Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 15:45:00 (2696)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Það eru hálfmáttlaus andsvörin hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. þegar hann á sér lítið annað til málsvarnar en telja það vera tímatöf í þinginu þegar svo augljósar villur í málflutningi eru leiðréttar í umræðum um andsvör.
    Hv. þm. vitnaði svo til þess að síðar á þessu ári yrðu útgerðaraðilum boðnar aflaheimildirnar til kaups með forkaupsrétti á gangverði. Það er alveg satt og rétt. En lagaákvæðin um að þessar aflaheimildir skyldu boðnar útgerðarmönnum til kaups á gangverði voru settar í tíð fyrri ríkisstjórnar. Þær voru settar með atkvæði hv. þm. Þær standa óbreyttar í því frv. til laga sem liggur fyrir þessu þingi. Þau kaup sem fram fara í haust fara fram á grundvelli þessara skýru lagaákvæða og það voru þau sem hv. þm. vitnaði til. Það er þess vegna augljóst og enn skýrar eftir að hv. þm. tók til máls að hér er ekki um nýjar álögur að ræða. Hér er verið að bjóða þessar aflaheimildir til kaups á grundvelli þeirra lagaheimilda sem settar voru í tíð fyrri ríkisstjórnar, fluttar af þeirri ríkisstjórn sem hv. þm. átti sæti í og urðu að lögum með atkvæði hv. þm.