Sala Skipaútgerðar ríkisins og þjónusta við landsbyggðina

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:01:00 (2745)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að undanfarnar vikur hafa

verið í gangi viðræður um framtíð Skipaútgerðar ríkisins milli samgrh. annars vegar og hins vegar undirbúningshóps að stofnun hlutafélags um strandsiglingar. Í gær bárust þær fréttir að hæstv. samgrh. hefði hafnað beiðni undirbúningsnefndarinnar um viðbótarfrest til þess að safna hlutafé og ganga frá stofnun fyrirtækisins. Ég vil bera fram við hæstv. ráðherra þá spurningu hvort óyggjandi sé að hæstv. ráðherra hafi slitið viðræðunum við undirbúningsnefndina. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra færi þá rök fyrir því hvers vegna hann gerir svo í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hann hefur gefið um málið m.a. í fréttatilkynningu frá 30. des. sl. Í yfirlýsingu ráðherra kemur fram að hann mun láta reyna á það til þrautar í viðræðum við undirbúningsnefndina hvort grundvöllur sé fyrir samkomulagi um að félagið kaupi eignir Skipaútgerðarinnar.
    Í þessari fréttatilkynningu kemur líka fram að hér er um að ræða að framfylgja markmiðum ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Mér finnst það einkennileg einkavæðing hjá hæstv. ráðherra að hafna viðræðum við hóp manna sem er tilbúinn og hefur gert tilboð í allar eignir félagsins en taka í stað þess upp viðræður við aðila sem einungis er reiðubúinn að leigja eitt skip að svo stöddu án allra skuldbindinga um að kaupa það. Það þykir mér einkennileg einkavæðing svo ekki sé meira sagt.
    Ég vil líka á þessum stutta tíma sem ég hef til að fjalla um þetta mál biðja hæstv. ráðherra um að gera þingheimi grein fyrir því hvernig tryggja eigi þjónustu við ýmsar hafnir á landsbyggðinni sem óhjákvæmilega munu ekki njóta neinna reglubundinna siglinga ef Skipaútgerð ríkisins verður lögð niður sem eins og mál standa núna lítur út fyrir að verði jafnvel um nk. mánaðamót. Ég fæ ekki séð að þær yfirlýsingar ráðherrans standist að unnt sé að tryggja einhverja lágmarksþjónustu ef ekki á að veita til hennar nokkurt fé.
    Það er þannig, virðulegur forseti, fyllsta ástæða út frá hagsmunum landsbyggðarinnar og út frá hagsmunum starfsmanna fyrirtækisins og út frá hagsmunum þeirra sem versla með vörur, bæði í Reykjavík og á Akureyri að óska eftir því að hæstv. ráðherra geri grein fyrir áformum sínum í málinu.