Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 17:09:00 (2803)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson): (andsvar) :
     Það er eitt atriði sem kom fram aftur hjá hv. ræðumanni og varðar hið víðtæka valdsvið svokallaðra tilsjónarmanna. Ég vil benda á að á bls. 24 í nál. minni hlutans er lýst í bréfi Ríkisendurskoðunar til hv. nefndar hvaða atriði Ríkisendurskoðun telur vera mjög mikilvæg í aðgerðum er miða að bættum fjárreiðum ríkisins og stofnana þess og þar er sagt ,,að ábyrgð á framkvæmd fjárlaga sé fyrst og fremst í höndum viðkomandi fagráðuneytis og forstöðumanna ríkisstofnana.`` Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það eru viðkomandi ráðherrar sem bera ábyrgð á framkvæmd fjárlaganna og þess vegna sækjumst við eftir því að hafa með þessum skýra hætti vald til þess að grípa inn í þegar á þarf að halda. Ég ætla aðeins að segja að auðvitað vonumst við til þess að sem allra sjaldnast þurfi á því að halda að grípa til þess valds sem hér er gert ráð fyrir í frumvarpsgreininni. Það komi þannig skýrt fram þegar kvartað er um þetta mikla vald, sem viðkomandi menn hafa, því það vald sækja þeir beint til ráðherrans og starfa eingöngu í hans umboði.