Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 15:37:00 (2794)

          Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
          Hæstv. forseti. Má ég biðja hæstv. forseta að biðja hæstv. samgrh. að ganga í salinn. ( Forseti: Ef hv. þm. ætlar að tala um gæslu þingskapa, þá . . .  ) Ég óska eftir að hæstv. samgrh. verði viðstaddur og hann er í húsinu.
    Hæstv. forseti. Umræða sú sem ég gerði að umræðuefni áðan stóð í gær á tímanum frá kl. 6 til kl. að verða 7. Ég man ekki nákvæmlega hvenær henni lauk en klukkan var áreiðanlega orðin töluvert yfir hálfsjö. Klukkan 7 birtist eftirfarandi frétt í Ríkisútvarpinu sem ég ætla að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðaði svo:
    ,,Samskip hf. hafa gert kaupsamning um strandferðaskipið Esju. Ómar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Samskipa, staðfesti skömmu fyrir fréttir að öll meginatriði varðandi kaupin væru í höfn. Hann sagði að reyndar væru örfá smáatriði ófrágengin en þau ættu ekki að geta sett strik í reikninginn. Samskip taka við Esjunni þann 1. febr. Verðið fæst ekki uppgefið að svo stöddu. Samskip skuldbinda sig til að ráða úr hópi starfsmanna Ríkisskipa sem nemur einni áhöfn á Esju. Þá eru forráðamenn Samskipa og samgrn. byrjaðir að ræða kaup skipafélagsins á ýmsu öðru, svo sem lyfturum og gámum. Ómar Jóhannsson sagði að strandferðaskipið Hekla hafi verið nefnt í þessu sambandi en ekki þriðja skip Ríkisskipa, Askja.``
    Þannig hljóðaði þessi frétt, frú forseti, og henni hefur ekki verið hnekkt. Ég hlýt því að óska eftir því við hæstv. forseta að þingmenn fái úr því skorið hvort forsætisnefnd þingsins líti svo á að hæstv. ráðherra hafi gefið réttar upplýsingar hér á þingfundi í gær. Það getur ekki verið að hæstv. samgrh. hafi verið ókunnugt um að þessi fundur stæði yfir og samningar væru svo langt komnir sem hér segir. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hv. 8. þm. Reykn. sagði hér áðan um eðli þingræðis. En það gefur auga leið að það er óþolandi að hv. þm. geti ekki treyst hæstv. ráðherrum, þ.e. þeim sem fara með framkvæmdarvald fyrir hönd hins háa Alþingis. Þá er þetta þjóðþing okkar komið á sama stig og slíkar samkundur í bananalýðveldum svokölluðum um víða veröld. Ábyrgð forsætisnefndar þingsins sem, eins og hv. 8. þm. Reykn. sagði hér áðan, er útvörður þingræðisins og ber ábyrgð á að þetta þing sé rekið á þeim forsendum sem íslenska þjóðin hefur gert ráð fyrir frá órofa tíð er því mikil og það er krafa mín úr þessum ræðustól að þingmenn fái greinargerð um þetta mál.
    Ég býst við að ýmsir hv. þm. hér hafi fylgst með mjög umfangsmiklu máli sem lengi er búið að vera fyrir alls kyns rannsóknarnefndum í Danmörku, svokölluðu Tamílamáli. Þar var talið að dómsmálaráðherra Danmerkur hefði orðið á við afgreiðslu í flóttamannamálum. Fyrrverandi ráðherra gerðist síðan þingforseti og hefur auðvitað dregist inn í þetta mál en hann hefur dregist þar inn af tvennum sökum. Í fyrsta lagi fyrir að hafa ekki farið að lögum sem ráðherra en í öðru lagi að hafa leynt þingið og aðstoðað fleiri núv. ráðherra við að leyna þingið staðreyndum. Og þar í landi er þetta tekið svo alvarlega að skipuð var sérstök rannsóknarnefnd í málinu sem nú mun vera um það bil að ljúka störfum. Ég vil því enn á ný reyna að útskýra þetta mál og krefjast þess af hæstv. forseta að menn taki það alvarlega ef hæstv. ráðherra, hver sem hann nú er, og ég tek það fram að

hér er ekki um flokkapólitík að ræða heldur sjálfan grundvöll þingræðisins, hefur sagt svo ósatt sem þessi frétt sem ég hef nú lesið ber allt vitni. Þá hljótum við að eiga rétt á því að fá að vita, hvort þingið sættir sig við þessi samskipti þings og ráðherra eða ekki.