Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 13:14:00 (2829)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Ég hef allnokkrum sinnum í umræðum um þetta mál svo og í þingskapaumræðum og að ég hygg af ýmsu öðru tilefni tekið fram að þau lög, sem hér eru til umfjöllunar, verði tekin til endurskoðunar fyrir lok þessa árs ásamt gildandi lögum um fiskveiðistjórnun á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða sem samþykkt var með lagasetningunni á sínum tíma. Þar var kveðið á um samráð við hagsmunasamtök og sjávarútvegsnefndir Alþingis. Í samræmi við þetta hef ég flutt brtt. vegna þess að fyrir mistök eða misskilning við brtt., sem þegar hafa verið samþykktar við 2. umr. og fluttar voru af hv. sjútvn., féll þetta ákvæði til bráðabirgða niður. En til þess að ítreka fyrri yfirlýsingar í þessu efni þykir rétt að ákvæðið til bráðabirgða haldist enda hefur af hálfu ráðuneytisins aldrei staðið annað til en að sú endurskoðun fari fram í samhengi við heildarendurskoðun fiskveiðistefnunnar og að höfðu samráði við þá aðila sem þar er kveðið á um.