Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 19:42:00 (2560)

     Pálmi Jónsson :
     Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram í dag er að mínum dómi bæði tímabær og þýðingarmikil. Það er enda ekki um neitt smámál fjallað. Við erum að

fjalla um aðild okkar að GATT, sem er okkur Íslendingum mjög mikilvæg og þýðingarmikil, en við erum þó fyrst og fremst að fjalla um breytingar á GATT-samningnum, einkanlega að því er lýtur að breytingum er varða landbúnaðarvörur, og þó fyrst og fremst þá tillögu sem lögð var fram 21. des. sl. af framkvæmdastjóra GATT, Arthur Dunkel, tillögu sem líta má á sem eins konar málamiðlunartillögu í því skyni að ná samkomulagi á milli Evrópubandalagsins annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar.
    Í sjálfu sér er það rétt, sem hér hefur komið fram, að tillaga Dunkels ber mjög keim af því að það er verið að reyna að draga Evrópubandalagsþjóðirnar inn í þetta samkomulag, en eins og allir vita strandaði GATT-samningurinn fyrir ári á andstöðu þeirra þjóða. Tillagan ber þess merki að um leið og haldið er inni í tillögunni ýmsum þeim atriðum sem varða mjög hagsmuni Bandaríkjanna er reynt að koma til móts við Evrópubandalagið með því að auka við þau atriði í þessum málum sem koma Evrópubandalagslöndunum vel.
    Ég lít svo til að sú umræða sem hér hefur farið fram í dag hafi í meginatriðum fallið í sama farveg, frá því hafa verið afar lítil frávik. Efnisatriði í tillögu Dunkels hafa verið rakin og afleiðingar af því hafa verið raktar ef svo færi að sú tillaga yrði að niðurstöðu sem við Íslendingar ættum aðild að. Ég sé ekki ástæðu til þess að ég fari að ítreka það sem fram hefur komið í umræðunum í dag um þessi efni. Þessi efnisatriði hafa verið mjög vel skýrð af ýmsum ræðumönnum og ég endurtek að þau efnisatriði hafa verið það samhljóða á milli ýmissa ræðumanna, bæði úr liði hæstv. ríkisstjórnar hér á þingi og eins frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar, að ég sé enga ástæðu til að fara ofan í þau efnisatriði frekar. Þetta hefur sem sagt verið dregið fram í dagsljósið og ég verð að lýsa yfir því að ég er ánægður með hversu þær ræður hafa í megindráttum verið samhljóða sem hér hafa verið fluttar.
    Það hefur enn fremur komið fram að í sjálfu sér séu kannski litlar líkur til þess að þessi tillaga verði samþykkt vegna þess að ýmsar þjóðir muni fyrir þann 13. janúar lýsa yfir andstöðu við hana. Lok á samningnum um þetta mál, þ.e. landbúnaðarkafla GATT-samninganna, verða væntanlega ekki á næstu vikum og enginn getur um það sagt með nokkurri vissu hve langan tíma þær samningaviðræður taka, en allar líkur benda til þess að þær séu ekki alveg á næsta leiti. Eigi að síður liggur fyrir að þess er krafist af framkvæmdastjóra GATT að einstakar þjóðir leggi fram athugasemdir sínar við þá málamiðlunartillögu sem framkvæmdastjórinn hefur flutt fyrir þann 13. þ.m. og það segir sig sjálft að það væri afar ógætilegt af okkur Íslendingum að láta undir höfuð leggjast að setja fram okkar fyrirvara, okkar skilmála varðandi þá tillögu fyrir þennan tíma. Í raun og veru liggur það svo ljóst fyrir að þar er um alveg sjálfsagðan hlut að ræða.
    Tíminn er stuttur og hæstv. ríkisstjórn hefur enn ekki tekið ákvörðun um í hvaða formi þeir fyrirvarar sem hún mun væntanlega setja fram verða, en það verður vitaskuld að taka ákvörðun um það á allra næstu dögum.
    Ég tel að það komi naumast annað til greina en að hæstv. ríkisstjórn setji fram sína fyrirvara og sín skilyrði varðandi þá tillögu sem hér er til umræðu á þann hátt að það verði samræmi við þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag. Í ljósi þess tel ég að umræðan hafi haft verulega þýðingu. Ég tel að í henni felist veruleg leiðsögn fyrir hæstv. ríkisstjórn. Ég held að með tilliti til þess sem hér hefur komið fram og með tilliti til þess að ýmsar aðrar þjóðir munu setja fram sín skilyrði, sem í raun þýðir höfnun á þeirri tillögu sem verið er að ræða, sé það ekkert meira hættuspil af okkur Íslendingum að setja fram okkar fyrirvara og okkar skilmála í þeim búningi að það megi túlka sem höfnun á tillögunni sem fyrir liggur. Ég sé fyrir mína parta ekki möguleika á því að við getum samþykkt þessa tillögu og samþykkt GATT-samning í því horfi sem hann væri ef hún yrði samþykkt og því væri nauðsynlegt að þeir fyrirvarar og skilmálar sem fram komi af hálfu

Íslands beri þessa merki.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki ræða þetta frekar efnislega í mörgum greinum. Mig langaði þó til þess að leggja áherslu á eitt atriði sem tiltölulega lítið hefur komið fram í umræðunum, en það er sérstaða Íslands. Sérstaða Íslands er mjög mikil í samfélagi þjóða að því er varðar samning eins og þennan. Í fyrsta lagi er hægt að líta á landfræðilega stöðu okkar Íslendinga og það er hægt að líta á fámenni þjóðarinnar. Þetta þýðir í fyrsta lagi að við búum í landi sem er tiltölulega erfitt fyrir landbúnaðarframleiðslu og fámenni þjóðarinnar er slíkt að markaðurinn hér hefur ekki mikla þýðingu fyrir framleiðendur annarra þjóða.
    Í öðru lagi vil ég leggja áherslu á öryggismál okkar og fjarlægðir frá öðrum löndum. Á þetta hafa sumir lagt áherslu fyrr í dag. Það er ekki viðunandi öryggi fyrir okkur Íslendinga í matvælaframleiðslu ef við verðum að verulegu leyti upp á framleiðendur annarra þjóða komnir hvað varðar þau matvæli sem við framleiðum eins og nú standa sakir. Það er afar stórt atriði fyrir okkur að við höldum okkar framleiðslu vegna öryggis okkar sjálfra. Ég nefni hollustu og heilbrigði, ég nefni þar ekki einungis ýmsa dýrasjúkdóma sem við erum í hættu með að kunni að berast inn í landið með innflutningi og þarf að vera mjög sterklega að orði komist varðandi þau efni í fyrirvara eða skilmálum Íslands. Ég nefni einnig heilbrigðisatriði er varða neytendur, okkur sjálfa, vegna mikilla lyfjagjafa sem notaðar eru við framleiðslu landbúnaðarvara víða erlendis, bæði lyfja sem eru til að vinna bug á ýmsum sníkjudýrum og sjúkdómum, en einnig og ekki síður vaxtarhormóna sem ég hygg að ýmsir telji að séu heilbrigði neytendanna ekki sérlega hollir.
    Í fjórða lagi nefni ég atvinnuhætti þjóðarinnar sem eru einhæfir í okkar stóra landi. Atvinnuhættir okkar eru þannig að þeir mynda tiltekna keðju sem ræður því hvort land okkar er byggt eða byggt ekki. Verði veruleg röskun á okkar atvinnuháttum að því er varðar landbúnað segir sig sjálft að byggðakeðjan er rofin og við stöndum frammi fyrir því að okkar land verður óbyggt land á stórum svæðum. Þetta gildir ekki einungis um sveitir heldur einnig um þéttbýlið sem tengist sveitabyggð hvarvetna um landið.
    Ég tel ástæðu til að draga fram þessi atriði sem ég kalla að lúti að sérstöðu Íslands og að henni tel ég eðlilegt að sé vikið allsterklega í þeim fyrirvara og þeim skilmálum sem ég tel nauðsynlegt að hæstv. ríkisstjórn leggi fram fyrir 13. þ.m. Enn hefur hér verið rætt um aðgerðir okkar í landbúnaðarmálum að undanförnu sem ég skal ekki ítreka. Ég tel að það sé nokkurn veginn fullrætt.
    Ég ætla ekki að blanda mér í nokkrar deilur eða orðaskak á milli hæstv. utanrrh. annars vegar og fyrrv. ráðherra í síðustu hæstv. ríkisstjórn. Ég vil aðeins minna á að tilboð sem sú ríkisstjórn setti fram að ég ætla í nóvembermánuði 1990 er hið eina tilboð sem sett hefur verið fram af hálfu okkar Íslendinga. Sú tillaga sem hér er verið að ræða á ekkert skylt við tilboð af hálfu okkar Íslendinga eins og stundum mátti skilja í þeim orðaskiptum þar sem menn voru að jafna þessu tvennu saman. Ísland hefur ekki bundið sig á nokkurn hátt í þessu máli enn. Það tilboð sem sett var fram í nóvember 1990 var að vísu sett fram af þáverandi fullgildum stjórnvöldum en var með fyrirvara í öllum greinum að því er skýrt var frá. Ég gagnrýndi það tilboð á sínum tíma vegna þess að þar var í fyrsta sinn af hálfu íslenskra stjórnvalda boðið fram að losa um hömlur á innflutningi búvara sem við höfum framleitt í okkar landi sjálfir og ég kallaði það að rjúfa skarð í varnargarð og það skarð yrði erfiðara að fylla eftir að það einu sinni hefði verið opnað. Þetta stendur vitaskuld allt.
    Ég tel að það verði að treysta því að á þessu máli verði haldið með þeim hætti að sérstaða okkar Íslendinga verði virt, að atvinnuvegir okkar geti starfað án þess að um stórbyltingar verði að ræða og að við getum áfram notið þess hér, Íslendingar, að neyta hollrar og góðrar fæðu sem framleidd er í landinu sjálfu.