Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 16:23:00 (2535)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég held að hér sé um að ræða tímabæra umræðu sem sé mjög gagnlegt að fari fram á Alþingi á þessari stundu. Það vekur hins vegar nokkra athygli að hér sjást nánast engir fulltrúar Alþfl. í salnum. Að vísu situr hér hæstv. viðskrh. þessa mínútuna, en aðrir alþýðuflokksmenn hafa nánast ekki sést við þessa umræðu. Hvort það er vegna þess að hér sé um að ræða það sprengiefni innan ríkisstjórnarinnar að menn vilji ekki hætta á að ráðherrum lendi saman skal ég ekki segja um, en vissulega læðist að manni sá grunur.
    Ég vil í fyrstu víkja að því að það hefur verið nokkuð mikið um það rætt að hér sé um að ræða skref til fríverslunar með landbúnaðarvörur sem felist í þeim drögum sem hr. Dunkel lagði fram fyrir jólin. Það er að mínu mati alrangt. Það var reyndar staðfest af bæði fulltrúum utanrrn. og landbrn. í morgun á fundi landbn., þeim fulltrúum á þeim bæjum sem hafa fylgst hvað best með þessum málum. Hér er vissulega um að ræða tillögu um breytingu á viðskiptum með landbúnaðarvörur í heiminum en alls ekki skref í átt til fríverslunar. Það bendir allt til þess að það samkomulag sem verið er að leita eftir þessar vikurnar sé samkomulag sem sé Evrópubandalaginu og Bandaríkjunum þóknanlegt. Ég bendi á að það er gert ráð fyrir að þær þjóðir sem hafa varið stjarnfræðilegum upphæðum í stuðning við sinn landbúnað til útflutnings geti haldið því áfram. Það er reiknað með að eftir standi að þær geti haldið 64% af þeim stuðningi sem var á árunum 1986--1988. Ég bendi líka á að Bandaríkjamenn hafa haldið þannig á málinu, en þeirra korngreiðslur eru greiðslur á land og eru himinháar og ráða í raun verðlagningu á korni í Bandaríkjunum og þar af leiðandi verðlagningu á öðrum búvörum sem byggja á korni og verði á korni til útflutnings frá Bandaríkjunum, að þeir haldi þessum greiðslum. Þær eru til viðbótar, þær eru ekki innan þessara 64%, þær standa til hliðar við það. Reyndar hafa útflutningsbætur Bandaríkjanna á korn verið í þessu formi.
    Ég vil þess vegna ítreka, virðulegur forseti, að hér erum við ekki að taka um fríverslun og er þess vegna út í hött að tala um í þessu samhengi hvernig íslenskur landbúnaður mundi standa sig í fríverslun með þær vörur í heiminum. Ég bendi á í þessu sambandi að við erum með tvær búgreinar, sem að vísu hafa gengið í gegnum mikla erfiðleika, annars vegar loðdýraræktina og hins vegar fiskeldið, þar sem menn eru að keppa e.t.v. næst því sem hægt er að tala um fríverslun með landbúnaðarvörur í heiminum. ( ÓÞÞ: Við erum með þrjár búgreinar.) Hver er sú þriðja, hv. frammíkallandi? En ég nefni þessar sem dæmi. Ég bendi á að það bendir flest til þess í dag að eftir byrjunarerfiðleika í þessum greinum muni þær geta staðið sig í frjálsri alþjóðlegri samkeppni. Það segir kannski sína sögu. Hitt er jafnljóst að ef á að fara að opna allt fyrir innflutningi á hefðbundnum landbúnaðarvörum, innflutningi sem nýtur 64% af þeim stuðningi sem hann hefur notið fram að þessu, rústar það íslenskan hefðbundinn landbúnað. Það er svo einfalt. Að mínu mati getum við aldrei liðið að íslenskum landbúnaði verði fórnað á altari hagsmuna Evrópubandalagsins og Bandaríkjanna, svo einfalt er málið.
    Ég bendi líka á það, sem ég hef margsinnis gert hér á hinu háa Alþingi, að íslenskir bændur hafa á umliðnum árum sýnt meiri sveigjanleika og meiri samstarfsvilja við stjórnvöld til að koma á móts við kröfur um lækkun á framleiðslukostnaði og þar með um lækkað verð til neytenda en ég hygg að dæmi muni finnast um í nálægum löndum. Út frá þeim forsendum er mjög hastarlegt ef komið verður í bakið á mönnum með því að fylgja ekki eftir eðlilegum fyrirvörum okkar Íslendinga vegna Uruguay-viðræðna um GATT.

    Ég vil einnig koma hér, virðulegur forseti, í örfáum orðum að ummælum hæstv. utanrrh. í sjónvarpi í gærkvöld. Nú hygg ég að utanrrh., sem fer með þetta mál fyrir okkar hönd í þessum samningum, sé reyndar í þinghúsinu þó hann kjósi eins og flestir aðrir kratar að vera ekki í þingsalnum meðan þessi umræða fer fram. Ég harma það því, virðulegur forseti, að þurfa að vitna í ummæli hans í gærkvöld að honum fjarstöddum. En það verður að vera mat virðulegs forseta hvort hann vill kalla utanrrh. til.
    Í máli hans á fleiri en einni fréttastöð í gærkvöld var málflutningur hæstv. utanrrh. á þann veg að það er ekki nema um tvennt að ræða. Annaðhvort er hann svo illa upplýstur um málið að hann veit ekki um hvað það snýst eða þá hitt að hæstv. utanrrh. kaus að fara þar með blekkingar í þeim mæli að ég kann ekki dæmi um annað verra, ef svo er, úr munni ráðherra. Það var ekki einungis að hann kysi að sleppa grundvallaratriðum í málinu í samanburði á annars vegar ársgömlu tilboði fyrri ríkisstjórnar og því sem nú liggur fyrir heldur fór hann rangt með það sem hann hafði fram að færa. Þar ætla ég einungis að nefna tvö atriði.
    Hæstv. utanrrh. sagði að þarna nytum við fjarlægðarverndar. Það hefur verið upplýst að það hefur verið fellt niður. Í öðru lagi ætla ég að nefna að hann taldi að í drögunum sem nú liggja fyrir lækkuðu útflutningsbætur ekki um 65% eins og við vorum tilbúnir að gera heldur 36% og væri það íslenskum hagsmunum þóknanlegt. Þetta er alrangt sem skýrist af því að þetta þýðir að sá innflutningur sem við verðum að keppa við og sem tollígildin verða reiknuð niður frá verður óhagstæðari en annars hefði þurft að vera. Við lendum út frá þessu ákvæði í miklu erfiðari samkeppni eftir að tollígildin hafa verið lækkuð um 36% en annars hefði verið. Ég á bágt með að trúa að þetta hafi hæstv. utanrrh. sett fram vísvitandi þannig. Ég held að því miður sé hitt rétt, að hæstv. ráðherra sé ekki betur upplýstur um málið en þarna kemur fram.
    Ég ætla að koma aðeins að því um hvaða hagsmuni er að tefla, hagsmunir hverra eru í húfi. Ég held að bændur séu ekki stærsti hópurinn þar. Ég held að stærsti hópurinn séu þjónustuaðilarnir við landbúnaðinn sem vinna í vinnslunni og við aðra þjónustu tengda landbúnaðinum. Það er ósköp einfalt reikningsdæmi að þeir eru miklu fleiri en þeir bændur sem enn þá stunda frumframleiðsluna. Þetta mun koma við milliliðina. Ég hef um árabil verið talsmaður þess að milliliðir hagræði í sínum rekstri, en hverjir eru þessir milliliðir? Það er alltaf talað um það eins og eitthvað af hinu vonda og er ekkert skilgreint nánar. En milliliðirnir eru öðrum fremur fólkið í landinu sem vinnur við að búa frumframleiðsluna í það horf að hún sé neysluhæf á borð neytenda. Þetta er fólkið sem býr á Selfossi, Egilsstöðum, Blönduósi, Akureyri, Húsavík og svona gæti ég lengi talið. Á þessum stöðum mundu alvarleg áföll í okkar innlendu matvælastöðvum koma þyngst niður. Það mundi spila saman með samdrættinum í sveitunum, en þetta mundi koma miklu þyngra niður þarna en þó á landbúnaðinum sjálfum sem hefur tekið á mjög miklum samdrætti á síðustu tíu árum.
    Til viðbótar vil ég nefna að það eru æðimörg störfin á höfuðborgarsvæðinu bæði í þjónustu og úrvinnslu sem beint tengjast þessu. Ég bendi á að þetta er á þeim tíma sem aðstæður í okkar þjóðfélagi eru þannig að það hlýtur að vera hlutverk stjórnvalda númer eitt að við búum að því eins vel og hægt er sem við eigum fyrir. Með þessu móti er ég á engan hátt að draga úr því að það eigi að gera eðlilegar kröfur til landbúnaðarins og vinnslustöðva hans um eðlilega hagræðingu.
    Ég ætla, virðulegi forseti, að lokum að koma aðeins að GATT-samningunum sem nú standa yfir í heild. Umræðan hefur nefnilega verið á því stigi að við vitum sáralítið um annað sem felst í Uruguay-samningnum en það sem snýr að landbúnaðinum. Við vitum að þar er gerð sú breyting frá fyrri GATT-samningum, sem fyrst og fremst fjölluðu um tolla

á vöruviðskiptum, að nú kemur þjónustan inn til viðbótar. Hvaða hagsmunir þar eru í húfi fyrir okkur hefur ekki á nokkru stigi verið upplýst fyrir Alþingi. Það væri mjög æskilegt að þeir hæstv. ráðherrar sem eru viðstaddir þessa stundina --- ( Gripið fram í: Hvað eru þeir margir?) Ég er að reyna að telja. --- mundu reyna að koma því til skila til hæstv. utanrrh., sem ég þykist vita að sitji einhvers staðar í hliðarherbergi, að Alþingi verði upplýst um hvað felst í þessum samningum að öðru leyti og réttarstöðu okkar gagnvart þeim annars. Þar hafa menn verið langt frá því að vera sammála, þeir sérfræðingar sem hafa verið kallaðir til okkar í landbn. Það kom síðast fram í morgun að fulltrúi utanrrn. var ekki viss um hvort þessi samningur, sem nú er verið að gera, leysti eldri samning af hólmi. Taldi þó reyndar að svo mundi ekki vera því að í landbúnaðarkaflanum væri á þó nokkuð mörgum stöðum vitnað til eldri samningsins.
    Virðulegi forseti. Ég sé að tíma mínum er að ljúka og ég hef nú komið á framfæri því sem ég hefði helst viljað. En nú sé ég reyndar að einn hæstv. ráðherra hæstv. ríkisstjórnar er genginn í salinn þannig að þeim hefur fjölgað frá því að vera núll upp í einn. Það er væntanlega vegna þess, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að þetta mál er eldfimt innan ríkisstjórnarinnar. En ég ætla þá að biðja hæstv. umhvrh. að koma því á framfæri við hæstv. utanrrh. að Alþingi verði upplýst um hvað felst í GATT-samningunum sem kenndir eru við Uruguay annað en það sem fjallar um landbúnaðinn. Það hefur algerlega týnst í þessari umræðu.