Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 15:03:00 (2783)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Það verður greinilega gaman þegar við förum að ræða samgöngumálin í víðara samhengi við hæstv. samgrh. síðar í vetur. En ég held að hæstv. ráðherra ætti að bíða með stór orð og miklar yfirlýsingar og skot í annarra garð. Staða hans er ekki það beysin um þessar mundir eða frammistaða í þessu máli. Af því að hann var að vitna í það hvernig að þessu máli var unnið á árunum 1990 og 1991 mætti það verða hæstv. samgrh. fordæmi að þrátt fyrir þær viðræður, sem þá voru í gangi og skiluðu m.a. þeirri viljaniðurstöðu sem ég greindi frá, voru, til þess að tryggja að í öllu falli yrði unnt að halda uppi óbreyttri þjónustu, lagðir fram í fjárlögum umtalsverðir fjármunir til rekstrar Skipaútgerðar ríkisins, þrátt fyrir það að menn teldu þá ástæðu til að ætla að þeir væru nánast með í höndunum niðurstöður um umtalsverðan sparnað og endurskipulagningu í þessum málum. Hæstv. núv. samgrh. lætur loka fjárlögunum án þess að hafa eina einustu krónu í rekstrarstyrk til Ríkisskipa, með gjörsamlega allt upp í loft í þessu máli.