Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 16:37:00 (2842)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg sammála því sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Austurl. um að það hafi verið mest reynsla af tilsjónarmönnum í hinum sósíalísku ríkjum. Ég held að það hafi verið enn meiri reynsla af þeim í rússneska keisaradæminu og ég vil benda hæstv. fjmrh. á mjög þekkta og góða skáldsögu sem fjallar um slíka tilsjónarmenn eða eftirlitsmenn eins og þeir hétu þar og er eftir Gogol. Ég vil benda hæstv. fjmrh. á að kynna sér þá reynslu.
    En það er svo að það gengur illa að fá --- (Gripið fram í.) Það er eftir sama höfund. --- Það gengur illa að fá svör við ýmsum spurningum varðandi þessa tilsjónarmenn og ég spurði hæstv. fjmrh. í gær um það hvort til stæði að auglýsa stöður tilsjónarmanna og í hvaða launaflokki þeir yrðu. Hv. 1. þm. Austurl. kom ekki inn á þessi mál en ég var hér, hæstv. forseti, að gera athugasemd við hans mál sem varðar reynslu af slíkum tilsjónarmönnum og rifjaði það upp í því sambandi að spurningum hefur ekki verið svarað varðandi tilsjónarmenn.