Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 14:55:00 (2778)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Forseti hefði átt að vera svona nákvæmur áðan þegar hæstv. samgrh. var leyft að taka upp efnislega umræðu um mál sem ekki var á dagskrá. Ástæðan fyrir því að ég geri hér andsvar er þessi: Hér fór fram í gær samkvæmt þingskapalögum umræða í 30 mínútur sem hv. 5. þm. Vestf. opnaði um málefni Skipaútgerðar ríkisins. Spurningar hans voru mjög einfaldar: Hvort sú undirbúningsnefnd að stofnun hlutafélags sæti enn að störfum og hvernig samningar stæðu.
    Ráðherra svaraði engu en við vorum ekki fyrr komin heim í gær, hv. þingmenn, en fjölmiðlar sögðu okkur það í fréttum að verið væri að ganga frá samningum við Samskip. Þetta heitir, frú forseti, og er mjög alvarlegt mál, að ráðherra segi hv. þjóðþinginu ósatt. Í Danmörku standa yfir málaferli fyrir þá sök eina að fyrrv. ráðherra sagði þjóðþinginu ósatt. Síðan vogar hæstv. samgrh. sér að segja það hér að hann hafi sagt að samningar stæðu yfir. En hann sagði ekki að það stæði yfir fundur þar sem verið væri að ganga frá kaupum. Ég vil heyra, hæstv. forseti, álit forseta á fullyrðingum sem þessum.
    Hér situr formaður undirbúningsnefndarinnar, hv. 4. þm. Reykv. Hann kallaði fram í þegar hæstv. samgrh. var að tala áðan og spurði eins og sá hv. þm. sem hér stendur: Er nefndin aflögð og er verið að ganga frá samningum? Hann veit það ekki heldur.
    Ég vil, frú forseti, leggja á það mikla áherslu að hér verði ekki það fordæmi skapað að hæstv. ráðherra líðist að segja þjóðþinginu ósatt. Það er ábyrgð hæstvirtra forseta þessa þings að svo verði ekki og það mál mun að sjálfsögðu sótt lengra ef ekki verður hér

úr forsetastóli felldur um það úrskurður. Sagði hæstv. ráðherra þjóðþinginu satt eða ósatt?