áhersla á nokkur atriði og ég vil geta nokkurra.
    Það yrði útilokað að framfylgja hér sjálfstæðri landbúnaðarstefnu. Við værum bundin má segja bæði á höndum og fótum ef samningsdrögin yrðu samþykkt þannig að okkar frelsi til sjálfstæðra ákvarðana væri ekki orðið lengur fyrir hendi. Þetta mundi draga stórlega úr matvælaöryggi þjóðarinnar. Nýgerður búvörusamningur héldi ekki gildi sínu og kippt yrði grundvelli undan þeirri framleiðslustjórn og annarri hagræðingu framleiðslunnar sem samið hefur verið um.
    Með samningi ríkisvalds og bænda um að fella niður allar útflutningsbætur hafa Íslendingar þegar gengið lengra í átt til þeirra viðskiptahátta sem stefnt er að en samningsdrögin ætla nokkurri þjóð.
    Stórfelldur samdráttur búvöruframleiðslunnar yrði óumflýjanlegur og þar með fækkun starfa í sveitum og við vinnslu búvara.
    Búvöruvinnsla ætti hér enn erfiðara uppdráttar vegna minni markaðar. Þessu mundi fylgja ógnvekjandi röskun á byggð landsins og jafnvel eyðing heilla byggðarlaga. Ekki verður séð að hverju það fólk hefði að hverfa sem við þetta missti atvinnu sína og heimili.
    Herra forseti. Ég vil því bera nokkrar spurningar fram við hæstv. landbrh.:
    1. Hvernig metur hæstv. landbrh. stöðu íslensks landbúnaðar nú miðað við þróunina í GATT-viðræðunum um verslun með landbúnaðarvörur?
    2. Telur landbrh. koma til greina að Ísland gerist aðili að samningi sem byggir á tillögum Arthurs Dunkels?
    3. Ef svo er ekki, hvernig hyggst landbrh. vinna að því að hagsmuna Íslands verði gætt við samningagerðina?
    4. Mun landbrh. hafa samráð við landbn. Alþingis áður en ríkisstjórnin tekur nokkrar skuldbindandi ákvarðanir í þessu efni?
    Ég tel að það sé ákaflega brýnt að Alþingi fylgist náið með þessu máli og fái að vita um alla þætti þess sem gerst.
    Það liggur fyrir að Evrópubandalagið telur sig ekki geta samþykkt þessi samningsdrög eins og þau liggja fyrir þannig að þau munu ekki verða undirrituð í næstu viku. En jafnframt er ljóst að það er gífurlegur þrýstingur á öll ríki, má segja, að niðurstaða fáist sem fyrst í þessum GATT-viðræðum. Það er því skammgóður vermir og haldlítið skálkaskjól fyrir okkur að segja: Hættan er ekki alveg næstu daga. Við megum ekki loka augunum fyrir þessari hættu og hljótum því að verða að gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda á loft hagsmunum íslensku þjóðarinnar í heild í þessu mikilvæga máli og gera allt sem í okkar valdi stendur til að knýja á um að til þeirra sjónarmiða verði tekið tillit.