Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 16:31:00 (2613)

     Kristín Ástgeirsdóttir (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. 1. þm. Austurl. sem sögð voru áðan. Við erum hér dag eftir dag að ræða stórmál og það er ekki aðeins í dag í þessari umræðu um Hagræðingarsjóðinn sem ráðherrar eru fjarverandi heldur gerðist það líka þegar var verið að ræða hið svokallaða GATT-mál. Við sem sitjum í efh.- og viðskn. erum á stöðugum fundum en það vill líka þannig til að mörg okkar eru um leið að reyna að taka þátt í umræðum um þau mál sem hér eru á dagskrá. Það er nú einu sinni þannig að fólk er í fleiri en einni nefnd og jafnvel fleiri en tveimur og þess vegna er mjög brýnt að við fáum að vita hvernig framhaldið á að vera. Sú sem hér stendur er búin að vera á þremur nefndarfundum í dag. Þeir verða sem betur fer ekki fleiri, en við stöndum frammi fyrir því nú að skila nefndarálitum. Ég fer þess eindregið á leit við forseta að tekið verði tillit til þessara aðstæðna og mig langar til að spyrjast fyrir um það hver ætlunin er með morgundaginn. Er hugsanlegt að við fáum svigrúm á morgun til þess að klára nefndarálit? Eða hver er áætlunin fyrir morgundaginn?