Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 15:04:00 (2784)

     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Þessi umræða og þetta mál í heild sinni er orðið heldur dapurlegt. Ég get satt að segja naumast tekið þátt í umræðum við hæstv. ráðherra um þetta mál. Mér ofbýður. Ég hef látið dreifa skjölum, sem skýra þessi mál, til allra hv. alþm. og vona að þeir kynni sér þau vel og mega gjarnan láta þau ganga áfram sem víðast. Þar er sagan rakin, aðeins nokkur partur af henni, en þetta á allt eftir að skýrast og Alþingi á að sjálfsögðu eftir að taka ákvörðun um þetta fyrirtæki sem þjóðin öll á. Það gerir enginn annar.
    Að vísu er til stjórnarnefnd, þriggja manna nefnd, sem skipuð er af ráðherra. Hann vildi ekki greina okkur frá því hver væri þriðji maðurinn. Það er Kristinn H. Gunnarsson, félagi okkar, Geir Gunnarsson, sá ágætismaður sem ég hef rætt við og veit ekkert um hvað ráðherra hefur verið að bauka, og svo er það sá sem ekki má nefna, Benedikt Jóhannesson. Hann hefur verið í samstarfi og samvinnu við ráðherrann veit ég. En ég held að fæst orð séu best á þessu stigi. Alþingi tekur þetta mál til afgreiðslu.