Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 14:45:00 (2837)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan kosið að hæstv. forsrh. væri hér þótt að vísu sé ágætt að hafa hæstv. fjmrh. Ég ætla ekki að flytja langt mál en nokkur atriði vildi ég nefna sem ég vildi m.a. beina til hæstv. forsrh. Ég hafði ekki hugsað mér að ræða einstök efnisatriði frv. Það hefur verið gert ítarlega af framsögumönnum minni hlutans og hef ég þar litlu við að bæta. Ég ætla þó að ræða aðeins um eitt efnisatriði en vildi svo nota tækifærið og ræða um þá almennu efnahagsstefnu sem fram kemur í þessu frv. og fjárlögum að sjálfsögðu og lánsfjárlögum, a.m.k. að því leyti sem snýr að vöxtunum. Að vísu er kannski of mikið sagt að þarna komi fram efnahagsstefna en úr einhverju verður að lesa hugmyndir hæstv. ríkisstjórnar í efnahagsmálum. Mér sýnist að það verði helst gert úr þessum frv. og svo að sjálfsögðu því sem hæstv. ráðherrar hafa sagt.
    Þó er eitt efnisatriði sem er rétt að koma inn á á þessu stigi og það er með hina svokölluðu kommissara, sem hafa verið hér nokkuð til umræðu. Athygli hefur verið vakin á því að í drögum að frv. sem milliþinganefnd í minni tíð vann að og í voru fulltrúar allra flokka kom fram ákvæði sem nefnt hefur verið í þessu sambandi og reyndar fullyrt að væri svipað. Rétt er að taka það fram að þau drög voru aldrei samþykkt í ríkisstjórninni, þau hafa bara verið sýnd og ekki afstaða tekin til þess máls. Hins vegar hafði ég skoðað það og gerði mér grein fyrir viðkvæmni málsins og að það þyrfti að fara þarna afar varlega. Mér sýnist hins vegar að orðalag það sem nú er í frv. sé þess eðlis að þess sé alls ekki gætt að firra t.d. forstöðumenn hugsanlegri ábyrgð. ( Gripið fram í: Í brtt.?) Já, það er í brtt. sem ég er með hérna. Í brtt. segir, með leyfi forseta:
    ,,Hlutaðeigandi ráðherra er þó heimilt að setja mann eða nefnd manna, um tiltekinn tíma, til að vera tilsjónarmenn stofnana, einnar eða fleiri í senn, ef sýnt þykir að kostnaður við rekstur þeirra fari fram úr þeim fjárveitingum sem fjárlög ákveða. Starfssvið tilsjónarmanna er að skipuleggja og hafa eftirlit með reikningshaldi og gerð fjárhagsáætlana stofnana og taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar, þar á meðal um umfang starfsmannahalds, í samráði við ráðherra . . .  `` o.s.frv.
    Mér sýnist þetta vera æðimikið annað en var í fyrrnefndum drögum. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Hafi verulegir annmarkar komið fram á rekstri stofnunar og ekki er bætt úr þrátt fyrir fyrirmæli ráðuneytis er ráðherra heimilt að ráða sérstakan eftirlitsaðila um stundarsakir, þó ekki lengur en til árs í senn, til að fylgjast náið með rekstri stofnunar fyrir hönd ráðherra.`` Þetta eru náttúrlega allt aðrar áherslur en eru í brtt. nefndarinnar. Hér er t.d. ekkert í skilyrði sett, það er hægt að setja slíkan mann hvar sem er. Það er ekki sett það skilyrði að verulegir annmarkar hafi komið fram á rekstri stofnunarinnar. Þar segir aðeins að ,,sýnt þykir að kostnaður við reksturinn fari fram úr þeim fjárveitingum sem fjárlög ákveða.`` Það getur lengi verið svo án þess að það fari þannig og án þess að það sé sannað.
    Og svo stendur hér í ,,að hafa eftirlit með reikningshaldi og gerð fjárhagsáætlunar stofnana`` og hæstv. fjmrh. hefur reyndar vakið athygli á því sem er rétt að fjmrn. setji reglur um það. En það stendur einnig ,,og taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar, þar á

meðal um umfang starfsmannahalds.``
    Í því sem fyrrnefnd nefnd lagði fram, og í sátu tveir virtir sjálfstæðismenn og m.a. einn núv. ráðherra, ef ég man rétt, er þetta forðast. Þar er forðast að segja að þessir menn megi taka ákvarðanir, enda stangast það vitanlega algjörlega á við ábyrgð forstjóra stofnunarinnar. Hver ber ábyrgðina ef þessir menn, tilsjónarmenn svokallaðir, hafa tekið ákvarðanir í trássi við forstjóra um einhverja ákveðna fjárskuldbindingu? Ég vil aðeins vekja athygli á þessu að hér er um reginmun að ræða jafnvel eftir þær breytingar sem nú eru lagðar til.
    Hér hefur verið rakið bréf Ríkisendurskoðunar sem varar eindregið við þessu. Það mun að vísu vera byggt á því eins og þetta stóð í upphaflegum tillögum, en fróðlegt væri að vita hvort leitað hafi verið álits Ríkisendurskoðunar á þessu nýja orðalagi.
    Fleira má þar nefna, t.d. er aðeins heimild til árs í senn og svo að sjálfsögðu bara að fylgjast með rekstrinum o.s.frv. Ég vara því eindregið við þessu og tel hér vera komið inn á afar hættulega braut í þessu sambandi. Ég er ekki að segja að þessa kunni ekki stundum að vera þörf en það er ábyrgðarhluti að svipta forstöðumann þeirri ábyrgð sem hann á vitanlega að hafa eins og ég hef þegar rakið.
    Eins og ég sagði í upphafi þá ætla ég að öðru leyti ekki að ræða um efnisatriði frv. heldur um þá efnahagsstefnu sem lýsir sér í þessu frv. ásamt fjárlögum og að einhverju litlu leyti lánsfjárlögum. Ég óskaði eftir því að hæstv. forsrh. væri í salnum og sé að hann er nú hér kominn. Hvert er ástandið í íslenskum efnahagsmálum í dag? Þjóðhagsstofnun spáir því að samdráttur í þjóðartekjum verði um 6%, reyndar hefur hæstv. forsrh. sagt að það kunni að verða eitthvað minna og að sjálfsögðu fögnum við því þó að við höfum ekki heyrt neinar tölur í því sambandi. Kannski verði meiri loðna því það er venjan í íslenskum sjávarútvegi og efnahagslífi að það sveiflast mjög með aflabrögðum og hefur reynst afar erfitt að spá þar nákvæmlega um.
    En því verður engu að síður neitað að þetta er alvarlegur samdráttur sem verður að bregðast við. Það eykur að sjálfsögðu á þennan vanda að þær vonir sem voru bundnar við t.d. álbræðslu bregðast og er það meðtalið í þessum tölum sem Þjóðhagsstofnun hefur látið frá sér fara.
    Ég ætla hins vegar að tala um það hvernig við þessu er brugðist. Ég tel að núv. ríkisstjórn bregðist alrangt við þessum samdrætti. Ég ætla alls ekki að gera lítið úr viðleitni hæstv. ríkisstjórnar til að draga úr halla á fjárlögum. Þegar litið er á fjárlög ríkisins yfir lengri tíma þurfa þau að vera hallalaus. En það er alls ekki svo og ég hef hvergi séð í nokkrum ritum eða bókum eða heyrt fróða menn um það tala að halli geti ekki verið á fjárlögum á einstökum árum. Þvert á móti hef ég hvað eftir annað hlustað á þá menn sem vel þekkja til fullyrða að það sé eðlilegt að halli sé á fjárlögum þegar kreppa eða erfiðleikar eru í þjóðfélaginu og fjárlögin þá notuð til að örva atvinnustarfsemina í þjóðfélaginu. Þetta er að mínu mati það alvarlegasta sem núv. ríkisstjórn gerir ekki. Hún bregst í því að örva atvinnulífið í þjóðfélaginu í þessu ástandi.
    Það þarf kannski ekki mikið til, margir möguleikar eru til. Það eru t.d. fjölmörg athyglisverð fyrirtæki sem framleiða hugbúnað. Ég átti nýlega viðtal við einn slíkan mann sem er á þröskuldinum með mjög athyglisverðar hugmyndir til sölu erlendis. Í raun og veru vantar slík fyrirtæki í mörgum tilfellum aðeins herslumuninn, aðeins smávegis stuðning í markaðsleitinni og þróunarstarfinu. En nú er ekkert að fá, upplýsa þessi fyrirtæki öll, og þó eru til aðilar sem ættu að gera slíkt en það er búið að slá svo á hönd þessara aðila með einhverju fortíðarvandarugli, ef ég má orða það svo, að bókstaflega enginn aðili þorir að hreyfa sig. Þetta er kannski það alvarlegasta, það er búið að skapa andrúmsloft vonleysis. En þetta vil ég leyfa mér að gagnrýna. Ég tel að það væri engin goðgá þótt halli á fjárlögum væri nokkur hundruð milljónum, jafnvel milljarði meiri ef það fjármagn væri notað skynsamlega til að örva atvinnulífið.
    Hæstv. forsrh. minntist á eina hugmynd og er það reyndar sú eina sem ég hef heyrt frá hæstv. forsrh. Hún var sú að gera Ísland að miðstöð fjármagnsþjónustu. Svo vill til að ég skoðaði það mál nokkuð, það kom á mitt borð, og ég leitaði umsagnar bæði Seðlabanka og viðskrh. og fékk ekki jákvæða umsögn. Staðreyndin er vitanlega sú að þetta er afar vandmeðfarið mál. Ég vona svo sannarlega og ætla alls ekki hæstv. forsrh. að hugsa sér að Ísland verði einhvers konar friðarhöfn fyrir vafasamt fjármagn, fyrir mafíur og þess háttar aðila sem draga að sér fé og vilja koma því á óhultan stað. En jafnvel þó að menn ætli sér það ekki er mjög vandmeðfarið að koma í veg fyrir slíkt ef á annað borð er boðið upp á jákvæða fjármagnsþjónustu. Ég sagði áðan að ég hefði skoðað þetta mál og ég tel það athyglisvert en ég held að á því séu mjög margir annmarkar og útilokað að taka afstöðu til þess fyrr en maður sér hvernig á þeim hlutum verður tekið.
    En hér er fjölmargt fleira sem má segja að sé í burðarliðnum og vantar tiltölulega mjög litla opinbera aðstoð eins og með hugbúnaðarfyrirtækið sem ég nefndi áðan. Ferðaþjónusta hefur vaxið mjög mikið á undanförnum árum og allir eru sammála um það að þar eru ákaflega miklir möguleikar. En hins vegar er eins þar og annars staðar að vegna smæðar okkar þá þurfa fleiri hendur að koma að. Veita þarf smávegis opinbera aðstoð og það er sjálfsagt að veita hana. Veita hana í gegnum sjóði og stofnanir sem til þess eru ætlaðar og örva og hvetja slíka sjóði og stofnanir til þess að gera það og láta þær fá fjármagn í því skyni.
    Mér er fullkomlega ljóst að eitthvað af þessu tapast. Það er t.d. sagt í Bandaríkjunum, þar sem töluvert er af fyrirtækjum á slíkum sviðum, að 80--90% af áhættufjármagni í slíkum nýjum rekstri tapist. Vitanlega er það stundum þungbært. En ég er sannfærður um hitt og veit að það sem eftir er hefur gefið miklu meira í aðra hönd þegar fram er litið. Þetta land hefur óhemjumikla möguleika á mörgum sviðum og það má alls ekki skapa hér slíka svartsýni eins og nú hefur verið gert og draga úr mönnum framkvæmdavilja. Ég tel að það sé það sem alvarlegast er í raun í því sem nú er verið að gera.
    Ríkisstjórnin hefur í sparnaðarhugmyndum sínum komið víða við og sums staðar að mínu mati svo hættulega að varðar jafnvel framtíðarheill þjóðarinnar. Ég tek menntamálin. Ég efa ekki að hæstv. ráðherrar þekkja hvernig þróun hefur verið víðast í þeim löndum sem skarað hafa fram úr upp á síðkastið. Þau skara öll fram úr á grundvelli menntamála. Það er t.d. fróðlegt að lesa um gífurlega mikinn árangur sem náðst hefur í efnhagsþróun í fjarlægustu löndum Asíu, á Kyrrahafsbrúninni eins og stundum er kallað. Allt byggist það sem þar hefur verið gert á menntun, á því að styrkja og treysta menntunina. Fróðlegt er að lesa t.d. mjög ítarlegar athuganir sem hafa verið gerðar á versnandi stöðu hins vestræna heims, t.d. Bandaríkjanna. Það hnígur í sömu átt. Rökin eru þau að þar hafi menntunin verið vanrækt. Líklega hefur þetta hvergi komið alvarlegar fram en í Bretlandi þar sem Margrét Thatcher gerði það að einu sína fyrsta verki að skera stórkostlega niður fjármagn til menntunar. Þar tala menn afar opinskátt um það að með þessu hafi verið hafin þróun í Bretlandi sem Bretar sjái ekki fram úr.
    Ég var að hlusta á það í gær að nú ætla menn að fella niður leikfimistíma. Það telja menn kannski að sé ekki mjög slæmt. Ég var í Bretalndi um daginn og hitti þar unga stúlku sem var í einum slíkum skóla þar sem hafði verið niðurskurður og þar var skorið niður þannig að böðunum var lokað og krakkarnir fóru í leikfimi og síðan sveitt í tíma. Þetta er svona bara ábending. Þetta er kannski leiðin sem á að fara.
    Ég held að við Íslendingar eigum að passa okkur á öllu svona. Vera ekki að fara í þetta íhaldshjólfar sem hefur hvergi nokkurs staðar leitt til annars en hörmunga og erfiðleika í efnahagslífinu. Við eigum að leggja mikla áherslu á góða menntun. Ég er t.d. alveg viss um að t.d. hæstv. fjmrh. fer í bað eftir fótboltann sinn. Ég hugsa að hann gæti ekki hugsað sér að koma hérna niður í þing og ég vona að hann geri það aldrei því að ég veit að hann hlýtur að vera kófsveittur á eftir. En þetta verða aumingja kennararnir úti í Bretlandi að þola að nemendurnir komi kófsveittir í tíma eftir leikfimina. ( Gripið fram í: Friðrik er ekki . . .  ) En Friðrik kemur stundum hingað eftir fótboltann og við viljum ekki þurfa að flýja salinn.
    En ég segi þetta í hinni mestu alvöru. Og t.d. hugmyndir um lánasjóðinn, sem verða náttúrlega ræddar hér ítarlegar eru að mínu mati afar hættulegar. Vel getur verið að ýmsir hafi fengið lán sem ekki nái að endurgreiða þau og ýmsir fengið lán sem eru í einhvern óþarfa og ekki nýtist þessu þjóðfélagi. Ég get tekið undir það að við þurfum að skoða vandlega hvernig má nýta þetta fé sem allra best, en alls ekki á þann máta sem nú er verið að gera. Ég tel að við eigum að vera stolt af því að geta stutt sem flest ungmenni til náms. Ég er hins vegar sammála því að gera kröfur. Gera kröfur um námsárangur o.s.frv., það er alveg sjálfsagt. Vel getur komið til greina að veita ekki nema svo og svo mörg lán til ákveðinna greina þar sem kannski er orðið mikið umframframboð og setja þar upp ráðgjöf fyrir nemendur til að leita á önnur svið. Ég held að hægt sé að bæta þannig framkvæmd námslánakerfisins á ýmsa vegu.
    Ég trúi ekki því sem var í fréttum í gær að það kæmi jafnvel til greina að meina nemendum aðgang að framhaldsskólum. Að vísu er alltaf sagt að fjárlög ráði og víki önnur lög fyrir. En það væri náttúrlega slík skömm og hörmung fyrir þessa þjóð sem hefur stært sig af því að vera mennta- og menningarþjóð að ég trúi jafnvel ekki núv. ríkisstjórn til að fara út í slíkt. Þetta tel í raun það alvarlegasta í efnahagsaðgerðum núv. ríkisstjórnar því að þetta er náttúrlega ein af hennar meginefnahagsaðgerðum.
    Ríkisstjórnin ætlar víða annars staðar að skera niður, t.d. í heilbrigðiskerfinu og hefur verið komið ítarlega inn á það. Það er líka alvarlegt, ég tel þó menntakerfið jafnvel enn þá alvarlegra. Ég hef ekki nokkra trú á því að hæstv. ríkisstjórn komist í raun upp með það að stórlengja biðlista eftir aðgerðum á sjúkrahúsum o.s.frv., eins og hér hefur verið mjög vandlega rakið. Þar hefur því miður allt verið gert í flaustri að því er virðist og að óyfirveguðu máli. Sparnaður sem á að nást í sameiningu sjúkrahúsa er bara á blaði, hann er hvergi á borði. Margupplýst er það að kostar miklu meira að byggja þá upp hin færri sjúkrahús svo vel megi fara og þannig mætti lengi ræða. Það er náttúrlega alveg ótrúlegt að út í slíkt skuli vera ráðist, grundvallaratriði velferðarkerfisins, án þess að hugsa vel um það sem þar er verið að gera.
    Mér þykir það athyglisvert þegar ég hef farið yfir bæði fjárlagafrv. og svo þessi frv. sem nú liggja fyrir, að maður sér aldrei --- ég veit ekki hvort það hefur farið fram hjá mér --- en ég fann hvergi nokkurs staðar eina einustu tilraun til að bæta þjónustuna, bæta velferðarkerfið, aðstoða þá sem eiga við erfiðleika að stríða. Það hefur þá verið með smáu letri en ég fann það hvergi. Það er alls staðar skorið niður, hjá öldruðum, sjúklingum, öryrkjum, hvar sem er. Þeir einu sem sleppa virðast vera fjármagnseigendur. Það má segja að það hefur verið bætt hjá þeim því að þeir hafa sínar tekjur og missa ekki lífeyrinn. Ég verð að viðurkenna að þar virðist hæstv. ríkisstjórn hafa hugann.
    Ég tel ekki að efnahagsaðgerðir, í því ástandi sem nú er, geti eða eigi nokkurn tíma að felast í því að skera niður menntakerfið og leggja álögur á þá sem síst mega sín. Það er hægt að spara á marga aðra vegu. Það er hægt að auka tekjurnar. Vitanlega á að leggja á fjármagnsskatt. Ég harma það að okkur auðnaðist ekki í fyrri ríkisstjórn að koma því fram. Það er miklu auðveldara nú því að verðbólgan er minni. Meginástæðan fyrir okkar erfiðleikum var að verðbólgan var þá enn ekki, ekki fyrr en í lok tímabilsins, komin niður í þær tölur sem unnt er að byggja á, sérstaklega ef byggt er á nafnvöxtum en ekki raunvöxtum, en verðtryggð lán hljóta náttúrlega að hverfa smám saman.
    Í raun og veru er þó aðalatriðið í efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar ótalið. Þó að hún leggi alltaf áherslu á að þessi sparnaður í fjárlögum, niðurskurður í menntakerfi, niðurskurður í heilbrigðiskerfinu, álögur á sjúklinga, álögur á gamalmenni, álögur á aldraða, frí fyrir fjármagnseigendur, sé það sem hún telur sínar miklu efnahagsaðgerðir þá eru það náttúrlega vextirnir. Ég hef áður flutt nokkuð ítarlega ræðu um vextina og skal ekki lengja það mikið. Ég hef vakið athygli hæstv. forsrh. á því að leita til vinar síns, Bush, og sjá hvernig hann gerir þessa hluti. ( Gripið fram í: Gleymdu ekki Cobb.) Ja, Cobb. Ég veit ekki hvort þeir eru vinir. Kannski eru þeir það, það getur vel verið, en ég treysti nú Bush betur til að kenna í þeim efnum. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það en aðeins vekja athygli á nokkrum meginatriðum. Það er ekki nokkur vafi á því að efnahagsaðgerðir fyrri ríkisstjórnar, árið 1989 alveg sérstaklega, og 1990, stóðu eða féllu með því að lækka vextina og þær stóðu af því að vextirnir voru lækkaðir. Menn eru að segja það núna, það sagði einhver: Nú er afkoma bankanna betri. Afkoma bankanna var ekki slæm

þá. Það var alveg sæmilegt jafnvægi á innlánum og útlánum. Það fór meira að segja batnandi.
    Eitt var það þó sem var allt annað þá en nú, og það er slæmt að hafa ekki hæstv. bankamála- og vaxtamálaráðherra hér. Nú er vaxtamunur miklu meiri en hann hefur verið áður, a.m.k. í langan tíma. Og ég hefði gjarnan viljað fá að vita hvort hæstv. ríkisstjórn hefur innt Seðlabankann eftir því ákvæði í seðlabankalögunum sem segir að Seðlabankinn skuli gæta þess að vaxtamunur sé í hófi. Ég hef ekki orðið var við það en það kann að vera að það hafi farið fram hjá mér. Þetta er náttúrlega eitt stærsta atriðið. Ég hef óskað eftir slíkum upplýsingum og ekki fengið enn, en ég hef grun um að vaxtamunurinn sé alveg gífurlega mikill nú, enda hlýtur hann að vera það því að nafnvextir eru um 17%. ( FrS: Hvað segir bankastjóri Landsbankans um þetta?) Ja, ég hef óskað eftir þessum upplýsingum þar en hæstv. ráðherra, sem hefur verið þar, veit að það tekur stundum tíma að fá þar upplýsingar. Nú veit ég að hæstv. ráðherra hefur miklu betri aðgang, bæði að bankastofnunum, Seðlabanka o.fl., og ég vona að hann geti fengið þessar upplýsingar í hvelli. Vitanlega hlýtur Seðlabankinn, sem er falið þetta með lögum, ábyrg stofnun sem gætir sín í hverju skrefi og vandar allt sem hún gerir, fyrir löngu að vera búinn að biðja um þetta. Ég væri ekkert hissa þótt það lægi á borðinu hjá Jóhannesi, bara ein hringing og þá getur hæstv. ráðherra fengið þetta. (Gripið fram í.) Mér hefur ekki tekist það. Ég get fullvissað hæstv. ráðherra um að ef ég væri ráðherra mundi ég hafa þetta á borðinu hjá mér því þetta er einn stærsti kvarðinn í vaxtapólitíkinni.
    Ég var að segja að það er náttúrlega ekki að undra þótt afkoma bankanna kunni að líta betur út á blaðinu því að verðtryggð lán eru enn þá 10% og af óverðtryggðum eru meðalvextir 17% þegar verðbólga er komin niður í 3%. Ég skora á hæstv. ráðherra að benda á eitthvert land þar sem raunvextir eru yfir 14%. Menn eru að tala um hækkun sem varð hjá seðlabankanum í Þýskalandi, skammtímahækkun. Þar er þó verðbólgan um 5% þannig að raunvextir þar munu vera einhvers staðar í kringum 10% sem er vitanlega gífurlega hátt og er mjög deilt á það af öðrum löndum Evrópubandalagsins. Kannski er varla hægt að tala þar um önnur lönd, það er Þýskaland og svo hin löndin. Þar ráða Þjóðverjar því stefnunni eins og þeir hafa lengi gert, en það er annað mál.
    Menn fögnuðu hér mjög í gær, og ég óskaði hæstv. fjmrh. til hamingju með þessi 0,2% sem hann ætlar að lækka vextina um --- eða er kannski búinn að því, ég hef ekki fylgst alveg með því. Ég hef ekki heyrt mikið talað um það úti á götum. Ég segi ykkur bara eins og er að þetta er náttúrlega hlægilegt, þetta er svo hlægilegt að það tekur varla tali að ræða um það. Ég endurtek það, til að þurfa ekki að vera að endurtaka það sem ég sagði hér um daginn um vextina, að ef hæstv. ríkisstjórn tekur sig ekki á í þessum málum er hér voði fyrir dyrum, ekki bara voði hjá atvinnulífinu sem þarf að borga þessa vexti, skuldsettu íslensku atvinnulífi, heldur voði hjá fjármálastofnununum. Og ég hef vakið athygli á því sem það ágæta tímarit Financial Times sagði, að norsku bankarnir grófu sér gröf með háum vöxtum því að fyrirtækin geta ekki greitt háu vextina, þetta safnast saman á reikningum þeirra, sýnir á pappírnum betri afkomu bankanna, síðan rúlla fyrirtækin og þá er þessi fína afkoma fokin. Ég vil því eindregið leggja til við hæstv. ríkisstjórn að hún beiti nú einu sinni handafli eða hvað hún vill kalla það, handleiðslu kallaði hæstv. sjútvrh. það. Mér er sama hvað það heitir. Þetta er grundvallaratriði ef hér á að koma lagi á efnahagsmálin og jafnframt örva nýsköpun í íslensku atvinnulífi.
    Ég ætla ekki að ræða um ýmis smærri atriði sem hafa komið fram og við höfum rætt áður eins og fortíðarvandann og fleira þess háttar. Ég vil þó nefna eitt stórt atriði, þó að það sé kannski ekki beinlínis hér á dagskrá, en það eru samningarnir um Evrópska efnahagssvæðið. Mér hefur satt að segja sýnst, þegar ég hef reynt eftir megni að gera mér grein fyrir einhverri stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, að hún væri --- auk þess sem ég hef nú rakið, sem sagt samdráttur, samdráttur, samdráttur, svartsýni, svartsýni --- að treysta á Evrópskt efnahagssvæði sér til bjargar, forsjá Evrópu sér til bjargar. Ég hef stutt það að leita samstarfs við Evrópu af því að við eigum þangað svo mikið að sækja og mikið að senda af okkar vörum o.s.frv. Hins vegar er það náttúrlega hrein endaleysa að þar sé

hægt að finna nokkra forsjá. Jafnvel það er nú búið að því er virðist. Mér heyrist, sem öllum átti vitanlega að vera ljóst, að utanrrh. hafi sagt í fréttum að Evrópubandalagið hefði ekkert fram að færa. Það virtist vilja það að dómstóllinn þeirra úrskurðaði, yrði æðsti aðili, þeirra eigin dómstóll yrði æðsti aðili í öllum málum. Ég trúi því ekki að hæstv. ríkisstjórn leggi sig svo lágt að leggjast undir Evrópudómstólinn. Ég vil bara mæla þau varnaðarorð hér án þess að það mál sé beinlínis til umræðu, en þetta er kannski hornsteinninn í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, hann er búinn, hann er hruninn. Vitanlega verður að skoða það í náinni framtíð hvernig á að halda á þessum samskiptamálum. Ég hef þegar lýst þeirri skoðun minni fyrir nokkru að nú er verið að fara, við getum sagt að tillögu hv. sjálfstæðismanna hér forðum og leita sérsamninga um okkar málefni við Evrópubandalagið.
    Hvað er þá fram undan í þessari helstefnu sem hér hefur verið lauslega lýst? Ég kalla það helstefnu, háa vexti, samdrátt, árásir á sjúklinga og öryrkja og námsmenn o.s.frv., o.s.frv. Hvað er þá fram undan? Fram undan eru kjarasamningar. Kjarasamningar eru enn ein meginstoðin í efnahagsmálum. Hæstv. forsrh. segir: Þetta eru sérkjarasamningar og koma mér ekkert við, þ.e. ,,kemur-mér-ekkert-við``-stefnan. Það er mínu mati afar varhugaverð stefna. Ég er alveg sammála hæstv. forsrh. í því að hann á ekki að sitja með nefið í þessum samningum í smáatriðum. Ég legg hins vegar í fullri einlægni áherslu á það og ráðlegg honum að fylgjast vel með því sem þar er að gerast og hafa þar sem nánast samband og búa ríkisstjórnina undir það að taka á þeim málum sem út af standa því að þau munu standa út af.
    Vitanlega er það ótrúlegt sem menn hafa séð í fréttum, að ekki hefur verið rætt við t.d. starfsmenn Stjórnarráðsins. Er ekki mánuður síðan? Var það ekki töluvert fyrir jól sem var rætt við starfsmenn Stjórnarráðsins? Það eru þó starfsmenn hæstv. forsrh. og ríkisstjórnar, ekki rætt við þá. Hver er ætlun hæstv. ríkisstjórnar? Er það ætlunin, eins og þeir segja sjálfir, starfsmennirnir, að þreyta starfsliðið, brjóta það niður með svartsýni og bölsýni svo að enginn þori að hreyfa sig? Er það ætlunin? Ég vona að það takist ekki. Ég er ekki að vonast eftir verkföllum. Það geri ég ekki, ég tel að það væri mikil meinsemd ef þau hæfust hér á ný. Hins vegar er ég sannfærður um það að ef þetta er gert og brotinn niður kjarkur þessa fólks til að berjast fyrir sínu eru erfiðir tímar fram undan, mjög erfiðir. Það mun mjög margt fylgja á eftir sem ekki er tekið inn í þá formúlu efnahagsmála. Vonandi geta aðilar vinnumarkaðarins komið þessum málum eitthvað áleiðis en það mun þurfa tilsjón --- heitir það ekki tilsjónarmenn eða eitthvað svoleiðis í frv.? Það mun þurfa tilsjón, já, tilsjón ráðherranna til að það megi takast vel.
    Eitt vekur athygli þegar menn skoða þróun efnahagsmála. Fullyrt er að raungengið sé orðið 9% of hátt. Og ríkisstjórnin boðar fastgengisstefnu. Það er nú svo með þetta blessað gengi að það fer eftir því hvernig tískan er hverju sinni. Ég er nokkuð sjóaður í þessum málum og hef hlustað á tískuyfirlýsingar seðlabankastjóra og viðskiptaráðherra og margra fleiri. Ég man eftir því fyrir nokkrum að þá komu þessir spekingar til baka og fluttu hér erindi og sögðu: Ja, nú á gengið að fljóta. Nú á það að fljóta. Þá var það tískan. Þá voru þeir að koma frá Alþjóðgjaldeyrisbankanaum eða einhverri fínni stofnun og þá var tískan að láta gengið fljóta. Það var látið fljóta og allt fór í vitleysu.
    Síðan var tískan að breyta þessari myntkörfu fram og aftur og fela þannig einhvers konar gengisfellingar. Þá var það tískan og átti að heita fast gengi en því var alltaf breytt á bak við tjöldin, eins og nákvæmlega hefur verið gert núna. Þeir voru að breyta körfunni til að fá einhverjar aðrar áherslur á gengið.
    Síðan hefur stundum verið tíska að fella bara gengið í einu átaki. ( Gripið fram í: Gengissig í einu stökki.) Já, gengissig í einu stökki eins og 1983, hv. þm., þá var það tískan, og þá sagði Seðlabankinn við okkur: Það er ekkert í þessu nema breyta genginu í einu stökki. Og það var gert. Ég held að það sé engin patentlausn á þessu með gengið. Ég dundaði mikið við það, kannski af því að ég er verkfræðingur, að skoða ýmsar kúrfur og statistik í þessum málum. Staðreyndin er afar einfaldlega sú að okkur Íslendingum hefur tekist að skapa hér einhver bestu lífskjör sem eru til, eins og hæstv. forsrh. sagði svo skynsamlega í upphafi stefnuræðu sinnar. Okkur hefur tekist það með því að laga m.a. gengið að því sem íslenskir atvinnuvegir kröfðust hverju sinni.
    Ég er ekki að boða það að gengið eigi að fella, alls ekki, en ég held að 9% raunhækkun gengis sé viðvörun, viðvörun sem menn þurfi að skoða mjög vandlega. Og hvort menn geta mætt því með því að draga úr álögum á atvinnuvegina, lækka t.d. aðstöðugjaldið, sem vitanlega ætti að gera, alveg sjálfsagt, og ýmislegt fleira. Að vísu hefur hæstv. ríkisstjórn tekið, eins og í öllum málum, hinn kúrsinn. Ég get ekki kallað það ,,hina leiðina`` af því að hún var svo góð, en hún hefur tekið alveg þveröfuga stefnu og eykur álögur á atvinnulífið.
    Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherra fáist til að segja neitt um hvað þeir hugsa í gengismálum, það er ekki siður, en tískan núna er víst fast gengi. Nú segir Seðlabankinn fast gengi. Nú á helst að tengja þetta ECU sem ég vara við og reyndar miklu fróðari menn en ég hafa varað við, eins og þessi ameríski prófessor frá MIT sem gerir það með miklum ágætum, og einhvern veginn er reynt að fela skýrslu hans þó að tækist að ná henni fram. Ég verð að viðurkenna að það er ofætlan að ætla sér að ræða hér um efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar og þó maður leiti eins og að nál í heystakk finnst hún ekki. Ég hef reynt að draga hana einhvern veginn saman og hvar sem ég ber niður þá er þetta stefna algjörs afturhalds, samdráttar, vonleysis, svartsýnis og með auknar álögur ekki síst á þá sem vanmáttugir eru, því miður.
    Nú hlýtur hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar að hafa einhverja tilætlan með þessu, einhverja stefnu. Ég held að menn velti þessu fyrir sér: Er stefnan sú að nota --- við skulum segja upphaf kjörtímabilsins til að brjóta niður ýmsa hluti sem hér hafa verið byggðir upp á undanförnum áratugum, eins og velferðarkerfið og menntakerfið, og koma hér á Thatcher-þjóðfélagi? Er það meiningin? Og gera sér svo vonir um að á síðari hluta kjörtímabilsins aukist þorskafli og menn gleymi þessu? Ég vona að það sé ekki og ég vona að þetta sé bara misskilið hjá ríkisstjórninni og hún sjái fljótlega, og einhverjir hjálpa henni kannski til þess, að svona thatcherismi hentar alls ekki litlu íslensku velferðarþjóðfélagi sem er um svo ótal margt til fyrirmyndar og hefur miklu meiri möguleika en þjóðirnar í kringum okkur, hefur líklega meiri vaxtarbrodd, meiri vaxtarkosti, en nokkur þjóð t.d. sem er nú að semja um Evrópskt efnahagssvæði og þótt langtum, langtum lengra væri leitað. Að mínu mati þá er grundvöllurinn til þess að það megi nýtast breið samstaða þjóðarinnar, launþega, vinnuveitenda og ríkisvalds.