Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 20:40:00 (2564)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir ræðu hans fyrr í dag og fyrir það hvernig hann tók undir þau rök sem ég færði fyrir máli mínu og sömuleiðis öðrum ræðumönnum fyrir það hvernig þeir hafa á flestan hátt gert það líka eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. dró saman í sínu máli.
    Ég verð hins vegar að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með niðurlagið hjá hæstv. ráðherra, þ.e. svör við spurningum mínum um það hvort hann teldi að það kæmi til greina fyrir okkur að gerast aðilar að samkomulagi sem byggðist á drögum Dunkels. Að vísu hafði hann svarað því í fjölmiðlum í gær afdráttarlaust að hann teldi það ekki koma til greina og ég met það að það hafi verið þannig, en hitt var þó öllu verra hvernig hann ætlaði að halda á málum á næstunni. Ég held að þrátt fyrir að hér hafi menn verið nokkuð á einni skoðun í umræðunum í dag hljótum við að bera nokkurn ugg í brjósti um það hvernig framhaldið verður, sérstaklega með tilliti til yfirlýsinga hæstv. utanrrh., kannski fyrst og fremst í fjölmiðlum í gær þar sem hann reyndi á allan hátt að gera ekki neitt úr þeim rökum sem bændasamtökin hafa fært fyrir sínu máli. Í dag var í máli hans ekkert að finna sem í sjálfu sér breytti því að hann virtist telja að lítið þyrfti að að finna. Í sjónvarpinu áðan sást svo viðtal við hæstv. utanrrh. eftir ríkisstjórnarfund. Þá sagði hann að það væri aðeins tvennt sem þyrfti að fá einhverjar lagfæringar við. Annars vegar væru sjúkdómavarnirnar, það þyrfti að herða á þeim ákvæðum og svo líka að fá lagfæringar á þeim atriðum sem snertu verðtryggingu á upphæðum. Að öðru leyti virtist hann telja að þetta væru drög að góðum samningi.
    Mér finnst því að við hv. alþm. stöndum í mikilli óvissu enn þá um það hver verði niðurstaðan í ríkisstjórninni og hvort farið verður eftir því áliti sem hefur komið fram í umræðunum. Við hljótum að fygjast mjög náið með því núna næstu daga og ég tek undir þá kröfu, sem hér hefur komið fram, að ríkisstjórnin geri grein fyrir því fyrir helgi hér á Alþingi hver verði þarna niðurstaðan.
    En það er fleira en samþykkt ríkisstjórnar sem þarna skiptir máli. Það er hvernig verður unnið að því að fylgja málinu eftir. Við erum sammála um að það þurfi að leggja þessar athugasemdir fram á fundi nefndarinnar nk. mánudag. En það er ekki nema hluti af því hvernig á að vinna málinu framgang.
    Í því minnisblaði sem ég minntist á í dag frá norsku bændasamtökunum frá síðasta mánuði kemur einmitt fram að það þurfi að undirbúa svona hluti vel, það þurfi að eiga viðræður við fulltrúa þeirra landa sem líklegt er að fá til stuðnings við sig. Það getur skipt sköpum. Við getum lítið gert einir af 108, en ef við reynum að fylkja liði getum við að sjálfsögðu haft margföld áhrif, fylkja liði með öðrum sem eru okkur sammála eða fást til að viðurkenna okkar sjónarmið. Þetta var það sem Norðmenn og fleiri voru að reyna að gera núna í desember undir forustu Kanadamanna og þess vegna er sorglegt að Íslendingar skyldu ekki sýna í verki að þeir vildu standa svona að málum. Að sjálfsögðu eru þar farin glötuð tækifæri og við vitum ekki hversu dýrkeypt þau verða. En það er algert lágmark að nú verði þá snúið við blaðinu, að ríkisstjórnin fari að vinna í málinu, að leita eftir samherjum og fylgja málinu þannig eftir. Ég hygg að það gæti verið þarfari utanferð hjá hæstv. landbrh. en flestar aðrar ef hann reyndi nú að fara og ræða við fulltrúa þeirra landa sem þarna gætu komið til greina og reyna að fá samstöðu með þeim. Það er þetta sem mér finnst að við verðum að fá fram, hvernig á að halda á málinu. Á bara að gera einhverja samþykkt til að þvo hendur sínar og leggja þarna fram og láta svo skeika að sköpuðu hvort það verði okkur til bjargar að aðrar og voldugri þjóðir verði harðari og hafni þessu algerlega eða að við fáum þetta yfir okkur og verði stillt upp við vegg? Því að að sjálfsögðu væntum við þess að við getum átt samleið með nýjum GATT-samningi. Það er útúrsnúningur að segja að bændasamtökin séu að hafna allri aðild að GATT-viðræðum og GATT-samningi. Þau hafna þeim drögum að samningi sem Dunkel lagði fram vegna þess að þau séu algerlega óaðgengileg fyrir íslenskan landbúnað. En í niðurlagi bréfsins segja þau, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Bændasamtökin munu áfram hafa þetta mál til umfjöllunar og fylgjast náið með framvindu þess. Þau eru reiðubúin hvenær sem er til viðræðna við stjórnvöld um meðferð þessa vandasama máls.``
    Með tilliti til umræðnanna í dag virðist mér að megi fullyrða að yfirgnæfandi meiri hluti alþingismanna er þarna á sömu skoðun.
    Mér fannst það vera vel orðuð setning hjá hv. 3. þm. Austurl. að segja að þessi samningsdrög væru samningur valdsins og peninganna. Með tilliti til þess ætti að vera auðveldara fyrir okkur að fá þá sem vilja vinna að alþjóðasamstarfi á öðrum grundvelli til að leggja okkur lið. Einnig mætti undirstrika orð hv. 4. þm. Reykv. þar sem hann lagði áherslu á að við ættum ekki að vera að knékrjúpa í auðmýkt fyrir þeim sem vilja beita okkur órétti eins og hér hafa flestir sagt að þessi samningur væri gagnvart okkur vegna þess hvernig við höfum unnið að þessum málum. Við erum búin að marka ákveðna stefnu til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar fyrir þjóðarhag og væntum þess að á komandi árum leiði það til ávinnings fyrir alla aðila en svo kæmi þessi samningur, sem hæstv. utanrrh. segir að sé að flestu leyti góður fyrir okkur, og kippir fótunum undan öllum þessum áætlunum okkar. Þess vegna hljótum við að vonast til þess að hér náist breyting fram en það gerist ekki nema með því að fylgja málinu eftir af mikilli alvöru og hörku.
    Ég skal ekki eyða tíma í að víkja að mörgum fleiri atriðum sem hér hafa komið fram þó að víða hafi verið komið við.
    Hv. 3. þm. Reykn. vildi ekki trúa okkur hæstv. landbrh. að við færum með rétt mál þar sem við vitnuðum í orð yfirdýralæknis um hversu mjög mundi draga úr sjúkdómaverndinni, ef þannig má orða, þar sem íslensk lög héldu ekki lengur. En það er fleira en sjúkdómar eins og hér var reyndar vikið að af ræðumönnum öðrum. Það er einnig hollusta matvælanna. Yfirdýralæknir sagði að við gætum t.d. ekki bannað innflutning matvæla vegna framleiðslu þeirra með miklum lyfjum eða hormónum, ef það væri leyft í viðkomandi landi. Þannig er vissulega á margt að líta.
    Hæstv. utanrrh. er farinn í burtu, en mér finnst ég verða, og sagði honum það reyndar áður en hann fór, aðeins að víkja að útreikningum hans þar sem hann taldi sig vera eina boðbera sannleikans. Það er þessi frásögn hans að innlendu stuðningsaðgerðirnar hefðu samkvæmt tilboði fyrrv. ríkisstjórnar átt að lækka um 25% en samkvæmt þessum drögum aðeins um 20%. Ég held að það hafi varla neinn skilið á annan hátt en þann að þar með væri hann að segja að þessi drög væru hagkvæmari en tilboðið í fyrra. En hann sleppti að segja frá aðalatriðinu, við hvaða grunn væri miðað. Tilboðið í fyrra var miðað við niðurgreiðslur á árinu 1988, eins og ég sagði reyndar í minni fyrri ræðu, og þá var upphæðin 1.000 millj. kr. 25% lækkun á því væri þá niður í 750 millj. eftir 25% lækkun en það væri grunnurinn 1988 sem yrði þá verðtryggður. Hins vegar er talan 20% í drögum Dunkels miðuð við meðaltal áranna 1986--1988. Samtals voru niðurgreiðslur þá 1.900 millj. kr. Ef við deilum með þremur í þá tölu fáum við út um 630 millj. Ef við lækkum þá tölu um 20% eigum við aðeins eftir rúmar 500 millj. kr. sem við megum nota sem grunn við stuðningsaðgerðirnar, þ.e. um það bil þriðjungi lægri tölu en með tilboðinu frá því í fyrra. Utanrrh. segist ekkert hafa nefnt á hvaða grunni þetta var byggt. En útkoman er samt sú að þarna er gífurlegur munur á tilboðunum í óhag miðað við drög Dunkels, og það hefur stundum verið nefnt að ljúga með þögninni að gefa í skyn að hérna væri ekki um lakari kost að ræða.
    Um innflutninginn skal ég ekki segja margt. Að vísu get ég ítrekað þetta með fjarlægðarverndina sem utanrrh. sagði í viðtali í gær að við nytum áfram þó að nú sé miðað við verðið hingað komið eins og glöggt kom fram minnir mig hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. En fjarlægðarverndin hverfur líka af öðrum sökum, t.d. yrðu mjólkurvörur að sjálfsögðu ekki fluttar hingað með öllu vatninu í. Það yrði flutt hingað undanrennuduft og smjör. Hæstv. heilbrrh. hefur nýlega gefið út reglugerð um endurunna mjólk þannig að það verður flutt hingað inn undanrennuduft og smjör frá Nýja-Sjálandi sem er á algeru lágmarksverði og það notað síðan til að hræra upp og búa til mjólkurvörur úr. Þannig er hægt að fá lágt verð því að við megum ekkert leggja á flutningskostnaðinn á þessu frá Nýja-Sjálandi, þ.e. hann dregst frá því sem við megum leggja á. Það eru því mörg atriði sem hægt væri að tína til, en það hafa aðrir ræðumenn gert í dag mjög skýrt og greinilega og ég skal því ekki lengja þessa umræðu frekar.
    Ég ítreka þakklæti mitt fyrir þessa umræðu sem ég tel hafa verið mjög málefnalega og góða, en fyrst og fremst skora ég á hæstv. landbrh. að fylgja nú málinu fast eftir, fylgja og standa við sína sannfæringu og sín orð.