Framkvæmdasjóður Íslands

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 10:01:00 (2812)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 70/1985, um Framkvæmdasjóð Íslands, frá meiri hluta efh.- og viðskn.
    Nefndin hefur fjallað um frv. þetta sem felur í sér að Framkvæmdasjóður Íslands verði undir stjórn Lánasýslu ríkisins. Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um málið Indriða H. Þorláksson og Snorra Olsen frá fjmrn.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frv.
    Undir þetta nál. rita 12. des. 1991 Matthías Bjarnason, Rannveig Guðmundsdóttir, Geir H. Haarde, Ingi Björn Albertsson, Sólveig Pétursdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir með fyrirvara.
    Í tengslum við þá umræðu sem hér hefst finnst mér eðlilegt að benda á að á þskj. 276 er brtt. við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1992 frá Rannveigu Guðmundsdóttur og þar segir að á eftir 11. gr. komi ný grein er orðist svo:
    ,,Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að yfirtaka skuldir Framkvæmdasjóðs Íslands að fjárhæð allt að 1.700 millj. kr.``
    Þá er líka eðlilegt að benda á að í 4. gr. frv. til laga um breytingar á Framkvæmdasjóði Íslands segir svo:
    ,,Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1992. Lánasýsla ríkisins tekur frá sama tíma við umsjá allra eigna og skulda, krafna og skuldbindinga Framkvæmdasjóðs Íslands eins og þær standa við gildistöku laga þessara.``
    Að sjálfsögðu verður það kannað á milli 2. og 3. umræðu hvort e.t.v. þurfi að breyta þessu gildistökuákvæði.